05.04.1968
Sameinað þing: 48. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (3218)

204. mál, bifreiðaeign ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er spurt um, er raunverulega mjög fyrirferðarmikið, og eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, er það alveg rétt, að það hafa ekki legið fyrir heildarupplýsingar um bílamál ríkisins, og gæfi það vissulega tilefni til þess að útbúa ýtarlega grg. um það efni, ýtarlegri og lengri en auðið er að koma við í sambandi við svar við fsp. En ég tel málið þess eðlis, að það sé full ástæða til þess að taka það til íhugunar. Sannleikurinn er sá, að hér er um svo viðamikið mál að ræða, að það hefði raunar verið illgerlegt að svara þessari fsp„ sen hér er flutt, ef það hefði ekki viljað svo til, að síðustu árin hefur verið starfandi á vegum fjmrn. sérstök bíla- og vélanefnd, sem fékk það verkefni að rannsaka allan véla- og bifreiðakost ríkisins og hafa eftirlit með vissum þáttum í bílamálunum, framkvæmd vissra reglna og þ. á m. að meta bifreiðastyrki. Í framhaldi af starfi þessarar n. var hafin sérstök athugun seinni hluta árs 1965 á bílamálunum í heild, og af þessum sökum liggja nú fyrir ýtarlegri upplýsingar um þessi mál en áður hafa verið til, og eins og ég sagði, það hefði raunar varla reynzt gerlegt að ná saman upplýsingum frá öllum ríkisstofnunum um bílamálin nema af því að það vildi þannig til, að meginhluti þessara upplýsinga lá fyrir.

Fsp. sjálfar eru mjög ýtarlegar og raunar ekki gerlegt, eins og ég sagði, nema þá með því að gefa út langa og viðamikla grg. um þessi mál, sem ég tel sjálfsagt að taka til athugunar, að svara þeim út í yztu æsar, en ég vona þó, að ég hafi aðstöðu til þess að gera þá grg. um þetta mál, sem gefi a.m.k. heildarmynd af því, hvaða viðfangsefni hér er um að ræða. Mun ég því svara fsp. hverri fyrir sig og síðan að lokum ræða nokkuð um málið í heild og það vandamál, sem fsp. og svörin við þeim leiða í ljós, að við er að fást í þessum efnum.

Í fyrsta lagi er spurt, hver sé bifreiðaeign ríkissjóðs, sérstofnana ríkisins og fyrirtækja þess, sundurliðuð eftir tegundum og árgerð. Heildartala bifreiða í eignu ríkisins er 534 auk fjögurra bifhjóla, sem eru í eigu lögreglunnar, og þessar bifreiðar skiptast þannig í tegundir í stórum dráttum, að það eru 162 vörubifreiðar, dráttarbifreiðar og kranabifreiðar. Það eru 75 sendiferðabifreiðar, og það eru 108 jeppabifreiðar. Hinar gerðirnar eru ýmsar gerðir fólksbifreiða. Á árgerðir skiptast þessar bifreiðar þannig, að frá 1940 er 1 bifreið, 13 frá 1942, 1 frá 1944, 2 frá 1946, 1 frá 1947, 2 frá 1948, 1 frá 1951, 2 frá 1952, 11 frá 1953, 5 frá 1954, 5 frá 1955, 2 frá 1956, 4 frá 1957, 7 frá 1958, 13 frá 1959, 4 frá 1960, 14 frá 1961, 42 frá 1962, 58 frá 1963, 64 frá 1964, 88 frá 1965, 105 frá 1966, 82 frá 1967 og 6 frá 1968. Svo sem þessar upplýsingar bera með sér, hefur verið lögð áherzla á að endurnýja þessar bifreiðar, þannig að allur þorri þeirra er nú frá síðustu 6—7 árum, og það er í beinu samræmi við þær till. þeirra manna, sem við þessi mál hafa fengizt, að hin brýnasta nauðsyn væri að sjá til þess, að þessar bifreiðar væru ekki mjög gamlar, því að það hefði stórvægileg áhrif á rekstrarkostnað þeirra. Ég skal taka það fram, að í þessari tölu eru ekki bifreiðar, sem eru á vegum sérstakra stofnana, þó að ríkisstofnanir séu, eins og bankanna, sem eru undir sérstakri stjórn. Upplýsingar mínar ná ekki til þeirra bifreiða.

