05.04.1968
Sameinað þing: 48. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í D-deild Alþingistíðinda. (3220)

204. mál, bifreiðaeign ríkisins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr. og spurzt er fyrir um, er vissulega allmikilvægt og margslungið, og ég vil eindregið taka undir það, að full ástæða er til að koma þar á meira samræmi og fastari reglum en gilt hafa í sambandi við þessi bílamál ríkisins. Það er vafalaust nokkurt álitamál og vandamál, hvernig eigi að skipa þessum málum á eðlilegan og réttlátan hátt, en ég býst við, að það sé ekki of mikið sagt, þó að fullyrt sé, að töluverðs misræmis hafi gætt í þessum efnum og slíkt misræmi þurfi að leiðrétta. Undir það vil ég mjög eindregið taka.

En það, sem kom mér til þess að segja hér fáein orð, var það, að ég tel ástæðu til að koma hér á framfæri lítilli leiðréttingu við þá skýrslu, sem hæstv. fjmrh. las hér. Hún er kannske ekki stórvægileg, en þar sem hún snertir mig persónulega og þá stofnun, sem ég veiti forstöðu, vil ég, að hún komi hér skýrt fram.

Þar sem hæstv. fjmrh. talaði um, að 79 farstöðumenn ríkisstofnana hefðu bifreiðar til eigin afnota, þá taldi hann þar með forstöðumann Bókaútgáfu menningarsjóðs. Ég veit nú satt að segja ekki, hvernig á því getur staðið, að þetta hefur komizt inn í skýrslu hæstv. ráðh., en ég vil taka það skýrt fram, að þetta er algjör misskilningur. Forstöðumaður Bókaútgáfu menningarsjóðs hefur aldrei haft neina slíka bifreið, sem ríkið eða bóka-. útgáfan hefur átt og kostað rekstur á. Bókaútgáfan hefur aðeins átt og á eina sendiferðabifreið, sem starfsmaður stofnunarinnar notar í hennar þágu, og það er öll bifreiðaeign þess fyrirtækis, þannig að það má þó lækka þessa tölu forstöðumanna ríkisstofnana, sem hafa afnot af bifreiðum, sem ríkið á eða ríkisstofnanir eiga og reka, a.m.k. um einn, þannig að þeir eru þó ekki nema 78. Ég tel ástæðu til þess, að þetta komi fram, og vil æskja þess, að þetta verði leiðrétt.

Að síðustu vil ég svo endurtaka það, að það er full ástæða til þess að reyna að koma á einhverjum samræmisreglum að því er varðar bifreiðaeign ríkis og ríkisstofnana og að því er varðar afnot af þeim. Þær reglur hafa verið, að ég hygg, mjög svo óskýrar og á engan hátt þannig, að eðlilegt samræmi sé í þeim efnum. Það vil ég að síðustu undirstrika, að ég tel á því mikla þörf.