28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í D-deild Alþingistíðinda. (3190)

201. mál, Stjórnarráðshús

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Mér virðast þau bera merki um, að hann hafi fullan áhuga á að hraða þessu verki og að ýmsu leyti fært skiljanlegar ástæður fyrir þeim drætti, sem á málinu hefur orðið. En mér sýnist, að það sé nú komið á þann rekspöl, að þessi dráttur þurfi ekki að vera langur hér efstir, bæði þar sem teikningarnar eru tilbúnar að mati ráðh., og svo hitt, að nú virðist að ýmsu leyti betra lag til að koma slíkri byggingu í framkvæmd heldur en áður var eða hefur verið kannske allra síðustu árin, því að eins og ráðh. benti á hefur verið talsvert mikil þensla á undanförnum árum og ýmsir einstaklingar og fyrirtæki haldið uppi stórbyggingum. Nú virðist þessu tímabili vera að miklu lokið í bráðina, og þá væri það alveg rétt skv. öllum efnahagslegum lögmálum, eins og ráðh. benti líka á að ríkið notaði tækifærið til að reisa þær stórbyggingar, sem það hefur þörf fyrir. En ég tel, að af tveimur ástæðum hafi ríkið þörf fyrir slíka byggingu eins og þessa. Í fyrsta lagi vegna þess, að slík bygging mundi hjálpa til að setja vissan menningarsvip á bæinn, eins og kom fram í þeim ummælum Ólafs Thors, sem ég las hér upp áðan, — og það tel ég engan veginn þýðingarlítið, heldur mikilsvert, — og svo í öðru lagi vegna þess, að að þessu mundi verða augljós sparnaður í framtíðinni. Ég hygg, að þeir fjármunir séu ómældir, sem ríkið er búið að græða á því, að ráðizt var í byggingu Arnarhvols á sínum tíma, og reynslan mundi vafalaust verða hin sama af þessari byggingu, þegar tímar liðu fram.

Ég vil svo að lokum segja það aftur, að ég þakka ráðh. fyrir svör hans og vænti þess, að aukinn skriður komist nú á þetta mál.