Þá er spurt um, hvert sé heildarverðmæti þessara bifreiða. Því er dálítið erfitt að svara, vegna þess að það er ekki uppfært nákvæmlega í ríkisreikningi, bifreiðar út af fyrir sig, heldur bifreiðar og vélar, og er því erfitt að greina það nákvæmlega. Hins vegar er hægt nokkurn veginn að átta sig á þessu með því að skoða árgerðir bifreiðanna og tegundir þeirra, og er talið, að endursöluverð þessara bifreiða geti verið um 130—150 millj. kr.

Þá er spurt að því í þriðja lagi, hve margir og hverjir embættis- og sýslunarmenn ríkisins, sérstofnana þess og fyrirtækja njóti þeirrar aðstöðu að hafa bifreið til eigin nota, sem til þess er keypt og rekin fyrir opinbert fé. Það er talið nú, að ríkið leggi 79 starfsmönnum til bifreiðar. Þar er fyrst og fremst um að ræða forstöðumenn stofnana og einnig nokkra aðra, sem eru taldir hafa sérstöðu í sambandi við sitt starf, og þeir, sem hafa ríkisbifreiðar til afnota, eru hér taldir embættismenn. Það er forstjóri Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins, það er forstöðumaður Bifreiðaeftirlits ríkisins, biskupinn yfir Íslandi, forstöðumaður Bókaútgáfu Menningarsjóðs, yfirborgardómari, yfirborgarfógeti, búnaðarmálastjóri, forstjóri Efnahagsstofnunar, forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins, fiskimálastjóri, flugmálastjóri, framkvæmdastjóri flugvalla ríkisins, forstöðumaður loftferðaeftirlits, forstöðumaður flugöryggisþjónustu og flugvallarstjóri Keflavíkurflugvallar. Forsetaembættið hefur þrjár bifreiðar og þar að auki forsetaritari, fræðslumálastjóri, húsameistari ríkisins, forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins, forstjóri Landhelgisgæzlunnar, landlæknir, forstjóri Landmælinga Íslands, landnámsstjóri, forstjóri Landssmiðju, lögreglustjórinn í Reykjavík, lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli og fulltrúi hans, forstöðumaður Mjólkureftirlits ríkisins, forstöðumaður Náttúrugripasafns, orkumálastjóri, póst- og símamálastjóri, póstmeistarinn í Reykjavík, 7 ráðherrabifreiðar, tollgæzlustjóri á Keflavíkurflugvelli, ráðuneytisstjóri í utanrrn., deildarstjóri varnarmáladeildar, fríhafnarstjóri á Keflavíkurflugvelli, ráðningarstjóri á Keflavíkurflugvelli, rafmagnsveitustjóri ríkisins, rafmagnseftirlitsstjóri, forstjóri Rannsóknaráðs ríkisins, yfirlæknir Rannsóknastofu Háskólans, forstjóri Rannsóknastofnunar atvinnuveganna, forstjóri ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg, forstjóri skrifstofu ríkisspítalanna, forstöðumaður Ríkisútgáfu námsbóka, yfirsakadómari, saksóknari ríkisins, forstjóri Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, forstöðumaður sauðfjárveikimarna, forstjóri Sementsverksmiðju ríkisins, forstöðumaður síldarútvegsnefndar, tveir forstjórar Síldarverksmiðja ríkisins, skipulagsstjóri, skógræktarstjóri og fulltrúi hans, fulltrúi Sölunefndar varnarliðseigna, forstjóri Teiknistofu landbúnaðarins, forstjóri Tilraunastöðvarinnar á Keldum, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og skrifstofustjóri, veðurstofustjóri, vegamálastjóri, veiðimálastjóri, forstjóri Vélasjóðs ríkisins, vitamálastjóri, yfirverkfræðingur vitamálastjórnar og forstöðumaður áhaldahúss vitamála og þjóðminjavörður.

