19.10.1967
Sameinað þing: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

1. mál, fjárlög 1968

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Við Íslendingar lifum nú alvarlega tíma. Okkar bíður mikill vandi. Við höfum á undanförnu ári orðið fyrir þungum búsifjum, þyngri búsifjum en við höfum orðið að þola um áratuga skeið. Mikið verðfall hefur orðið erlendis á helztu útflutningsvörum þjóðarinnar. Sjávarafli hefur minnkað. Talið er, að útflutningstekjur verði í ár a.m.k. fjórðungi minni en þær voru í fyrra. Hér er um mikil umskipti að ræða. Á undanförnum árum höfum við búið við mikla og vaxandi velgengni, og á árunum 1962–1965 höfðu þjóðartekjur á mann hækkað árlega um 6–7% að meðaltali. Í fyrra urðu straumhvörf. Þá jukust þjóðartekjur á mann aðeins um 11/2%, en nú er talið, að þær muni í ár minnka um a.m.k. 4–5% á mann. Íslendingar eru svo skynsöm þjóð, að þeir munu eflaust gera sér grein fyrir því, að slík áföll hljóta að hafa áhrif á afkomu einstaklinga og fyrirtækja. Á undanförnum mánuðum hefur almenningur verið varinn fyrir áhrifum verðfallsins og aflabrestsins á þann hátt, að niðurgreiðslur á verði innlendra landbúnaðarafurða hafa verið auknar til þess að halda kaupmætti teknanna óbreyttum. Þetta hefur verið hægt fram til þessa, vegna þess að afkoma ríkissjóðs á s.l. ári var sérstaklega góð og gjaldeyrissjóðurinn allgildur. Hefur tekjuafgangur ríkissjóðs frá fyrra ári verið notaður til þess að greiða kostnaðinn vegna aðstoðar við sjávarútveginn og aukinna niðurgreiðslna að nokkru leyti. En á næsta ári verður engum slíkum varasjóði til að dreifa, og gjaldeyrisforðinn hefur minnkað verulega.

Á næsta ári verða tekjur og gjöld ríkissjóðs að standast á, og minnkun gjaldeyrisforðans verður að stöðva. Ef ekkert væri nú aðhafzt, væri 750 millj. kr. halli á ríkisbúskapnum á næsta ári. Slíkur halli myndi hafa í för með sér mikla verðbólgu annars vegar og gífurlega minnkun gjaldeyrisforðans hins vegar. Þess vegna verður að jafna hallann. Það er ekki hægt nema með álögum. Þessar álögur munu, skv. till. ríkisstj., koma fram með því móti, að verðlag hækkar á innlendum landbúnaðarafurðum og á áfengi og tóbaki. Verð á nokkrum tegundum þjónustu mun hækka. Nýr skattur er lagður á farmiða og eignarskattur hækkaður.

Í kjölfar þessara verðhækkana og nýju gjalda siglir að sjálfsögðu kjaraskerðing fyrir alla þjóðina, en hún er í raun og veru orðin, vegna verðfallsins og aflabrestsins. Spurningin er ekki um það, hvort hægt sé að komast hjá kjaraskerðingunni eða ekki, verðlagið erlendis er fallið og aflinn hefur brugðizt. Þetta hefur gerzt og því verður ekki breytt. Spurningin er um það eitt, hvort við viljum hafa stjórn á því, hvernig kjararýrnunin verður, eða hvort kjararýrnunin á að gerast í mynd verðbólgu og ringulreiðar. Ég skil ekki í öðru en allir séu sammála um, að stjórn á efnahagsmálum sé betri en óstjórn. Hitt játa ég fúslega, að einmitt þegar um stjórn á efnahagsmálum er að ræða, geta fleiri en ein leið komið til greina til þess að dreifa kjaraskerðingunni á þjóðina. Skoðun ríkisstj. er sú, að skynsamlegast sé, að kjaraskerðingin komi þannig fram, að verðhækkunin verði á fáum tegundum vöru og þjónustu, sem auðvelt sé að fylgjast með, og lögð séu á þess konar gjöld, sem hafi ekki áhrif á almennt verðlag í landinu. Þess vegna valdi ríkisstj. þá leið að lækka fyrst og fremst niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum og hækka verð á þeirri vöru og þjónustu og leggja á þau gjöld, sem ég nefndi áðan.

