12.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Stjórnarsamningur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það getur tæpast talizt til tíðinda, að ríkisstj. segist ætla að halda áfram. Þessu lýsti hún sem sé yfir strax að loknum kosningunum. Það telst þá raunar ekki heldur til nýrra frétta, að Framsfl. styður ekki þessa ríkisstj. Við teljum, að ríkisstj. fylgi í grundvallaratriðum rangri stefnu og hefur það aldrei verið augljósara að okkar dómi en einmitt nú. Við álitum þessa ríkisstj. þar að auki allt of veika til þess að glíma við þau vandamál, sem við er að etja. Við teljum hana alls ekki njóta þess trausts, sem til þess þarf, og hefur viðhorfið til ríkisstj. alveg tvímælalaust breytzt verulega að þessu leyti frá því um kosningar við þau tíðindi, sem nú eru fram komin.

Verðlagi nokkurra þýðingarmikilla vörutegunda hefur verið haldið niðri undanfarna mánuði, nánar til tekið meðan á kosningabaráttunni og kosningunum stóð. Þetta hefur verið gert með því að greiða niður verð þessara vörutegunda, til þess að halda niðri vísitölunni, en án þess að fjár væri aflað til niðurgreiðslnanna. Þessi verðstöðvun á yfirborðinu gat ekki staðið nema stutta stund, eins og nú er komið á daginn með yfirlýsingu hæstv. forsrh. hér í dag um, að nú verði þeim niðurgreiðslum hætt, sem ákveðnar voru í fyrra og kallaðar voru verðstöðvun. Kemur því verðhækkunarbylgjan nú upp á yfirborðið eins og vita mátti og skellur á með fullum þunga, enda bætist það nú við stórfelldar verðhækkanir helztu nauðsynja, að lagðir verða á nýir skattar í ótal myndum. Er sagt, að þetta sé þó aðeins til þess að rétta eitthvað við ríkissjóðinn, en ekki á einn eyrir af hinum nýju álögum að ganga til atvinnuveganna. Bætist þetta ofan á þann vanda, sem fyrir var og öllum augljós og ég mun ekki rekja mjög í þessari stuttu greinargerð fyrir afstöðu Framsfl. En nefna verður, að strax í fyrravetur, áður en verðlag fór að falla á útflutningsafurðum, voru margar meginatvinnugreinar landsins komnar á uppbætur og í stórfelldan vanda, m.a. vegna verðbólgu og rekstursfjárskorts. Hafa þeir erfiðleikar magnazt við það verðfall, sem orðið hefur á útflutningsvörum. En um það verðfall er það að segja, að þótt það sé mjög tilfinnanlegt, stendur útflutningsverð yfirleitt nú að jafnaði betur en þegar ríkisstj. tók við.

Þótt svona sé ástatt um atvinnuvegina, er kaupgjald fyrir venjulegan vinnudag þannig, að óhugsandi er að framfleyta á því fjölskyldu sómasamlega með þeim húsnæðiskostnaði, sem orðinn er. Ríkisbúskapurinn er rekinn með halla. Látlaust er skorið niður fé til nauðsynlegustu þjónustuframkvæmda og gefizt upp við niðurgreiðslurnar, sem fram að þessu áttu að vera allra meina bót. Eru nú ráðgerðar álögur upp á 750–800 millj. kr. í formi verðhækkana á niðurgreiddum vörum og með nýjum sköttum, án þess, eins og ég sagði áðan, að af því gangi nokkurt fé af hinum nýju álögum til þess að leysa vandkvæði atvinnuveganna.

Við framsóknarmenn teljum ástandið svo alvarlegt, að endurskoða þurfi þjóðarbúskapinn frá rótum, eins og nú er komið, og breyta um stefnu í grundvallaratriðum. Meginkjarni nýrrar stefnu verður að vera endurreisn íslenzkra atvinnuvega. Ríkisvaldið verður að hafa forustu, eins og nú er búið að lama íslenzkan atvinnurekstur og íslenzkt framtak, forustu, sem byggist á miklu nánara samstarfi ríkisvalds og einstaklinga og félagasamtaka en áður hefur komið til hér á landi. Endurskoða verður í nánu samstarfi við þessa aðila hverja starfsgrein í þjóðarbúinu fyrir sig og beita ríkisvaldi og peningastofnunum til þess að koma í framkvæmd því, sem gera þarf þeim til stuðnings, viðréttingar og eflingar, leggja áherzlu á nýjungar og stuðning við íslenzkt framtak umfram allt. Það verður að vera liður í hinni nýju stefnu að taka upp náið samstarf við launþegasamtökin og samtök bænda um kjaramál launþega og bænda og leysa þau á þeim grundvelli, að kaupmáttur launa og bændatekna lækki ekki og geti framvegis farið vaxandi og þannig þokast að því marki, að menn geti hér eins og annars staðar lifað á dagvinnu sinni. Verða þessi mál ekki slitin úr sambandi við málefni atvinnuveganna, íbúðarmálin og aðra þætti, en samkv. yfirlýsingu hæstv. forsrh. er nú fyrirhugað að fara þveröfugt að og lögfesta kauplækkun launafólks og bænda og rifta kaupgjaldssamningum og þar með öllu því, sem samið hefur verið um. Verður að mótmæla þvílíkum vinnubrögðum og vara sterklega við þeim.

