11.12.1967
Sameinað þing: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

1. mál, fjárlög 1968

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Enda þótt vissulega væri ástæða til að ræða hér nokkuð almennt um fjármálastefnu hæstv. ríkisstj. og það fjárlagafrv. almennt, sem er sýnishorn þeirrar stefnu, þá hef ég nú ekki hugsað mér að gera það. Það hefur einnig þegar verið gert allrækilega af þeim fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna í fjvn., sem hér hafa talað í dag. Auk þess, þá er það nú svo, að fyrir okkur þm., sem ekki höfum átt sæti í fjvn., er það óvenjulega örðugt að gera sér grein fyrir þessu fjárlagafrv., þar sem það kemur nú, tæplega hálfkarað til 2. umr. á Alþ. Til þess, að svo er, liggja að vísu orsakir, sem öllum eru kunnar, þ.e.a.s. að endurskoða þurfti fjárlagafrv. vegna þeirrar röskunar, sem varð í sambandi við gengisfellinguna, en þó verð ég að lýsa yfir furðu minni á því, að frv. skuli tekið til 2. umr., þegar endurskoðun þess er ekki lengra á veg komið heldur en raun ber vitni. Það var vissulega mikið vafamál, hvort rétt var og raunar forsvaranlegt gagnvart Alþ. að kasta fjárlagafrv. þannig fram fyrir þingið, hálfköruðu, eins og ég segi, og svo stórlega götóttu eins og raun ber vitni. Ég tel, að undir þeim kringumstæðum, sem nú voru fyrir hendi, þar sem endursemja þurfti í rauninni fjárlagafrv., hafi vissulega verið eðlilegra að bíða ögn eftir því, að þeirri endurskoðun væri lokið. En þetta er nú gerður hlutur og tjáir ekki öllu frekar um að tala, og skal ég því ekki hafa fleiri orð um það.

Hv. 6. landsk. þm., sem talaði hér síðdegis í dag, gerði m.a. að umræðuefni, hvernig íslenzkir námsmenn, og þá sérstaklega þeir íslenzkir námsmenn, sem eru við nám erlendis, verða heiftarlega fyrir barðinu á gengisfellingunni og hversu lítil úrbót þeim er ætluð samkv. till. meiri hl. fjvn. Gengisfellingin, sem framkvæmd var í nóvembermánuði, kemur vissulega illa við marga, það er enginn efi á því, en þó mun hún snerta fáa hópa í þessu þjóðfélagi eins illa og íslenzka námsmenn, sem hafa lagt alla sína fjármuni, og gjarna fjármuni sinna vandamanna, í það að afla sér þekkingar erlendis, nota til þess allt sitt aflafé og allt það fé, í mörgum tilfellum, sem vandamenn þeirra geta aflað. Stuðningur ríkisvaldsins við þessa menn, þennan hóp myndarlegra ungra manna, sem eru að sækja þekkingu, nauðsynlega þjóðfélaginu, til annarra landa, hann hefur á liðnum tímum verið allt of lítill og óeðlilega lítill, en ég vil segja, að nú eftir gengisfellinguna er smánarlega illa að þeim búið af hálfu hins opinbera. Hv. form. fjvn. sagði í ræðu sinni hér í dag, að meiri hl. n. leggi til, að námsstyrkir og námslán hækki sem gengislækkuninni nemur. Ég hygg, að hann hafi orðað þetta á þá leið, sem ég greindi nú. Þetta er vægast sagt mjög ónákvæmt orðalag og verður auðveldlega misskilið. Það mun liggja að baki þessum orðum, að meiri hl. fjvn. ætlast til, að námsmenn fái þau auknu útgjöld, sem leiðir af gengisfellingunni, bætt, að því er varðar þann hluta námskostnaðar, sem hið opinbera hefur staðið straum af. Mér sýnist nú í fljótu bragði, að það hangi nú ekki einu sinni í því samkv. till. meiri hl., að þessi hluti námskostnaðar sé að fullu bættur, en þó svo væri, verða námsmenn vitanlega fyrir gífurlega miklum skakkaföllum af gengisfellingunni, þar sem hluti hins opinbera í námskostnaði er sannanlega ekki meiri heldur en þriðjungur námskostnaðar að meðaltali. Og það er aðeins þessi þriðji hluti, sá hluti, sem tekar til hins opinbera stuðnings, sem ætlað er að bæta mönnum upp með hækkuðu framlagi á fjárlögum, og þó varla það. Þá er þess að gæta, að þessi stuðningur ríkisvaldsins er að mestu leyti fólginn í lánum, sem menn verða að endurgreiða, og verður að sjálfsögðu að taka tillit til þess, að menn hleypa sér í stórum meiri skuldir eftir en áður, vegna þessara aðgerða, og þeim er það að mjög litlu leyti upp bætt, þó að þeir fái þarna lítils háttar meiri lán frá hinu opinbera.

