19.10.1967
Sameinað þing: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

1. mál, fjárlög 1968

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Í athugasemdum við fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir til umræðu, segir m.a.:

„Tvö eru megineinkenni fjárlagafrv. að þessu sinni. Annars vegar þær sérstöku ráðstafanir, sem nú er óumflýjanlegt að gera vegna erfiðleika útflutningsatvinnuveganna og minnkandi þjóðartekna, hins vegar gagnger breyting á skipulagi frv., bæði formi og efni.“

Ég mun við þessar umr. fyrst og fremst ræða um þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur nú boðað í efnahagsmálum og það ástand, sem upp er komið í fjárhags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Í athugasemdum sínum við fjárlagafrv. segir ríkisstj., að hinar fyrirhuguðu efnahagsráðstafanir séu eftirfarandi:

1) Felldar verði niður allar þær niðurgreiðslur á vöruverði, sem teknar hafa verið upp eftir 1. ágúst 1966, og mundi sú fjárhæð hafa numið um 410 millj. kr. á næsta ári.

2) Fasteignamat til eignarskatts verði tólffaldað, en sexfaldað í sveitum, jafnhliða tvöföldun á skattfrjálsri lágmarksupphæð. Er ætlunin, að sú tekjuöflun geri um 62 millj. kr.

3) Lagður verði á farmiðaskattur vegna utanlandsferða, 3000 kr. á farseðil. Er sá tekjuauki áætlaður 60 millj. kr.

4) Verðhækkun á tóbaki og áfengi er áætlað að gefi um 60 millj. kr.

5) Halla almannatrygginga verði mætt með hækkuðum iðgjöldum, en ella þyrfti á næsta ári að afla 63 millj. kr. til að jafna halla þeirra á því ári.

6) Leyfð verði hækkun daggjalda á sjúkrahúsum og hækkun sjúkrasamlagsgjalda, er ella hefði leitt til 40 millj. kr. útgjalda hjá ríkissjóði á næsta ári.

7) Undanþága söluskatts af þjónustu pósts, síma og útvarps verði felld niður, er mun gefa um 40 millj. kr., og að auki er áætlað, að póstur og sími geti skilað 20 millj. kr. rekstrarafgangi til ríkissjóðs.

8) Stefnt er að sérstakri lækkun útgjalda á ýmsum liðum og ráðstöfunum til tekjuauka á öðrum liðum.

Þetta er eigin lýsing ríkisstj. á þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem hún hefur ákveðið að framkvæma. Áætlanir hennar sjálfrar eru þær, að þessar nýju álögur muni samtals nema 753 millj. kr. á næsta ári. Það sem fyrst hlýtur að vekja athygli við þessi nýju bjargráð ríkisstj. er það, að hér er einvörðungu um ráðstafanir að ræða, sem við það eru miðaðar að rétta við fjárhag ríkissjóðs, þ.e.a.s. ríkiskassans í þrengri merkingu. Allir nýju skattarnir eiga að renna beint í ríkiskassann, og minnkun niðurgreiðslna á vöruverði, sem leiða mun af sér stórfellda verðlagshækkun á brýnustu nauðsynjum, á einnig að framkvæma til að gera fjárhag ríkissjóðs rýmri en verið hefur. Skv. yfirlýsingum ríkisstj. á ekkert af nýju álögunum að renna til atvinnuveganna, því að út frá því er gengið, að aðstoð við þá verði óbreytt frá því, sem verið hefur. Þetta er ótrúlegt, en þó satt. Og enn þá óskiljanlegra er þetta þó, þegar haft er í huga, að aðalröksemdir ríkisstj. fyrir þessum nýju efnahagsaðgerðum eru þær, að atvinnuvegir þjóðarinnar hafi orðið fyrir sérstöku áfalli vegna aflabrests og verðfalls á útflutningsvörum. Allur er málflutningur ríkisstj. hinn furðulegasti í sambandi við þessar efnahagsaðgerðir. Í öðru orðinu er því haldið fram, að stefnan sé verðstöðvun og að við þá stefnu verði fast haldið, en í hinu eru boðaðar stórfelldar verðlagshækkanir á vörum og þjónustu. Jöfnum höndum er sagt í yfirlýsingu ríkisstj., að útflutningsatvinnuvegirnir hafi orðið fyrir óbærilegu áfalli og að ekki séu enn nein rök fyrir því, að veita þurfi þeim meiri aðstoð en gert hefur verið. En eitt liggur sem sagt skýrt fyrir. Ríkisstj. er sannfærð um, að ríkissjóður þurfi að fá nýjar tekjur, sem nemi 750 millj. kr. á ári, miðað við óbreyttar aðstæður. Og hún er sannfærð um, að auknar byrðar, sem því nemi, verði að leggja á almenning í landinu.

