10.04.1968
Sameinað þing: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í D-deild Alþingistíðinda. (3234)

180. mál, tjónabætur til útvegsmanna vegna banns við síldveiðum sunnanlands

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Út af fsp. þeirri, sem hv. 6. þm. Sunnl. hefur borið fram, langar mig til að segja nokkur orð, ekki þó sérstaklega vegna fsp., heldur út af ræðum þeim, er hann flutti.

Það er vert að minna á að allir aðilar, sem hafa fjallað um þetta bann, hafa talið, að það væri nauðsynlegt til að vernda stofninn, enda er ekki ágreiningur um það.

Ráðh. hefur gefið hér skýr og ótvíræð svör í sambandi við þetta mál. Það hefur sjálfsagt ekki verið neinn undirbúningur að því að rannsaka, hvað mikil verðmæti það eru, sem verða nýtt að einhverju leyti eða ekki eins og áður, og einnig hefur ekki verið athugað um bótaskyldu. Ég ætla sem sagt ekki að tala svo mikið um fsp., heldur út af því, sem hv. 6. þm. Sunnl. sagði. Hann vildi bera þetta saman við þær ráðstafanir, sem ríkisvaldið gerði, þegar dragnótaveiðarnar voru bannaðar. Ég held, að ég muni það alveg rétt, að þegar þessar ráðstafanir voru gerðar, voru nokkrar bætur veittar, en það er ekki rétt, og ég tel, að það sé vegna ókunnugleika, sem hv. þm. segir, að veiðarfærin hafi verið bætt að fullu. Ég held, að ég muni það rétt, að þetta hafi verið metið af óhlutdrægum mönnum, fjórir aðilar, ráðuneytisstjórarnir í fjm.- og sjútvmrn., formaður fiskimálasjóðs og fiskimálastjóri, fjölluðu um þetta og bæturnar voru að hálfu miðaðar við þau veiðarfæri og spil, er fyrir hendi voru, að því tilskildu, að viðkomandi aðilar skuldbyndu sig til að nota hvorki spilin né þau veiðarfæri, sem þarna var um að ræða. Ég býst við því, að engir af þeim mönnum, sem ætla sér að stunda síldveiðar á sunnanlandsmiðum, þótt í smærri stíl sé, mundu vilja afhenda þessi veiðarfæri, sem þeir eiga, fyrir hálfvirði, ef ætti að fara eftir sömu reglum. Einnig vil ég minna á í sambandi við ákvörðun í þessu máli, að á s.l. ári kom til greina að setja bann, en eins og hæstv. ráðh. upplýsti áðan, var það ekki talið tímabært, og samtök útvegsmanna bentu einmitt sérstaklega á að það væri ekki rétt að setja svona bann á miðri vertíð vegna þess viðbúnaðar, sem útvegsmenn höfðu haft fyrir veiðarnar, bæði með veiðarfærakaup og annað. Þess vegna var það á vitund allra, sem þessar veiðar stunda, að það lá í loftinu, að á þessu ári yrði sett veiðibann. Og ég man ekki betur en að afstaða útvegsmanna hafi verið í þá átt, að ákvörðun yrði tekin í byrjun ársins, svo að menn gætu lagað sig eftir því um útgerð á þennan veiðiskap.

Svo var enn eitt atriði, sem ég vildi mótmæla sem rökum fyrir þessu. Það voru þær bætur, sem á s.l. ári voru veittar þeim aðilum, sem urðu fyrir tilfinnanlegu veiðarfæratjóni, eða þær 12 1/2 millj. kr., sem veitt var. Ég tel, að það sé ekki hægt að telja það sem rök fyrir því, að það eigi að fara að bæta þetta. Ég vil segja það í þessu sambandi, að það var vegna þess, hve aflinn var lítill á vertíðinni 1987, þá voru raunverulega eftir peningar, sem ætlaðir voru til fiskuppbóta, sem notaðir voru í þessu sambandi. Þrátt fyrir það þótt hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvmrh. sýni málefnum útvegsins fullan velvilja, hika ég ekki við að segja það, að það gekk auðveldar að fá þessar 12 1/2 millj., vegna þess að þetta var afgangur af því, sem átti að fara til útvegsins á s.l. ári.