11.12.1967
Sameinað þing: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

1. mál, fjárlög 1968

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það er út af ræðu hæstv. fjmrh., sem hann flutti fyrir kvöldmat, sem ég þarf að segja nokkur orð og gera nokkrar aths. við það, sem fram kom í þeirri ræðu.

Í fyrsta lagi virtist hæstv. fjmrh. álíta það, að þegar við í minni hl. fjvn. ræddum um það, að ekki lægi fyrir tekjuáætlun eftir gengisbreytinguna, hefðum við í frammi aðdróttanir um það, að það væri verið að leyna okkur þessari áætlun, því að hún mundi liggja fyrir. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., að okkar ásakanir hafi verið af þeim toga spunnar, heldur er það okkar skoðun, og ég þarf ekki að skýra fyrir hæstv. ráðh., að það er afar erfitt að ræða um fjárl. og það við 2. umr. þeirra, sem hefur verið til þessa talin aðalumr., án þess að vita, hvað stjórnvöld ætlast fyrir um tekjur á fjárlagafrv. Það, sem við vorum að kvarta undan, voru þeir erfiðleikar, sem því voru samfara, að vita ekkert um þetta, þótt við hins vegar vissum, að það kostaði nokkra vinnu að vinna málið upp eftir gengisbreytinguna. En við viljum undirstrika það, að það er mjög erfitt að ræða um fjárl. við 2. umr. án þess að hafa tekjuáætlunina fyrir sér. Eins og fram kom í ræðu hv. 6. landsk. þm., Geirs Gunnarssonar, orkar það tvímælis, hvort hægt var að afgreiða fjárlög nú fyrir áramót einmitt vegna þess, hve gengisbreytingin var seint á ferðinni. Þó að ég sé fylgismaður þess, að það sé að jafnaði gert, verða forsendur fyrir því að vera til staðar. Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri grundvallarregla hæstv. ríkisstj. í sambandi við tekjur af gengisbreytingunni, að þær væru notaðar til þess að draga úr áhrifum gengisbreytingarinnar. Þetta var það atriði, sem ég lagði verulega áherzlu á í minni ræðu hér í dag og kemur fram í nál. okkar, að það verður að nota þær tekjur, sem verða af gengisbreytingunni til þess að draga úr skaðlegum áhrifum hennar eins og fært er. Hitt er annað mál, að þó að við höfum þessa skoðun og teljum þetta grundvallaratriði, þá lítum við ekki alls kostar sömu augum á það, ég og hæstv. ráðh., hvað væri nauðsynlegt að gera til þess að ná þessu marki. Ég vil t.d. taka það fram, að ég tel, að það skipti meginmáli, að Alþ. ráðstafi þeim teljum, sem væntanlegar eru í ríkissjóð á næsta ári, að mestu leyti, en hæstv. ríkisstj. hafi það ekki í sínum höndum, eins og verið hefur um greiðsluafganga fyrri ára, sem hún hefur ráðstafað að mestu sjálf.

Ég tek undir það með hæstv. ráðh. eins og fram kom í ræðu minni hér í dag, að tollalækkanir hljóta að koma þar til og verulega til þess að draga úr þessum áhrifum. Hins vegar fannst mér það, sem hæstv. ráðh. sagði um tollana í sambandi við iðnaðinn, ekki eins jákvætt og ég hafði vonazt til. Hæstv. ráðh. taldi, að ef mjög væri gengið inn á það að láta iðnaðinn fá verndartolla, mundi það verða til þess að draga úr hagrænum áhrifum fyrir fólkið í landinu um lægra vöruverð. Nú er því hins vegar til að svara, að það, sem mestu máli skiptir þó fyrir fólkið, er að hafa næga atvinnu. Og það, sem hefur mest sorfið að hér á landi einmitt nú, er, hvað mörg iðnaðarfyrirtæki hafa ýmist hætt rekstri eða starfsemi þeirra dregizt verulega saman. Ég er því ekki í nokkrum vafa um það, að það er þjóðhagslega hagkvæmt að styðja iðnaðinn, og það er nauðsynlegt að nota gengisbreytinguna til þess að styðja iðnaðinn meira heldur en gert hefur verið nú síðustu árin.