Ríkisstj. talar mikið um stórfelld vandræði atvinnuveganna, um aflabrest og markaðshrun. Og hún reynir mjög að réttlæta álögur með slíku tali. En hvað er það í raun og sannleika, sem gerzt hefur í þessum efnum? Vetrarvertíð bátaflotans varð erfið, fyrst og fremst vegna óhagstæðrar veðráttu. Heildaraflamagnið reyndist um 16% minna en árið áður. Sumarafli smærri báta hefur reynzt góður svo að segja yfir allt landið. Afli togara hefur orðið meiri en undanfarið ár. Síldveiðarnar eru minni en undanfarin tvö aflametsár, árin 1966 og 1965, en þó er augljóst, að síldaraflinn í ár mun verða mjög mikill og einn sá mesti, sem við höfum nokkru sinni fengið. Það er því fjarstæða að tala um aflabrest eða aflaleysi, aflinn er mikill, jafnvel þó að áður hafi hann orðið nokkru meiri. Hitt er rétt, að mjög tilfinnanlegt verðfall hefur orðið á þýðingarmiklum útflutningsvörum, einkum á bræðslusíldarafurðum og frosnum fiski. Verð á saltfiski og saltsíld er hins vegar enn mjög hátt. Og hafa verður þó í huga, að það verðfall, sem nú er talað um, er miðað við algjört metverðlag, sem fengizt hafði fyrir þessa vöru. En verðfallið á útflutningsafurðum þjóðarinnar er þó mjög tilfinnanlegt og hlýtur að valda miklum fjárhagslegum erfiðleikum.

Þeir erfiðleikar, sem útflutningsframleiðslan nú stendur frammi fyrir, eru vissulega miklir. Þeir stafa jöfnum höndum af verðfalli erlendis og af þeirri stefnu, sem ríkt hefur hér innanlands í efnahagsmálum og ríkisstj. heldur enn dauðahaldi í. Viðreisnarstefnan hafði gengið nærri útflutningsatvinnuvegunum og reynzt þeim þung í skauti og nú þegar hallar undan fæti á erlendum mörkuðum og afli minnkar, þá dregst allt skyndilega í harðan hnút. Þannig þola atvinnuvegirnir ekki viðreisnarstefnuna nema í mesta góðæri. Allt tal ríkisstj. um áfall atvinnuveganna og minnkandi útflutningstekjur, sem nemi jafnvel 1500 millj. kr. í ár, í sambandi við þær skattaálögur, sem ríkisstj. boðar nú fyrir ríkissjóðinn, allt slíkt tal er í rauninni út í hött. Þegar aflinn á síðustu vetrarvertíð minnkaði um 16%, skall þunginn af þeirri aflaminnkun á sjómönnum bátaflotans, sem stunduðu veiðar á vetrarvertíðinni, en kaup þeirra lækkaði skv. eðlilegum hlut um 16%. Minnkun vertíðaraflans bitnaði á útgerðum bátanna og á verkafólkinu, sem í landi vann við aflann, en vinna þess varð minni og kaupið lækkaði um leið. Þegar síldaraflinn nú er miklu minni að verðmætum en t.d. í fyrra, þá lækkar aflahlutur síldveiðisjómannanna stórkostlega og hagur útgerðarinnar og síldariðnaðarins stórversnar og vinna fólksins í landi minnkar til mikilla muna frá því, sem áður var. Þetta hefur verið að gerast á þessu ári og ríkissjóður hefur ekki lagt fram einn einasta eyri til þess að létta byrðar þeirra aðila, sem fyrir þessum áföllum hafa orðið. Það er því algjörlega rangt, sem hæstv. viðskmrh. var að segja hér í sinni ræðu, að ríkissjóður hafi forðað almenningi í landinu á undanförnum mánuðum frá því að taka á sig áföllin með því að greiða niður verð á nauðsynjavörum. Almenningur hefur þegar tekið á sig þessi áföll og atvinnuvegirnir hafa þegar tekið á sig þessi áföll, en ríkissjóður ekki. Og ríkisstj. lýsir því yfir nú, að ekki séu ráðgerðar neinar sérstakar aðgerðir til stuðnings atvinnuvegunum. Og sjálfur forsrh. gengur svo langt, að hann heldur því fram í umr. hér á Alþ., að engin rök séu fyrir því enn að flytja till. um frekari aðstoð við atvinnuvegina, og því séu till. ríkisstj. eingöngu miðaðar við fjárhagsástæður ríkissjóðs.

