15.12.1967
Neðri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekkert sérlega fýsilegt að ræða hér við tóma ráðherrastóla, þótt skilningur stólanna sé kannske ekki neitt minni en skilningur ráðh. yfirleitt í viðræðum við okkur þm., sem ætlazt er til, að afgreiðum hér lög með forgangshraða dag eftir dag, án þess að hæstv. ráðh. láti svo lítið að vera hér að ræða við okkur. En ég ætlaði ekki að tefja þessar umr. neitt sérlega lengi. Ég hef aðeins saknað þess í þessum fróðlegu umr., að ekki hefur verið minnzt á það, hvernig 1. gr. þessa frv. er til komin, um skattfríðindi handa farmönnum. Hún stafar sem sé ekki af því, að hæstv. ríkisstj. hafði upptendrazt af einhverri snöggri réttlætiskennd, heldur er þessi gr. afleiðing af tveimur verkföllum, sem hafa verið háð hér á þessu ári, verkföllum yfirmanna á farskipum. Fyrra verkfallið, sem var hér fyrri hluta árs, var bannað með sérstakri löggjöf um tiltekinn tíma. Síðan var verkfallið hafið aftur í haust og þá var hins vegar samið. Yfirmennirnir fóru sem kunnugt er fram á allverulega kauphækkun, en samningarnir voru í því fólgnir, að hæstv. ríkisstj. tók að sér að greiða kauphækkunina fyrir skipafélögin, og þessi 1. gr. hér er þannig til komin. Og þegar við fjöllum um þessa gr. og afgreiðum hana, eigum við að sjálfsögðu að gera okkur ljóst, hvað við erum að gera. Í þessari gr. eru fólgnar allverulegar raunverulegar kauphækkanir. Þau skattfríðindi, sem farmenn fá þarna, eru 36 þús. kr. á ári. Sú upphæð á að vera skattfrjáls. En hjá yfirmönnum á farskipum, sem hafa sumir sæmilega háar tekjur, mundi þetta þýða allverulega hækkun á raunverulegu kaupi. Af 36 þús. kr. hjá slíkum mönnum mundu, ef tekjurnar væru ekki skattfrjálsar, fara um 60% í opinbera skatta, svo að það eru um 21600 kr., sem er raunveruleg kauphækkun. Ef farmennirnir hefðu átt að fá samsvarandi kjarabót með venjulegri kauphækkun, sem yrði seld undir þá sök, að teknir væru af henni skattar, hefðu þeir orðið að semja um kauphækkun, sem nam 54 þús. kr. Ef um er að ræða menn, sem komast upp í 400 þús. kr. árstekjur, sem dæmi munu vera um meðal þessa fólks, væri slík hækkun hvorki meira né minna en 14%.

Ég er sammála þessari gr., en ég tel alveg einsætt, að við verðum að vita, hvað við erum að gera, og það er auðvitað ekki nokkur hemja á því, sem hæstv. fjmrh. sagði, þegar hann mælti hér fyrir þessu frv. í upphafi, að í þessu fælist ekki fordæmi fyrir aðra. Það gefur auga leið, að í þessu er fordæmi fyrir aðra. Það er ekki nokkur vafi á því, að verkalýðsfélög almennt taka eftir því, að verið er að semja um þessa kjarabót til farmanna, og þegar þeir fá sínum réttlætiskröfum fullnægt, er erfiðara að standa gegn því, að önnur félög komi með réttlætiskröfur sínar einnig.

Að því er varðar sjálfa regluna um skattfríðindi sjómanna og að hún sé sérstaks eðlis, er vafalaust mikið til í því. En það er líka til fólk í landi, sem hefur ósköp svipaða aðstöðu. Ég vil minna á fólk, sem vinnur að fiskvinnu í landi. Það er kallað til starfa á öllum tímum sólarhrings, eftir því sem við á, og mér fyndist ákaflega eðlilegt, að þetta fólk fengi hliðstæð skattfríðindi og sjómenn fá. Fyrir því eru full rök. En sem sagt, það er aðeins þetta atriði, sem ég vildi að kæmi fram hér í þessum umr., að það sé algerlega ljóst, hvað við erum að samþykkja. Við erum að samþykkja kauphækkun til farmanna, kauphækkun, sem ég tel alveg sjálfsagða.