Minni hl. fjvn. flytur á þskj. 125 till. um nokkra hækkun á þessum lið umfram það, sem meiri hl. leggur til, eða um 7,5 millj. kr. Þetta tel ég að vísu of lítið, þessa hækkun, mikils til of litla, en þó væri vissulega veruleg bót að henni fyrir námsmenn, en það væri líka algert lágmark að mínum dómi, að Alþ. samþykkti þá hækkun.

Ég verð að segja, að það eru óneitanlega kaldar kveðjur, sem ríkisstj. sendir þeim ísl. námsmönnum erlendis, sem nú verða að taka á sig, að því er mér virðist, 18–20 millj. kr. aukin útgjöld. Það eru heldur kaldar kveðjur, ef hún ætlar ekki að gera annað og meira til þess að bæta þeim þetta upp en að sletta í þá 3–4 millj. af þessari upphæð. Ég verða að átelja þetta mjög harðlega og lýsa því yfir, að ég tel þetta algerlega óforsvaranleg vinnubrögð. Ég óttast það, að slík meðferð í sambandi við ísl. námsmenn hljóti að hafa mjög óheppileg þjóðfélagsleg áhrif fyrir utan þau margvíslegu áföll og skakkaföll, sem ungir efnismenn verða fyrir, ef þeir standa nú frammi fyrir því, sem allar líkur eru til um ýmsa þeirra, að þeir verði hreinlega að hætta námi. Ég vil skora á hæstv. ríkisstj. og þá alveg sérstaklega á hæstv. fjmrh., sem hér er staddur á þingfundi, að endurskoða þetta mál. Hér er ekki um stórkostlegt fjárhagsatriði að ræða fyrir ríkissjóð, hér er aðallega um að ræða aukið lánsfé. Það hefur verið í því formi og er í sjálfu sér ekki mikið við því að segja, þegar láu eru veitt með mjög hagstæðum kjörum, en þetta er stórkostlegt atriði fyrir þá einstaklinga, sem þarna eiga hlut að máli, og það er mjög mikið atriði fyrir þjóðarheildina, að efnilegir námsmenn þurfi ekki að hætta námi eða verða fyrir verulegum truflunum í námi, sakir fjárskorts.