Um tryggingarnar sagði hæstv. ráðh., að elli- og örorkulaun mundu verða hækkuð það mikið, að fullar bætur kæmu til þess fólks, sem þeirra launa njóta. Hins vegar sagði hæstv. ráðh. ekkert um fjölskyldubæturnar, hvernig á þeim yrði tekið í sambandi við tryggingarnar eða hversu mikið þær yrðu auknar. Það hefur verið mikið um það rætt hér í sambandi við aðgerðirnar í efnahagsmálum, að sú ráðstöfun að draga verulega úr niðurgreiðslum, mundi koma mjög hart við stærstu fjölskyldurnar. Sú leið, sem einna farsælust mun reynast til þess að draga úr þessum áhrifum, eru auknar fjölskyldubætur einmitt til þeirra fjölskyldna, þar sem börnin eru mörg. Ég vildi því undirstrika það og leggja á það mikla áherzlu, að þessi leið verði farin til þess að draga úr sárustu áhrifum gengisbreytingarinnar og þá ekki síður þeirrar breytingar, sem er samfara því að hætta niðurgreiðslunum í jafnstórum stíl eins og gert er með ákvörðun þessa fjárlagafrv.

Ég tel, að það sé í samræmi við þessa höfuðstefnu, að draga úr skaðlegum áhrifum gengisbreytingarinnar, að bæta fjárfestingarliðunum upp það tjón, sem fjárfestingin verður fyrir með minna notagildi þess fjár, er til framkvæmda á að verja, vegna gengisbreytingarinnar heldur en áður hefur verið. Og ekki sízt er það knýjandi nauðsyn, þegar það er haft í huga, að á yfirstandandi ári voru fjárveitingar lækkaðar um 10% frá því, sem Alþ. hafði ætlazt til, að yrði til fjárfestingarliðanna. Ég rakti það í dag í ræðu minni, hversu verkefnin væru brýn og nauðsyn á að halda framkvæmdamætti fjárfestingarfjárins ekki minni heldur en Alþ. gerði ráð fyrir, að hann yrði á yfirstandandi ári. Og mér finnst, að það sé í fullkomnu samræmi við þá meginreglu, sem var lýst hér í upphafi og hæstv. ráðh. lýsti sem reglu hæstv. ríkisstj. um áhrif af gengisbreytingunni. Enda hefur það komið fram og kom meira að segja fram í ræðu hæstv. ráðh. síðar, að verkefnum eins og skólum, höfnum og fleiru slíku — ég veit, að þar má bæta við raforkumálum — er ekki hægt að sinna að neinu marki með þeim fjárveitingum, sem fjárlagafrv. nú gerir ráð fyrir. Þess vegna tel ég, að það sé ekki brýn nauðsyn, heldur í fyllsta samræmi við yfirlýsta stefnu um áhrif gengisbreytingarinnar.

Hæstv. ráðh. vildi gera lítið úr því, sem ég upplýsti hér í sambandi við skólakostnaðarl. Í fyrsta lagi vil ég nú taka það fram, að l. kveða svo á, að gildistaka þeirra sé þá þegar, er þau voru samþ. og staðfest af forseta, en þau kæmu ekki að öllu leyti til framkvæmda fyrr en 1. sept. 1968. Ég held, að það muni verða talin óeðlileg lagaskýring og óeðlileg afgreiðsla, að láta gildistöku l. verða, þegar þau eru staðfest, en miða samt við, að þau taki ekki gildi fyrr en 11/2 ári frá því, að þau voru staðfest. Ég þarf ekki að eyða orðum að því, að það var hugsun hv. þm., þegar l. voru afgreidd á s.l. vori, að þau tækju gildi fyrr, og það var þá gert ráð fyrir því, að þau tækju að einhverju leyti gildi 1. sept. 1967. Hins vegar töldu hv. alþm., að það væri ekki gerlegt að áætla, að það væri hægt að koma l. í fulla framkvæmd fyrr en 1. sept. 1968. Þess vegna var það ákvæði sett inn í l., en ekki að hugsunin væri, að þau byrjuðu þá að taka gildi eða koma til framkvæmda. Ég vil líka segja það, að það atriði, sem ég upplýsti hér í dag, að menntmrh. hefði lagt svo fyrir, að við ráðningu kennara á s.l. hausti yrði gengið út frá nýju löggjöfinni, þetta ákvæði og þessi fyrirskipun hæstv. menntmrh. gildir hér á landi nú. Ég er ekki kunnugur því, hvort fleiri kennarar hafa verið ráðnir, heldur en áður hefur verið. Hins vegar var ákvæði í l. um hlutfall fastra kennara í skólum, sem er mjög mikil breyting frá því, sem áður var. En ég er viss um og veit, að þetta hefur þó nokkurn kostnað í för með sér. Verði lögin ekki framkvæmd fyrr en 1. sept. 1968, eru það sveitarfélögin, sem ekki réðu neinu um þetta atriði, sem eru látin blæða. Einn höfuðkostur l. er sá, að ríkissjóður greiðir aukakennsluna jafnharðan og hún kemur til útborgunar, í staðinn fyrir, að eldri l. gerðu ráð fyrir, að hver greiðsla færi fram ári eftir, að hún er innt af höndum af hálfu sveitarfélagsins. Þetta er eitt af meginatriðum löggjafarinnar og þetta var það atriði, sem sveitarfélögin töldu sér mest í hag. En með þessari framkvæmd, eins og nú er orðin, þegar meiri kostnaður er við framkvæmd kennslunnar vegna l., en sveitarfélögin eiga að standa undir þessu að öllu leyti í heilt ár, þá er komið aftan að þeim, enda er mér kunnugt um það, að Samband ísl. sveitarfélaga vill ekki una þessari ráðstöfun. Og ég verð að segja það, að svo illa er ekki komið hag ríkissjóðs, að það breyti neinu í fjárl., sem verða á 7. milljarð, hvort ætlað er 15 eða 16 millj. meira eða minna til þessara mála. En það er gert ráð fyrir því, að það muni kosta ca. 15 millj. kr. að láta rekstrarkostnaðinn eða þann þátt l. koma til framkvæmda núna 1. janúar.