Við teljum ástandið svo alvarlegt, að heildarendurskoðun allra meginþátta þjóðarbúsins sé lífsnauðsyn, eins og ég sagði áðan, og að henni hefði þurft að vinna af kappi í sumar, og nú án tafar, fyrst svo var ekki gert. Framsfl. treystir ekki núv. ríkisstj. til þess að hafa forustu um þá endurskoðun og það viðtæka samstarf, sem nauðsynlegt er nú til lausnar á vandamálunum.

Við teljum ekki fært að slíta út úr einstök atriði þessara mála og láta eins og önnur séu ekki til, og þau vinnubrögð munum við ekki styðja, heldur beita okkur eindregið fyrir þeirri stefnubreytingu í atvinnu- og efnahagsmálum, sem við teljum meira aðkallandi en nokkru sinni fyrr. Við viljum leggja áherzlu á, að neyðarráðstafanir til bráðabirgða munu reynast haldlausar, ef ekki verður tekizt á við þau grundvallarvandamál, þær grundvallarmeinsemdir, sem nú þjaka ísl. atvinnurekstur. Verður það eitt okkar aðalverkefni á þessu þingi að berjast fyrir þessari stefnubreytingu.

Enn fremur vil ég nefna örfá einstök mál, sem við munum beita okkur fyrir, en sú upptalning er þó að sjálfsögðu engan veginn tæmandi. Ég nefni endurskoðun fræðslukerfisins, skv. þeirri stefnu í fræðslumálum, sem mörkuð var á síðasta flokksþingi framsóknarmanna, og byggingu nýrra, hentugra skólahúsa, til þess að bæta úr skólaskortinum. Nýtt heildarskipulag heilbrigðismála og aukna heilbrigðisþjónustu. Stóraukin átök í vegamálum, sem byggjast þurfa á því, að tekjur af umferðinni renni allar til vegamála og verulegum lántökum. Endurskoðun íbúðarmálanna með það sjónarmið fyrir augum, að vandamál atvinnulífs og launþega verða ekki farsællega leyst, nema betri tök náist á þeim málum, og stóraukinn stuðningur komi til við byggingu hentugs íbúðarhúsnæðis.

Við viljum beita okkur fyrir nýrri, sterkri stofnun til þess að vinna að framkvæmdum til eflingar jafnvægis í byggð landsins. Vinna að því að ljúka á 2 árum dreifingu raforku til þeirra sveitabæja, sem fá eiga raforku frá samveitum, og styðja hin heimilin í sveit til þess að afla sér rafmagns með öðru móti. Við teljum þýðingarmikið að hraða dreifingu sjónvarps. Við munum vinna að því að ýta á eftir löggjöf um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og endurbótum á almannatryggingunum. Við munum berjast fyrir því að fá hluta af gjaldeyriseigninni lagðan til hliðar til þess að styðja með því fé endurreisn íslenzkra atvinnuvega og framkvæmd nýjunga í atvinnurekstri og koma upp sérstökum framleiðnilánveitingum í sama skyni.

Við munum beita okkur fyrir því, að bættur verði hlutur íslenzks iðnaðar í sambandi við uppbótargreiðslur og jafnrétti innleitt í því efni og enn fremur í sambandi við aðrar hliðstæðar ráðstafanir. Þá munum við vinna að því, að tekið verði upp samstarf allra flokka um framkvæmdir í landhelgismálinu og undirbúning þeirra og til friðunar uppeldisstöðva í hafinu. Enn fremur viljum við vinna að því, að sá háttur verði upp tekinn, að ekkert verði aðhafzt varðandi samninga við EFTA eða Efnahagsbandalagið, nema að undangengnu samráði allra stjórnmálaflokka.

Loks vil ég benda á, að ástandið er svo alvarlegt, að brýna nauðsyn ber til að gera bráðabirgðaráðstafanir í lánamálum tafarlaust til þess að tryggja, að heilbrigð fyrirtæki þurfi ekki að stöðva rekstur sinn og hætta vegna reksturstapa, á meðan leitað er úrræða, því að fyrirtækin geta ekki greitt töpin með skipum sínum, vélum, húsum eða öðrum búnaði.

Þá þolir það enga bið lengur, að ákveðið verði og tilkynnt, hvað gert verður til stuðnings þeim bændum, sem fyrir áföllum urðu á þessu ári vegna kalskemmda og grasleysis. Mörg fleiri mál mætti nefna, sem við munum beita okkur fyrir, en ég læt þetta nægja, herra forseti.