Ég mun nú snúa mér að þeim brtt. við fjárlagafrv., sem ég flyt á þskj. 127 ásamt hv. 6. þm. Reykv. Þessar brtt. eru fjórar og þær snerta eingöngu mennta- og menningarmál. Ég vil fyrst lýsa því yfir, að ég hafði vissulega tilhneigingu til þess að flytja miklu fleiri brtt. við marga þá liði fjárlaga, sem veita fé til menningarmála og vísindamála, því að það er nú svo, eins og löngum raunar áður, að þar virðist helzt vera um einhverja sparnaðarviðleitni að ræða, og þá mundi ég segja, að í ýmsum tilfellum væri það þá þar, sem einna sízt skyldi. En ég hef nú látið við það sitja, og við flm. þessara till. hér, að flytja 4 brtt. einvörðungu. Það er þá í fyrsta lagi nokkur hækkun á framlagi til Landsbókasafns til bókakaupa og bókbands. Það verður að segja þá sögu eins og hún er, að þetta helzta þjóðbókasafn okkar hefur mjög lengi og raunar lengst af staðið svo að segja í svelti, að því er varðar fjárveitingar til bókakaupa, fjárveitingar til eðlilegrar aukningar og endurnýjunar safnsins. Safnið hefur að vísu vaxið töluvert, einkum vegna þess, að það fær ókeypis l. samkv. nokkur eintök af öllum íslenzkum bókum, sem út eru gefnar, og jafnframt hefur það alltaf öðru hvoru og raunar flest árin fengið ýmsar bókagjafir frá öðrum löndum og fengið einnig töluvert af bókum í bókaskiptum fyrir þær íslenzkar bækur, sem útgefendur hafa látið því í té, og þannig getað haft skipti við erlenda aðila. Og löngum var það í rauninni svo, að þetta voru einu möguleikar Landsbókasafnsins til þess að efla bókakost sinn. Árum, ef ekki áratugum saman, voru þeir fjármunir, sem varið var til bókakaupa og bókbands, svo naumt skammtaðir, að þeir dugðu sum árin ekki nema fyrir bókbandinu og jafnvel einstaka ár tæplega það. Það skal viðurkennt, að lítils háttar hefur verið úr þessu bætt mína allra síðustu árin, þannig að framlagið til Landsbókasafns til bókakaupa og bókbands dugar nú eitthvað meira en til þess að binda bækurnar inn, það er hægt að kaupa eitthvert lítilræði, en hér er þó enn allt of og algerlega óeðlilega smátt skammtað. Í sambandi við þennan lið flytjum við till. um það, að í stað 1.3 millj. verði liðurinn hækkaður í 3 millj. kr., og mætti það raunar ekki öllu minna vera.

2. brtt. okkar er í sambandi við Listasafn ríkisins, þ.e.a.s. í sambandi við byggingarsjóð Listasafnsins. Það er gamall draumur þeirra, sem áhuga hafa á listum, og raunar vil ég segja þjóðarinnar allrar, að hér rísi upp myndarlegt listasafn, sem geti hýst svo og svo mikið af þeim listaverkum, sem þjóðin hefur eignazt og kemur til með að eignast á komandi árum.

Það hefur lengi verið veitt nokkurt fjármagn til kaupa á listaverkum, að vísu lítið lengst af og raunar alltaf, en þó hefur tekizt að kaupa fyrir þá fjármuni töluvert mikið af listaverkum frá ýmsum tímum og frá flestum listamönnum okkar, sem hafa getið sér nokkurt teljandi orð, og Listasafnið á nú þegar allstórt safn listaverka. Það hefur orðið að búa við erfiða aðstöðu, að því er húsnæði snertir. Það er í leiguhúsnæði, eins og kunnugt er, í Þjóðminjasafni, og þar er ekki hægt að sýna nema örlítið brot af þeim listaverkum, sem Listasafnið hefur þegar eignazt, og nánast engin tök á því, eða a.m.k. mjög erfitt um vik að hafa þar að staðaldri sérsýningar, eins og eðlilegt væri, að listasafn hefði, a.m.k. öðru hvoru. Fyrir einum 15 árum viðurkenndi Alþingi nauðsyn þess, að byggt skyldi yfir Listasafnið, viðurkenndi það með því að stofna byggingarsjóð Listasafns ríkisins með fjárframlagi, sem ég hygg, að þá hafi numið 300 þús. kr., og 300 þús. kr. voru síðan veittar til þessa byggingarsjóðs í nokkur ár, og síðan á einhverju tímabili. Þegar ríkisstj. vildi fara að bæta hag þessa byggingarsjóðs, mun þessi upphæð hafa verið hækkuð upp í 400 þús. kr. á ári og við það hefur setið síðan. Ég er ekki viss um, hvort ég man það rétt, að það séu 15 eða 16 ár síðan þessi byggingarsjóður var stofnaður. Ég hygg, að í honum séu núna svo sem kannske 5 eða á 6. millj. kr., en ég efast stórlega um, að hann sé öllu betur undir það búinn að sinna hlutverki sínu í dag, þó að hann eigi eins og 5–6 milljónir kr., en hann var fyrir svona 12–13 árum, eftir að þriggja ára fjárframlag var þar komið, eins og 900 þús. kr. Til þess að sýna lit á því a.m.k., að Alþingi skilji nauðsyn þess, að byggt verði yfir listaverk þjóðarinnar, leyfum við okkur að gera þá brtt. við þennan lið, að í staðinn fyrir 400 þús. kr. til byggingarsjóðs Listasafns komi 5 millj.

