11.12.1967
Sameinað þing: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

1. mál, fjárlög 1968

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér eina litla brtt. ásamt hv. 4. landsk. þm. Þessi brtt. er á þskj. 131, og er um það, að varið verði á næsta ári 1 millj. kr. til byggingar sjómannaheimila, og skuli ráðh. ákveða úthlutun þessarar fjárhæðar.

Ég flutti á síðasta þingi till. um sama efni, og ég varð þess þá var, að það voru allmargir hv. þm., sem há höfðu veitt því athygli, að hér var um sanngirnismál að ræða, og í rauninni mikið nauðsynjamál, enda kom það síðar fram, að menn úr stjórnarliðinu, þeir sem ekki höfðu fengið aðstöðu til þess, eða leyfi til þess skulum við segja, að fylgja þessari till., stóðu að því að flytja þáltill. um sama málefni og beina þar með áskorun sinni til ríkisstj. um framkvæmdir í þessum efnum. Og á síðasta þingi var sem sagt samþykkt svo hljóðandi þáltill., með leyfi hæstv. forseta, varðandi þetta mál:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að því í samráði við samtök sjómanna og útvegsmanna og viðkomandi sveitarfélög, að stofnsettar verði og starfræktar sjómannastofur á síldveiðihöfnum á Austurlandi og á stærri fiskihöfnum annars staðar, þar sem þörfin er mest vegna aðkomusjómanna“.

Ég veit, að allir hv. alþm. þekkja það, að mikill fjöldi sjómanna verður að dvelja um langan tíma fjarri heimilum sínum, t.d. við síldveiðar að haustlagi til á Austurlandi. Þar er lítil aðstaða í flestum höfnum til afdreps fyrir sjómenn, þegar þeir verða að bíða þar í landlegum. og oft er það svo, að á tímabilinu frá okt. til áramóta eru staddir við síldveiðar á Austurlandi um 2000 sjómenn, og mikill meiri hl. þeirra er annars staðar frá en frá Austurlandi. Það er alveg ósæmileg aðbúð, sem þessum sjómönnum er ætluð, að verða að hírast þar í flestum tilfellum í löngum landlegum í fiskibátunum, því að það getur vitanlega ekki heitið, að það sé að neinu að hverfa, þó að þessir menn geti kannske gengið, þegar sæmilega viðrar, upp úr bátum sínum og upp á götur þorpanna. Það er aðeins í einum stað á Austurlandi, sem komið hefur verið upp slíkri sjómannastofu. Það kostaði viðkomandi bæjarfélag, þ.e. í Neskaupstað, allmikið fjármagn að koma upp þeirri stofu, og hún hefur ábyggilega komið að mjög miklu gagni. Af hálfu ríkisins hefur verið veittur örlítill styrkur til reksturs stofunnar, nú 50 þús. kr. á yfirstandandi ári, en 25 þús. áður. Hér er auðvitað um sáralítinn styrk að ræða til reksturs á þessari sjómannastofu, en rekstur hennar kostar æðimikið fé á hverju ári. Þar sem það liggur nú fyrir, að Alþ. hefur beinlínis gert samþykkt um það, að ráðizt skuli í framkvæmdir í þessum efnum, og menn viðurkenna það, að það er í rauninni enginn annar aðili til en ríkisvaldið sjálft, sem getur haft forgöngu um að leysa þetta vandamál, þykir mér einsýnt, að Alþ. á nú að samþykkja nokkra fjárveitingu í þessu skyni. Og ég held, að fjárveitingin geti ekki orðið minni en 1 millj. kr., og framkvæmdin yrði þá eflaust sú, að sá ráðh., sem með þessi mál hefði að gera, væntanlega félmrh., sem jafnframt er sjútvmrh., mundi leita eftir samningum við sveitarfélögin, t.d. á Austurlandi, um það, að þau réðust í það að koma upp svona sjómannaheimilum með ákveðnum stuðningi frá ríkinu. Ég er ekki í neinum vafa um það, að það ástand, sem sjómenn okkar búa við í þessum efnum, er beinlínis farið að kosta ríkisheildina allverulegar fjárfúlgur. Það er nefnilega svo, að það er engin leið að ætla að bjóða mönnum nú til dags að þurfa að hírast við þessar kringumstæður vikum saman á smáhöfnum, fjarri heimilum sínum, og það hefur leitt til þess, að bátarnir flýja miðin, mennirnir krefjast þess að fara burtu, og þannig er haldið í burtu af veiðisvæðinu, vegna þessarar ófullnægjandi aðbúðar, sem mönnum er þar boðið upp á. Fyrir nú utan það, hvað það er ósæmilegt af ríkisheildinni að leggja ekki hér fram nokkurt fjármagn til þess að veita þeim mönnum, sem þarna eiga hlut að máli, svo þýðingarmikið starf, sem þeir vinna, sæmilega aðstöðu, til þess að þeir geti þar sinnt þeim verkum, sem þeir eru að inna af hendi fyrir þjóðarheildina.

Ég vil nú vænta þess, að hæstv. fjmrh., sem hefur heyrt þessi orð mín hér fyrir þessari till., taki þau nú til athugunar. Ég á erfitt með að trúa því, að hann viðurkenni það ekki, að hér er hreyft nauðsynjamáli, máli, sem sanngjarnt er og nauðsynlegt að leysa, eða vinna að því, að leyst verði. Ég vil nú beina því til hans, að hann hugleiði það fyrir 3. umr. fjárlagafrv., hvort ekki sé tiltækilegt að taka upp nokkra fjárveitingu í þessu skyni, eða t.d. með því að samþ. þessa till. mína, sem tvímælalaust verður að teljast í fullu samræmi við samþ. síðasta Alþingis um þetta mál.

Ég sé svo ekki þörf á því að eyða hér fleiri orðum um þessa till., en við flm. till. væntum þess, að hún fái hér góðar undirtektir.