10.04.1968
Sameinað þing: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í D-deild Alþingistíðinda. (3235)

180. mál, tjónabætur til útvegsmanna vegna banns við síldveiðum sunnanlands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af þeim orðaskiptum, sem hér hafa átt sér stað.

Ég held, að það sé enginn ágreiningur um það, að það hafi verið rétt að stíga það spor, sem stigið var með því að banna þær veiðar, sem hér var um að ræða, og hefði líklega átt að grípa til þess fyrr en gert var. Það hefur líka komið hér greinilega fram, að það eru allir sammála um það. En vegna þess að hér er um nokkurt „prinsip“-mál að ræða, finnst mér ástæða til þess, að ég láti hér fram koma skoðun mína, einmitt í tilefni af þeim orðum, sem hér hafa fallið bæði hjá hæstv. ráðh. og hv. síðasta ræðumanni.

Ég tel, að það sé alveg sjálfsagt að athuga það, þegar þarf að grípa til ráðstafana eins og þessara, hvað þær leiða af sér, fyrst og fremst í því að eyðileggja eða torvelda notkun á verðmætum, sem menn hafa lagt sér til. Þetta sjónarmið var viðurkennt 1952 við útfærslu landhelginnar þá og í sambandi við það bann, sem þá var lögtekið, við veiðum í dragnót. Það lá sem sagt fyrir, að útvegsmenn áttu talsvert af dragnótaveiðarfærum, og það var viðurkennt, að þegar þyrfti að grípa til svona ráðstöfunar, sem væri þjóðhagslega rétt, þá væri rétt að athuga, hvaða áföllum einstakir aðilar yrðu fyrir í þessum efnum, og greiða þeim nokkrar bætur á móti. Ég skal ekkert um það segja í þessu tilfelli, það þarf vitanlega að fara fram athugun á því, hvað hér er um mikil verðmæti að ræða og einnig á því, að hve miklu leyti þessir útgerðarmenn geta notað veiðarfæri sín. Ég efast að vísu ekkert um það, að nokkrir þeirra geta ekki notað þau, þeir sem eru á minni bátunum. Það eru mjög litlar líkur til þess, að þeir geti notað þessi veiðarfæri fyrr en þá til kemur heimild til að veiða síld á þessum slóðum.

Ég get vel ímyndað mér, að það þurfi oftar að grípa til ráðstafana eins og þessara, að það þurfi beinlínis að banna veiðar eða gera aðrar hliðstæðar ráðstafanir, sem leiði til þess, að veiðarfæri eða aðrar eignir, sem menn hafa þurft að leggja í að kaupa, verði að meira eða minna leyti ónýtt. Og það er mín skoðun, að í slíkum tilfellum eigi yfirleitt að gilda sú regla, að hið opinbera, sem grípur til þessara ráða, eigi að athuga um þau verðmæti, sem þarna kunna að verða ónothæf, og eigi yfirleitt að greiða einhverjar bætur eða veita þeim aðilum, sem fyrir áfallinu verða, fyrirgreiðslu. Ég get t.d. ímyndað mér í þessu tilfelli, að það geti komið þeim aðilum, sem eiga svona síldarnætur, mjög vel, ef hið opinbera hefði greitt fyrir því, að þeir hefðu getað komizt að hagkvæmari lánum í sambandi við sínar veiðarfæraskuldir en þeir geta eftir venjulegum leiðum.

Það, sem ég vildi sérstaklega að hér kæmi fram, er þetta: Ég er á þeirri skoðun, að þegar grípa þarf til svona ráðstafana almennt séð, eigi fyrri reglan að gilda, að það eigi að athuga um það, hve miklar eignir veiði ónothæfar, og þá eigi yfirleitt að koma skaðabætur á móti. Því hefði ég í þessu tilfelli óskað eftir því, að það hefði farið fram athugun á því, hvað hér er um mikil verðmæti að ræða og að hve miklu leyti menn verða þarna fyrir tjóni á eignum sínum. Ég vil hins vegar ekki fallast á það, að mönnum séu greiddar neinar bætur fyrir hugsanlegt veiðitjón. Það er aftur á öðru stigi. Það var t.d. ekki gert 1952.

Ég lýsi svo yfir nokkurri undrun minni á því, að formaður Landssambands ísl. útvegsmanna taldi hér alveg sérstaklega fram öll rök gegn því, að svona bætur ættu að koma til greina Ég er á þeirri skoðun, að hin almenna regla eigi einmitt að verða sú, að um bótagreiðslur eigi hér að vera að ræða.