19.10.1967
Sameinað þing: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

1. mál, fjárlög 1968

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í kosningabaráttunni á s.l. vori lögðum við framsóknarmenn áherzlu á það, að nauðsyn bæri til að efla íslenzka atvinnuvegi og við vöruðum við trú á áframhaldandi verðstöðvun. Hv. þm. Ólafur Jóhannesson komst m.a. svo að orði í eldhúsdagsumr. á s.l. vori um þessi atriði:

„Hin svonefnda verðstöðvun, eins og til hennar er stofnað nú, er því miður að verulegu leyti blekking, víxill, sem þarf að greiða eftir kosningar. Ef raunveruleg verðstöðvun ætti að takast, hefði fyrst þurft að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll.“

Í kosningabaráttunni vorum við framsóknarmenn stimplaðir af stjórnarliðinu sem barlómsog svartsýnismenn fyrir þessar aðvaranir okkar. Máli mínu til sönnunar um það, hvað stjórnarliðar töldu slíka aðvörun fráleita, vil ég leiða fram vitni, sem er leiðari Morgunblaðsins 29. apríl 1967, en þar segir svo m.a. með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur réttilega verið bent á, að vegna þess hversu viðreisnarstjórnin hefur styrkt efnahag landsmanna og efnahagskerfið í heild, hefur tekizt að leysa hin tímabundnu vandamál, án þess að það hafi leitt til kjaraskerðingar inn á við eða haftastefnu út á við. En óhætt er að fullyrða, að fyrir aðeins einum áratug hefði slíkt verðfall valdið hinum mestu búsifjum með þjóðinni.“

Svo mörg voru þau orð. Ekki lá hlutur þeirra stjórnarliða eftir á framboðsfundunum. Allt var í góðu lagi að þeirra dómi, grundvöllur atvinnuveganna traustur og verðstöðvun tryggð. En nú eru kosningarnar afstaðnar. Stjórnarliðar halda enn þá þingstyrk til þess að ráða málum þjóðarinnar. Það þarf því enginn að ugga um sinn hag samkv. þeim fyrirheitum, er þeir gáfu í kosningabaráttunni, og út á þau héldu þeir meiri hluta sínum á Alþ. En hvaða boðskap flytur svo fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir til 1. umr.? Á bls. 129 í grg. fjárlagafrv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef áfram hefði átt að halda öllu verðlagi í skefjum með niðurgreiðslum og jafnframt að verja fé til aðstoðar sjávarútveginum með sama hætti og í ár, hefði þurft að afla 750 millj. kr. nýrra tekna. Þetta telur ríkisstj. ekki auðið að gera með nýjum sköttum. Eftir að hafa athugað allar aðstæður gaumgæfilega, er gert ráð fyrir að brúa þetta bil með eftirgreindum ráðstöfunum:

Felldar verði niður allar þær niðurgreiðslur á vöruverði, sem teknar hafa verið upp eftir 1. ágúst 1966. Mundi sú fjárhæð hafa numið 410 millj. kr. á næsta ári. Fasteignamat til eignarskatts verði tólffaldað, en sexfaldað í sveitum jafnhliða tvöföldun á skattfrjálsri lágmarksupphæð. Er áætlað, að sú tekjuöflun gefi 62 millj. kr. Lagður verði á farmiðaskattur vegna utanlandsferða. 3000 kr. á farseðil. Er sá tekjuauki áætlaður 60 millj. kr. Undanþága söluskatts af þjónustu pósts og síma og útvarpi verði felld niður, er mun gefa 40 millj. kr. og að auki er áætlað, að póstur og sími geti skilað 20 millj. kr. rekstrarafgangi til ríkissjóðs.“

Eru þær aðgerðir, sem hér eru boðaðar, í samræmi við kosningafyrirheit stjórnarliða? Var þar boðuð kjaraskerðing? Fjarri fór því eins og áður er sannað. Það, sem hér hefur þegar gerzt, er það, að verðstöðvunin er brotin á bak aftur á gildistíma l. af ríkisstj. sjálfri. Verðhækkanirnar flæða nú yfir, skattahækkanir eru boðaðar. Hver er ástæðan fyrir þessum aðgerðum? Erfitt árferði og afkoma atvinnuveganna, segir ríkisstj. Við skulum athuga það nokkru nánar.