Í fjórða lagi er spurt, hverjar reglur gildi um not og umráð bifreiða opinberra embætta og stofnana utan venjulegs vinnutíma. Um þetta atriði hafa ekki vorið settar enn þá fastar reglur, en það eru m.a. þær reglur, sem nú er unnið að og ætlunin er, að verði settar alveg á næstunni á grundvelli þeirra athugana, sem ég gat um áðan, en að svo miklu leyti sem um þetta hafa verið reglur, hafa þær verið nokkuð misjafnar frá einni stofnun til annarrar. Sumir forstjórar ríkisstofnana hafa sjálfir sett reglur um það, að bifreiðum sé skilað í geymslu á kvöldin, en ekki hefur þó alls staðar reynzt unnt að framfylgja slíkum reglum til lengdar. Veldur þar sennilega mestu um, að starfsmönnum, sem hafa bifreiðar á vegum stofnana, finnst óréttlátt, að slíkar reglur gildi í einni stofnun en ekki öðrum. Fleira kemur hér til greina, svo sem það, að margar stofnanir hafa engan öruggan geymslustað, og eru þá bifreiðarnar betur komnar í vörzlu starfsmanna en að þær séu skildar eftir á götunni við vinnustað. Störfum margra er svo háttað, að eðlilegt og hagkvæmt má telja, að þeir hafi starfsbifreiðar í sinni vörzlu. Óhætt mun að fullyrða að flestir, sem bifreiðar hafa á vegum starfa sinna, noti þær að einhverju leyti í eigin þágu. Þess skal getið í þessu sambandi, að nýlega hefur póst- og símamálastjórnin gefið út reglugerð um, að bifreiðum stofnunarinnar skuli skilað í geymslu hennar að loknum vinnudegi, og er starfsmönnum óheimilt að nota bifreiðar hennar í eigin þágu.

Þá kem ég að næstu spurningu, sem er um merkingu bifreiða. Það hafa ekki verið sett enn þá ákveðin fyrirmæli um að merkja bifreiðar með sameiginlegu merki, en það er einnig annað atriði, sem kemur til athugunar í sambandi við þær reglur, sem settar verða. Nú mun láta nærri, að um 130 bifreiðar ríkisins séu merktar viðkomandi stofnun. Það er póst- og símamálastjórnin, sem auðkennir allar sínar bifreiðar og bifreiðar radíóþjónustu Landssímans. Umferðarmáladeild Pósts og síma hefur merkt aðra sína bifreið. Pósthúsið í Reykjavík hefur allar bifreiðar merktar nema bifreið póstmeistara. Sementsverksmiðja ríkisins, þar eru þungaflutningabifreiðarnar einkenndar með stöfum stofnunarinnar. Nokkrar af bifreiðum vita- og hafnamálaskrifstofunnar eru einnig auðkenndar með sértöku merki. Landgræðslan hefur merkt bifreið, sem hún hefur til flutninga, með sínu merki. Flestar bifreiðar lögreglunnar í Reykjavík og ríkislögreglunnar eru auðkenndar með merki, og lögreglan á Keflavíkurflugvelli hefur merktar bifreiðar nema bifreið lögreglustjóra og fulltrúa hans, og bifreiðar forseta Íslands eru auðkenndar.

