18.12.1967
Efri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Í 1. gr. þessa frv. eru ákvæði um viss hlunnindi sjómönnum til handa í sambandi við frádrátt á skattframtölum þeirra. Með ákvæðum 1. gr. er stefnt að því að gera víðtækari þá heimild, sem að þessu leyti hefur verið í lögum alllengi, og koma þannig í veg fyrir misræmi í þessu efni á milli einstakra hópa innan sjómannastéttarinnar. Um þetta mun ekki vera ágreiningur og er vissulega ástæða til að veita sjómönnum þau hlunnindi, sem gr. kveður á um.

En í þessum frádráttarliðum eru þrjú atriði, sem þar koma til greina, þ.e. fæðisfrádráttur, frádráttur vegna hlífðarfata og í þriðja lagi sérstakur frádráttur, tiltekin upphæð, sem frvgr. kveður á um. Það er nokkuð langt síðan gengið var til móts við óskir sjómanna í löggjöfinni í þessu efni. Þó hafa þessi hlunnindi verið veitt í áföngum. Það mun hafa verið á þingi 1953, þegar fjallað var um skattalagabreytingu, að samþykkt var að veita sjómönnum frádrátt vegna hlífðarfata og fæðisfrádrátt, og hefur það verið í skattalögunum síðan. En á þingi 1956 var aftur gengið það til móts við óskir sjómanna að ákveða hinn sérstaka frádrátt, sem einnig er rætt um í 1. gr. þessa frv. Og þau lagaákvæði voru staðfest með l. nr. 37/1957.

Þegar þessi lagaákvæði um hinn sérstaka frádrátt voru sett í fyrsta skipti, var miðað við, að þeirra hlunninda gætu notið þeir sjómenn á fiskiskipum, sem hefðu stundað sjómennsku 3 mán. eða lengur á skattárinu. Og þannig hélzt þetta í löggjöfinni í nokkur ár og var framkvæmt þann tíma á þennan hátt. Meðan þetta var framkvæmt á þennan hátt, nutu þessa frádráttar sjómenn, t.d. úr sveitunum og úr þorpum, þar sem atvinna er stopul, en menn leita sér atvinnu tiltekinn tíma, sérstaklega á vetrarvertíð við Suðurland, þar sem útgerðin er venjulega mest frá því um áramót og fram í maí.

En þegar skattalögin voru til heildarendurskoðunar á þinginu 1961 og þau skattalög voru svo staðfest sem l. nr. 70 28. apríl 1962, var þessu ákvæði um hinn tilskilda tíma, sem sjómaður hefði átt að starfa á fiskiskipi, breytt þannig, að þriggja mán. tímabilið var fært í 6 mán. Við þessa breytingu með lögunum 1962 skapaðist það misræmi, að menn, sem róa 3–4 mán. á vetrarvertíð, en gegna síðan öðrum störfum að sumrinu, voru sviptir þessum sérstaka frádrætti, sem þeir höfðu þó notið um nokkurt árabil.

Nú er það svo, að það hefur lengi tíðkazt hér á landi, að menn leituðu sér atvinnu í fjarlægum landshlutum burtu frá heimili sínu, þar sem þörf er fyrir vinnuafl. Þetta er vissulega gott fyrir þá, sem atvinnunnar leita, en það er einnig gott fyrir atvinnureksturinn, sem þarf á vinnuafli að halda, og stundum hefur þörfin í heim efnum verið svo brýn, að það hefur þurft að sækja sjómenn á fiskiskipaflotann til annarra landa, a.m.k. til Færeyja. Og ég held, að það sé þjóðfélagslega hagkvæmt og sjálfsagt að beina því vinnuafli, sem þannig er laust úr sveitunum og þorpunum víða út um land og leitar sér atvinnu, fremur að sjávarútveginum heldur en að stóriðjuframkvæmdum eða ýmsum öðrum atvinnugreinum. Nú, þegar verið er að endurskoða þessi lög og sérstaklega með það fyrir augum að koma í veg fyrir misræmi milli einstakra hópa sjómannastéttarinnar, þá tel ég tilvalið tækifæri að koma því að, að taka þetta nú til endurskoðunar og færa þetta tímatakmark, sem gert er að skyldu, að menn hafi starfað á fiskiskipi, í það horf, sem þar var í löggjöfinni á tímabilinu 1957 –1962.

Ég vil því leyfa mér að bera fram um þetta skriflega brtt. Hún er við 1. gr. og hljóðar þannig:

„Í stað „sex“ í 2. málsgr. komi: þrjá.“

Þó ég veki athygli á þessu nú við 2. umr., er mér það ekkert kappsmál, að atkvgr. um þessa till. fari fram fyrr en við 3. umr., ef fjhn. og hæstv. fjmrh. teldu ástæðu til að taka þetta til athugunar á milli umr. Ég afhendi hæstv. forseta þessa brtt. og vænti þess, að hann leiti afbrigða fyrir henni.