Því er fyrst til að svara, að það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir hv. Alþ., er ekkert frábrugðið fyrri fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. að öðru leyti en formi og uppsetningu. Einkennin eru þau sömu og verið hafa, en þau eru þessi: Það er hærra en nokkurt annað fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram á Alþ. Það eru teknar fleiri kr. af þjóðinni í sköttum og tollum en fyrr. Það er hlutfallslega minna fé varið til verklegra framkvæmda en áður. Það örlar hvergi á sparnaði í ríkisrekstrinum. Að þessu leyti er fjárlagafrv. eins og verið hefur. Það kemur hvergi fram í því, að ríkisstj. telji, að erfitt árferði eigi að koma fram á stjórnarheimilinu. Það þarf heldur ekki að vera í sambandi við erfitt árferði, þó að ríkisstj. fari til fanga við afgreiðslu fjárl. Það er heldur ekki nýtt á hv. Alþ. í tíð núv. valdhafa, að þurft hafi að afla fjár til aðstoðar við atvinnuvegina, þótt hvorki hafi verið um aflabrest né verðlækkun að ræða. Það mun ég sanna með dæmum.

Í ársbyrjun 1964 var söluskattur hækkaður um 21/2% vegna aðstoðar ríkissjóðs við sjávarútveginn og aukinna niðurgreiðslna. Nam sú fjárhæð um 200 millj. kr. Í desember það sama ár var söluskatturinn hækkaður á ný og nú um tæpar 300 millj. kr. til að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög að sögn hæstv. ríkisstj. Snemma á árinu 1965 voru svo gerðar ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Þá hafði ríkissjóður hagnýtt sér söluskattshækkunina frá í byrjun árs 1964 og var þessum ráðstöfunum mætt með niðurskurði á útgjöldum fjárl. til verklegra framkvæmda. Árið 1965 var eindæma góðæri hvað verðlag og aflabrögð snerti. Þó var svo komið um haustið, að enn var farið til fanga vegna fjárlagaafgreiðslunnar fyrir árið 1966. Þá var tekinn upp rafmagnsskattur, hækkaður benzín- og þungaskattur, stimpilgjöld og aðrar aukatekjur ríkissjóðs margfaldaðar, gjaldeyrisskattur upp tekinn. Áður hafði launaskattur verið á lagður, hækkaður eignarskattur og skattur lagður á byggingarefni o.fl. Hér voru dregnir saman skattar, sem voru um 300 millj. kr. að fjárhæð. Ekki var hér látið við það eitt sitja að draga að landi svo marga nýja skatta og hækka aðra, heldur var snemma á árinu 1966 dregið úr fé til niðurgreiðslna á vöruverði til að treysta fjárhag ríkissjóðs að sagt var. Síðar á árinu 1986 var svo gripið til þeirrar verðstöðvunar, sem nú hefur verið kvödd af hæstv. ríkisstj. með þakklæti fyrir það, hve vel hún skilaði því hlutverki sínu að bjarga ríkisstj. úr kosningahríðinni.

