15.12.1967
Neðri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Áður en ég sný mér að því að ræða nokkuð almennt um þetta mál, vil ég lýsa brtt., sem ég flyt ásamt tveim þm. öðrum, þeim Birni Pálssyni og Sigurvin Einarssyni. Eins og kunnugt er, þá eru í 13. gr. laganna um tekju- og eignarskatt taldir upp þeir tekjuliðir, sem eiga að vera undanþegnir tekjuskatti til framtals. Við leggjum til, að við þessa gr. bætist nýr liður, „bætur almannatrygginga“, sem þýðir það, að þær bætur, sem almannatryggingar greiða, hvort heldur það eru örorkubætur, ellilífeyrir eða fjölskyldubætur, verði undanþegnar tekjuskatti.

Ég hygg, að það liggi nokkuð í augum uppi, hverjir það eru, sem verða harðast úti fyrir þeirri kjaraskerðingu, sem nú er verið að reyna að koma fram, en það er einmitt þetta fólk, sem fær bætur almannatrygginga, gamla fólkið, öryrkjarnir og stóru fjölskyldurnar. Með því að undanþiggja þessar bætur tekjuskatti, mundi nokkuð vinnast í þá átt að bæta þessu fólki kjaraskerðinguna, þó vitanlega sé það hvergi nærri fullnægjandi.

Till. um þetta hafa áður verið fluttar hér á Alþingi. Ég flutti till., sem gekk í svipaða átt, í Nd. á seinasta þingi og Alfreð Gíslason í Ed. Í sambandi við mína till. hér í Nd. urðu talsverðar umr. í fyrra. Þá var því lýst yfir af hæstv. fjmrh., að ríkisstj. mundi taka þetta mál til sérstakrar athugunar og sjá, hvað væri hægt að ganga til móts við bótaþega almannatrygginga í þeim efnum, en ég sé það ekki, a.m.k. enn sem komið er, að nein efnd hafi orðið á þessu loforði fjmrh., sem mér skildist á þeim tíma, að hefði verið knúið fram af Alþfl., vegna þess að hann væri nokkuð opinn fyrir þeim hugmyndum að gera þessar bætur a.m.k. að einhverju leyti undanþegnar skatti.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þessa till., en ég held, að efni hennar og réttmæti hennar liggi svo í augum uppi, eins og aðstæður eru nú, að um hana ætti ekki að þurfa að ræða nánar. Og ég treysti því, að þó að till. okkar stjórnarandstæðinga fái nú yfirleitt ekki góðar undirtektir hjá stjórnarflokkunum, finni stjórnarflokkarnir það, að hér sé um slíkt réttlætismál að ræða, að sjálfsagt sé að samþykkja þetta. En brtt. er þannig hljóðandi:

„Á undan 1. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: Á eftir E-lið 13. gr. laganna komi nýr liður, svo hljóðandi: Bætur almannatrygginga.“

Afhendi ég svo hæstv. forseta hana. Mér finnst hins vegar, að hér sé um það stórmál að ræða, að ekki sé rétt að láta það fara svo gegnum þingið, að ekki sé gerð tilraun til þess að ræða nokkuð nánar um það við hæstv. ríkisstj. Ég vil þá fyrst minna á það, að með aðalefni þessa frv., sem er hækkun fasteignagjaldanna, er í raun og veru verið að jarða eitt af hinum fögru loforðum, sem Sjálfstfl. gaf við seinustu kosningar og hefur gefið við undanfarnar kosningar. En eitt aðalloforð Sjálfstfl. hefur verið það, að hann vildi vinna að því, að sem allra flestir þegnar þjóðfélagsins ættu einhverja eign. „Einn fyrir alla“ er eitt af þeim kjörorðum, sem Sjálfstfl. hefur flaggað einna mest með. Og „íbúð fyrir alla“ o.s.frv. Með því frv., sem hér liggur fyrir um hækkun fasteignaskattsins, er beinlínis verið að vinna á móti þessum tilgangi. Með hækkun fasteignagjaldanna er verið að koma í veg fyrir það, að efnalitlir menn geti eignazt eignir og gera þeim, sem hafa náð í einhverjar eignir, eins og t.d. íbúð, erfiðara fyrir með að halda þeim. Með þessu frv. er sem sagt hvað þetta atriði snertir stefnt að því að brjóta niður þetta fagra fyrirheit, sem Sjálfstfl. hefur verið að gefa hinum efnaminni kjósendum þjóðfélagsins á undanförnum árum.