Það er ekki hægt að verja sig með því, að ekki sé búið að ganga frá reglugerðum, því að það er mál hv. menntmrn. að sjá um, að frá reglugerðum sé gengið, og ég minnti á það hér í dag, að það var sótt með mikilli hörku hér s.l. vor, að þessi löggjöf yrði samþ., þó að ýmsir sæju vandkvæði á því, og að það hafi ekki verið rétt vinnubrögð við svo stóra og umsvifamikla löggjöf, sem nær til allra heimila í landinu í raun og veru, að hespa hana af á fáum dögum, eins og gert var hér á s.l. vori. En fyrst afgreiðslan fór fram á hv. Alþ., er það jafnfráleitt að ætla að draga það í hálft annað ár að framkvæma löggjöfina, ekki sízt þegar yfirmaður l., hæstv. menntmrh., hefur gefið skipun um, að hluti af l. skuli koma til framkvæmda, án fjárhagslegrar aðstoðar ríkissjóðs.

Hæstv. fjmrh. sagði, að engin breyting væri á fjárlagafrv. viðvíkjandi stofnkostnaði skóla, en því er til að svara, að a.m.k. á síðustu árum hefur verið á fjárlagafrv. nokkur fjárhæð til nýrra skóla umfram það, sem varið hefur verið samkv. l. til þeirra skóla, sem hafa verið í byggingu. Þessi fjárhæð hefur verið til ráðstöfunar hjá hv. fjvn. til nýrra skólabygginga og stundum hefur fjárhæðin hækkað nokkuð í meðferð n., en nú er engin fjárhæð til þessara framkvæmda og verður hún þó að koma til, ef einhverju á að vera hægt þar um að þoka. Ég drap á þetta hér í dag og minnti jafnframt á, hve mikið vandamálskólabyggingarnar í landinu eru, og ég hef oft gert það við fjárlagaumr. og mér hefur verið það fullkomlega ljóst, að það hefur þurft þar mikið fjármagn til að koma því í lag. Ég hef ekki deilt á það að þessum málum hafi ekki verið sinnt, þó að það hafi stundum verið takmarkað, en ég hef bent á vandann, og ég deili á það, að hv. menntmrh. skuli halda því fram hér á hv. Alþ., stundum æ ofan í æ, að það sé allt í lagi með þessa hluti og það geti öll börn notið kennslu, bæði í barna- og í skyldunámi vegna skólahúsrræðis. Þetta er það, sem er ádeiluvert, og það þýðir heldur ekki annað en gera sér fullkomlega grein fyrir því, að það verður að gera átak í skólamálunum, ef á að koma þessum málum í sæmilegt lag.

