06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í D-deild Alþingistíðinda. (3199)

144. mál, vegabætur og rannsókn á brúarstæði

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu sammála því, sem hér hefur komið fram um nauðsyn samgöngubóta í Hvalfirði og í Borgarfirði. Brú á Borgarfjörð, yfir Hvítá frá Seleyri, mundi að sjálfsögðu verða til mikilla bóta. Og hér er ekki aðeins um það að ræða að stytta mönnum leið úr einum stað í annan, eins og hv. 4. þm. Vesturl. benti á hér áðan, heldur er hér um að ræða mikið og aðkallandi öryggismál. Hin gamla og mjóa brú á Hvítá hjá Ferjukoti, það verður að teljast hæpið, að hún dugi lengur fyrir alla þá umferð, sem á henni mæðir, og má segja, að ástand hennar sé þannig, að af hanni stafi töluverð hætta. Og beggja vegna við brúna eru svo þeir vegarkaflarnir í Borgarfirði, sem einna fyrst teppast af völdum vatnavaxta, eins og hv. 4. þm. Vesturl. benti einnig á. Að sunnanverðu er það svo kallað Norðurkotseiði, að norðanverðu vegurinn yfir Ferjukotssíki, sem fróðir menn segja, að sé orðinn dýrasti vegarkafli á landinu. Hann hefur verið að sökkva síðan hann var í öndverðu lagður, þessi vegur, og hefur orðið að gera á honum miklar og dýrar endurbætur tvisvar og þrisvar sinnum á hverjum áratug. Það er þar af leiðandi ekki nein vanþörf á að beina umferðinni frá þessum vegarköflum þarna og þessari gömlu brú yfir Hvítá.

En slysahættan vildi ég segja, að væri jafnvel enn meiri á öðrum stað, sem einnig hefur verið hér til umr., þ.e.a.s. við Skeiðhól í Hvalfirði. Þarna í þessum brekkum háttar þannig til, að jafnvel þó að vegurinn allur um Hvalfjörð sé auður og mjög greiðfær eða tiltölulega greiðfær, — mjög greiðfær er hann nú reyndar aldrei, — þá getur verið glerhált í þessum brekkum. og stafar af þessu að sjálfsögðu mikil töf oft og tíðum. Mér er persónulega vel kunnugt um þetta, eins og reyndar okkur fleiri Vestlendingum, sem staddir eru hér í salnum og höfum átt þarna leið um næstum vikulega í vetur. Og ég get nefnt sem dæmi, að núna ekki alls fyrir löngu, þegar ég kom þarna héðan að sunnan í bíl með kunningja mínum, hafði mjólkurbíll á leið vestur runnið svo til í brekkunni, að annað af tveimur afturhjólunum vinstra megin var komið út af vegarbrúninni, þar sem bíllinn hafði loksins stöðvazt. En af vegarbrúninni er flugbratt niður í sjó og fallið líklega 40-50 m. Bílstjórinn, þaulkunnugur og þaulreyndur mjólkurbílstjóri frá Borgarnesi og þekktur að varkárni við akstur, hafði með tilliti til þess ástands, sem var á veginum að öðru leyti, treyst því, að hann kæmist þessa brekku keðjulaus, eins og hann hafði farið úr Reykjavík. En honum skjátlaðist sem sagt í þetta sinn, og nú var hann við hinar erfiðustu aðstæður, — það var rok og rigning, — að koma keðjunum á bílinn. En ofan við brekkuna stóðu þrír eða fjórir sementsbílar af Akranesi og bílstjórarnir voru að setja keðjur á þá. Það eru mörg hjólin á þessum gríðarstóru bílum, og mér skilst, að það taki upp undir klukkutíma að setja keðjur á öll þau hjól og taka þær af aftur. En það var engin þörf fyrir keðjur nema á þessum stutta kafla. Og þegar bílstjórarnir voru komnir yfir þessar brekkur, tóku þeir keðjurnar af aftur. Þessum óþægindum verða þeir að sjálfsögðu fyrir oft og tíðum að vetrinum.

Ég tel því, að það væri sannarlega engin vanþörf á að bæta veginn þarna, eins og hv. 4. þm. Vesturl. bendir á. En þar með er ekki sagt, að ekki þurfi víðar að bæta hann í Hvalfirði. Og ég vildi í þessu sambandi láta í ljós þá von mína, að sú n., sem samkv. þál., að mér skilst, var skipuð í fyrra til þess að athuga um samgöngubætur varðandi Hvalfjörð, vinni nú ötullega, þannig að sem fyrst megi vænta árangurs af starfi hennar. Og ég beini þeim tilmælum vinsamlega til hæstv. samgmrh., að hann beiti áhrifum sínum til þess að svo verði, því að sannarlega er hér um að ræða mjög aðkallandi mál.