10.04.1968
Sameinað þing: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í D-deild Alþingistíðinda. (3232)

180. mál, tjónabætur til útvegsmanna vegna banns við síldveiðum sunnanlands

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur gert grein fyrir spurningum sínum, sem eru í tveimur liðum.

Ég tel rétt, áður en ég kem efnislega að svörum við þessum fsp., að skýra frá því til glöggvunar, hvernig síldarmagn undanfarinna ára hefur varið hér við Suður- og Vesturland, en samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, hefur síldarmagnið verið þannig á s.l. 10 árum:

Árið 1957 eru 19 þús. lestir veiddar, árið 1958 33 þús. lestir, árið 1959 28 þús. lestir, árið 1960 23 þús. lestir, árið 1961 108 þús. lestir, árið 1962 145 þús. lestir, árið 1963 154 þús. lestir, árið 1964 121 þús. lestir, árið 1965 172 þús. lestir, árið 1966 68 þús. lestir og árið 1967 60 þús. lestir.

Rétt er þó að geta þess, að afli áranna 1957—60 er að langmestu leyti reknetaafli, þar sem nótaveiði með nútímatækni var þá vart byrjuð hér sunnanlands. Hafrannsóknastofnunin hefur áætlað stærð íslenzku síldarstofnanna sem hér segir:

Árið 1962 931 þús. lestir, árið 1963 619 þús. lestir, 1964 457 þús. lestir, árið 1965 304 þús. lestir og árið 1966 270 þús. lestir. Endanlegar tölur ársins 1967 liggja ekki fyrir, en óhætt mun að fullyrða, að enn hafi gengið nokkuð á íslenzka síldarstofninn hér sunnan- og suðvestanlands á því ári.

Af framansögðu má ljóst vera, að ástandið í íslenzku síldarstofnunum er mjög alvarlegt í dag. Þessar niðurstöður eru þó ekki óvæntar, því að á undanförnum árum hefur oft verið varað við hinum stórauknu veiðum ungsíldar hér sunnanlands. Hafrannsóknastofnunin telur, að ástæðurnar fyrir hinni öru rýrnun hinna íslenzku síldarstofna séu tvímælalaust aukin veiði ungsíldar og vöntun nýrri árganga í stofnana. Orsakirnar eru því af manna völdum samkv. þessum niðurstöðum. Það er því af þessum sökum, að Hafrannsóknastofnunin lagði til á s.l. ári, að gerðar verði eftirfarandi ráðstafanir til verndar síldarstofninum:

Í fyrsta lagi: Veiðibann á smásíld verði miðað við 25 cm langa síld í stað 23 cm áður. Í öðru lagi, að settar verði reglur um hámarksveiði sunnanlandssíldar, er stuðli að því að lækka dánartöluna verulega. Fyrir árið 1968 taldi Hafrannsóknastofnunin hæfilegt að miða hámarksveiðina við 50 þús. lestir. Og í þriðja lagi, að settar yrðu reglur um veiðibann á þeim árstíma, sem síldin er lélegust til vinnslu, og þá á tímabilinu frá 1. marz til 15. ágúst.

Till. þær, sem hér hafa verið raktar, voru samþ. af ráðgjafarnefnd og stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar, en í ráðgjafarnefndinni eiga sæti fulltrúar LÍÚ, Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, fiskimannadeildar Farmannasambands Íslands, ASÍ og Sjómannasambands Íslands. Enn fremur voru till. samþ. einróma á Fiskiþingi, þ. á m. af fulltrúum allra landshluta, stjórn Fiskifélags Íslands og LÍÚ.

Á s.l. vori þótti ekki tímabært vegna hins skamma fyrirvara að setja hámarkskvóta á aflamagnið 1967. Hinn 28. marz 1967 gaf ráðuneytið út reglugerð, svo sem hv. fyrirspyrjandi hefur þegar greint frá þar sem umræddar síldveiðar fyrir Suðurlandi og Vesturlandi á tímabilinu 28. marz til 15. maí 1967 voru bannaðar. Töldu margir þá að ekki væri nógu langt gengið með þessum friðunarráðstöfunum, og kom það víða fram opinberlega á s.l. sumri. Eftir að leitað hafði verið umsagnar og álits áðurnefndra aðila að nýju og samþykki þeirra fengið, setti ráðuneytið hinn 22. febr. s.l. reglugerð um ráðstafanir til verndar íslenzku síldarstofnunum. Hefur reglugerðin að geyma þær ráðstafanir, sem Hafrannsóknastofnunin og fyrrgreindir aðilar höfðu lagt til og samþykkt. Að reglugerðin var gefin út svo snemma á árinu var m.a. vegna eindreginna óska útgerðarmanna, sem eðlilega vildu vita slíka ákvörðun með hæfilegum fyrirvara til að afstýra tjóni af ótímabærum og kostnaðarsömum undirbúningi. Samkv. reglugerðinni, svo sem hún hefur nú verið ákveðin, verður lágmarksstærð síldar, sem leyfilegt er að veiða, 25 cm í stað 23 áður. Hámarksafli sunnanlandssíldar, sem leyfilegt er að veiða á umræddu tímabili, verður 50 þús. lestir og síldveiðarnar sunnanlands og vestan bannaðar frá 1. marz til 15. ágúst.

Tilgangur þeirra ráðstafana, sem reglugerðin gerir ráð fyrir, er að koma í veg fyrir, að íslenzku síldarstofnarnir þurrkist út. Tilgangur ráðstafananna er enn fremur að koma í veg fyrir það tjón, sem af því hlytist, ef svo héldi áfram sem þróunin hefur sýnt undanfarin ár, — og hver vildi þá bera ábyrgð á því að hafa ekki sett slíkt bann?

Fyrirspyrjandi nefnir ekki aflatjón, heldur veiðarfæratjón í þessu sambandi. Í framhaldi af því er rétt að upplýsa, að s.l. sumar lágu veiðiskipin aðgerðalaus langtímum saman vegna beins aflaleysis, og þurfti aflatryggingasjóður þá að reiða fram mikla fjárfúlgu vegna aflabrestsins. Ekki hefur farið fram rannsókn á því, hve mikil verðmæti liggja í ónýttum veiðarfærum hjá einstökum útgerðarmönnum, vegna þess að síldveiðar sunnanlands hafa verið bannaðar, svo sem fyrr er greint. Gert er ráð fyrir, að í ár verði veiddar 50 þús. lestir þann tíma, sem leyfilegt er að veiða. Einnig er vert að benda á að mikinn hluta þess tíma, sem bannið gildir, stundar meginhluti bátaflotans þorskveiðar eða allt fram í miðjan maí. Þar að auki kemur til, að heimild var sett í umrætt bann til að veiða til niðursuðu eða annarrar vinnslu til manneldis og beitu. Sérstaklega vil ég taka fram að lokum, að bótaskylda hefur ekki hingað til verið orðuð af neinum, svo að vitað sé, nema af hv. fyrirspyrjanda, en eins og áður er rakið, er hér ekki um einhliða stjórnarráðstilskipun að ræða, heldur reglugerð, sem sett er samkv. till. allra hlutaðeigandi aðila, einnig útvegsmanna sjálfra. til að afstýra því, að síldarstofninn þurrkist út. Ráðstöfununum er ekki ætlað að valda tjóni, heldur að tryggja það, að hægt sé að nota hin umræddu veiðarfæri í framtíðinni.