Þá er spurt að því loks, hve margir og hverjir njóti bifreiðahlunninda í öðru formi af hálfu ríkisins, svo sem beinna fjárstyrkja til rekstrar einkabifreiða sinna. Hér er um tvíþætt mál að ræða, annars vegar eru bifreiðastyrkir, sem ákveðnir eru sem fastagjald, og hins vegar eru svokölluð kílómetragjöld, sem greidd eru starfsmönnum í samræmi við fasta greiðslu fyrir hvern ekinn km. Um þetta hafa verið í nokkur ár til fastar reglur, sem framkvæmdar eru, og forstöðumenn ríkisstofnana eiga að staðfesta það hverju sinni með áritun sinni á reikninga, hvort tiltekinn kílómetraakstur sé viðurkenndur hjá starfsmanni sem afnot einkabifmeiðar hans. Hér er fyrst og fremst um að ræða margvíslega eftirlitsmenn, ráðunausta og ótalmarga starfsmenn slíka, sem mikið ferðast, en fá ekki ríkisbifreiðar, en er greitt eftir þessum kílómetrataxta. Þetta hefur ekki verið sundurliðað, enda yrði allt of mikið mál að gera það. Þá hef ég ekki heldur skilið þessa fsp. svo, enda í rauninni óvinnandi vegur, nema þá að gefa út um það heila bók, að fara að tilgreina það, hvað hver einstakur starfsmaður nafngreindur hefur í bifreiðastyrki, heldur hef ég tekið upplýsingarnar upp þannig, að það er miðað við hverja stofnun, fjölda starfsmanna í hverri stofnun, sem hafa þessa styrki, og svo heildarupphæð þeirra styrkja, þ.e.a.s. þessara tveggja tegunda styrkja, bæði kílómetragjaldsgreiðslnanna og hinna föstu bifreiðastyrkja, sem greiddir eru í viðkomandi stofnun.

Samtals hafa 424 starfsmenn bílastyrk, annaðhvort með þeim hætti, að þeir fá greitt kílómetraleigugjald fyrir bifreiðar sínar eða fá fasta bifreiðastyrki. Heildarupphæð bifreiðastyrkja er nálægt 12.3 millj. kr. Það er ekki nákvæmlega hægt að segja, hver sú upphæð er í dag, vegna þess að meginhluti upplýsinganna um þetta byggist á rannsókn frá árinu 1965, sem gerð var á árinu 1966. En þá var svo ákveðið að taka þessi mál til heildarendurskoðunar og samþykkt, að bílastyrkir skyldu engum breytingum taka fyrr en eftir að lokið væri þessari heildarendurskoðun. Kílómetragjöldin hafa að vísu eitthvað breytzt síðan. Þau eru endurskoðuð á hverju ári miðað við verðlag á benzíni og tilkostnað við bifreiðar, en hinir föstu bifreiðastyrkir eiga ekki að hafa breytzt, þannig að þessi tala á að vera nokkuð nærri því, sem bílastyrkirnir eru í dag, a.m.k. ekki ráða neinum úrslitum um það. Í mörgum greinum eru þessar tölur til nýrri, en það hefur ekki tekizt og mundi þurfa miklu víðtækari athugun, ef ætti að vera hægt að færa það allt til ársins 1967. Sumar tölurnar eru þó frá þeim tíma, þannig að ég tel, að þetta gefi heildarmynd.