Þessa leið valdi ríkisstj. ekki sízt vegna þess, að niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum voru orðnar óeðlilega háar, þær voru t.d. orðnar meiri en helmingur af óniðurgreiddu útsöluverði bæði mjólkur og smjörs. Þetta hlaut að leiða til þess, að bændur hættu að nota sína eigin mjólk og færu að kaupa neyzlumjólk frá mjólkurbúum, og hafa ýmsar aðrar óheppilegar afleiðingar í för með sér. Nú, eftir lækkun niðurgreiðslnanna, eru niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum enn jafnháar að tiltölu og þær hafa yfirleitt verið á undanförnum árum og miklu hærri en þær voru allt fram til ársins 1959.

Auðvitað hefði einnig verið hægt að ná sama marki eftir öðrum leiðum, t.d. með því að hækka söluskatt, en þá hefði verðlag á bókstaflega hverri einustu vöru og þjónustu í landinu hækkað, og þessi hækkun hefði verið lengi að koma til framkvæmda. Skriður hefði komizt á allt verðkerfið, og þá er mjög hætt við því, að enginn mannlegur máttur hefði getað staðið gegn því, að verðhækkun á a.m.k. mörgum vörum og margri þjónustu hefði orðið meiri en hækkun söluskattsins gaf að réttu lagi tilefni til. Það er m.ö.o. mjög hætt við, að sú almenna hækkun verðlags, sem hækkun söluskattsins hefði haft í för með sér, hefði í reynd orðið meiri en sú hækkun verðlags, sem hlýzt af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur gert till. um.

Einnig hefði verið hægt að koma í veg fyrir halla á fjárlögum með því að lækka útgjöld stórlega. Fjárfestingarútgjöldum ríkisins hefur verið haldið mjög niðri á undanförnum árum, og taldi því ríkisstj. frekari lækkun þeirra óráðlega. Rekstrarútgjöld ríkisins eru hins vegar háð því, hversu mikla þjónustu ríkið veitir, og þeim l., sem um þá þjónustu gilda. Þetta á sérstaklega við um meginútgjaldaflokkana, s.s. félagsmál, fræðslumál og heilbrigðismál. Ríkisstj. vildi ekki leggja til, að almannatryggingum yrði breytt og fé sparað með því að draga úr starfsemi þeirra. Hún vill ekki leggja til, að dregið yrði úr starfsemi á vegum fræðslumála og heilbrigðismála, enda er þar frekar þörf á aukinni starfsemi. Þetta breytir þó ekki því, að margt sé hægt að gera á mörgum sviðum til þess að bæta skipulag opinberrar starfsemi og draga úr kostnaði við hana. Að þessu hefur ríkisstj. verið að vinna og að þessu mun hún halda áfram að vinna af kappi, enda hefur nú verið komið á fót sérstakri stofnun, Fjárlaga- og hagsýslustofnun fjmrn., til þess að sinna þessum málum, en árangurinn af þessu starfi kemur ekki í ljós fyrr en smám saman, og hann getur engin meiri háttar áhrif haft á afkomu ríkissjóðs á næsta ári.

Það er eðlilegt, að menn spyrji, hvers vegna sé nú allt í einu gripið til jafnróttækra ráðstafana og hér er um að ræða. Það er eðlilegt, að menn spyrji, hvort ekki hafi verið orðið ljóst fyrir einu ári, að verðlag erlendis var tekið að falla. Það er eðlilegt, að menn spyrji, hvort hin lélega vetrarvertíð á liðnum vetri, þegar veðurfar reyndist verra en um áratugi, hafi ekki verið orðin nægileg vísbending um, hvert stefndi og því full ástæða til að grípa fyrr til róttækra ráðstafana. Víst var búið að vera ljóst í meira en ár, að straumhvörf voru orðin í viðskiptakjörum Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum, og víst var það orðið ljóst á liðnum vetri, að afli brást, en samt var lengi vel ekki óskynsamlegt að vænta þess, að verðlækkunin snerist aftur í verðhækkun, að viðskiptakjörin bötnuðu á ný og góð síldarvertíð fylgdi erfiðri. Það var sérstök ástæða til að reyna að fresta því, að áhrif verðfallsins og aflabrestsins kæmu fram sem kjaraskerðing hjá þjóðinni, vegna þess að hægt var að nota tekjuafgang liðins árs til þess að auka niðurgreiðslur og halda þannig uppi kaupmætti launanna, og hægt var að ganga á þann tiltölulega gilda gjaldeyrissjóð, sem fyrir hendi var. En mikilvægast af öllu í þessu sambandi er þó það, að fyrir einu ári hefði verið mjög takmarkaður skilningur á því hjá almenningi, og ekki sízt hjá launþegasamtökum, að verðfall, sem staðið hafði í nokkra mánuði, eða ein slæm vertíð gerði almenna kjaraskerðingu nauðsynlega. Nú er viðhorfið hins vegar allt annað. Nú hefur tímabil verðfallsins erlendis staðið í 1–11/2 ár, og ekki aðeins þorskveiðar hafa brugðizt, heldur einnig síldveiðar. Nú er tvímælalaust fyrir hendi skilningur á því, að nú verður ekki lengur vikizt undan vandanum. Það var gert á meðan unnt var og aðstæður leyfðu. En nú hlýtur það að vera orðið ljóst hverju mannsbarni, að ekki er lengur hægt að koma í veg fyrir það, að verðfallið og aflabresturinn komi fram sem kjaraskerðing. Eftir á að hyggja má segja, að æskilegra hefði verið að gripa fyrr til þeirra ráðstafana, sem nú er efnt til. Skýringin á, að það var ekki gert, er fólgin í því, að þjóðin hefði þá sætt sig miklu verr við slíkar ráðstafanir en hún gerir væntanlega nú. Þess vegna hefði þá verið miklu meiri hætta á, að þær mistækjust.