Þessi upprifjun sannar ykkur, áheyrendur, að það þarf ekkert nýtt að vera á ferðinni, þó að verið sé að afla ríkissjóði tekna eða færa útgjöld hans yfir á almenning. Fyrir því stendur hin venjulega útþensla ríkiskerfisins. En það, sem er sameiginlegt fyrir allar þessar aðgerðir frá sjónarmiði ríkisstj., er, að alltaf hefur öðrum verið um að kenna en stefnu hennar sjálfrar og stjórnarathöfnum, hvernig komið er. Að hennar dómi hefur nú aðeins verið gert það eina rétta og auðvitað einnig á réttri stundu. En þrátt fyrir aflauppgrip undanfarinna ára, þrátt fyrir hærra verðlag á útflutningsafurðum en nokkru sinni fyrr, þrátt fyrir vaxandi þjóðartekur, 11/2 milliarðs tekjur ríkissjóðs umfram áætlun fjárl. á 4 árum, hefur alltaf sigið á ógæfuhliðina, nýjar ráðstafanir þurft að gera á nokkurra mánaða fresti og ástandið hefur aldrei verið alvarlegra en nú. Trúi svo þeir, sem trúa vilja, að engin leið sé til betri en sú, sem ríkisstj. hefur farið, og ómögulegt sé að leysa málefni þjóðarinnar á annan veg en hún hefur gert. Hver er ástæðan til þess, hvernig komið er, þrátt fyrir góðæri undangenginna ára? Það hefur að vísu oft verið gerð grein fyrir því af hálfu okkar Framsfl.-manna, að stefna ríkisstj., sem mörkuð var 1960 og nefnd var af höfundum sínum viðreisn, væri stefna, þar sem fjármagnið réði ferðinni og athafnir valdhafanna væru við það miðaðar að greiða götu þess, stefna, þar sem engin stjórn, ekkert skipulag væri haft á fjárfestingu, stefna, sem mundi leiða til erfiðleika, svo sem nú er komið í ljós. Það þarf engan að undra, þótt áhrif þessarar stefnu hafi ekki verið augljós í góðæri, eins og hér hefur verið undanfarandi ár, þar sem útflutningsverðmæti hafa tvöfaldazt á fáum árum og tekjur ríkissjóðs hafa farið 11/2 milljarð fram úr áætlun fjárl. á einu kjörtímabili. Áhrif stjórnarstefnunnar hafa ráðið miklu um þann verðbólguvöxt, sem hér hefur verið síðustu árin. Ráðstafanir ríkisstj. í peningamálum, svo sem innheimta á háum sköttum til ríkissjóðs, háir vextir, óhagstæð stofnlán, sparifjárbinding, lánsfjárhöft o.fl., voru hugsuð af hálfu hennar sem hagstjórnartæki, er hefðu hemil á verðbólgunni, en hvernig hafa þessar ráðstafanir gefizt? Þær hafa verkað eins og olía á verðbólguna, sem hefur lamað atvinnulíf landsmanna undanfarandi ár og gerir þó mest nú. Dæmi vil ég nefna frá 1966 til þess að sanna mál mitt. Ég skýrði frá því áðan, að á árinu 1964 var söluskattur meira en tvöfaldaður. Í árslok 1965 voru margir nýir skattar upp teknir og aðrir hækkaðir og úr niðurgreiðslum dregið í ársbyrjun 1966. Hverjar voru svo afleiðingarnar? Þær komu fram, þegar komið var fram á mitt sumar 1966, og þá var verðbólgan, sem þessi skattheimta hafði magnað, orðin sá ógnvaldur, að ríkisstj. taldi þá, að hún stefndi málefnum þjóðarinnar í voða. Ríkisstj. ákvað þá að nota hluta af skattheimtu þeirri, er hún hafði innheimt af þjóðinni umfram þarfir, til að halda verðbólgunni í skefjum, enda voru þá kosningar fram undan og nauðsyn bar til að hennar dómi að leyna ástandinu í efnahagsmálum þjóðarinnar fram yfir þær.

Nú eru kosningarnar liðnar hjá, en verðbólgan er búin að brenna á báli sínu verulegan hluta af greiðsluafgangi ríkissjóðs frá góðu árunum. Og í úrræðaleysi sínu veltir nú ríkisstj. dýrtíðinni yfir á herðar fólksins í landinu, þeirri dýrtið, sem hún taldi því þó ekki fært að bera við betri kjör heldur en nú eru að verða.