Einn starfsmaður almannavarna fær 25 þús. kr. Ég sleppi hundruðum, ég sé ekki, að það skipti meginmáli. 14 af starfsmönnum Áfengis og tóbaksverzlunar ríkisins og Lyfjaverzlunar ríkisins fá bílastyrki, sem nema 246 þús. kr. samtals. Einn starfsmaður áfengisvarnaráðs hefur 5 þús. kr. bílastyrk 4 starfsmenn Bifreiðaeftirlits ríkisins hafa 227 þús. Tveir starfsmenn Efnahagsstofnunar hafa 14 þús. 1 starfsmaður ferðamálaráðs hefur 21 þús. 7 starfsmenn Ferskfiskeftirlits hafa 448 þús. 15 starfsmenn Fiskmats ríkisins hafa 833 þús. Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli, 2 starfsmenn hennar hafa 20 þús. 17 starfsmenn flugmálastjórnar í Reykjavík hafa 406 þús., 2 starfsmenn fríhafnar á Keflavíkurflugvelli 37 þús., 6 starfsmenn fræðslumálaskrifstofu 99 þús., 1 starfsmaður gisti- og veitingastaðaeftirlits 62 þús., 1 starfsmaður Hafrannsóknastofnunar 32 þús., 1 starfsmaður Heyrnleysingjaskóla 41 þús., 6 starfsmenn húsameistara 80 þús.. 5 starfsmenn Innkaupastofnunar ríkisins 101 þús., 4 starfsmenn Iðnaðarmálastofnunar 68 þús., einn starfsmaður Kennaraskólans 33 þús., einn starfsmaður Kristneshælis 36 þús., 9 starfsmenn Landhelgisgæzlu 249 þús., 1 starfsmaður Landnáms ríkisins 47 þús., 1 starfsmaður löggildingarstofu 24 þús., 6 starfsmenn lögreglustjóraembættis á Keflavíkurflugvelli 197 þús., 1 starfsmaður lögreglustjórans í Reykjavík 32 þús., 4 rektorar menntaskólanna 74 þús., 1 starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands 24 þús., 25 starfsmenn póst- og símamálastjórnar 705 þús., 21 starfsmaður Rafmagnsveitna ríkisins og Orkustofnunar 549 þús., 22 starfsmenn rannsóknastofnana atvinnuveganna 524 þús., 8 starfsmenn Raunvísindastofnunar háskólans 100 þús., 16 skattstjórar og ríkisskattstjóri 455 þús., 1 starfsmaður Ríkisútgáfu námsbóka 5 þús., 10 starfsmenn Ríkisútvarpsins 143 þús., 2 starfsmenn saksóknaraembættisins 37 þús., 1 starfsmaður sauðfjárveikivarna 12 þús., 1 starfsmaður Sementsverksmiðju ríkisins 33 þús., 18 starfsmenn Skipaskoðunar ríkisins 233 þús., 2 starfsmenn Skipaútgerðar ríkisins 41 þús., 2 starfsmenn skipulagsstjóra 24 þús., 9 starfsmenn Skógræktar ríkisins 282 þús., 1 starfsmaður skólaeftirlits 45 þús., ráðuneytisstjórar, þar með talinn hagsýslustjóri, hagstofustjóri, ríkisendurskoðandi, ríkisféhirðir og ríkisbókari, þ.e. 12 manns alls, 216 þús. Stýrimannaskólinn, 1 starfsmaður, 14 þús., sýslumenn, bæjarfógetar o.fl., 21 að tölu, 524 þús.

Einn starfsmaður Sölunefndar varnarliðseigna 13 þús., tveir starfsmenn Tilraunastöðvarinnar á Keldum 31 þús., tveir starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins 32 þús., 1 starfsmaður Tækniskólans 33 þús., 12 starfsmenn Veðurstofu Íslands 91 þús., 73 starfsmenn Vegagerðar ríkisins 3 millj. 462 þús., 18 starfsmenn — þetta er í tvennu lagi — 18 aðrir starfsmenn vegagerðarinnar hafa 382 þús., þannig að þetta er um 3.8 millj. Hér undir er náttúrlega mjög mikill akstur annað en beinir bílastyrkir, sem hér er meðtalið. Þetta mun vera aksturskostnaðurinn, en þessir 18 starfsmenn, sem ég talaði um, eru þeir starfsmenn, sem hafa sérstak a bílastyrki, þessi 382 þús. Verðgæzlustjóri, 1 starfsmaður, 25 þús. 9 starfsmenn verðlagseftirlits 159 þús., 1 starfsmaður vélasjóðs 12 þús., 1 starfsmaður Vélskóla 14 þús., 7 starfsmenn Vita- og hafnamálaskrifstofu 318 þús., 1 starfsmaður Þjóðleikhúss 12 þús., 1 í Þjóðminjasafni 11 þús., 6 starfsmenn Öryggiseftirlits ríkisins 198 þús.

Það er auðvitað mjög erfitt að átta sig til hlítar á lesningu sem þessari, en niðurstöðutölur, sem eru vitanlega það, sem máli skiptir í þessu efni, þær leiða auðvitað í ljós, að hér er um mjög stórfellt útgjaldamál að ræða. Í fyrsta lagi það, að ríkið á eins og ég áðan gat um, á sjötta hundrað bifreiðar, sem eru taldar nú að verðgildi um 150 millj. kr. Ríkið leggur beinlínis 79 starfsmönnum til bifreiðar, og 424 starfsmenn hafa bílastyrki, sem nema 12—13 millj. kr. á ári. Það er því ljóst, að hér er um mikið vandamál að ræða, sem nauðsynlegt er, að tekið sé föstum tökum. Því miður er hins vegar hér ekki um mjög auðvelt mál að ræða.