Það er víðs fjarri mér að gera nokkra tilraun til þess að draga fjöður yfir það, að það, sem nú er að gerast í ísl. efnahagsmálum, er almenn kjaraskerðing. Auðvitað er hún ekki léttbær, en því má engu að síður varpa fram, hvort hún sé óbærileg. Vilji menn mynda sér skoðun á því, má t.d. athuga, hvernig kjör tiltekinna launastétta hafa breytzt á undanförnum árum. Til eru skýrslur um breytingar á kaupmætti tímakaups hjá verkamönnum og iðnaðarmönnum á undanförnum árum. Árið 1965 var kaupmáttur tímakaups verkamanna og iðnaðarmanna 16% meiri en hann hafði verið 1960. Árið 1966 var kaupmátturinn 25% meiri en hann hafði verið 1960, og 1. sept. s.l., eða rétt áður en verðhækkanirnar komu til framkvæmda, var kaupmáttur verkamanna og iðnaðarmanna orðinn 28% hærri en hann var 1960. Við þessar ráðstafanir, sem nú er verið að framkvæma, eða eru fyrirhugaðar, mun kaupmáttur tímakaupsins lækka. Vísitala kaupmáttarins mun lækka úr 128 stigum í 122,5 stig. Kaupmáttur tímakaupsins mun með öðrum orðum rýrna um 4–5%. En á það ber að benda sérstaklega, að þrátt fyrir þá rýrnun kaupmáttarins, sem nú mun eiga sér stað, mun kaupmáttur tímakaups verkamanna og iðnaðarmanna samt verða 221/2% hærri en hann var 1960. Hann verður aðeins lægri en hann var að meðaltali 1966, en mun hærri en hann var 1965. Þótt það, sem nú er að gerast, sé sannarlega alvarlegt og ekki léttbært, bendir þetta þó til þess, að það sé engan veginn óbærilegt. Því má þó heldur ekki gleyma, að til viðbótar minnkandi kaupmætti mun að einhverju leyti koma lækkun tekna vegna minni yfirvinnu. Það hlýtur einmitt að verða eitt helzta verkefni stjórnarvalda á næstunni, að reyna að draga úr þeim samdrætti á vinnumarkaðinum, sem áföllin í efnahagsmálum hafa í för með sér, og aðgerðir ríkisstj. nú miða m.a. að því að gera þetta kleift.