Till. ríkisstj. um nýjar álögur mundu síður en svo létta undir með þeim, sem þegar hafa orðið fyrir miklu tekjutapi vegna lækkandi verðs á útflutningsvörum og minni afla og minni vinnu en áður. Þær ráðstafanir að hækka verð á smjöri um 43 kr. hvert kg, mjólk um 2 kr. hvern l, kartöflur um 6 kr. hvert kg og kjöt um 16–20 kr. kílóið mundu auðvitað skella á sjómönnum ekki síður en öðrum landsmönnum. Þær ráðstafanir skella m.a.s. á útflutningsatvinnuvegunum sjálfum í ýmsum tilfellum, þar sem þeir verða að greiða fæðiskostnað sinna starfsmanna. Stórfelld hækkun á fasteignaskatti, sem ná mun til alls venjulegs íbúðarhúsnæðis í landinu, skellur einnig á því launafólki, sem þegar hefur tapað verulegum hluta tekna sinna, og hún mun einnig skella á eigendum frystihúsa, eigendum síldariðnaðarfyrirtækja og öðrum þeim, sem þegar hafa þurft að þola áföllin. Og hvað um hækkun símagjalda, hækkun á pósti, hækkun útvarpsgjalda og hækkun tryggingargjalda? Er ekki augljóst, að hækkun allra þessara gjalda mun enn þyngja byrðarnar hjá þeim, sem þegar hafa tekið á sig þyngstu baggana af minni afla, af minnkandi atvinnu og verri rekstrarafkomu?

Till. ríkisstj. um nýjar álögur, 700–800 millj. kr. vegna ríkissjóðs, eru í raun og sannleika stórfurðulegar. Ríkissjóður hefur fengið nýja tekjustofna svo að segja árlega nú um nokkurt skeið, enda hafa heildartekjur ríkissjóðs farið ört hækkandi. Árið 1962 voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar á fjárlögum 1,7 milljarður kr. Árið 1963 voru þær áætlaðar 2,2 milljarðar, árið 1966 3,8 milljarðar og árið 1967 4,7 milljarðar. S.l. ár, árið 1966, fóru tekjur ríkissjóðs um 900 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga. Tekjur ríkissjóðs hafa þrefaldazt frá árinu 1962 til ársins 1967. Ríkissjóður hefur ekki orðið fyrir neinu áfalli enn sem komið er. Tekjur ríkissjóðs munu t.d. ekki vera minni nú en á sama tíma í fyrra, heldur þvert á móti, enda viðurkenndi hæstv. fjmrh. það, að allar líkur bentu til, að ekki yrði um að ræða greiðsluhalla hjá ríkissjóði á yfirstandandi ári. Og allar spár um væntanlegar tekjur ríkissjóðs á næsta ári eru óraunhæfar fyrr en gerðar hafa verið ráðstafanir vegna atvinnuveganna. En samt kemur ríkisstj. með till. um 750 millj. kr. álögur á þjóðina vegna útgjalda ríkissjóðs, án þess þó að hún geri ráð fyrir, að ríkið veiti atvinnuvegunum nokkurn stuðning umfram það, sem verið hefur.

