06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

144. mál, vegabætur og rannsókn á brúarstæði

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka fyrirspyrjanda fyrir að leggja þessu máli lið hér á hv. Alþ. og taka undir það, sem ekki er vanþörf á að héraðsstjórnir ýti á eftir Vegagerð ríkisins og hæstv. samgmrh. að láta fram fara rannsóknir, sem Alþ. hefur fyrir langalöngu samþ., að fram skuli fara.

Þann 26. febr. 1958 mælti ég hér á hv. Alþ. fyrir till. til þál. um rannsókn á brúargerð yfir Borgarfjörð. Þann 30. maí það sama ár var afgreidd frá hv. Alþ. svo hljóðandi till., sem öll fjvn. Alþ. stóð að, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að Vegagerð ríkisins láti fram fara rannsókn á því, á hvern hátt sé unnt að stytta landleiðina frá Reykjavík til Borgarfjarðarhéraðs, Vestur- og Norðurlands. Skal í því sambandi m.a. athuga möguleika á framkvæmd og kostnaði við endurbyggingu á veginum um framanverðan Svínadal og Geldingadraga, brúargerð á Borgarfjörð milli Seleyrar og Borgarness og komið yrði á ferju yfir Hvalfjörð milli Hvaleyrar og Kataness.“

Hér er allt vegamálið til Vesturlands og það eru 10 ár, sem Vegagerð ríkisins hefur haft samþykkt Alþ. fyrir framkvæmdinni.

Í des. 1964 gerði ég fsp. til hæstv. samgmrh., hvað liði þessari framkvæmd, og kom þá í ljós, að hún var skammt á veg komin, eins og síðar hefur komið fram eða vitað er og kom fram í ræðu hæstv. samgmrh. hér áðan. Á Alþ. í fyrra fluttum við þm. Vesturl. till. til þál. enn á ný um fullkomna rannsókn á samgöngumöguleikum yfir Hvalfjörð og Vesturlandsveginn. Það hefur því ekki skort á að Alþ. hafi leitað eftir því við Vegagerð ríkisins, að hún rannsakaði þessa leið. Það, sem hefur skort á, er það, að Vegagerð ríkisins undir forustu hæstv. samgmrh. hefur gleymt að framkvæma þá áskorun, sem Alþ. hefur lagt fyrir hana. Það gleður mig því stórum, að almennur skilningur skuli vera á þessu máli, og ég treysti því, að með því að ýta á þetta mál enn á ný, átti Vegagerð ríkisins undir forustu hæstv. samgmrh. sig á því, að það á að rannsaka mál, sem hv. Alþ. afgreiðir til ríkisstj.