Það er líka von að menn spyrji, eins og líka margir spyrja, hvers vegna allar þessar álögur þurfi endilega að lenda á almenningi. Hvers vegna er ekki meira lagt á breiðu bökin, segja ýmsir. Hvers vegna eru hinir ríku ekki látnir borga meira? Þessi sjónarmið ættu sérstakan rétt á sér, ef hægt væri að sýna fram á, að hlutdeild launastétta í mjög ört vaxandi þjóðartekjum undanfarin ár, hafi minnkað. Ef svo hefði verið, hefðu atvinnurekendur getað safnað varasjóðum, sem nú hefði mátt grípa til, til þess að mæta verðfallinu og aflabrestinum. Hvernig hefur þessu í raun og veru verið varið? Til eru vandaðar skýrslur um þróun atvinnutekna og ráðstöfunartekna helztu launastéttanna á árunum 1960–65, ásamt alláreiðanlegri áætlun fyrir árið 1966. Breytingu teknanna má reikna með ýmsum aðferðum. Sú aðferð, sem sýnir minnsta hækkun raunverulegra tekna helztu launastéttanna á tímabilinu 1960–66, sýnir hækkun um 41%. Sú aðferð, sem sýnir mesta hækkun, sýnir hækkun um 49%. Ég skal láta liggja á milli hluta, hvor talan sé réttari. En til eru líka tölur um aukningu raunverulegra þjóðartekna á þessu tímabili. Þar koma engar ólíkar reikningsaðferðir til greina. Hvað skyldu þjóðartekjurnar á mann hafa aukizt mikið á þessu tímabili? Þær jukust um 35%. Þetta sýnir, að á þessu tímabili hafa helztu launastéttirnar ekki aðeins fengið sinn hlut af aukningu þjóðarteknanna, heldur ríflega það. En sömu tekjurnar verða auðvitað ekki notaðar tvisvar. Fyrst launþegarnir fengu tekjuaukann, gátu atvinnurekendur ekki fengið hann líka. Þess vegna hafa þeir ekki safnað neinum gildum sjóði á undanförnum árum. Þess vegna eiga atvinnufyrirtæki nú ekkert í sjóði, sem hægt sé að greiða úr tekjumissinn vegna verðfallsins og aflabrestsins. Þess vegna verður þjóðin öll nú að þola kjaraskerðingu vegna tekjurýrnunar þjóðarbúsins með alveg sama hætti og hún á undanförnum árum fékk kjarabót vegna aukningar tekna þjóðarbúsins.

Auðvitað má um það deila, hvort sú stefna hafi verið rétt að skipta allri aukningu þjóðarteknanna á meðal þjóðarinnar um leið og hún varð til, í stað þess að safna a.m.k. nokkrum hluta hennar í sjóði hjá atvinnuvegunum eða hjá opinberum aðilum, til þess að tekjulækkun þjóðarbúsins þyrfti ekki að leggjast með sama þunga á almenning, ef til kæmi. Það hefði verið erfitt að framfylgja slíkri stefnu á undanförnum árum. Eitt er víst, að hún hefði aldrei hlotið samþykki launþegasamtakanna.

Stjórnarandstöðuflokkarnir gera sér eðlilega tíðrætt um þessa kjaraskerðingu. Þeir tala jafnvel eins og það hafi aldrei komið fyrir áður, að kjör þjóðarinnar hafi versnað um sinn eða þurft hafi með opinberum aðgerðum að knýja fram kjaraskerðingu í ákveðinni mynd, til þess að hún ætti sér ekki stað í stjórnleysi. En þetta er mikill misskilningur. Ég ætla að nefna þrjú dæmi um lögskipaðar kjaraskerðingar á s.l. 10 árum. Fyrstu tvö dæmin eru úr stjórnartíð Hermanns Jónassonar, en hið síðasta úr stjórnartíð Ólafs Thors. Svo sem kunnugt er, mynduðu Framsfl., Alþb. og Alþfl. ríkisstj. að afloknum kosningum sumarið 1956. Haustið 1956 átti kaupgjaldsvísitalan að hækka um 3%. Það var augljóst, að útflutningsatvinnuvegirnir gætu ekki risið undir þeirri kauphækkun, án þess að útflutningsbætur til þeirra væru hækkaðar, en til þess að hækka útflutningsbætur hefði þurft að hækka innflutningsgjöld skv. kerfi því, er þá var við lýði. Hin nýja ríkisstj. vildi ekki byrja stjórnarferil sinn með því að hækka útflutningsbætur og innflutningsgjöld. Þess vegna var ákveðið, áður en þing kom saman, að gefa út brbl., þar sem kveðið var á um, að kauphækkun sú, sem koma átti til framkvæmda 1. sept. 1956 vegna hækkunar vísitölunnar, skyldi ekki koma til framkvæmda. Með brbl. voru launþegar m.ö.o. látnir afsala sér kauphækkun, sem þeir áttu rétt á skv. samningum. Með þessu var einnig komið í veg fyrir hækkun á afurðaverði til bænda, sem siglt hefði í kjölfar kauphækkunarinnar. Þessum ráðstöfunum var svo fylgt eftir með hækkun tolla og gjalda um áramótin 1956–57, um talsvert á þriðja hundrað millj. kr., en það jafngilti að sjálfsögðu miklu hærri upphæð nú. Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar, Framsfl., Alþb. og Alþfl., voru sammála um nauðsyn þessara ráðstafana, sem voru tvímælalaust skynsamlegar, þótt þær hefðu í för með sér kjaraskerðingu í bráð. Nú er fyrirhugað að láta nokkurra stiga hækkun á kaupgjaldsvísitölu ekki valda hækkun kaupgjalds. Það er ekki í fyrsta skipti, sem slíkt á sér stað. Það átti sér t.d. stað 1956. Þá voru Framsfl., Alþb. og Alþfl. sammála um, að slík ráðstöfun gæti verið skynsamleg og réttmæt.

