05.04.1968
Sameinað þing: 48. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í D-deild Alþingistíðinda. (3222)

204. mál, bifreiðaeign ríkisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það og leggja á það áherzlu, að nauðsyn sé að koma þessum málum í betra horf en nú á sér stað. Ég get ekki betur séð af þeirri skýrslu, sem ráðh. gaf hér áðan, sem að vísu var ekki svo fullkomin sem æskilegt hefði verið, en að í þessum efnum hafi ríkt algjört handahóf. Ég get ekki fundið út úr því neinu reglu, hver hafi fengið bíla ókeypis né heldur hverjum bílastyrkur sé veittur. Ég get ekki betur séð en að með þessu sé stofnað til mikils misræmis í kjörum opinberra starfsmanna og þeim mönnum, sem úthlutað hefur verið á undangengnum árum þessum fríðindum, sé veitt stórkostleg kjarabót umfram aðra opinbera starfsmenn. Ég fæ ekki betur séð en þetta sé í mörgum tilfellum fullkomið ranglæti. Það ranglæti ber að leiðrétta sem fyrst. Þess vegna er út af fyrir sig ástæða til þess að fagna ummælum hæstv. fjmrh. í þá átt. Ég verð þó að lýsa nokkrum vonbrigðum yfir því, hversu dangan tíma það þarf að taka að kippa málum elns og þessum í lag. Mér skildist, að það hefði verið stofnað til athugunar á þessum málum árið 1965. Er það ekki rétt skilið? Og það er ekki lengra komið í endurbótaátt í dag en raun ber vitni. Ég held, og ég vil leggja á það áherzlu, að nauðsynlegt sé að hafa hraðari vinnubrögð í þessari endurbótabaráttu framvegis heldur en við hafa verið höfð hingað til.

Mér sýnist, að þarna sé um hreint kjaramál að tefla hjá þeim mönnum, sem þessara fríðinda njóta. Nú er það svo, að kjaramál opinberra starfsmanna eru komin í ákveðið kerfi, og launakjör þeirra eiga að vera ákveðin með ákveðnum hætti, kjarasamningum eða, ef þeir samningar ekki takast, kjaradómi. Ég vil nú spyrja, hvort það sé ekki eðlilegt, að þessi fríðindi komi til athugunar við kjarasamninga, og hvort það sé ekki eðlilegt, að þau komi sem liður inn í kjarasamningakerfið. Ég held, að það sé miklu eðlilegra, að það séu þeir aðilar, sem um þessi mál fjalla, kjarasamningana, sem setja reglur um þessi efni og meta þessi fríðindi, heldur en það sé gert einhliða af ja, ég veit eiginlega ekki af hverjum, þetta hefur komizt svona á smám saman, kannske ákveðið af einhverjum ráðh., kannske af forstöðumanni einhverrar stofnunar, en allar samræmdar reglur vantar um þetta, að því er virðist.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð og ætla mér ekki að blanda mér frekar í þessar umr., en ég álít, að þarna sé í mörgum tilfellum um hreint ranglæti og spillingu að ræða, og ég álít, að það eigi að nema staðar, að það eigi að nema snögglega staðar og breyta um hætti í þessum efnum og það eigi ekki að þurfa að bíða eftir því í önnur þrjú ár.