Ástæðurnar fyrir nýrri tekjuþörf ríkissjóðs eru fyrst og fremst síaukin ríkisútgjöld á flestum sviðum, síaukin þensla í ríkisbákninu. Þó að ríkisstj. prédiki nú fyrir launafólki í landinu, að það verði að spara, að það verði að sætta sig við minnkandi tekjur og hækkandi verðlag, þar sem þjóðartekjurnar minnki, þá dettur ríkisstj. ekki í hug að spara í rekstri ríkisins einn einasta eyri. Skv. fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er ráðgert, að ríkisútgjöldin eigi enn að hækka verulega frá því, sem verið hefur, á næsta ári. Sparnaðurinn í rekstri ríkisins finnst hvergi í þessu frv. Ríkisstj. og stuðningsblöð hennar spyrja okkur í stjórnarandstöðunni af miklu steigurlæti, hverjar séu okkar till. til lausnar á þeim vanda, sem við er að glíma. Og þegar þeir spyrja, eiga þeir einvörðungu við það, hvaða till. við höfum til þess að auka við tekjur ríkissjóðs. Við Alþb.- menn teljum, að vandi ísl. efnahagsmála í dag snúist ekki um fjárhagsafkomu ríkissjóðs, heldur um það, hvernig bezt megi tryggja fullan rekstur ísl. atvinnufyrirtækja og þá sérstaklega útflutningsatvinnuveganna, sem nú eru að komast í þrot. Tillögur í efnahagsmálum eiga að snúast um það, hvernig skuli leysa þann vanda, svo að hægt verði að halda uppi fullum framleiðsluafköstum í landinu. Við Alþb.- menn teljum, að það sé einkum þrennt, sem gera eigi í fjármálum ríkisins.

Í fyrsta lagi teljum við, að draga megi úr margvíslegum óþarfa útgjöldum, sem nú eiga sér stað hjá ríkinu. Þannig á að hætta að hafa mörg sendiráð á Norðurlöndum, hætta að eyða mörgum millj. í sendiráð hjá NATO, hætta að eyða tugum millj. í lögregluhald á Keflavíkurflugvelli og þá að draga úr stórkostlegum veizluhöldum, hætta að kaupa á okurverði hús af pólitískum vildarvinum ríkisstj., eins og fyrrv. ráðherrum, hætta að kaupa lóðir og lendur í Reykjavík og næsta nágrenni fyrir marga tugi millj. og draga stórlega úr hóflausri þenslu í ýmsum stofnunum ríkisins. Hér eru aðeins nefnd nokkur dæmi um sparnað, en auðvitað er hægt að spara umtalsverða fjárhæð af yfir 6000 millj. kr. útgjöldum á vegum ríkisins og ríkisstofnana, ef aðeins viljinn er fyrir hendi.

Í öðru lagi teljum við Alþb.-menn, að nýta eigi betur en nú er gert þá tekjustofna, sem ríkið hefur samkvæmt lögum. Það er opinbert leyndarmál, sem allir þekkja, að stór hluti þess söluskatts, sem lagður hefur verið á og þegar hefur verið greiddur af landsmönnum, lendir annað en í ríkissjóði. Nýlega hefur t.d. eitt fyrirtæki í Reykjavík hlotið dóm fyrir að hafa skotið undan söluskattsskyldri vörusölu, sem nam 10,2 millj. kr. Annað fyrirtæki í Reykjavík bíður nú dóms, en er kært fyrir að hafa beinlínis stolið 7 millj. kr. af söluskatti, sem renna átti í ríkissjóð. Þessi tvö fyrirtæki eru ekki þau einu, sem undan hafa skotið söluskatti. Ef ríkisstj. vildi taka á þessum skattsvikum með sömu hörkunni og hún nú ætlar að ganga að launafólki með níðþungum álögum, þá er enginn vafi á, að hún gæti stóraukið við tekjur ríkissjóðs. Og hvað halda menn, að hægt væri að ná í miklu meiri tekjuskatt en nú er gert, ef fyrirtæki, milliliðir og braskarar væru látnir greiða skatta af öllum sínum tekjum?

Í þriðja lagi bendum við Alþb.-menn á, að þurfi óhjákvæmilega að afla ríkissjóði nýrra tekna, þá beri að gera það fremur með því að skattleggja óþarfavarning og lúxuseyðslu en með því að hækka brýnustu matvæli, sjúkrasamlagsgjöld og tryggingariðgjöld. Ég endurtek það, sem ég hef sagt, að það er skoðun okkar Alþb.-manna, að vandamálið, sem við er að fást í efnahagsmálum þjóðarinnar, sé ekki fjárhagsafkoma ríkissjóðs, heldur afkoma og ástand þýðingarmestu atvinnuvega landsins. Það eru útflutningsatvinnuvegirnir, sem orðið hafa fyrir áföllum, og það er það vinnandi fólk, sem er í nánustum tengslum við þá, sem orðið hefur fyrir mestu tekjutapi. Og hvað er þá hægt að gera útflutningsatvinnuvegunum til aðstoðar? Það er álit okkar Alþb.-manna, að óhjákvæmileg forsenda þess, að takast megi að rétta við hag atvinnuveganna, sé að breyta um stefnu í efnahagsmálum í grundvallaratriðum. Þannig teljum við, að óhjákvæmilegt sé að taka upp strangt og öflugt verðlagseftirlit í landinu í þeim tilgangi að koma í veg fyrir meiri verðlagshækkun innanlands en þá, sem útflutningsatvinnuvegirnir þola, og sem innlend starfsemi þolir í samkeppni við erlenda.