Þegar að er gáð, ætti öllum að vera það ljóst, að giftudrýgri hefði sú stefna reynzt þjóðinni, að lægri skattar hefðu verið af henni teknir af valdhöfunum, þótt greiðsluafgangur ríkissjóðs hefði orðið minni í bili, enda hefði þá dýrtíðin einnig orðið minni, sem af þeim skattaálögum hlauzt. Byrðarnar, sem þjóðinni er nú ætlað að axla, væru þá einnig nokkru minni. Það veldur einnig miklu um ástandið í efnahagsmálum, að fyrirheit stjórnarliða um sparnað í rekstri ríkissjóðs hafa alveg gleymzt, þegar til framkvæmdanna átti að koma. Það var gagnrýnt af okkur framsóknarmönnum við síðustu fjárlagaafgreiðslu, hve gífurleg hækkun varð þá á fjárlögum. Hvert embættið og stofnunin á fætur annarri fékk þá hækkaða fjárveitingu frá 30–50%. Slíkt örlæti í fjárveitingum er ekki framkvæmanlegt, enda hækkuðu fjárl. þá um 1 milljarð. Hvergi örlar á því nú, að úr slíkum greiðslum sé dregið, þrátt fyrir þá kröfu, sem valdhafarnir gera til þjóðarinnar um kjaraskerðingu. Ég sé á samanburði ríkisreiknings 1965 og 1966, að kostnaður við gestrisni ríkisstj. hefur hækkað um 50% á einu ári. Fleiri dæmi þessu lík munu finnanleg í ríkisrekstrinum, ef vel er að gáð. Það segir sig sjálft, að ríkissjóður þarf sitt, þegar þannig er á málum hans haldið. Er ástæða til þess að spyrja, hvort ekki væri nær fyrir ríkisstj. að snúa sér að því að endurskoða ríkisreksturinn meira en í orði, eins og verið hefur undanfarin ár, heldur en leita til heimilanna í landinu og biðja þau að endurskoða rekstur sinn, eins og stjórnarherrarnir gera nú.

Eins og fram hefur komið í ræðu minni hér að framan, eru þær aðgerðir, sem nú á að framkvæma, svipaðs eðlis og áður hafa verið gerðar af ríkisstj. að öðru leyti en því, að nú er farið að verulegu leyti milliliðalaust inn á heimili fólksins og tekið mest af þeim heimilum, þar sem flest eru börnin. Það þarf heldur ekki mörgum orðum að því að eyða, að þessar ráðstafanir eru eingöngu gerðar vegna fjárl., svo að ríkisstj. geti haldið uppi sömu gestrisni og rausn og verið hefur. Það er ekki úr reksturskostnaði ríkisins dregið eða af sparnaði gert eins og áður hefur verið sýnt fram á. Hins vegar er í fjárlagafrv. fyrir árið 1968 yfirleitt fylgt þeirri sömu reglu, sem framkvæmd var á yfirstandandi ári, að framlög til verklegra framkvæmda eru 10% lægri en varið var til þeirra á núgildandi fjárl. Það má með nokkrum rökum segja, að erfitt sé að afla mikils fjár til verklegra framkvæmda á sama tíma sem lagt er til, að kjör fólksins séu skert eins og hér er nú gert. En það sýnir eins og fleira ráðsmennsku ríkisstj. á undanförnu góðæri, að við um 45 barna- og gagnfræðaskólabyggingar víðs vegar um landið, sem Alþ. hefur samþ. fjárveitingu til, hafa framkvæmdir ekki hafizt enn þá, og á þessu fjárlagafrv. er lægri upphæð til stofnkostnaðar í skólum heldur en er á yfirstandandi fjárl. Muna verður þjóðin það, að framtíð hennar er í voða, ef æskan getur ekki notið skyldunáms vegna skólaskorts eða framhaldsmenntunar af sömu ástæðum. Væri þá nær að draga eitthvað úr ráðstefnum og ferðalögum forystumanna þjóðarinnar heimsálfanna á milli og byggja einum skólanum fleira. Það vekur athygli, að brýna nauðsyn bar til þess á s.l. vori að afgreiða ný skólakostnaðarlög fyrir kosningarnar. En nú er þeirra að engu getið í sambandi við fjárlagafrv. Þar er eingöngu miðað við eldri löggjöf. Hvað veldur því, að úr þessum hraða hefur dregið?