Hæstv. fjmrh. sagði í sambandi við hafnalögin, að það hefði verið felldur niður tekjustofn í sambandi við þá löggjöf og þess vegna væri ekki hægt að láta hana koma til framkvæmda eins og upphaflega var ætlazt til. Hafnalögin — sú löggjöf var framkvæmd fyrir kosningar og með miklum hraða og auðvitað hefði þetta ákvæði í frv. ekki verið látið niður falla nema af því að hv. stjórnarlið samþykkti það á Alþ. Lögin voru afgreidd eins og þau eru nú, og þá var það vitað, að það var búið að breyta þessu frá upphaflega frv. Hins vegar var gert ráð fyrir því, að l. yrðu framkvæmd, fyrst þau voru á annað borð samþ. Það segir því ekkert um það, að draga eigi framkvæmd l., þó að þessu hafi verið breytt hér á hv. Alþ., því var breytt við afgreiðslu meiri hl. þm. og sennilega með shlj. atkv.

Út af því, sem hæstv. ráðh. talaði um sparnað og átaldi mig fyrir þann kafla í ræðu minni, taldi, að ég hefði verið orðljótur og fleira því um líkt, verð ég að taka það fram, að það er ekki mín sök, þó að einhver ljót orð kunni að finnast í því, sem ég las upp úr því, sem aðrir hafa sagt eða skrifað. Og aðalsparnaðarkaflinn, sá, sem ég flutti hér í dag, var lestur upp úr nál. meiri hl. fjvn. 1960 og 1961. Ég hef yfirleitt ekki notað stór orð í sambandi við sparnaðarfyrirheit, og ég hef t.d. aldrei leyft mér að halda því fram, sem hæstv. fjmrh. gerði, þegar hann var hér í mínum sporum í andstöðu við fyrrv. fjmrh., Eystein Jónsson, hv. 1. þm. Austf., og sagði, að það þyrfti ekki nema réttsýni og kjark til þess að koma sparnaði við í ríkisrekstrinum. Þetta hafa ekki verið mín orð, að það þyrfti ekki nema réttsýni og kjark til þess að koma sparnaði við í ríkisrekstrinum. Ég hef hins vegar leyft mér að minna á fyrirheit og upptalningu á sparnaðarloforðum og fyrirheitum hæstv. ráðh. og annarra stjórnarliða, sem ekki hafa verið framkvæmd. Hæstv. ráðh. sagði, að ég ætti að vera þessum málum það kunnugur, að ég gæti þess vegna sem endurskoðandi ríkisreiknings og fjvn.- maður gert till. í sambandi við sparnað í ríkisrekstrinum. Ég vil taka það fram, að vegna þess að ég hef kynnzt þessum þáttum ríkiskerfisins er mér ljósara en ella, að það hefur sigið á ógæfuhliðina hjá ríkissjóði um sparnað, og farið hefur í vöxt það, sem ég mundi kalla eyðslu og sérstaklega útþenslu í ríkiskerfinu einmitt á síðustu árum. Fyrir því hef ég fengið staðfestingu við að kynnast þessum þáttum.

Hæstv. ráðh. sagði, að þessar sparnaðartillögur væru svo litlar, að það munaði ekkert um þær í ríkisrekstrinum, að það þýddi í raun og veru ekki að vera að hreyfa þeim. Það er nú svo, að hæstv. ráðh. var á annarri skoðun, þegar hann drap á fyrirheitin, sem ég minnti á hér í dag, og fyrirrennari hans í fjmrh.- embættinu hefur einnig gert það. Og ég tel mig fara rétt með, þegar ég segi, að í þeim fjárlagaræðum, sem hæstv. núv. fjmrh. hefur flutt, hefur hann alltaf vikið að sparnaðartill. En framkvæmdina vita hv. alþm. um. Mér finnst, að hæstv. ríkisstj. verði að gera sér grein fyrir því, að hún er ekki að koma í ráðherrastólana í dag. Þeir eru búnir sjálfstæðismenn að eiga fjmrh. í 8 ár. Það er þess vegna fullkomin ástæða til þess, að við í stjórnarandstöðunni spyrjum um árangurinn af fyrirheitunum, sem gefin voru í upphafi valdatímans. Það hef ég gert og farið að með þeim hætti, að ég hef lesið upp þeirra eigin fyrirheit, þeirra eigin upptalningu. Og ef hæstv. ráðh. telur, að það sé að nota stór orð, á ég ekki sök á því, eins og ég sagði áðan. Ég vil líka minna hæstv. ráðh. á það, að atriði eins og sendiráðin á Norðurlöndum eða skipulag um sendiherrana erlendis er mál, sem hæstv. ríkisstj. gæti verið búin að gera sér grein fyrir, ef hún hefði haft nokkurn áhuga á því. Hún er búin að skipa í þessi embætti, síðan hún settist á valdastóla, og hún hefði þess vegna getað vel komið við skipulagsbreytingum, ef áhugann hefði ekki vantað. Það voru ekki mínar till. eða okkar framsóknarmanna, sem voru í nál. meiri hl. fjvn. 1961. Það voru heldur ekki okkar orð, þegar hæstv. fyrrv. fjmrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, sagði hér á Alþ., að það væri vandalaust að hafa eitt sendiráð á Norðurlöndum, þegar hann var fjmrh., þannig að það eru til nógar tilvitnanir í þeirra eigin orð um þessa framkvæmd, en viljann hefur skort, þegar hefur verið hægt að koma því við. Ég vil líka minna á það, að það voru ekki við framsóknarmenn, sem héldum því fram, að það yrði sparnaður að því að fella niður skattanefndirnar og taka upp skattstofurnar. Við höfum aldrei haldið því fram, að það mundi verða sparnaður að því, heldur hinu gagnstæða. Hitt gat verið, að þessi skipulagsbreyting yrði til bóta í skattinum. En það var fjmrh. Sjálfstfl., sem hélt því fram, að þetta væri sparnaðaratriði. Það er ekki hægt að ásaka okkur framsóknarmenn fyrir það, þó að þetta hafi farið á annan veg. Ykkar var hugmyndin, ykkar hefur verið framkvæmdin og ykkar voru fyrirheitin um sparnaðinn. Málið er þess vegna eingöngu heimamál hæstv. ríkisstj. og við þá eða á því heimili er að sakast, en annars staðar ekki.