3. brtt. okkar er við liðinn listamannalaun. Ég skal nú ekki að þessu sinni fara um það mál ýkja mörgum orðum. Ég hef gert það alloft, og raunar flest þau ár, sem ég hef setið hér á þingi, og reynt, eftir minni getu, að færa rök að því, að Alþingi beri að styrkja listamenn bæði myndarlegar heldur en það hefur gert, og þó sérstaklega á þann veg, að það komi að betri notum — komi bæði listamönnunum sjálfum og þjóðfélaginu að betri og meiri notum en þær fjárveitingar hafa oft og tíðum komið, sem hafa þó verið veittar og jafnan af mjög skornum skammti.

Á síðasta Alþingi voru loksins sett l. um úthlutun listamannalauna, en slík úthlutun hafði þá farið fram árum saman, án þess að þar um gilti nein löggjöf. Ég gerði í fyrra ýmsar aths. við þessa löggjöf og tel hana engan veginn fullnægjandi, en lít þó svo á, að svo framarlega sem heildarupphæðin til listamanna yrði hækkuð allverulega, mætti að sinni una við þessa löggjöf, og þá væri hún e.t.v. betri heldur en ekki neitt. Aðalatriðið er að sjálfsögðu, að um sé að ræða það stóra heildarupphæð, að hún komi að einhverju verulegu gagni. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á eitt atriði, sem fram kom í grg. hæstv. ríkisstj. fyrir frv. um listamannalaun í fyrra og ég hygg, að einnig hafi komið fram í ræðu hæstv. menntmrh. fyrir því frv. Þar var að því vikið, að ætlunin væri, auk hinna almennu listamannalauna, sem þá voru mjög lítið hækkuð, stóðu hér um bil í stað, væri ætlun ríkisstj. að verða við þeim óskum og kröfum, sem fram höfðu komið um að veita fljótlega nokkurt fé til svo nefndra starfsstyrkja listamönnum til handa. En á það hafði verið bent af ýmsum, að æskilegt væri, að nokkurt fjármagn yrði veitt til slíkra starfsstyrkja, sem úthlutað væri ekki ósvipað og á sér stað um styrki úr vísindasjóði. Slíkt fjármagn ætti að geta komið að verulegum notum. Þá er við það átt, að listamenn, sem þegar hafa sýnt getu sína, eða a.m.k. sýnt, að þeir eru listamannsefni, fái tækifæri til þess að vinna tiltekinn tíma, 2–3 ár, skyldi maður segja, að ákveðnum verkefnum og styrkir til þeirra miðist við það, að þeir geti skilað tilteknum verkefnum á tilteknum tíma.

Ég kannast ekki við það, að þetta fyrirheit, sem ég vil kalla svo, í grg. frv. um listamannalaun og í ræðu hæstv. menntmrh., hafi verið efnt eða nokkrir tilburðir séu uppi enn sem komið er af hálfu hæstv. ríkisstj. að verða við þessu. Við flm. teljum m.a. með tilliti til þessa, að eðlilegt væri, að Alþ. hækkaði nú allmyndarlega þessa upphæð til listamanna, og að hluti af þeirri hækkun gæti þá farið til þeirra starfsstyrkja, sem hæstv. núv. ríkisstj. er í rauninni búin að gefa fyrirheit um, en ekki hefur enn komið annað heldur en fyrirheitið. Við leggjum til, að upphæðin verði nokkurn veginn tvöfölduð eða í staðinn fyrir 4 millj. 80 þús. kr. komi 8 millj. kr.