Þá vekur það einnig eftirtekt, að fjárveiting til nýrra framkvæmda í höfnum hækkar ekki frá gildandi fjárl., þrátt fyrir nýja löggjöf um aukinn stuðning við hafnirnar, að öðru leyti en því. að fjárveiting til hafnasjóðs er 4,8 millj. hærri en var í fyrra. Þá sitja vegamálin í sama fari og áður hefur verið. Ekki er staðið við samkomulag það, sem gert var við afgreiðslu vegal., hvað þá að gerð sé tilraun til að gera nokkurt átak í framkvæmdum vegamálanna, þrátt fyrir hækkun fjárl. Á árinu 1966 hafði þó ríkissjóður yfir 600 millj. kr. í tekjur af umferðinni umfram það, sem gekk til veganna, ef söluskattur er talinn með. Þjóðin getur ekki unað lengi þeirri ráðsmennsku, að allir þessir fjármunir gangi til útgjalda ríkissjóðs, en vegfarendur verði að aka illfæra vegi og eyða stórum fjárhæðum til viðhalds bifreiða sinna umfram það, sem þyrfti að vera, ef vegakerfið nyti þessara fjármuna, sem eðlilegt er, auk þess, sem viðhald fjölförnustu veganna sem malarvega er að verða óframkvæmanlegt og sumar brýr á fjölförnustu vegunum eru orðnar hættulegar umferðinni vegna þess, hvað veikbyggðar og úr sér gengnar þær eru. Hvert sem litið er í okkar þjóðfélagi, blasa verkefnin við. Það veldur því ekki gleði þeim, er áhuga hafa á framförum í þjóðfélaginu, að sjá þá kyrrstöðu, sem nú er að verða í verklegum framkvæmdum ríkisins.

Í ræðu minni hér að framan hef ég rætt almennt um þróun efnahags og afgreiðslu fjárl. hjá núv. valdhöfum. Mun ég nú með örfáum orðum víkja að einstökum liðum þeirra till., er setja svip sinn á fjárlagafrv.

Nokkrar umr. hafa farið fram um það á vegum sveitarfélaganna, t.d. á síðasta landsþingi þeirra, að gera fasteignir að meiri tekjustofni fyrir sveitarfélögin en nú er. Þá mun sú skoðun ríkjandi hjá þeim, sem unnið hafa að athugun á staðgreiðslu skatta, að auknir fasteignaskattar til sveitarfélaganna verði að koma til til að létta framkvæmdir þeirra mála. Það er því ekki gleði sveitarstjórnarmönnum, að ríkissjóður skuli gera fasteignir að slíkum tekjustofni sem hér er gert. Það er með öllu óhugsandi að hækka fasteignaskattana og hafa svo háan eignarskatt að auki. Ríkissjóður verður að hverfa frá þeirri stefnu sinni að gera fasteignir að slíkum tekjustofni sem hér er gert. Að öðrum kosti er sveitarfélögunum gert ókleift að hagnýta sér fasteignir sem tekjustofn. Ríkisstj. gerði till. um það í fjárlagafrv. fyrir árið 1966 að taka upp farmiðaskatt, 1500 kr. á seldan farmiða. Gert var þá ráð fyrir, að skattur þessi færði ríkissjóði 25 millj. kr. í tekjur. Frá þessari ráðagerð var þá horfið vegna andstöðu landsmanna við skattinn. Þess í stað var tekinn upp gjaldeyrisskattur, sem nú er ætlað, að gefi 38 millj. kr. í tekjur ríkissjóð á næsta ári. Farmiðaskatturinn er nú tekinn upp á ný og nú 3000 kr. á seldan farmiða. Þessir tveir skattar af ferðalögum Íslendinga til annarra landa munu því færa ríkissjóði um 100 millj. kr. á næsta ári, vegna þess að horfið var frá skattinum í des. 1965, í staðinn fyrir 30 millj. kr., eins og þá var stefnt að. Til eru búhyggindi hjá ríkisstj., þó að venjulega fari lítið fyrir þeim. En 100 millj. kr. skattur á ferðir þeirra, er út úr landinu fara, nálgast átthagafjötra. Söluskatti á þjónustu pósts og síma mun verða mætt með hækkaðri gjaldskrá þessara stofnana, og þótti þó flestum, að nóg væri komið. En það, sem mest áhrif hefur á afkomu þjóðarinnar af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. gerir till. um til að ná endum saman í fjárlagaafgreiðslu að þessu sinni, er sú ákvörðun að draga úr niðurgreiðslum, er nemur 410 millj. kr. Kjaraskerðing sú, sem fólgin er í till. fjárlagafrv., er um 71/2%, en ekki eru greiðslur vegna eignarskatts þar taldar með. Mestu ræður hér um, að niður eru felldar niðurgreiðslur. Þessi breyting er mjög alvarlegt áfall fyrir fólkið í landinu og skellur á neytendur, þegar fjárhagsleg staða þeirra er verri en áður, sem ég vík að síðar, og hún getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir framleiðendur í minni sölu þessara vara, einmitt þá, þegar erfiðleikar steðja að þeirra atvinnurekstri. Augljóst er, að fyrir báða þessa aðila hefði verið betra, að ekki hefði verið að þessu ráði horfið á þann hátt, sem hér er gert.

