17.04.1968
Sameinað þing: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í D-deild Alþingistíðinda. (3241)

205. mál, átta stunda vinnudagur

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka ráðh. fyrir það svar, sem hann gaf mér, svo langt sem það náði. En mér sýnist á því, að í raun og veru hafi þessi n. ekki starfað neitt síðan 1965 og starf hennar hafi strandað á því, að hún fékk daufar undirtektir undir ákveðið frv. að lögum, sem hún hafði samið. En mér sýnist, að það frv. hafi ekki náð yfir nema takmarkaðan hluta af verkefni n., svo að það hefði verið áþarft að láta störf hennar falla niður vegna þess, því að eins og fram kemur í till., var aðalverkefni n. að framkvæma rannsókn á vinnutilhögun og rekstrarfyrirkomulagi atvinnufyrirtækja með það fyrir augum, að komið verði þar á þeirri skipan, að 8 stunda vinnudagur nægi til þess að tryggja sæmilega lífsafkomu.

Sem sagt, n. hefur hætt störfum um 1965 eða lítið unnið síðan annað en það að bíða eftir svörum frá félagasamtökum um ákveðið frv., sem hún hafði samið, og mér skilst, að að fengnum svörum nokkurra þessara aðila hafi hún tilkynnt, að ekki væri ástæða til þess fyrir hana að halda áfram störfum.

Ég verð að segja það, að ég tel það mjög miður farið, að slík starfsemi skuli hafa fallið niður, og ég álít, að þó að það hafi verið mikil þörf að hefja þetta starf á sínum tíma, 1961, þá sé ennþá meiri ástæða til þess að taka það upp nú. E.t.v. hefur það fallið niður að einhverju leyti 1965 og 1966, vegna þess að þá var atvinnuástand hér gott og menn höfðu þess vegna ekki eins miklar áhyggjur í þessu sambandi og þeir hafa nú, þegar aðstæður eru orðnar allt aðrar og menn geta ekki treyst á mikla eftirvinnu eins og áður, heldur jafnvel tæplega gert sér von um að fá 8 stunda vinnudag.

Ég vil því að lokum leggja áherzlu á það, að þetta starf verði hafið að nýju með einhverjum hætti, hvort heldur það verður í einhverri n. eða einhver annar aðili tekur það upp, og það verði gert meira að því en áður að leita eftir samvinnu milli viðkomandi stéttarsamtaka, samtaka launþega og atvinnurekenda, um það, að þessi vinna verði tekin upp með skipulegum hætti að nýju, því að ástandið er þannig í dag, að við þörfnumst þess vissulega. Vonir okkar um það, að hægt verði að bæta aðstöðu launþega í náinni framtíð, byggjast að mínum dómi fyrst og fremst á því, að það verði hægt að koma á betri vinnutilhögun og rekstrarfyrirkomulagi hjá atvinnufyrirtækjum, á þeim grundvelli einum geti orðið um raunhæfar kjarabætur og kauphækkanir að ræða. Þess vegna þarf að leggja enn þá meira kapp á það, að þetta rannsóknarstarf sé unnið, sem hefur því miður verið látið niður falla á undanförnum árum.