Það er líka löngu komið á dagskrá hjá hæstv. ríkisstj. að gera hagræðingu í sambandi við skólabyggingar, og hæstv. fjmrh. flutti þar mjög harða ádrepu í fjárlagaræðu sinni fyrir árið 1967. En við hvern er að sakast? Hæstv. menntmrh, er búinn að sitja í ráðherrastólnum í 11 ár og þeir sjálfstæðismenn í ráðherrastól fjmrh. í 8 ár. Ef átti að koma þessu í framkvæmd, var það þessara aðila að sjá um framkvæmdina, en ekki þeirra, sem í stjórnarandstöðu eru og fá ekki sín mál samþ. hér á Alþ., hversu góð, sem þau eru.

Nei, hæstv. ráðh. verður að gera sér grein fyrir því, að þetta eru þeirra mál. Þeir eru búnir að hafa nógan tíma til þess að koma þeim í framkvæmd og það eru þeir, sem eru búnir að ræða um ágæti þessara framkvæmda og gefa fyrirheit um þær.

Þá var hæstv. fjmrh. að tala um hagsýsluna, og árangurinn af henni. Það er nú eins með hagsýsluna. Hún er búin að vera til staðar í 8 ár. Hún var eitt af fyrstu fyrirheitum viðreisnarstjórnarinnar, að það kerfi yrði tekið upp í staðinn fyrir sparnaðarnefndirnar. Hagsýslan hefur haft nógan tíma til þess að koma sínum málum fyrir, og það er kannske í fyrsta sinn nú, sem við sjáum nokkurn árangur af hennar starfi í sambandi við undirbúning þessa fjárlagafrv., hvað gerð þess snertir.

