28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í D-deild Alþingistíðinda. (3182)

199. mál, Alþingishús

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þó að fsp. þessari sé formlega á réttan hátt beint til mín, er hún, eins og fram kom í ræðu hv. fyrirspyrjanda, að efni til þess eðlis, að það eru í raun og veru forsetar Alþingis, sem henni eiga að svara. Ég skrifaði því hæstv. forsetum og óskaði umsagnar þeirra um málið og leyfi mér að lesa upp bréf þeirra, dags. 5. febr. 1968, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Oss hefur borizt bréf yðar, herra forsrh., þar sem óskað er upplýsinga um, hvernig svara skuli framkominni fsp. Þórarins Þórarinssonar, 4. þm. Reykv., um alþingishús. Leyfum vér oss að svara þannig:

Að svo komnu er ekki unnt að gefa ákveðið svar við fsp. Fundur hefur ekki verið haldinn í n. eftir að nýkjörið þing kom saman, og teljum við undirritaðir eðlilegast, að þingflokkarnir tilnefni á ný frá sinni hálfu þá fulltrúa til samvinnu við þingforsetana, sem þáltill. frá 28. marz 1961 gerði ráð fyrir, til þess að n. gæti talizt fullskipuð. Að því loknu er ekkert því til fyrirstöðu að kveðja n. til fundar og kanna þá m.a., hvort hún treystir sér til að setja sér þau tímamörk, sem spurt er um.

Hér með fylgir grg. skipulagsstjórnar ríkisins um staðarval alþingishúss.

Birgir Finnsson.

Sigurður Bjarnason. Jónas G. Rafnar.“

Ég vil einungis bæta því við, að auðvitað er mönnum heimilt að skoða þessa grg. skipulagsstjórnar, ef þeir óska. Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa hana hér upp. Það eru bollaleggingar, sem mönnum er meira og minna kunnugt um. En það er rétt, að það komi fram, að á þessu síðasta tímabili hefur að nokkru leyti verið bætt úr allra brýnustu þörf þingsins fyrir aukið húsrými með leigu á húsinu Þórshamri hér í næsta nágrenni, og veit ég, að það hefur létt töluvert á notkun þessa húss, Því fer fjarri, að ég telji það fullnægjandi lausn, en til bráðabirgða er það nokkur bót.

Þá er einnig rétt, að á það sé drepið, að með samþykki allra þingflokka hefur ríkisstj. fest kaup á meginhluta byggingarreitsins hér næst fyrir vestan, þ.e.a.s. milli Kirkjustrætis, Tjarnargötu og Vonarstrætis. Það er kannske of mikið að segja meginhluta reitsins, en á svo verulegum hluta reitsins, að það er ljóst, að ríkisvaldið hefur nú í hendi sér ráðstöfun á þessum lóðum að langsamlega mestu leyti. Með þessu er ekki verið að kveða á um, hvar Alþ. skuli eiga setu, en greiða fyrir því, að tiltekin lausn verði framkvæmanleg, ef það verður ákveðið, þegar þar að kemur, og ég tel það út af fyrir sig spor í rétta átt.

Ég tel eðlilegast, eins og kemur fram í bréfi hæstv. forseta, að nú tilnefndu þingflokkarnir á ný menn til samstarfs við þingforseta og síðan yrði undinn að því bráður bugur, fyrst að ákveða nýju þinghúsi stað og síðan að gera ráðstafanir til þess, að það verði teiknað og undirbúið. Allt tekur þetta töluverðan tíma. Það má að vísu segja að vissar grundvallarbreytingar, sem nú eru uppi hugmyndir um, á stjórnskipuninni hljóti mjög að hafa áhrif á nýtt þinghús, eins og það, hvort þingið eigi í framtíðinni að vera í einni deild eða tveimur. En hvað sem því líður, er það fyrir löngu orðið tímabært fyrst og fremst að ákveða nýju þinghúsi stað og enn fremur að hefja undirbúning að gerð þess. Slíkt hlýtur óhjákvæmilega að taka töluvert langan tíma. Ég tel eðlilegt, að þessi fsp. hafi fram komið, og hygg, að ég geti ekki svarað henni betur á þessu stigi.