Það er langt síðan farið var að gefa gaum að þessu sem vandamáli. Það fyrsta, sem ég man eftir því, var fyrir um það bil 20 árum. Þá var ákveðið, að það skyldi stefnt að því, að ríkið ætti ekki bifreiðar og þeim skyldi skilað. Útkoman úr því varð, að einni bifreið var skilað og síðan gáfust menn upp við það að framkvæma þessa fyrirætlun. Ég er síður en svo að saka einn eða neinn um það, að ekki hafi úr þessu orðið, heldur nefni ég þetta aðeins til þess að benda á hvað hér er um mikið vandamál að ræða. Síðan hefur þó vandinn að sjálfsögðu vaxið, fjöldi bifreiða hefur vaxið, og það hefur fjölgað þeim embættismönnum, sem hafa haft bifreiðar til afnota.

Það fer auðvitað ekki hjá því, að menn sjái, að það er ekki fullt samræmi í því, hverjir hafa bifreiðar til afnota. Þörfin fyrir bifreiðar er ákaflega mismunandi hjá hinum ýmsu starfsmönnum, sem slíkar bifreiðar hafa. Og þetta hefur vitanlega á hinum ýmsu tímum þróazt með ýmsu móti. Það er ekki vert að neita því, að í mörgum tilfellum hafa embættismenn fengið bifreiðar hreinlega sem kjarabót, og það er ekki lítil kjarabót að hafa bifreið, sem ríkið á og ríkið borgi allan rekstrarkostnað slíkra bifreiða. Það getur leikið á mjög háum fjárhæðum. Í mörgum greinum er svo auðvitað ekki hægt hjá því að komast, að starfsmaður hafi bifreið, og bifreiðaeign ríkisins hlýtur alltaf að vera veruleg. En hér er auðvitað um mikið vandamál að ræða, ekki sízt þar sem þetta er þáttur í kjörum og það verulegur þáttur, þannig að það er enginn leikur við þetta að fást, því skulum við ekki loka augunum fyrir.

Fyrir tveimur árum ákvað ríkisstj. að reyna að setja vissa hemla á þetta, fyrst og fremst með því að ákveða, að ekki mætti kaupa bifreið, sem ríkisforstjórar hefðu til afnota, sem kostaði yfir vissa fjárhæð, og var þá miðað við mjög hóflega gerð bifreiða, en hins vegar bifreið, sem fullkomlega væri sómasamlegt fyrir hvern og einn að aka í, og það hefur verið reynt að standa á þessari reglu. Og þetta var vissulega aðhald út af fyrir sig. Bifreiða- og vélanefndin, sem skipuð var á sínum tíma fyrir nokkrum árum, fékk þetta viðfangsefni, og á liðnum áratugum hafa verið gerðar ýmiss konar grg. um þessi mál, rækilegar athuganir farið fram á vandanum og legið fyrir ýmsar till. um það, en menn hafa ekki treyst sér af ýmsum ástæðum til þess að gera þessar till. að veruleika. Hvort það átak, sem var hafið 1965, skilar jákvæðri útkomu eða ekki, er nokkuð snemmt fyrir mig að fullyrða um. Það hafa verið teknar þessar bráðabirgðaákvarðanir.