Hv. fjmrh. hélt því fram, að það væri erfitt að koma sparnaði í framkvæmd og það hefði verið gert ýmislegt eins og það að draga úr veizlum og ferðalögum. Samt urðu veizlur ríkisstj. um 50% dýrari á árinu 1966 en árið áður. Ég efast því um, að það hafi nokkurn tíma verið stórstígari framkvæmdir í hækkun á þessum lið heldur en á árinu 1966. Eitt af því, sem ég nefndi hér í dag og hæstv. ráðh. taldi ekki ástæður til, að væri hægt að draga úr eða hafa minni kostnað við fjárveitingu heldur en þar væri, var dómsmál og lögreglustjórn. Þessi útgjaldaliður hefur hækkað gífurlega síðan 1960, eftir fyrstu viðreisnarfjárlögin. Það má vel vera, að það sé lítt framkvæmanlegt að koma þar sparnaði við. En má ég minna hæstv. fjmrh. á það, að árið 1965 var kostnaður við bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði og sýslumannsembættið í Gullbringu- og Kjósarsýslu 3,7–3,8 millj. kr. En nú er gert ráð fyrir, að hann sé yfir 8 millj. — tveim árum seinna. Er þetta að draga úr kostnaði? Hefur hagsýslan dugað þarna vel? Hv. 6. landsk. þm., Geir Gunnarsson, benti á húsnæðið, sem væri tekið til þessa embættis. En það er fleira, sem hefur komið þarna til. En er hægt að réttlæta svona kostnað á sama tíma sem sagt er við almenning í landinu: Þið verðið að herða mittisólina, þið verðið að draga við ykkur. Það eru fleiri slík embætti, sem hefur verið allmikill vöxtur í á síðustu árum. Ég þekki embætti, þar sem fólksfjöldinn við embættið hefur vaxið um 200% á 5–6 árum. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi tæplega gert sér grein fyrir því, hvað margar harðviðarskrifstofurnar hafa verið innréttaðar hér í leiguhúsnæði á kostnað ríkisins. Það var drepið á það í dag á fundi fjvn., að hæðin sem ríkið tók á leigu hér í einu húsnæði, varð svo feikna dýr í innréttingu, því að það varð allt að vera harðviður, sagði leigusalinn. Þangað er komið eitt af embættunum, sem fékk um 50% hækkun í fyrra á slíkum kostnaði, til þess að komast í harðviðarstofurnar. Hæstv. ráðh. verður að gera sér grein fyrir því, að það er hægt að segja hér á hv. Alþ.: „Það er ekki svo auðvelt að spara í ríkisrekstrinum“, og mér er það fullkomlega ljóst, að það er ekki svo auðvelt að spara stórar fjárhæðir nema með skipulagsbreytingu. Það hef ég áður sagt, En það er hægt að koma í veg fyrir svona óþarfa eyðslu eins og þarna og víðar hefur átt sér stað.

Hæstv. ráðh. sagði, að það mundi sýna sig, að árangur mundi verða af starfi núverandi hagsýslustjóra. Ég vildi vona, að rétt væri, og ég vil taka undir það, og það sem ég hef kynnzt þeim manni í starfi, spáir góðu, og hann hefur í samstarfi við okkur í fjvn., jafnt í stjórnarandstöðu sem stjórnarsinna, sýnt okkur mikla lipurð og veitt okkur allar þær upplýsingar, sem hann hefur getað í té látið og við höfum beðið um, og það hefur ekki verið nema ánægjulegt að vinna með honum, og ég vildi sem sagt vona, að hann gæti náð árangri í sínu starfi, enda er fullkomin þörf á því.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að það hefði verið mikil kokhreysti af mér að fara að tala um Skipaútgerð ríkisins. Ekki áttaði ég mig nú á því, hvers vegna ég þyrfti að biðja afsökunar í sambandi við það fyrirtæki. Ef það á að vera það, að það er framsóknarmaður forstjóri þar, vil ég nú minna hæstv. ráðh. á, að það, sem er verið að gera núna, eru till., sem forstjórinn er búinn að vera að klifa á í 8 ár. Forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hefur leitt að því rök á fundum fjvn. í hvert sinn, sem hann hefur þar komið núna um langan tíma, að það væri ekki hægt að reka skipin, sem Ríkisskip væri með, og það yrði að smíða ný skip. En það var ekki hlustað á þetta, ekki fyrr en aukaforstjórarnir voru þangað komnir. Ég sé enga ástæðu til þess, að ég geti ekki talað um það mál með fullum rómi, enda geri ég það.

Þá sagði hæstv. ráðh., að mér hlyti að ganga annað en gott til að tala gegn betri vitund, þegar ég héldi því fram, að kostnaður eða fjárveitingar til embætta, sem veittar voru í fyrra, frá 30–50% hækkun, væru neitt óeðlilegar eða hefðu haft áhrif á hækkun fjárl. Þetta hefði stafað af óraunhæfum útgjöldum fyrri fjárl. Ég vil endurtaka það, sem ég hef sagt hér áður í umr. um fjárl. og í sambandi við þetta atriði, — ég sagði í fyrra og ég endurtek það, — að það er óframkvæmanlegt að sýna embættum og stofnunum slíka rausn eins og þá var gert, enda sýndi það sig, að það varð að hækka fjárl. um 1 milljarð. Þetta eru óraunhæfar áætlanir. Það má vel vera, að einhver embætti hafi orðið að fara eitthvað fram úr áætlun fjárl., en það mun sannast og hefur sannazt, að það er betra, að embætti og stofnun fari eitthvað fram úr fjárveitingum fjárl., heldur en hafa svo rúman fjárhag, að hún þurfi ekkert til ríkisstj. að leita um sínar fjárreiður. En þannig var að þessum embættum og stofnunum búið, að þær fengu að ráðska með þetta í raun og veru eftir vild. Það er mikill misskilningur að halda því fram og það er ekki rétt gagnvart þeim, sem staðið hafa að fyrri fjárlagaafgreiðslu og samið hafa fyrri fjárlög, að þetta hafi verið komið svo úr leið, enda mun það sýna sig, að þessi embætti munu reyna að sækja áfram á svipuðum grundvelli og þau gerðu, fyrst var svo mikið eftir þeim látið. Og ég er sannfærður um það, að ef hæstv. fjmrh. á eftir að sitja lengi í ráðherrastóli, mun hann gæta sín fyrir þessu atriði. En ástæðan til þess var m.a., að sumt af þessum embættum var að fara í harðviðarstofurnar, eins og ég gat um áðan. Og það er óframkvæmanlegt í normalári að veita stofnun eða embætti slíka hækkun, eins og þarna var gert, enda hefur það sýnt sig, hvaða áhrif það hafði á fjárlagaafgreiðsluna og hvaða siðferðileg áhrif það hefur í sambandi við fjárlagaafgreiðslu að halda svona á málum.

