19.12.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

1. mál, fjárlög 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, fyrst og fremst til að þakka hv. n., og þá fyrst og fremst meiri hl. hennar, fyrir starf sitt, sem nú er á enda, eftir að það hefur verið áreiðanlega óvenjulega fjölþætt og vandasamt í þetta sinn, þar sem orðið hefur að endurskoða fjárlagafrv. að verulegu leyti og við margvíslega erfiðleika að etja, sem alltaf verður að sjálfsögðu, þegar gersamlega er breytt um form, svo sem hér er nú í þetta sinn varðandi fjárlögin. Það má því teljast vera afrek í rauninni að hafa þokað málum það áleiðis, að við stöndum andspænis því að geta afgreitt fjárlög fyrir áramót.

Svo sem ég gat um við 2. umr. fjárl., er það meginsjónarmið ríkisstj. að reyna að nota allt það fjármagn, sem tiltækilegt er, til að mæta kjaraskerðingu þeirri, sem hlýtur óhjákvæmilega að leiða af gengisbreytingunni. Og því hefur verið leitazt við eftir föngum að takmarka útgjöld á öllum sviðum svo sem unnt hefur verið. Engu að síður er, eins og hv. þm. sjá, lagt til að gera verulegar hækkanir á ýmsum framkvæmdaliðum og þá fyrst og fremst fjárveitingu til hafnargerða og skólabygginga. Hér er um að ræða þær framkvæmdir, sem þyngst liggja á ríkissjóði og hvíla á hv. þm. flestum hverjum, og því ekki að undra, þó að hafi orðið óumflýjanlegt að gefa nokkuð eftir spottann á þessu sviði. Ég ítreka það, sem hv. frsm. fjvn. sagði, og sem ég tel vera mjög mikilvægt spor, sem nú er stigið að breyta fjárveitingum til hafnargerða á þann hátt að miða nú fjárveitingarnar við það, sem raunverulega er gert ráð fyrir, að verði kostnaðarhluti ríkissjóðs á næsta ári. Hingað til hefur þetta verið með þeim hætti, eins og hv. þm. vita, að það hafa verið veittar aðeins smáfjárveitingar, oftast nær ekki farið yfir 500–700 þús. kr. á hverja höfn, og þessu dreift út um allt með þeim afleiðingum, að sveitarfélögin hafa orðið að sjá fyrir því, sem á hefur vantað, ekki aðeins sínum framlögum, heldur einnig ríkishlutanum, með þeim afleiðingum, að nú í dag munu það vera um 70 millj. kr., sem safnazt hafa fyrir af vangoldnum ríkisframlögum. Að því þarf að stefna á næstu árum, að framkvæmdir verði með þeim hætti, sem nú er gert ráð fyrir, að ekki verði framkvæmt meira árlega en svarar fjárveitingum ríkisins og þeim eðlilegu mótframlögum sveitarfélaganna og síðan verði á nokkurra ára tímabili leitazt við að greiða þann halla, sem myndazt hefur. Þetta er í samræmi við þá grundvallarhugsun, sem mörkuð hefur verið á fleiri sviðum og felst í frv. því, sem lagt var fyrir síðasta Alþ. um undirbúning framkvæmda á vegum ríkisins og sem ætlunin er að leggja fyrir framhaldsþingið, þegar það kemur saman aftur, að unnið verði að málum á þennan hátt. Það er gert ráð fyrir því sama í l. um skólabyggingar. Engu að síður hefur ekki verið talið auðið að láta þau lög taka gildi á næsta ári, vegna þess mikla vanda, sem hér er við að glíma, og þess geysimikla fjármagns, sem þarf til þess að mæta því vandamáli. Það verður allt að kannast nánar, en enda þótt það hafi ekki verið gert, sjá hv. þm., hvað hér er um mikinn vanda að ræða, að það hefur þó engu að síður verið talið óumflýjanlegt að hækka mjög verulega fjárveitingar til skólabygginga.

Hv. minni hl. n. telur rétt að beina verulegum hluta af því fjármagni, sem til ráðstöfunar kann að vera til að mæta erfiðleikum af völdum gengisbreytingarinnar, inn á framkvæmdaliðina, þ.e.a.s. hækka mjög verulega ýmis útgjöld til einstakra framkvæmda, sem vissulega eru allra góðra gjalda verðar, en hér verður ekki bæði haldið og sleppt. Það er ekki í senn hægt að verja fé því, sem til ráðstöfunar verður, til alls konar fjárfestingar og einnig að mæta þeim vandamálum öðrum, sem rætt hefur verið um að reyna að mæta til að létta byrðar gengisbreytingarinnar. Af þessum sökum tel ég ekki með nokkru móti auðið að fallast á þær till., sem hér eru lagðar til af hv. minni hl. Ekki heldur þær hugleiðingar minni hl. um að taka nú á næsta ári lán til þess að borga allar hugsanlegar skuldir eða framlög til ýmissa framkvæmda, sem sameiginlegar eru á vegum sveitarfélaga og ríkis. Þar er um að ræða útgjöld eða lántökuheimildir, sem, ef ætti að nota þær að fullu, mundu velta á hundruðum millj. Það kann að vera, að hv. minni hl. telji, að það sé ekki mikill vandi að afla fjár í þjóðfélaginu, en ég hygg nú, að öllum hv. þm. sé það vel ljóst, hversu að hefur þrengt af eðlilegum ástæðum með fjármagn í þjóðfélaginu um sinn, og þess vegna er þetta áreiðanlega ekki rétta stundin til þess að halda, að það sé einfalt mál að fá hundruð millj. að láni til slíkra hluta, auk þess sem hér er ekkert um neina eðlilega ráðstöfun að ræða, vegna þess að í flestum þeim sérlögum, sem gilda um þessar fjárveitingar, bæði vegna skólabygginga, sjúkrahúsa og læknisbústaða, er ákveðið, með hvaða hætti þetta skuli greitt, þannig að raunverulega er hér ekki orðið um að ræða neimar vangreiðslur af hálfu ríkissjóðs í þessu sambandi.

