12.12.1967
Efri deild: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

23. mál, almannatryggingar

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. d. hefur tekið þetta frv. til athugunar á milli 2. og 3. umr. samkv. eindregnum tilmælum frá heilbrmrn. og félmrn. og árangur þeirrar athugunar eru þær brtt., sem liggja hér fyrir á þskj. 115. Þessar brtt. snerta lítið aðalefni þessa frv., eins og það var hér í upphaflegum búningi, heldur má segja, að frekar sé verið að nota tækifærið, þar sem hér liggur fyrir frv. til I. um breytingar á almannatryggingal., til að koma hér að öðrum nauðsynlegum breytingum heldur en þeim, sem þetta frv. átti upphaflega að taka til. Þessum brtt. á þskj. 115 má í rauninni skipta algerlega í tvennt. Það eru annars vegar liðir 1, 2 og 3 aftur að síðustu mgr., sem hefst á „sú leiðrétting“. Þessar brtt., 1. liður, 2. liður og fyrri hluti 3. liðar heyra alveg saman, en síðasta mgr. 3. liðar er hins vegar sérstaks eðlis, og ég ætla þá fyrst að rekja hér lítillega efni þessarar fyrri brtt.

Þessi till. er samin af þriggja manna n., sem var þannig skipuð, að einn var tilnefndur af heilbrmrn., einn af Reykjavíkurborg og sá þriðji af Landssambandi sjúkrahúsa. Eins og sést á þskj. 115, er aðalefni þessarar brtt., að frá og með 1. jan. 1969 skuli daggjöld opinberra sjúkrahúsa, hæla og annarra stofnana greidd samkv. ákvörðun 5 manna n., sem sé skipuð þannig, að fjmrh. skipar einn, Tryggingastofnun ríkisins einn, Landssamband sjúkrahúsa einn, Samband ísl. sveitarfélaga einn og heilbrmrh. skipar einn, sem jafnframt er formaður n. N. þessi skal ákveða daggjöld og gjaldskrár á þann hátt, að heildartekjur stofnananna miðist við að standa straum af öllum eðlilegum rekstrarkostnaði, enda séu gjöldin í samræmi við hagkvæman rekstur og þá þjónustu, sem stofnunin veitir. Heilbrmrh. setji reglugerð, þar sem kveðið sé nánar á um starfssvið n. og framkvæmd. Fram til þessa hefur þessum málum verið þannig háttað, að Tryggingastofnun ríkisins hefur samið við sjúkrahúsin um daggjöldin og ef samningar hafa ekki tekizt, hefur heilbrmrn. úrskurðað daggjöldin. Í reynd hefur þetta orðið þannig, að daggjöldin hafa orðið of lág til þess að standa undir eðlilegum kostnaði við rekstur sjúkrahúsanna og þeir aðilar, sem sjúkrahúsin reka, bæði ríki og sveitarfélög, hafa þurft að greiða allmikinn halla árlega. Væntanlega mundi leiða af þessari breytingu, að daggjöldin yrðu miðuð við raunverulegan rekstrarkostnað og þá fylgdi það í kjölfar þessarar breytingar, að allur rekstrarkostnaður þessara sjúkrahúsa, ef svo má að orði komast, kæmi undir tryggingakerfið, en ekki þannig, að einhver hluti af honum sé undir því og svo sé hallinn greiddur þar að auki af ríki og sveitarfélögum.

Í 2. lið þessarar brtt. er lagt til í samræmi við þetta, að framlög ríkisins og sveitarfélaganna til sjúkratrygginganna hækki úr 170% hjá ríkinu í 250% og hjá sveitarfélögum úr 65% í 85%, en á móti þessu kæmi að sjálfsögðu, að hallareksturinn félli væntanlega að mestu leyti niður.

Þá er hér ákvæði til bráðabirgða. Á árinu 1968 skal framlag ríkissjóðs samkv. 1. mgr. 55. gr. vera 170% greiddra sjúkrasamlagsiðgjalda samlagsmanna og framlag sveitarsjóðs samkv. 3. mgr. skal vera 65%. Þetta leiðir af því, sem er rétt að undirstrika hér, að þetta nýja kerfi á ekki að taka gildi nú um áramótin, heldur, eins og segir í upphafi brtt., á það að ganga í gildi 1. jan. 1969 eða eftir rúmt ár. Og það skal líka tekið fram, að það kann að þurfa að endurskoða fleiri ákvæði tryggingalaganna í sambandi við þessa breytingu og gefst þá þarna tími og svigrúm til þess. Hins vegar töldu þeir aðilar, sem þessa brtt. höfðu samið og sérstaklega var falið að rannsaka þetta mál, að það væri brýn nauðsyn, að þetta kæmi hér sem nokkurs konar stefnuskráratriði inn í lögin nú þegar.

Þá skal ég snúa mér að lokaákvæðinu í þessum brtt., sem er nú flutt eftir ósk félmrn., en það er síðasta mgr. í 3. lið brtt. Þar segir, að sú leiðrétting, sem ákveðin er í 4. mgr. 24. gr. l. á framlögum hinna tryggðu og atvinnurekenda skuli falla niður og halli, sem af þessu leiðir, skal tekinn úr varasjóði lífeyristrygginganna fyrir 31. des. 1967. Hér er um að ræða sams konar ákvæði og var í frv. því um efnahagsaðgerðir, sem borið var fram í Nd. í upphafi þings í haust. Það var 28. gr. þess frv., en það frv. er nú eiginlega úr sögunni vegna gengisbreytingarinnar, en hins vegar nauðsynlegt að lögfesta þetta atriði. En þessi brtt. eða þetta ákvæði efnahagsmálafrv., sem hér er nauðsynlegt að leiðrétta eða koma hér inn í þetta frv., þannig að það verði lögfest fyrir áramótin, grundvallast á því, að á yfirstandandi ári var halli á tryggingunum. Tryggingastofnun ríkisins fékk ekki að hækka iðgjöld sin hvorki frá atvinnurekendum né einstaklingum vegna verðstöðvunarinnar og þannig varð halli á tryggingunum. Eftir að verðstöðvun er nú að þessu leyti úr sögunni a.m.k., og ef lögum væri ekki breytt, mætti Tryggingastofnunin samkv. almennri heimild í tryggingal. jafna þennan halla eða bæta sér hann upp með því að hækka gjöldin fyrir næsta ár. En það er ekki meiningin, að það sé heimilað, heldur skuli hann tekinn úr varasjóði trygginganna, þessi halli, og þess vegna er þessi brtt., sem upphaflega kom fram í efnahagsfrv., tekin hér upp.

Heilbr.- og félmn. hélt fundi um þessi mál, eftir að 2. umr. var lokið. Á fundina kom m.a. ráðuneytisstjórinn í félmrn., Hjálmar Vilhjálmsson, og skýrði þetta mál fyrir nm. og urðu nm. allir sammála um að mæla með því, að þessar brtt. næðu fram að ganga og n. samþykkti að flytja þessar brtt., eins og sést á þskj. 115, en rétt er að geta þess, að á þessum fundi voru tveir nm. fjarverandi, þeir hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 4. þm. Norðurl. e.