Fleira er hér til athugunar en verið hefur á drepið. Það er kunnara en frá þurfi að skýra, að afkoma launþega hefur að verulegu leyti byggzt á löngum vinnudegi. Yfirvinnan hefur verið snar þáttur í atvinnutekjum manna. Það er ljóst, að tekjur af 8 stunda vinnudegi, er nema 105–140 þús. kr. árstekjum eftir stéttum, nægja ekki til sómasamlegrar framfærslu meðalfjölskyldu með þeim húsaleigukostnaði, sem algengur er hér á landi. Þegar þetta er haft í huga, er augljóst þeim, sem sjá vilja hlutina í réttu ljósi, að kjaraskerðing með því ástandi, sem nú er að verða í atvinnumálum og útlit er fyrir að verði, er miklu meiri en 71/2%, vegna þess að 8 stunda vinnudagur er að verða ríkjandi í flestum atvinnugreinum, eins og fram kom í nýgerðri samþykkt járniðnaðarmanna. Sú kjaraskerðing, er verður af völdum styttri vinnutíma, mun reynast þeim, er fyrir henni verða, fullþung í skauti, þó aðgerðir ríkisstj. bætist ekki þar við. Ég spyr: Hver treystir sér til að halda því fram, að fjölskylda með rúmlega 100 þús. kr. árstekjur geti tekið á sig verulega kjaraskerðingu? Ég hygg, að þeir verði fáir. Það er því augljóst, að hér er stefnt inn á ófæra leið.