Vorið 1958 framkvæmdi ríkisstj. Hermanns Jónassonar víðtækar efnahagsráðstafanir, sem þá voru mjög umdeildar. Innflutningsgjöld og útflutningsbætur voru hækkuð verulega. Markmiðið var auðvitað að minnka greiðsluhallann út á við og stuðla að betri afkomu útflutningssjóðs og ríkissjóðs, enda batnaði gjaldeyrisstaðan verulega á árinu 1958, bæði vegna þessara skynsamlegu ráðstafana og vegna einstaks góðæris. Afkoma ríkissjóðs var einnig hallalaus. Stuðningsflokkar ríkisstj. voru sammála um þessar ráðstafanir, þótt augljóst væri, að þær hefðu kjaraskerðingu í för með sér. Í árslok 1959 sömdu Alþfl. og Sjálfstfl. um nýja stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þegar hún var boðuð, var frá því skýrt, að þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar væru í sambandi við stefnubreytinguna, myndu hafa í för með sér kjaraskerðingu í bráð um u.þ.b. 3%. Það fór svo, að á árinu 1960–1961 varð nokkur kjaraskerðing, en vegna hinnar breyttu stefnu í efnahagsmálum og vegna batnandi viðskiptakjara og aukins sjávarafla breyttist tekjulækkunin í tekjuhækkun 1962. Og á árunum 1962–65 varð síðan mesta framfaraskeið og mesta tekjuhækkunartímabil, sem orðið hefur í sögu Íslendinga á síðari árum. Þetta síðasta dæmi sýnir, að þótt kjaraskerðing verði í bráð, getur hún fljótlega snúizt upp í kjarabót, ef skynsamlega er á málum haldið og ytri aðstæður haldast ekki sérstaklega óhagkvæmar til langframa.

Þótt þeim ráðstófunum, sem nú er verið að gera, verði tekið með skilningi, er eðlilegt, að á þær sé litið alvarlegum augum. Þjóðin á heimtingu á, að þær ráðstafanir, sem gerðar eru, séu eins skynsamlegar og eins réttlátar og unnt er, að byrðum kjaraskerðingarinnar sé dreift af eins mikilli sanngirni og hægt er. Ríkisstj. staðhæfir ekki, að það, sem hún hefur lagt til við hið háa Alþingi, sé hið eina rétta. Hún hefur lýst því yfir, að hún sé reiðubúin til þess að ræða við stjórnarandstöðuna og bæði samtök launþega og atvinnurekenda um sérhverja þá hugmynd — um sérhverja þá till., sem fram kemur til þess að gera þessar heildarráðstafanir skynsamlegri, réttlátari og léttbærari. Fram til þessa hefur stjórnarandstaðan ekki sett fram neinar ákveðnar till. eða hugmyndir. Úr herbúðum launþegasamtaka eða atvinnurekendasamtaka hafa ekki heldur enn komið neinar ákveðnar ábendingar, en eins og kunnugt er, munu nú hefjast viðræður um þau mál á milli ríkisstj. og launþegasamtakanna. Ríkisstj. er fús til þessara viðræðna. Hún er meira en fús til þeirra. Hún beinlínis óskar eftir þeim. Í þessu máli telur ríkisstj. sig ekki vera málsvara neinnar sérstakrar stéttar eða hagsmunahóps. Hún hefur viljað gera það, og það eitt, sem hún hefur talið þjóðarheildinni fyrir beztu. Hún hefur viljað dreifa byrðunum þannig, að þær skiptust af sanngirni. Það hefur hún talið líklegast til þess að koma í veg fyrir, að verðbólguhjólið fari að snúast aftur, atvinnuvegirnir stöðvist og atvinnuleysi haldi innreið sína. Í þessu máli telur ríkisstj. sig ekki eiga neina óvini nema verðbólguhættuna og atvinnuleysisvofuna. Gegn þeim óvinum vill hún berjast og hún vonar, að samtök launþega og atvinnurekenda beri gæfu til þess að berjast með henni gegn þessum óvinum.