Ég hef áður skýrt frá því, að það þótti nauðsynlegt við undirbúning fjárl. að taka inn í fjárlagafrv. ýmsa fjárfestingarliði, sem fjár hefur verið aflað til með lántökum á liðnum árum, einmitt vegna þess að það er alveg ljóst, að það mun þrengja mjög um að fá lán á næsta ári. Og ég álít, að það sé mjög varhugavert, m.a. með hliðsjón af afkomu atvinnuveganna og lánsfjárþörf þeirra, að ætla að ganga of langt inn á þá braut, að ríkisvaldið fari nú að taka hundruð millj. til viðbótar því, sem áður hefur verið gert, út úr bankakerfinu til sinna þarfa. Þetta held ég, að mundi reynast mjög erfitt, ef samtímis ætti að leysa vanda atvinnuveganna og þá erfiðleika, sem þeir standa andspænis.

Frá því hefur verið skýrt af hálfu formanns fjvn., að í fjárlagafrv. nú eða í sambandi við það eru tvennar aðgerðir, sem hefur verið ákveðið að beita til þess að vinna gegn þeim erfiðleikum, sem gengisbreytingin skapar, annars vegar, og sem er aðalatriðið, eru tollabreytingar, en við vonumst til að geta varið 230–250 millj. kr. til þeirra aðgerða, sem vissulega geta haft mikilvæga þýðingu til þess að lækka vöruverð. Í annan stað hefur verið ákveðið að greiða niður þá verðhækkun, sem verður á mjólk og hlýtur að koma til miðað við gengisbreytinguna, og hluti þeirrar verðhækkunar kom til framkvæmda, eða átti að koma til framkvæmda nú, þessa dagana og annar hluti hækkunarinnar mun koma til framkvæmda upp úr næstu áramótum. Og það er ætlunin að greiða báðar þessar hækkanir á mjólk niður. Eldri niðurgreiðslur munu standa áfram með þeim hætti, sem gert hefur verið ráð fyrir, enda hefur afleiðingum niðurfalls niðurgreiðslnanna verið mætt með þeim vísitöluuppbótum, sem voru veittar á laun 1. des. Þetta er önnur sú ráðstöfun, sem áformað hefur verið að grípa til til að koma í veg fyrir verðhækkanir, og hafa verið áætlaðar 50 millj. kr. til þess að mæta þessum hækkunum, en óhætt er vafalaust að segja, að mjólk er ein sú nauðsynjavara, sem hvað mest snertir heimilin, og því mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir, að um frekari hækkun verði að ræða á henni að sinni.

Í þriðja lagi hefur komið til álita, — það er enn í athugun og verður ekki niðurstaða fengin í því efni fyrr en á framhaldsþinginu eftir.

Í þriðja lagi hefur komið til álita, — það er millifærsla eða tekjutilfærsla með einhverjum hætti, annaðhvort í sambandi við fjölskyldubætur eða persónufrádrætti í skatti. Það mál er enn í athugun og verður niðurstaða þess ljós, þegar Alþ. kemur saman að nýju, en það er m.a. ástæðan til þess, að ekki hefur í sambandi við ellilífeyri og örorkubætur verið gerð nein till. á þessu stigi um breytingar á fjölskyldubótum.

Þetta taldi ég rétt að kæmi hér fram við þessa umr., þannig að það lægi ljóst fyrir, að hverju væri stefnt í þessu efni í sambandi við fjármál ríkisins og þær aðgerðir, sem hugsanlegar væru til þess af þess hálfu að beina fjármagninu í þær áttir að létta áhrif gengisbreytingarinnar. Þegar hefur verið ákveðið að borga 10% uppbætur á ellilaun og örorkulífeyri, þannig að ekki verður um neina kjaraskerðingu að ræða hjá því fólki, sem eingöngu hefur framfæri sitt af þeim tekjum, sem er auðvitað eðlilegt, þar sem það er það fólk, sem almennt séð hefur minnstu greiðslugetu í þjóðfélaginu.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara fleiri orðum um málið að svo stöddu, nema frekara tilefni gefist til, en endurtek þakkir minar til hv. fjvn. fyrir, hversu vel og rækilega hún hefur unnið að því, að hægt væri að afgreiða fjárlög fyrir áramót, þrátt fyrir þá margvislegu erfiðleika, sem hún hefur átt við að etja.