Hæstv. fjmrh. sagði, að till. okkar, sem ég gat um hér í dag um nefndarskipun til þess að athuga útþenslu ríkiskerfisins síðustu árin og gera till. út frá því, væri óþörf. Það væri óþarft að vera að gera till. um n. til þess að athuga þessi mál. Nú vil ég minna hæstv. fjmrh. á það, eins og kom fram í ræðu hans í dag, að hann lagði mikla áherzlu á það, að ekki hefði þýðingu að vera að gera óraunhæfar till. í sambandi við ríkisreksturinn. Það er alveg rétt. En til þess að forðast slíkt, er nauðsynlegt að kynna sér rekstur ríkisins og kynnast í samstarfi við hagsýslustjóra ýmsum atriðum, sem eru matsatriði í sambandi við undirbúning fjárl. Ég tek undir það, sem fram kom hjá hv. 6. landsk., Geir Gunnarssyni, að ýmis atriði munu hafa komið fram í sambandi við fjárlagaundirbúninginn á s.l. sumri, sem hagsýslustjóra sýndist, að mættu fara á annan veg heldur en varð. Tími sá, sem fjvn. hefur til að vinna að fjárlagafrv., gefur ekki nm. ástæðu til þess að kynna sér þessi mál, svo að neinu verulegu máli skipti. Og ég vil líka minna á það, sem ég gat um í dag og sem fram kom hér í ræðu hæstv. forsrh. fyrir nokkrum dögum, þegar rætt var um efnahagsaðgerðirnar, að rétt væri að gefa fulltrúum stéttarfélaganna kost á að kynna sér fjárlagagerðina, svo að þeir gætu frekar komið með till. um breytingar þar um. Ég vil líka minna á það, að þegar hæstv. fjmrh. hefur verið að láta athuga ýmsa þætti fjárlagakerfisins, eins og t.d. um verklegar framkvæmdir o. fl., hefur hann skipað n. til þess að athuga það mál til þess að kynna sér það betur. Þegar hann fór að gera athugun í sambandi við Skipaútgerð ríkisins og komst að þeirri niðurstöðu, að till. forstjórans um ný skip væru réttar, var líka skipuð n. Þannig hefur verið að þessum málum staðið, og fjöldi nefnda hefur verið skipaður til þess að athuga einstaka þætti ríkiskerfisins. Hins vegar hafa þær allar verið skipaðar af ríkisstj. og þeirra menn hafa fjallað þar um, en ekki stjórnarandstæðingar. Það er sá eini munur, sem mundi sennilega vera á þeirri n., sem við töluðum um og leggjum til, og því, sem hæstv. ráðh. framkvæmir. Nei, hér er ekki um neina óraunhæfa eða óeðlilega till. að ræða, heldur er hún komin til vegna þess, að það er staðreynd, að útþenslan í ríkiskerfinu hefur verið geysilega mikil. Það er fullkomlega rökrétt ályktun, að þar mætti ýmislegt fara betur, en til þess að gerðar verði till., sem ekki eru óraunhæfar, þarf að kynna sér málið til hlítar.