Á sama hátt teljum við, að algjörlega sé óhjákvæmilegt að koma þeirri stjórn á innflutningsog fjárfestingarmál, að hætt sé að eyða og sóa gjaldeyri í óþarfa eða festa fjármuni þjóðarinnar í óæskilegum eða ónothæfum framkvæmdum. Í þessum grundvallaratriðum verður að gjörbreyta um stefnu. Þá bendum við á, að þegar í stað ætti að gera eftirtaldar ráðstafanir meðal annarra til stuðnings útflutningsframleiðslunni:

1) Að lækka vexti verulega frá því, sem nú er, einkum til fyrirtækja, sem keppa við erlendan rekstur. Vextir af lánum útflutningsframleiðslunnar eru nú yfirleitt 9–10% og í mörgum tilfellum 12% vegna mikilla vanskila, sem hrúgazt hafa upp hjá framleiðslufyrirtækjum. Vextir í samkeppnislöndum okkar, eins og t.d. Noregi, eru yfirleitt varðandi lán til útflutningsins 3–4%.

2) Tryggja verður útflutningsfyrirtækjum eðlileg stofnlán, en þau skortir nú í mörgum greinum mjög tilfinnanlega, en það háir eðlilegum rekstri fyrirtækjanna.

3) Lengja á tafarlaust stofnlán, a.m.k. í það, sem þau voru fyrir viðreisn.

4) Rekstrarlán verður að auka verulega frá því, sem nú er.

5) Létta á útflutningsgjöldum af öllum þeim útflutningsvörum, sem fallið hafa verulega í verði. Um leið á að gjörbreyta því óhæfa vátryggingafyrirkomulagi, sem nú viðgengst, og tryggja síðan tekjur í stað útflutningsgjaldsins með öðrum hætti.

6) Ráðast þarf þegar í stað í endurnýjun togaraflotans með forgöngu ríkisins, en þeirri útgerð verður ekki bjargað með öðrum hætti. Með endurnýjun togaraflotans mætti jafnframt leysa eitt mesta vandamál fiskiðnaðarins, sem er hráefnaskorturinn.

7) Ríkið taki þegar í stað í sínar hendur olíusölu í landinu og leggi niður hið þrefalda dreifingarkerfi, og ætti þannig að mega spara atvinnuvegunum talsverða fjárhæð.

8) Gerðar verði sérstakar ráðstafanir til að tryggja útgerðinni nauðsynlegar rekstrarvörur eins og veiðarfæri, varahluti, vélar, ýmis útgerðartæki, salt o.fl., o.fl. á réttu verði án óeðlilegs milliliðakostnaðar. Þessar ráðstafanir og margar fleiri er hægt að gera þegar í stað, en þær mundu í rauninni krefjast gjörbreyttrar stjórnarstefnu, gjörbreyttra viðhorfa til framleiðsluatvinnuveganna frá því, sem verið hefur nú í nokkur ár.

