15.12.1967
Neðri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

76. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 140, en varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. hefur skilað séráliti og leggur til, að það verði fellt. Að efni til er frv. mjög einfalt. Það er um það eitt, að það ákvæði, sem verið hefur í l. nr. 10 frá 22. marz 1960, þar sem gert er ráð fyrir, að þjónusta pósts og síma sé undanþegin söluskatti, verði numið úr lögum. Í framsöguræðu hæstv. fjmrh. kom það fram, að hann taldi nauðsynlegt fyrir sig að hafa heimild til, að söluskattur yrði lagður á þjónustu pósts og síma, þó að við athugun kæmi í ljós, að e.t.v. þyrfti það á þessu stigi ekki að koma til framkvæmda. Og það kom einnig fram hjá honum, að ef söluskattur á þessa þjónustu yrði til þess að hækka gjaldskrá pósts og síma, mundi heimildin í bili a.m.k. tvímælalaust ekki verða notuð.

Eins og ég sagði í upphafi, herra forseti, leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.