Hæstv. fjmrh. vék að því í lok ræðu sinnar, hver væri ástæðan fyrir útgjaldaaukningu fjárl. Venjulega væri það svo, að ríkið hefði verið á eftir, eins og hann orðaði það, að taka skatta af þegnum í landinu til þess að mæta þeim kostnaði, sem á væri kominn, en ekki á undan. Ég vil svara því til, sem ég hef áður sagt þar um, að höfuðatriðið og höfuðástæðan til þess er stjórnarstefnan sjálf. Það er sú verðbólgustefna, sem stjórnin hefur haldið uppi, m.a. með því, að hennar stefna hefur verið sú að innheimta í ríkiskassann alltaf meira fé heldur en hún reiknaði með, að hún þyrfti að greiða þaðan út aftur. Það er þáttur í fjármálastefnu hæstv. ríkisstj. að hafa verulegan greiðsluafgang hjá ríkissjóði. Þetta er hægt að deila um, en þetta er stefnuatriði hæstv. ríkisstj., sem hefur leitt til þess, að hún hefur gengið lengra í skattheimtu, en eðlilegt hefur verið, skattheimtu, sem aftur hefur svo leitt af sér vöxt verðbólgu og dýrtíðar. Þess vegna hefur hæstv. ríkisstj. oft haft gífurlegan greiðsluafgang á þessum árum. Hæstv. fjmrh. sagði: Þessu hefur öllu verið skilað aftur. Ef eitthvað hefur verið umfram, hefur því verið skilað aftur í auknum niðurgreiðslum og slíkum ráðstöfunum. Þessu hefur verið skilað aftur, það er búið að eyða þessu, það er alveg rétt. En ég vil t.d. taka árið 1966. Þegar fjárlög voru afgreidd fyrir það ár, var farið víða til fanga. Þá var lagður á skattur eins og rafmagnsskattur. Þá var hækkaður benzínskattur vegna varasjóðsins af því að ríkið þurfti að innheimta hann til sín. Þá var hækkaður eignarskattur og lagður á launaskattur o.fl. o.fl. Þá var dregið úr niðurgreiðslum fram eftir því ári. En hvaða áhrif hafði þetta? Áhrifin urðu þau, að það varð svo vaxandi dýrtíð fram eftir árinu 1966, að ríkisstj. taldi sig knúða til þess að nota umframtekjurnar til þess að greiða niður verðlagið í landinu. Heldur hæstv. fjmrh., að þessi stefna, rafmagnsskatturinn og öll þessi skattheimta og að draga úr niðurgreiðslunum, sem orsakaði verðbólguna, heldur hæstv. fjmrh., að það hafi ekki haft áhrif á efnahagslífið í landinu? Jú, það hafði gífurleg áhrif, og það kom ekki að sömu notum fyrir efnahagskerfi landsmanna, þó að teknar væru upp niðurgreiðslur og féð þannig greitt aftur. Verðbólguáhrifin, sem skattheimtan hafði, réðu mestu um, hvernig þróun í efnahagsmálunum varð á árinu 1966.

Að lokum sagði hæstv. fjmrh., að illa hefði farið, ef allar till. okkar í stjórnarandstöðunni, sérstaklega okkar framsóknarmanna, hefðu nú verið samþ. á síðustu árum. Þá væri nú myndin af fjárl. ekki skemmtileg. Hvernig væri útlitið þá? sagði hæstv. fjmrh. Þetta er þriðja fjárlagafrv., sem þessi hæstv. fjmrh. leggur fyrir hér á hv. Alþingi. Við hin tvö höfum við flutt sína till. hvort árið. Það skeði nefnilega það leiðinlega óhapp, að hæstv. samgmrh. gleymdi samkomulagi, sem hann gerði við hv. Alþingi um afgreiðslu vegamála 1963 um, að aldrei skyldi vera minna á fjárlögum ríkisins til vegamála en 47 millj. kr. Við höfum, framsóknarmenn í stjórnarandstöðunni, gert tilraun til þess að bæta fyrir þetta leiðinlega óhapp. Þetta eru einu till., sem við höfum flutt við fjárlagaafgreiðsluna, og mikið hefði nú gengið úr skorðum hjá hæstv. fjmrh. árið 1966, þegar hann hafði 883 millj. kr. í tekjur umfram fjárlög, ef þessar 47 millj. kr. hefðu verið greiddar. Fjárl. hér á Alþingi hafa verið afgreidd af stjórnarsinnum að þeirra ráðum. Þeir bera ábyrgð á þeirri þróun, sem þar hefur átt sér stað, og það væri nauðsynlegt fyrir þá hv. stjórnarsinna að fara að átta sig á, að það er til önnur leið til að leysa efnahags- og fjármál ríkisins heldur en sú, sem þeir hafa farið, leið, sem mundi reynast þjóðinni farsælli.