Tillögur ríkisstj. í efnahagsmálum, þær till., sem hún birtir með fjárlagafrv., leysa engan vanda. Þær snerta í raun og veru ekki þau efnahagsvandamál, sem allir landsmenn vita, að óhjákvæmilegt er að leysa. Till. stjórnarinnar mundu ekki greiða úr vandamálum atvinnulífsins, heldur beinlínis auka vandann. Þær miðast fyrst og fremst við það að skerða launakjör frá umsömdu kaupi um 7–8% hið minnsta. Þannig ætlar ríkisstj. að notfæra sér erfiðleika atvinnuveganna og minnkandi atvinnu til þess að koma fram beinni lækkun á öllu umsömdu lágmarkskaupi vinnandi fólks. Framkoma ríkisstj. hefur þegar vakið óhemju gremju alls almennings í landinu. Ríkisstj. gerði samkomulag við verkalýðssamtökin í júní 1964 um verðtryggingu á kaupi. Á því samkomulagi hafa allir launasamningar síðan verið byggðir. Nú rýfur ríkisstj. þetta samkomulag fyrirvaralaust og boðar lagasetningu um beina kauplækkun á umsömdu kaupi. Þessi framkoma stjórnarinnar er vítaverð og hlýtur að draga dilk á eftir sér. Stjórn A.S.Í. hefur þegar mótmælt þessum aðferðum og lýst því yfir, að verkalýðshreyfingin muni ekki una þessum kauplækkunum. Mótmælin gegn tillögum ríkisstj. drífa að úr öllum áttum, og þau koma jöfnum höndum frá stuðningsmönnum ríkisstj., sem verið hafa fram til þessa, og andstæðingum hennar. Auk miðstjórnar A.S.Í. hafa eftirtaldir aðilar m.a. mótmælt till. ríkisstj.: Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur einróma samþykkt harðorð mótmæli, stjórn verkalýðsfélagsins Einingar á Akureyri hefur mótmælt, stjórn Iðju, félags verksmiðjufólks í Reykjavík, hefur mótmælt harðlega, Trésmiðafélagið í Rvík hefur sent mótmæli, Félag járniðnaðarmanna og ýmis önnur stéttarfélög hafa sent mótmæli sín gegn hinum fyrirhuguðu ráðstöfunum ríkisstj. Þá hefur sjómannaráðstefna, nýlega haldin í Reykjavík undir forystu Jóns Sigurðssonar, mótmælt till. og Jón lýst því yfir persónulega, að hann telji álögurnar koma illa niður og ósanngjarnlega. Björgvin Sighvatsson, einn af helztu forystumönnum Alþfl. á Vestfjörðum, segir, að ríkisstj. hafi sniðgengið verkalýðshreyfinguna og að álögurnar muni koma mjög hart niður á láglaunafólki. Skúli Þórðarson, form. verkalýðsfélags Akraness og einn af forystumönnum Alþfl. þar, sagði, að þessar álögur kæmu óréttlátlega niður og væru ósanngjarnar. Þannig rísa samtök launþega einhuga upp gegn till. ríkisstj., og stuðningsmenn stjórnarflokkanna í samtökum launafólks eru þar algjörlega sammála þeim, sem eru andvígir ríkisstj.

Sú skattlagning, sem ríkisstj. leggur til, mundi lenda af mestum þunga á tekjulágum alþýðuheimilum. Þannig mundi verðhækkunin á landbúnaðarvörum koma þyngst við stór barnaheimili, og hækkun nefskatta, eins og sjúkrasamlagsgjalds og tryggingagjalda, símagjalda og útvarpsgjalda koma tiltölulega þyngst niður á lágtekjufólki. Allar líkur benda til, að kjaraskerðing meðal-verkamannsfjölskyldu vegna þessara álaga yrði ekki undir 12–15%, en auk þeirrar kjaraskerðingar mundu svo flest verkamannsheimili verða að taka á sig tekjulækkun vegna samdráttar í atvinnulífinu. Það fer því ekki á milli mála, að ætlun ríkisstj. er, að verkafólk, sjómenn, bændur og annað launafólk taki á sig mjög miklar og þungar byrðar. En hvaða till. hefur ríkisstj. þá uppi um það, að milliliðir, braskarar og stórgróðamenn taki á sig nokkurn hluta af byrðunum? Hvað er heildsölum ætlað að taka á sig, hvað kaupsýslustéttinni almennt? Hvað eiga fasteignasalar að taka á sig, hvað verktakar? Hvað eiga bankar að taka á sig, og hvað ætlar ríkissjóður að taka á sig? Jú, það liggur fyrir, að ríkissjóður ætlar ekkert að taka á sig. Hann vill fá meiri tekjur en áður og ætlar að eyða meiru en áður. Bankarnir eiga heldur ekkert að taka á sig. Þeir eiga áfram að taka 10–12% vexti af atvinnuvegunum. Og hvað um kaupsýslumenn og milliliði? Þeir eiga áfram að ráða tekjum sínum sjálfir. Þeir eiga áfram að ráða álagningunni sjálfir, og lækki vara t.d. á erlendum markaði, geta þeir hækkað álagninguna án afskipta ríkisvaldsins, þrátt fyrir alla verðstöðvun. Athugun hefur leitt í ljós, að milliliðakostnaður hefur stóraukizt á undanförnum árum, m.a. álagning, bæði í heildsölu og smásölu. Við þeirri álagningu á ekki að hreyfa. Það á ekki einu sinni að gera neinar sérstakar ráðstafanir til þess að verzlunarfyrirtæki skili öllum þeim söluskatti til ríkissjóðs, sem þau hafa látið almenning borga. Till. ríkisstj. miða því að aukinni skattheimtu hjá almenningi, einkum og sérstaklega hjá láglaunafólki, en þær mundu ekki á neinn hátt ná til vaxandi gróða milliliða og gróðamanna.

