06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í D-deild Alþingistíðinda. (3206)

150. mál, starfsaðstaða tannlæknadeildar háskólans

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Undanfarin missiri hefur gætt vaxandi óánægju með starfsaðstöðu tannlæknadeildar Háskólans. Þessi deild við læknadeildina var stofnsett á stríðsárunum, þegar allar leiðir lokuðust erlendis til náms í þessum fræðum, og ég hygg, að það hafi verið árið 1941, sem frv. um þetta efni var samþ. hér á hv. Alþ. frá Vilmundi Jónssyni, þáv. landlækni og alþm. Starfsskilyrði deildarinnar hafa jafnan verið óhæg. Fyrstu árin var starfað í háskólabyggingunni, þaðan var útsýnið að vísu fagurt, en aðstaðan mjög slæm. Frá 1949 hefur deildin starfað í kjallara tengiálmu milli nýbyggingar og gamla Landsspítalahússins. Þessu húsnæði fylgdi engin kennslustofa og var því gripið til þess ráðs að innrétta herbergi í gluggalausum og loftræstingarlausum gangi þarna í kjallaranum, um 45 m/2 að stærð. Í viðtali í útvarpinu hinn 11. f.m. lýsti forstöðumaður tannlæknadeildarinnar, prófessor Jón Sigtryggsson, aðbúnaðinum þarna svo, að í stofunni hafi kennari setið ásamt 20 nemendum. Þar var þröngt um súrefni, og varð að opna dyr og út til þess að afstýra heilsutjóni. Það var þó ekki fyrr en borgarlæknirinn í Reykjavík hafði dæmt þessa kompu heilsuspillandi og bannað þar kennslu, að deildin fékk afnot af annarri kennslustofu Landsspítalans.

Þótt húsnæðið sé ekki sem bezt eftir þessa lagfæringu, sem fram fékkst, er hitt þó enn verra, að deildin hefur aðeins loforð fyrir þessum húsakynnum til ársins 1972. Og ekki var, þegar áður greint útvarpsviðtal fór fram, vitað um neitt, sem þá tæki við. Afleiðing þessarar óvissu er sú, að aðsókn að deildinni hefur minnkað stórlega. Tannlæknanám við Háskóla Íslands tekur nú 5—6 ár, og þeir, sem hófu nám t.d. á s.l. hausti, mundu eiga 1—2 ára námi ólokið, þegar deildin yrði húsnæðislaus. Þessa óvissu hafa stúdentar ekki viljað búa við. Fram að þessu hefur aðsókn að tannlæknadeild jafnan verið geysimikil, þannig að yfirleitt hefur aðeins verið hægt að veita einum þriðja til heimingi umsækjenda skólavist. En undanfarin 2—3 ár hefur sigið á ógæfuhliðina. Enginn nýstúdent var skráður hvorki 1965 eða 1966 vegna óvissunnar. Þótt nokkrir sæktu, þótti ekki fært að binda stúdentana við þetta nám vegna þess, hvað það var óvíst um framhaldið. Haustið 1967, segir prófessorinn, að stúdentar hafi hrunið frá hver af öðrum, þegar þeir kynntust aðstæðum deildarinnar, þar til aðeins einn var eftir. Á þessu sést, í hvert óefni er komið með húsnæði og starfsaðstöðu tannlæknadeildarinnar.

Ég geri ráð fyrir, að flestir telji eðlilegt, að Háskóli Íslands útskrifi sem allra flesta og helzt alla þá tannlækna, sem hér er þörf fyrir. Til þess eigum við að hafa öll skilyrði, bæði færa kennara og annað það, sem til þarf og ætti að vera fyrir hendi. Þegar af þessari ástæðu er því einsýnt að efla ber þessa deild, en auk þess kemur það hér til, að hartnær er útilokað að komast að til þessa náms nokkurs staðar erlendis. Um þetta sagði prófessor Jón Sigtryggsson eitthvað á þá leið, að rektor Kaupmannahafnarháskóla hefði fyrir sérstaka vinsemd veitt 5 tannlæknanemum viðtöku héðan til að létta örlítið á vandræðaástandinu hér, en lítil líkindi munu vera á því, að íslenzkir tannlæknastúdentar komist að erlendis, þar sem slíkir skólar eru yfirleitt yfirfullir og alls staðar sækja fleiri um en hægt er að taka við. Engin menningarþjóð telur sig hafa of marga tannlækna. Auk þess er þetta nám afar dýrt. Það kostar danska ríkið t.d. um 2 millj. kr. á hvern tannlækni. Og það er tæpast von til þess, að þjóðir, jafnvel þótt frændþjóðir séu, vilji gefa öðrum þessi tækifæri, þegar þeir telja sig sjálfa búa við skort á þessum embættismönnum. Hér er því mikil nauðsyn að búa betur í haginn fyrir deildina heldur en gert hefur verið til þessa, og fsp., sem hér er til umr., á þskj. 329 lýtur að því að fá upplýsingar hjá hæstv. menntmrh. um fyrirhugaðar framkvæmdir hæstv. ríkisstj. í þessu efni Fsp. er þannig:

„Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar eða eru fyrirhugaðar til þess að bæta starfsaðstöðu tannlæknadeildar háskólans?“