Þá erum við með till. um einn nýjan lið. Það er til listkynningar um landið samkv. ákvörðun menntamálaráðs, 1 millj. kr. Um þetta tel ég ekki þörf á að fara ýkja mörgum orðum. Það hefur verið allmjög um það rætt hér á Alþ., hversu miklir erfiðleikar eru víða í fámenninu, að því er varðar að halda uppi góðri og fjölþættri menningarstarfsemi. Það hefur verið rætt um þau félagsheimili, sem komið hefur verið upp víðs vegar um land fyrir ærið fé, og þau megi vissulega nota miklu betur í því skyni, sem í rauninni var tilgangurinn, til menningarauka. En það verði þó naumast gert nema með skipulegu átaki, þar sem hið opinbera kæmi að verulegu leyti til móts við áhugamenn heima í héruðum. Það hefur fyrir nokkrum árum verið gerð tilraun til þess að flytja góða list um landið. Það var gert að frumkvæði menntamálaráðs og ríkisútvarpsins fyrir fáeinum árum. Og mér er kunnugt um það, að þessi tilraun tókst að mörgu leyti mjög vel. Það var verulegur áhugi víða í héruðum fyrir þessu framtaki og það var ekki svo ýkja mikill kostnaður, sem þessari starfsemi var samfara. Ég tel, að með 1 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði væri hægt að hefjast allmyndarlega handa um slíka starfsemi sem þessa. Og ég tel, að þar gæti verið um að ræða tvenns konar starfsemi, annars vegar, að sá aðili, þ.e. menntamálaráð, sem við bendum á í þessu sambandi, sá aðili, sem hefði með þessi mál að gera af hálfu hins opinbera, beitti sér sjálfur fyrir ferðalögum góðra listamanna um ákveðna landshluta til skiptis, en jafnframt og ekki síður væri hann til taks og menn vissu af því heima í héruðum, að þarna væri um að ræða aðila, sem hefði það verkefni að styrkja þessa starfsemi og hann væri til taks, ef áhugamenn heima í héruðunum vildu leggja eitthvað töluvert á sig til þess að koma upp menningarlegri starfsemi, til þess að fá heimsókn góðra listamanna, til þess að fá sinfóníuhljómsveit, til þess að fá gott leikrit sýnt og þar fram eftir götunum, — þá væri til aðili, sem vildi styrkja þetta og gæti gert það að einhverju marki. Hér er ekki farið fram á mikið, en við teljum, að tiltölulega lítil upphæð eins og 1 millj. kr. gæti gert þarna mjög verulegt gagn, a.m.k. sem byrjunarframlag af hálfu hins opinbera til þessarar starfsemi, sem svo mikil þörf er á.

Loks erum við hér með litla till. um hækkun á lið, sem heitir „til vísinda- og fræðimanna.“ Hér er bæði um að ræða ýmsa alþýðlega fræðimenn sem hafa stundað sín fræði margir hverjir um langan aldur og ýmsir með góðum og mjög virðingarverðum árangri, en hér er jafnframt um að ræða ýmsa af okkar ágætu náttúrufræðingum, sem leggja oft töluvert í kostnað á sumrin við að ferðast um landið til þess að sinna ýmsum rannsóknum, sem eru e.t.v. í mörgum tilfellum utan við þeirra beina starfssvið, þ.e. áhugastarf oft og tíðum og hefur í mörgum tilfellum gefið mjög góða raun. Það er æskilegt að geta styrkt þessa menn, að geta greitt einhvern verulegan hluta af ferðakostnaði þeirra, þó að ekki væri nú annað, og það hefur verið reynt að verða að einhverju leyti við því af þeirri litlu upphæð, sem menntamálaráð hefur haft til ráðstöfunar til styrktar vísinda- og fræðimönnum. En sú upphæð, 380 þús. kr., hrekkur vitanlega skammt, þegar um allmarga og hæfa menn er að ræða, sem sækja um þennan styrk. Við leggjum til, að þessi upphæð hækki í 1 millj.

Það eru eins og ég sagði áðan vissulega mörg fleiri atriði á sviði mennta og vísinda, sem þyrfti að styrkja og efla miklu meira en gert er, en það eru nú ekki fluttar um það till. hér á þessu þskj. að þessu sinni, og í rauninni verð ég að ljúka þessum orðum með því, að ég tel, að hér sé ákaflega vægilega í sakir farið og ekki farið fram á mikið. Hér er aðeins um að ræða 11–12 millj. kr. til ýmissa mjög nauðsynlegra stofnana og fyrirtækja, sem margar hverjar standa undir ekki óverulegum hluta af okkar menningarmálum, og það gæti vissulega orðið þjóðmenningu okkar að töluverðu liði og þessi aðstoð komið að miklu meiri notum heldur en mörg sú fjárveitingin, sem Alþingi veitir fé til alveg umyrða- og eftirtölulaust.