Annar þáttur þessa máls er óræddur hér að mestu, en það er tilgangur þessara till. Hæstv. ríkisstj. heldur því fram, að árferðið valdi hér um. Ég hef í ræðu minni hér að framan sýnt fram á það, hvernig ríkisstj. hefur á hverju hausti, og venjulega á miðjum vetri líka, gert svipaðar bráðabirgðaráðstafanir vegna fjárlaga og atvinnuveganna, sem aðeins hafa dugað í nokkra mánuði. Þjóðarbúinu hefur verið fleytt áfram með þessum bráðabirgðaráðstöfunum. Það sama er að gerast nú. Það er enginn vandi leystur með samþykkt þeirra aðgerða, sem fjárlagafrv. inniheldur, annar en sá að halda uppi eyðslu á vegum ríkisstj., eins og verið hefur. Vandamál atvinnuveganna er jafnóleyst, þar sem engin ný fjárveiting til þeirra er á þessu fjárlagafrv. og ástandið, sem þessar aðgerðir skapa, mun gera þá lausn erfiðari en ella. Það er hægt að hugsa sér að taka á sig byrðar um stundarsakir, ef þeim er réttlátlega skipt eftir burðarþoli gjaldþegna, og tilgangurinn með þeirri fórn er að leysa vanda, svo betur ári eftir en áður, en annars ekki. Ég gat þess í ræðu minni hér að framan, að stjórnarstefnan hefði ekki haft stjórn eða skipulag á fjárfestingunni í atvinnumálum. Hver er árangurinn? Hann er sá, að a.m.k. helmingurinn af togaraflotanum er annaðhvort seldur úr landi eða honum hefur verið lagt við akkeri. Bátafloti sá, sem stundar bolfiskveiðar, hefur gengið úr sér, enda hefur endurnýjun hans verið sáralítil. Afleiðingin er svo sú, að frystihúsin skortir hráefni til eðlilegrar starfsemi. Ríkisstj. hefur ekki komið í framkvæmd nema að litlu leyti till. stjórnskipaðrar n., er athugaði afkomu vélbátaflotans. Iðnaðurinn dregst saman vegna harðrar samkeppni erlendrar iðnaðarframleiðslu, lánsfjárskortur háir atvinnuvegunum.

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, er það yfirlýst stefna okkar framsóknarmanna, að það verði að sitja fyrir öllum efnahagsaðgerðum í ísl. þjóðlífi að koma atvinnurekstri landsmanna á heilbrigðan grundvöll og efla ísl. framtak í atvinnurekstri þjóðarinnar. Það er því krafa framsóknarmanna til hæstv. ríkisstj., að málefni atvinnuveganna verði tekin til gagngerðrar athugunar nú þegar og lausn þeirra gangi fyrir því að afla tekna til ríkissjóðs.

Herra forseti. Ég hef í ræðu minni hér að framan lýst áhrifum stjórnarstefnunnar á efnahagskerfið og atvinnuvegi landsmanna og sýnt fram á, að að því sé eingöngu stefnt með þessum aðgerðum, sem hér um ræðir, að leysa tekjuþörf ríkissjóðs og annað ekki. Ég legg áherzlu á það, eins og við framsóknarmenn gerðum í kosningunum s.l. vor, og gert hefur verið af formanni flokksins, Eysteini Jónssyni, í umr. hér á Alþ, á undanförnum dögum, að vandi í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar er mikill. Hann stafar af hvoru tveggja, rangri stjórnarstefnu og utanaðkomandi áhrifum, aflaleysi og verðfalli afurða. Leiðin til að leysa vandann er sú að gera sér grein fyrir því, hver hann er og sameina þjóðina um lausn vandamálsins. Það liggur ekkert fyrir um það enn þá, sagði hæstv. forsrh. í ræðu á mánudaginn, hvað atvinnuvegirnir þurfa, til að þeirra vandi verði leystur. Meðan svo er, þýðir ekki að tala um tillögugerð frá einum eða neinum til að leysa vandann. Þetta verk átti ríkisstj. að vera búin að láta vinna, vegna þess að sú leið, sem valin verður til lausnar á vandamálum atvinnuveganna, hlýtur að hafa mikil áhrif á allt efnahagskerfi þjóðarinnar, en fyrr en það liggur fyrir verður ekki séð með neinni víssu, hver tekjuþörf ríkissjóðs raunverulega verður né hvaða leiðir séu heppilegar til þess að leysa þann vanda.

Að lokum þetta: Fátt sýnir betur, hvernig ríkisstj. hefur tekizt stjórn efnahagsmála að undanförnu en það, að eftir margra ára góðæri er ástandið í efnahagsmálum slíkt, að meðalfjölskyldu nægja ekki til framfærslu tekjur af 8 stunda vinnudegi og atvinnuvegirnir eiga í erfiðleikum með að inna þá kaupgreiðslu af hendi. — Góða nótt.