Hæstv. viðskmrh. reyndi hér í ræðu sinni að afsaka hinar illræmdu álögur ríkisstj. með því að halda því fram, að launastéttirnar hefðu fengið svo ríflegan hluta af þjóðartekjunum á undanförnum árum, að álögurnar væru sanngjarnar af þeim ástæðum. Tölur, sem hæstv. ráðh. nefndi í þessu sambandi, voru mjög villandi, og hann leit alveg fram hjá þeirri staðreynd, sem liggur fyrir, að kaupmáttur tímakaups verkamanna hefur t.d. sáralítið breytzt á undanförnum árum, þrátt fyrir hið mikla góðæri, sem gengið hefur yfir landið. Till. ríkisstj. eru því ósanngjarnar og óskynsamlegar, og reynslan mun sýna, að þær fá ekki staðizt í framkvæmd. Álögur ríkisstj. fara strax út í verðlagið, og þær munu hafa sín áhrif. Bann við fullri vísitöluuppbót á laun mun ekki koma að gagni. Verkalýðshreyfingin hefur afl til þess að tryggja meðlimum sínum fullar bætur með nýjum kjarasamningum eða eftir öðrum leiðum. Ráðstafanir ríkisstj. munu því ekki leysa neinn vanda, en þvert á móti gera vandamál atvinnuveganna enn þá torleystari en þau eru nú.

Með kjarasamningunum, sem gerðir voru í júní 1964 urðu miklar breytingar í kaupgjaldsmálum hér á landi. Fram að þeim tíma voru kjarasamningar aðeins til stutts tíma, en átök voru mjög tíð á vinnumarkaði vegna síbreytilegs verðlags. Með júnísamkomulaginu, sem ríkisstj. stóð að, voru aftur teknar upp reglur um vísitöluuppbætur og kaup í samræmi við breytilegt verðlag, en það hefur jafnan verið ein meginkrafa launþegasamtakanna, að umsamið kaup breytist á hverjum tíma í samræmi við verðlag. Nú leggur ríkisstj. til, að svipta eigi burt þessu undirstöðuatriði allra kjarasamninga og virðist vilja fá yfir sig aftur hliðstætt ástand og ríkti í kaupgjaldsog launamálum fyrir júnísamkomulag. Kjarasamningar flestra verkalýðsfélaga eru lausir í dag. Átök á vinnumarkaði geta því hafizt hvenær sem er. Ríkisstj. hlýtur að hafa gert sér ljóst, að hún hefur ekkert afl til að standa gegn réttlætiskröfum sameinaðra verkalýðssamtakanna. Hún hlýtur að muna enn, að þegar síldveiðisjómenn sýndu henni vald sitt með því að sigla allir í höfn fyrir nokkrum árum síðan, þá átti hún engan annan kost en að gefast upp fyrir slíku afli. Og hvað mundi svo sem ríkisstj. gera, ef hafnarverkamenn í Reykjavík stöðvuðu um tíma alla sína vinnu? Og hvað gæti ríkisstj. gert, ef verkamenn við Búrfell eða Straumsvík eða verkafólkið í framleiðslubæjunum stöðvaði alla sina vinnu, þar til aftur hefði fengizt fram löggjöf um það, að dýrtíðaruppbætur skyldu greiddar á laun? Auðvitað gæti ríkisstj. ekkert gert annað en að gefast upp og játa ósigur sinn. Till. ríkisstj. eru því óskynsamlegar og þær fá ekki staðizt, þegar á reynir. Vandamál ríkissjóðs verður að leysa með öðrum hætti en þeim, sem ríkisstj. hefur hugsað sér, og vandamál atvinnulífsins og efnahagsmálanna almennt verður að leysa með breyttri stjórnarstefnu, sem framkvæma þarf síðan í fullu samráði og samstarfi við launastéttirnar í landinu. Núverandi ríkisstj. hefur ekki þann trúnað launastéttanna, sem til þarf, og virðist einnig hafa glatað stuðningi þeirra, sem með málefni undirstöðuatvinnuveganna fara. Ríkisstj. ætti því að víkja og það sem fyrst.