05.04.1968
Sameinað þing: 48. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í D-deild Alþingistíðinda. (3223)

204. mál, bifreiðaeign ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi, að það hefði nokkuð dregizt að fá niðurstöðu í þessu máli, úr því að athugun hefði hafizt 1965. En ég skal taka það fram, að athugunin er náttúrlega miklu eldri, svo að það gerir kannske hlut minn verri, en það er sjálfsagt að segja frá því, sem rétt er.

Eins og ég sagði, hófst þessi bílabarátta fyrir, að ég hygg, 20 árum í alvöru. Þá var þetta farið að grafa um sig nokkuð og menn farnir að gera sér grein fyrir því, að þarna væri við vanda að glíma, þannig að það eru margir, sem við þetta hafa fengizt, ýmsar athuganir hafa verið á þessu gerðar á liðnum árum og áætlunargerður liggja fyrir. Ég taldi hins vegar nauðsynlegt að miða þetta við síðustu þróun. Þetta hefur verið að þróast árum saman. Það hefur vaxið með ýmsum hætti. Ég skal ekki rekja þá sögu. Margt af þessu hefur vafalaust komið til sem fríðindi á ýmsum tímum. Það eru engar formlegar reglur um það, hverjir hafi bíla, og menn hafa fengið þessi hlunnindi, náttúrlega í mörgum og flestum tilfellum með vitund fjárveitingavaldsins hverju sinni Það hefur verið tekið inn í fjárveitingar, en í flestum tilfellum auðvitað eftir á. Og það skal fúslega játað, að þessi athugun málsins, sem gerð hefur verið, leiðir ákaflega glöggt í ljós, að hér er á mikið handahóf, og það er töluvert svipað og á sér stað með embættisbústaðina, sem hér hefur verið talað um. Það er orðið algert ósamræmi líka í því, hverjir hafa embættisbústaði og hverjir ekki, þó ég ætli ekki að ræða það mál hér í þessu sambandi. En það er auðvitað ólíkt, hvort menn stöðva einhverja þróun, og það hefur verið gert. Síðan 1965 hefur enginn embættismaður fengið ríkisbifreið að einum undanskildum, það skal ég taka fram, og það hygg ég, að mönnum þyki ekki óeðlilegt eftir atvikum. Það var landlæknir, því að eftir að kjarasamningar lækna komu til, vita menn, hvernig útkoman úr því dæmi var, sem sé sú, að þessi embættismaður ríkisins, yfirmaður allra heilbrigðismála, hafði miklu verri kjör en allir aðrir læknar í landinu, og það þótti því sanngjarnt að fallast á þessi hlunnindi, sem tvímælalaust eru hlunnindi, og skal ég taka á mig minn hluta af þeirri sök, en að öðru leyti hefur þessi þróun verið stöðvuð.

Eins og ég áðan sagði, var ákveðið 1965, þegar þessi athugun hófst, að stöðva einnig hina föst bifreiðastyrki, sem að einhverju leyti má líta á sem hlunnindi. En hins vegar var ekki hægt að stöðva það, þegar kostnaður var greiddur, sem er fólginn í kílómetraakstri bifreiða, því að þar er ekki um hlunnindi að ræða, heldur aðeins beina greiðslu fyrir afnot bíls, sem tvímælalaust eiga sér stað og verður að borga fyrir eins og hverja aðra þjónustu.

Þó að menn sjái náttúrlega, að hér er um stórar tölur að ræða, sem vissulega þarf að taka til rækilegrar athugunar, þá er stór hluti af þessari upphæð ekki deilumál, þ.e. bílastyrkjagreiðslurnar, þar sem um er að ræða greiðslur, sem ekki er hægt að falla frá. Þar er tvímælalaust í fjölmörgum greinum um að ræða, að það er hagkvæmara fyrir ríkið að borga starfsmanni fyrir afnót bifreiðar hans, að því marki sem það er talið nauðsynlegt að hann þurfi að hafa bifreið, heldur en að fara annaðhvort að kaupa undir hann bifreið eða afhenda honum hana eða láta hann kaupa leigubifreiðar í þeim tilfellum.

Það kann vel að vera, að það sé hægt að segja, að þessi athugun hafi tekið langan tíma, og það má segja að það sé ekki tiltölulega flókin ákvörðun að stöðva þróunina. En ég hygg, að allir hv. þm. geti gert sér í hugarlund. að það er ekki alveg einfalt mál, hvernig á að leysa þann vanda að taka af manni fríðindi, sem geta kannske leikið á, — ég skal ekki nefna ákveðnar tölur, — milli 100 og 200 þús. kr. á ári, — fríðindi, sem viðkomandi starfsmaður hefur notið um langan aldur. Í sambandi við það eru margvísleg vandamál, sem gera það, að þetta er vissulega ekkert auðvelt verk. En það er satt, og það er það versta í þessu máli auk útgjaldanna við þetta, að í þessum hlunnindum er verulegt ósamræmi. Það er rétt hjá hv. þm., að það er í rauninni það, sem alltaf veldur mestum kurr og óánægju, þegar hægt er að benda á það, að einn starfsmaður hafi þessi hlunnindi en annar sambærilegur starfsmaður ekki.