11.12.1967
Sameinað þing: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

1. mál, fjárlög 1968

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég leyfi mér hér að flytja tvær brtt. við fjárlagafrv.

Fyrri till. mín er á þá leið, að framlag til leiklistarstarfsemi verði hækkað úr 1,3 millj. kr. í 2 millj. Með leiklistarstarfsemi er hér átt við alla þá starfsemi, sem áhugamenn víðs vegar úti á landsbyggðinni taka sér fyrir hendur á þessu sviði, en auk þess hefur af fjárveitingu til þessa stór hluti farið til Leikfélags Reykjavíkur. Fjárveitingin s.l. ár mun hafa verið sú sama og nú er gert ráð fyrir, 1300 þús. kr., og þá munu hafa farið 500 þús. kr. til Leikfélags Reykjavíkur, þannig að ekki fóru nema 800 þús. kr. til leiklistarstarfsemi úti á landsbyggðinni. Nú hefur Leikfélag Reykjavíkur farið fram á, að þetta framlag verði hækkað um 200 þús. kr., og sýnist mér sjálfsagt að verða við þeirri málaleitan, og mundi þá hækkunin til leiklistarstarfsemi úti á landsbyggðinni, skv. minni till., nema 500 þús. kr.

Sú starfsemi er víðast hvar það helzta, sem gert er til þess að létta mönnum skammdegið úti á landsbyggðinni, og raunar sums staðar það eina. Áhugamenn leggja á sig mikla vinnu endurgjaldslaust. Kostnaðurinn við þessar leiksýningar getur þó orðið mikill. Leiksviðsútbúnaður er þar stærsti liðurinn, einnig eru útvarpsauglýsingar stór liður núna, þegar orðið kostar minnst 20 kr., auk þess sem venjulega er fenginn til leikstjóri, sem þá tekur að sjálfsögðu sína greiðslu fyrir, þar sem þetta er hans atvinna, hans lifibrauð. Greiðsla til leikstjóra er venjulega 20–30 þús. kr.

Eitt mesta áhyggjuefnið varðandi uppfærslu hvers leikrits er það, hvort takast megi, eins og oft er komizt að orði hér á hinu háa Alþingi, að láta endana ná saman. Og eins og reynslan hefur oft orðið varðandi ríkisreksturinn, verður þetta oft þannig með þessa starfsemi, leikstarfsemina úti á landsbyggðinni, að erfitt reynist að láta endana ná saman. Hallinn af mörgu slíku átaki, sem stofnað er til með ærinni fyrirhöfn og af mikilli fórnfýsi þátttakendanna, er oft svo mikill, að liðið geta mörg ár, áður en viðkomandi ungmennafélag eða leikfélag hættir á að takast á hendur nýtt verkefni. Og þau verkefni, sem menn ráðast í af mestum stórhug, verða oft til að lama mest og lengst þessa mikilvægu menningarstarfsemi.

Ég nefni sem dæmi, að nú í vor var stofnað leikfélag vestur í Stykkishólmi. Að fyrsta verkefni þess var unnið af miklum áhuga og dugnaði, enda var árangurinn satt að segja undraverður, þegar tekið er tillit til þess, hversu litla reynslu leikendurnir höfðu til að bera. Ég get um þetta borið, vegna þess að ég fylgdist lítillega með æfingum og sá auk þess frumsýninguna. Og Stykkishólmur var ekki eina byggðarlagið, sem fékk að njóta þessarar starfsemi, því að sýningar voru úti um Snæfellsnesið, í þorpunum þar — og víðar. En ferðir af þessu tagi eru mjög kostnaðarsamar, og þegar vorannir ollu því að ekki var hægt að halda sýningunum áfram, vantaði enn mikið á, að fengizt hefði upp í kostnaðinn. Þetta unga leikfélag situr nú sem sé uppi með allháa skuld, þrátt fyrir sitt fórnfúsa starf, og ef ekki tekst að greiða þessa skuld er allt útlit fyrir, að lítið framhald verði á þeirri starfsemi, sem þarna hófst svo vel, og að þær vonir bregðist, sem þetta byggðarlag hafði við þetta bundið.

Ég hef með þessu viljað vekja athygli á þeirri þýðingu, sem þessi leikstarfsemi hefur úti á landsbyggðinni, og að hún er alls góðs makleg. 1300 þús. kr. eða réttara sagt 800 þús. kr., eins og var á s.l. ári veitt til þessarar starfsemi, er satt að segja hlálega lítill styrkur, þegar tekið er tillit til þess, hvað þessi starfsemi er, þrátt fyrir allt, víðtæk. Enda er sú upphæð, sem kemur í hlut hvers leikfélags, svona 20–30 þús. kr. og fer allt niður í 15 þús., þ.e.a.s. nægir ekki einu sinni til að borga leikstjóranum. Þær 2 millj., sem ég fer nú fram á, að veittar verði til þessa, eru ekki miklu merkilegra framlag, það skal ég fúslega játa, en ég hef ekki hætt á að fara hærra vegna þess fátæktarklökkva, sem einkennir allt tal þeirra manna, sem hér eru í forsvari fyrir ríkissjóð og ráða mestu um fjárveitingar úr honum. 700 þús. kr. mundu þó vera betra en ekki neitt, og slík viðbót kynni að koma einhverju ungmennafélaginu eða leikfélaginu yfir versta þröskuldinn, þannig að áframhald gæti orðið á leiklistarstarfsemi, sem ella myndi alveg falla niður.

Hin till., sem ég flyt, er um það að hækka framlag til æskulýðsnefndar Borgarfjarðar- og Mýrasýslu úr 25 þúsund kr. í 100 þús. kr. Ég get borið um það, að starfsemi þeirrar nefndar er alls góðs makleg, ekki síður en sú leiklistarstarfsemi, sem ég var að tala um. Starfsemi þessi, sem nær til alls Borgarfjarðarhéraðs og Mýranna með, er svo umfangsmikil, eða ætti að vera það, að 25 þús. kr. styrkur til hennar hlýtur að verka á þá, sem til þekkja, sem dálítið skrýtin, að ég ekki segi kaldranaleg gamansemi. En þar sem ég sé ekki ástæðu til þess að búast við því, að fjárveitingarvaldið sé að gera að gamni sínu, a.m.k. þá ekki nema óafvitandi, sýnist mér liggja beinast við, að það beri að líta á þessa styrkveitingu sem auglýsingu um átakanlega fátækt ríkissjóðs. En hvað um það. Ég leyfi mér sem sé að leggja til, að framlag til þessarar nefndar verði fjórfaldað. 100 þús. kr. sýnist mér að sé það allra minnsta, sem ríkissjóður getur verið þekktur fyrir að bjóða upp á í þessu sambandi.