Eins og ég áðan sagði, var ákveðið 1965 að breyta ekki bifreiðastyrkjum fyrr en þessi síðasta athugun lægi fyrir. Á s.l. ári var unnið mikið að því að meta akstursþörf allra þeirra manna, sem hafa ríkisbifreiðar, og fyrir liggja núna skýrslur um öll þau tilvik, sem náttúrlega eru mjög mismunandi og leiða til þess, að veigamiklar breytingar hlytu að verða í þessum efnum um það, hverjir fengju bifreið til afnota, ef sá mælikvarði yrði lagður til grundvallar. Það eru auðvitað að vakna í sambandi við þetta hugleiðingar um, hvaða leiðir séu hugsanlegar til þess að koma í veg fyrir, að þessi þróun verði með þessum hætti, en ég tel, að glöggt hafi komið í ljós, að þetta sé meira og minna komið út í ógöngur og það sé óumflýjanlegt að reyna að spyrna hérna verulega við fótum. Það er náttúrlega hægt að hugsa sér það, að ríkið hætti yfirleitt að eiga nokkrar bifreiðar, nema vinnubifreiðar og þær bifreiðar, sem sjálfgefið er, að ýmsar framkvæmdastofnanir verða að eiga í sambandi við starfsemi stofnananna, og að breyta öllu slíku yfir í bifreiðastyrki, sem eru metnir eftir akstursþörf viðkomandi embættismanna. Þetta er vitanlega mjög róttæk ráðstöfun, og ég skal ekki segja um það, hvort mönnum þykir hún framkvæmanleg. Það má einnig hugsa sér þá leið, að út af fyrir sig fengju starfsmenn bifreiðar, sem ríkið ætti, en þeir kostuðu útgerð þeirra, og það yrði þá að sjálfsögðu miðað við starfsmenn, sem hefðu verulega akstursþörf, og þeir kostuðu þá útgerð þeirra. Í þessu væri einnig verulegt aðhald fólgið. Þetta eru „prinsip“-málin, sem þarf að gera upp við sig.

Ástæðan til þess, að bifreiðar ríkisins hafa ekki almennt verið merktar til þessa, þó að ég hafi vikið að því áður í mínum fjárlagaræðum, að það væri nauðsynlegt að gera það, er sú, að í rauninni er það ekki tímabært fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um það, hvort ríkið ætli áfram almennt að eiga þessar bifreiðar eða hvort hér verði breytt um.

Það er einnig að sjálfsögðu eðlilegt, að það sé meginlína, að bifreiðar ríkisins séu ekki notaðar nema í þágu starfsins, og í nærliggjandi löndum er það svo yfirleitt, að þeim reglum er fylgt fram eins og hægt er. Hér er þó auðvitað, eins og bent var á í svari mínu áðan, mjög mismunandi aðstaða fyrir hendi. Stórar stofnanir, sem hafa geymslu, geta tekið bifreiðarnar og einhver ákveðinn aðili séð um það, að þeim sé skilað í geymslu að kvöldi. Hins vegar er í mörgum greinum aðeins einn eða kannske tveir menn í tiltekinni stofnun, sem hafa bifreið, og oftast nær er það forstjórinn, og hver á þá að sjá um það, að hann loki inni sína bifreið? Það er ekki alveg einfalt mál, þannig að á þessu eru auðvitað margvíslegir annmarkar. En þetta eru allt atriði, sem eru þess eðlis, að það er eðlilegt, að þau komi upp. Það er eðlilegt, að um þau sé spurt, og ég skal taka það greinilega fram, að því fer víðs fjarri, að ég sé ánægður, með það ástand, sem ríkir í þessum efnum, og ég tel, að ekki verði undan því skotizt að reyna að setja um þetta fastar reglur. Hvort menn sem sagt í þetta skipti manna sig upp í það með þeim róttæku aðgerðum og áhrifum á kjör ótal ríkisstarfsmanna, sem þetta mundi hafa í för með sér, um það skal ég ekkert fullyrða á þessu stigi. Það er bezt að vera ekkert að hrósa sér af afrekum, sem ekki hafa verið unnin, en engu að síður er þetta brýn nauðsyn. Þessar tölur leiða það glöggt í ljós.

Það kann að vera, að hv. fyrirspyrjanda þyki ekki, að þetta sé alveg nægilega ýtarlegt, en eins og ég áðan sagði, ef þetta á að vera ýtarlegra, kostar þetta það að semja um þetta mjög ýtarlega og langa grg., sem ég tel vel geta komið til mála, að verði gert og í rauninni sé efniviður í eftir þá vinnu, sem unnin hefur verið nú síðustu árin og lokið er að vinna nú að mestu leyti, þannig að það sé a.m.k. fullkomin ástæða til, ef og þegar ákvörðun verður tekin um þær endanlegu reglur í þessu efni, þá verði með einhverjum hætti gefin út slík heildarskýrsla.