Það er líka rétt að benda á það, að hér er horfið til skattlagningar, sem er að verða meira og minna úrelt. Sú var tíðin, að fasteignaskattar voru svo að segja hinn eini tekjustofn hins opinbera. Þetta hefur verið að breytast á undanförnum árum og fasteignaskattarnir orðið minni og minni hlutur í heildarálögunum. Þetta hefur ekki þróazt þannig eingöngu hér á landi, heldur yfirleitt alls staðar í heiminum og alveg sérstaklega þó í nágrannalöndum okkar. Og þetta er ekki óeðlilegt. Á þeim tíma, þegar fasteignagjöldin voru aðaltekjustofnar hins opinbera, skiptust þjóðirnar yfirleitt í tiltölulega fáa, ríka einstaklinga og fjölda öreiga, og á þeim tíma voru fasteignagjöldin ekki óeðlilegur tekjustofn, vegna þess að það voru þeir ríku eða efnuðu í þjóðfélaginu, sem fyrst og fremst urðu að greiða þennan skatt. Með tilkomu verkalýðsfélaganna og samvinnufélaganna og aukinna áhrifa umbótasinnaðra flokka á löggjafarþingum þjóðanna hefur sú breyting orðið, að millistéttir og verkafólk hefur haft aðstöðu til þess að komast yfir nokkra eign, eignast sína eigin íbúð. Þeir eru alltaf fleiri og fleiri, sem ná því takmarki og eftir að svo er komið, verða fasteignagjöld að sjálfsögðu allt annars eðlis en áður. Áður voru þetta gjöld, sem fyrst og fremst náðu til ríkra manna. Nú er þetta orðinn skattur, sem nær til alls almennings og bitnar tiltölulega þyngst á þeim, sem eru að komast yfir nokkra eign af veikum mætti, eins og t.d. að eignast íbúð.

Af þessum ástæðum hefur viðhorf manna til fasteignaskatta og eignarskatta mjög breytzt frá því, sem áður var vegna þess að nú er þetta ekki orðið lengur skattur á ríkum mönnum, heldur skattur á öllum almenningi. Og af þeim ástæðum hefur þróunin stefnt í þá átt, að hlutur fasteignaskattanna hefur orðið minni og minni í heildartekjum hins opinbera. Ég álít því, að hér sé stefnt í alveg öfuga átt og sú breyting, sem eigi að koma í þessum efnum einmitt til þess að tryggja þetta fagra fyrirheit Sjálfstfl., sem ég er alveg sammála, eigi að vera sú, að það eigi mjög að hækka þann eignarhluta, sem sé undanþeginn eignarskatti og fasteignagjöldum.

Ég mundi ekki álíta það óeðlilegt, þó að t.d. hæfileg íbúð eða verðmæti, sem svaraði til hæfilegrar íbúðar, væri undanþegið eignar- og fasteignasköttum. Svo mikilsvert tel ég það, að sem allra flestir komist á það stig að vera nokkrir eignamenn, að við stefnum að því að skapa þjóðfélag bjargálnamanna, en ekki örfárra auðkónga og margra öreiga, eins og áður var. Þess vegna tel ég, að það sé stefnt í ranga átt með þessu frv. En þó finnst mér annað enn verra við þetta frv. eða þessa hækkun fasteignagjaldanna og það kemur í ljós, þegar við athugum þær aðstæður, sem nú eru í þjóðfélaginu, þegar lagt er til, að þessi nýi skattur verði tekinn upp, sem þetta frv. raunverulega fjallar um.

