17.04.1968
Sameinað þing: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í D-deild Alþingistíðinda. (3239)

205. mál, átta stunda vinnudagur

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Fsp. er um það, hvenær vænta megi álits n. þeirrar, sem var kosin samkv. ályktun Alþ. 18. des. 1961 til að rannsaka, á hvern hátt og með mestum árangri verði komið á 8 stunda vinnudegi meðal verkafólks.

Hinn 18. des. 1961 var afgreidd samhljóða frá Alþ. þál. um ráðstafanir til að koma á 8 stunda vinnudegi. Samkv. till. var ákveðið að kjósa 5 manna n. til að rannsaka á hvern hátt verði með mestum árangri komið á 8 stunda vinnudegi meðal verkafólks. Um verkefni n. sagði svo í ályktuninni:

„Skal n. framkvæma athugun á lengd vinnutíma verkafólks, eins og hann er nú, og áhrifum hans á heilsufar, vinnuþrek og afköst svo og hag atvinnurekstrar. Á grundvelli þessara athugana skal n. gera till. um ráðstafanir til breytinga á vinnutilhögun og rekstrarfyrirkomulagi atvinnufyrirtækja, er gætu stuðlað að styttingu vinnudags verkafólks án skerðingar heildarlauna og að aukinni hagkvæmni í atvinnurekstri. Skulu till. miðast við að verða æskilegur samningsgrundvöllur milli stéttarfélaga verkafólks og samtaka atvinnurekenda. N. skal enn fremur gera till. um, hvernig löggjafinn geti stuðlað að ákvörðun um eðlilegan hámarksvinnutíma.

N. skal kveðja sér til ráðuneytis fulltrúa Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og aðra fulltrúa hagsmunasamtakanna, eftir því sem þörf er á. Hún skal einnig hafa heimild til að láta fara fram sérfræðilegar athuganir, sem nauðsynlegar eru að mati hennar.“

Kosning n. fór fram á þingfundi 19. des. 1981, og voru kosnir í n. fjórir alþm. og einn útgerðarmaður.

Fsp. mín er borin fram af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi vil ég fá upplýst, hver hafi orðið árangurinn af störfum n., því að opinberlega er lítið um hana vitað.

Í öðru lagi finnst mér ærin ástæða til að vekja þetta mál upp að nýju. Það er að vísu ekki eins mikið áhyggjuefni nú og oft áður, að vinnutíminn sé of langur. Mjög hefur dregið úr atvinnu að undanförnu. Hitt er hins vegar sízt minna áhyggjuefni nú en áður, hvernig vinnutekjur eftir 8 stunda vinnudag eigi að hrökkva fyrir brýnustu nauðþurftum. Það er því sízt minna rannsóknarefni nú en áður, hvernig þeirri breytingu verði komið á vinnutilhögun og rekstrarfyrirkomulag atvinnufyrirtækja, að vinna 8 stunda vinnudags tryggi sæmileg lífskjör. Því vildi ég stuðla að því með þessari fsp., að umrædd n. eða einhver annar aðili hefjist handa um það rannsóknarstarf, sem er svo nauðsynlegt og aðkallandi, að hér verði af hendi leyst.