Ef við athugum eða reynum að gera okkur grein fyrir því, hver aðstaða ríkissjóðs muni verða á næsta ári, þá er það ljóst, að hann hefur enga þörf fyrir þá skattahækkun, sem hér er um að ræða, ekki minnstu þörf. Ríkissjóður mun fá stórlega auknar tekjur af gengisfellingunni á margan hátt, og það eykur tekjur hans alveg gífurlega. Auk þess má telja sjálfsagt eða nokkurn veginn víst, að þjóðartekjurnar hljóti að verða miklum mun meiri á næsta ári heldur en á þessu ári. Verðlag á útflutningavörum er yfirleitt hærra nú heldur en um síðustu áramót og það mun eiga sinn þátt í því, að þjóðartekjurnar ættu að verða meiri á næsta ári heldur en á þessu ári. Vetrarvertíðin síðasta var á margan hátt ein sú erfiðasta, sem hér hefur komið, og við höfum fulla ástæðu til þess að ætla það, að hún verði ekki lakari í ár, heldur skárri. Síldveiðarnar hafa líka verið með erfiðara móti, og þess vegna höfum við enga rökstudda ástæðu til þess að ætla það, að síldarafli verði minni, heldur frekar að hann verði meiri. Og ef það verður nokkur árangur af gengisfellingunni jákvæður, ætti hann þá fyrst og fremst að verða sá, að meira fjör kæmist í útgerðina og þar af leiðandi yrðu útflutningstekjurnar meiri heldur en ella. Það má líka ætla, að af gengisfellingunni leiði, ef jafnframt fylgir á eftir hagstæð tollabreyting fyrir iðnaðinn, að iðnaðarframleiðslan verði heldur meiri á næsta ári heldur en hún er í ár, svo að mér finnst, að öll rök hnígi í þá átt, að þjóðartekjurnar hljóti að verða talsvert meiri á næsta ári heldur en þær voru í ár. Og það mun að sjálfsögðu skapa auknar tekjur fyrir ríkissjóð. Eftir því sem útflutningstekjurnar verða meiri, má reikna með því, að innflutningurinn verði líka meiri og þar af leiðandi tekjurnar, sem ríkið hefur af honum. Þegar þetta allt er athugað, er augljóst, að tekjur ríkisins að óbreyttum skattstofnum, og þá tek ég með þá breytingu, sem er fyrirhuguð á tollunum, verða mjög miklar á næsta ári og talsvert miklu meiri heldur en þau útgjöld, sem eru fyrirhuguð. Þess vegna hefur ríkissjóður ekki minnstu þörf fyrir þann skatt, sem hér er um að ræða. Hann er lagður á gersamlega að óþörfu. Og undir hvaða kringumstæðum er verið að leggja á þennan nýja óþarfa skatt? Undir þeim kringumstæðum, að ríkisstj. er að fara fram á það við þegna þjóðfélagsins, að nú færi þeir nokkra fórn, nú leggi þeir nokkrar byrðar á sig og tala mjög fagurlega um það, hve þetta sé nauðsynlegt.

Ég skal ekki við þetta tækifæri fara að ræða nánar um þessi tilmæli ríkisstj. En það mundi ég telja alveg lágmarkskröfu af ríkisstj., þegar hún fer fram á þetta, að hún sé ekki að leggja byrðar á landsmenn algerlega að óþörfu. En það er einmitt það, sem ríkisstj. er hér að gera, eins og ég hef nú sýnt fram á. Það er alveg augljóst, að það er fyrirætlun ríkisstj. eins og svo oft áður að stefna að því að hafa verulegan tekjuafgang hjá ríkissjóði á næsta ári. Ríkisstj. ætlar að haga skattaálögum þannig, að það verði verulegur tekjuafgangur hjá ríkissjóði á næsta ári, á sama tíma sem hún heimtar stórfelldar fórnir af skattþegnunum og þó alveg sérstaklega af þeim, sem lakast þola þungar byrðar.

Ég álít, að hér sé eins rangt að farið hjá ríkisstj. og hugsazt getur. Ef ríkisstj. væri það alvara að reyna að fá menn til þess að færa einhverjar fórnir, ætti hún sjálf að ganga á undan og draga úr skattaálögum svo sem hún mest megnar. Þvert á móti gerir hún hið gagnstæða, þyngir byrðarnar á landsmönnum gersamlega að óþörfu. Ég held, að það sé ekki of sterkt að orði kveðið, þó að ég segi, að það sé ákaflega erfitt fyrir menn að taka vel tilmælum ríkisstj. um það, að þeir eigi að færa fórnir, þegar ríkisstj. sjálf gengur á undan með það að gera byrðar manna miklu þyngri en þær þurfa að vera. Þess vegna lít ég á þetta frv. og önnur skattafrv. ríkisstj. eins og hreint hnefahögg í andlit almennings, þegar hún svo jafnframt er að fara fram á það, að menn séu að færa fórnir. Og ég er sannfærður um það, að ef ríkisstj. gerir alvöru úr því að leggja þannig á nýja óþarfa skatta eins og gert er með þessu frv., fær hún ekki það svar frá almenningi við óskum sínum um að menn taki á sig einhverja kjaraskerðingu, sem hún óskar eftir. Þvert á móti hlýtur svarið að verða á annan veg.

Ég vildi þess vegna skora á ríkisstj. að íhuga ráð sitt betur áður en hún lætur þetta mál ganga fram á Alþingi. Ég vil skora á hana að falla frá þeirri stefnu, sem hún auðsjáanlega hefur nú að leiðarljósi, þ.e. að hafa verulegan tekjuafgang hjá ríkissjóði á næsta ári á sama tíma og þrengt er að öllum almenningi. Það er röng og hættuleg stefna og hún á eftir að hefna sín, ef ríkisstj. víkur ekki frá henni.