24.11.1967
Neðri deild: 23. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þó að menn deili um margt, eru allir sammála um það, að efnahagur Íslendinga og atvinnuvegir eigi nú við mjög mikla örðugleika að etja. Mönnum kemur aftur á móti ekki saman um orsakir þessa og þar sem ég beini því eindregið til þm., að þeir stuðli að því, að þetta frv. verði afgreitt nú fyrir helgi, til þess að venjuleg bankaviðskipti og tollafgreiðslur geti hafizt á ný, þá mun ég leiða hjá mér að þessu sinni að ræða um orsakir erfiðleikanna.

Um hitt urðu allir sammála, að þegar ákveðið var, að pundið skyldi lækkað í gengi, þá væri óhjákvæmilegt, að ísl. kr. yrði einnig lækkuð í gengi. Menn hafa að vísu mismunandi hugmyndir um það, hversu sú gengislækkun skuli vera mikil, en réttir aðilar hafa nú tekið um það ákvörðun, skv. fréttatilkynningu, sem um það hefur borizt frá Seðlabanka Íslands. Ég leyfi mér að lesa upphaf hennar. Þar segir:

„Bankastjórn Seðlabankans hefur að höfðu samráði við bankaráð og að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar ákveðið nýtt stofngengi íslenzkrar krónu gagnvart bandarískum dollar og tekur það gildi frá kl. 16 í dag, 24. nóv. 1967. Ákvörðun þessi hefur verið staðfest af stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hið nýja stofngengi er 57 íslenzkar krónur hver bandarískur dollar, en það er 24.6% lækkun frá því gengi, sem í gildi hefur verið. Jafnframt hefur verið ákveðið, að kaupgengi dollars skuli vera 56.93 og sölugengið 57.07, en kaup- og sölugengi annarra mynta í samræmi við það. Vegna gengislækkunar sterlingspundsins breytist gengi krónunnar gagnvart því mun minna eða um 12% og er hið nýja miðgengi sterlingspunds 136.80. Ráðgert er, að Seðlabankinn birti fyrir opnun bankanna mánudaginn 27. nóv. n.k. nýja gengisskráningu fyrir allar myntir, sem skráðar hafa verið hér á landi að undanförnu, en þangað til helzt sú stöðvun gjaldeyrisviðskipta bankanna, er ákveðinn var af Seðlabankanum 19. nóv. s.l.“

Síðan fylgir grg. bankans, sem ég skal ekki lesa, en menn geta kynnt sér, þeir sem þess óska.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er frv. til l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi ísl. kr. og það fjallar um þau ákvæði, sem eru forsenda þess, eins og ég sagði áðan, að venjuleg bankaviðskipti geti hafizt og tollvöruafgreiðslur átt sér stað. Þetta frv. er styttra heldur en venja er um slík frv., einnig eftir að ákvörðun um gengisskráningu var færð til Seðlabankans. Ástæðan til þess, að ekki eru í frv. fleiri ákvæði en raun ber vitni, er sú, að ríkisstj. leitaðist við að taka úr frv. þau efni, sem ætla má, að valdið geti sérstökum deilum. Af þessu leiðir aftur, að fleiri frv. eru væntanleg í sambandi við þetta mál nú beggja vegna við helgina, en um þau frv. er það svo, að ekkert þeirra þarfnast afgreiðslu fyrir helgi. Um önnur getur tekið nokkru lengri tíma að semja þau til hlítar, en slíkt verður gert eins fljótt og unnt er. Varðandi ákvæði, sem oft hafa verið í slíkum frv. um verðlagsbindingu, þá vil ég geta þess strax, að ekki þótti ástæða til að taka það ákvæði upp í þetta frv., þar sem nú þegar er almenn verðlagsbinding, sem eftir ósk ríkisstj. var ákveðin af verðlagsnefnd, verðlagsbinding á vörum, þegar sýnt var, að verðstöðvunarlögin mundu falla úr gildi vegna þeirra samningaumleitana, sem þá stóðu yfir, eins og kunnugt er. Nú má vel vera, að það þurfi frekari ákvæði um verðlagsmál. Það er ekki öruggt, hvort þau ákvæði, sem nú eru til, eru að öllu leyti heppileg eða ekki, það er eitt þeirra mála, sem betur þarf að athuga, en þetta er skýringin á því, af hverju ekki eru almenn fyrirmæli um þessi efni í þessu frv.

1. gr. frv. er í samræmi við það, sem var bæði í l. um efnahagsmál frá 1960 og í upphafi. l. frá 1961 um ráðstafanir vegna gengisbreytingarinnar í ágústmánuði það ár, sem síðan voru staðfest með lögum nr. 28/1962. Þetta er nauðsynlegt til að fjalla um meðferð aðflutningsgjalda á sama hátt og verið hefur við fyrri gengisbreytingar, hreint tæknilegt atriði, sem ég geri ekki ráð fyrir, að nokkrum ágreiningi geti valdið.

Þá er ákvæði í 2. gr., þar sem segir, að óheimilt sé að hækka verð á birgðum innfluttra vara, sem greiddar hafa verið á gengi í gildi fyrir 19. nóv. 1967, og sama gildir um verð á birgðum iðnaðarvara, sem framleiddar eru úr efni, sem greitt hefur verið á eldra gengi. Til birgða teljast í þessu sambandi vörur greiddar á eldra gengi, sem ekki eru komnar í hendur innflytjenda. Þetta ákvæði er einnig orðrétt tekið upp úr þessum sömu lagafyrirmælum, sem ég áður vitnaði til.

Hins vegar hefur ekki verið fyrr í lögum sams konar ákvæði og er í 3. gr. varðandi skipafélög og þann fyrirvara, sem þau hafa gert um að miða farmgjöld við erlendan gjaldeyri. Að svo miklu leyti sem þau ákvæði standast, þá er það ráðgert, að heimilt sé, þó með sérstöku samþykki verðlagsnefndar, að hækka farmgjaldið í ísl. kr., þegar þar stendur á móti skuld erlendis, eins og nánar er gerð grein fyrir í 3. gr. Þetta ákvæði er til takmörkunar á þeim fyrirvörum, sem í farmbréfunum eru, og eins og ég segi, þá liggur þetta undir samþykki verðlagsnefndar.

Um 4. gr., þá hefur það einnig verið tíðkanlegt, a.m.k. stundum áður, að gjaldeyrir, sem er fyrir útfluttar afurðir, þegar gengisbreyting á sér stað, verði greiddur útflytjanda á því sama gengi sem gilti, þegar varan var framleidd. Nú er hér miðað við, að þetta haldist, þannig að mismunurinn vegna gengisbreytingarinnar verði greiddur af þeim vörum, sem framleiddar eru til áramóta. Það byggist á því, að þarna er aðallega um að ræða vörur sjávarútvegsins og til áramóta heldur hann þeim greiðslum úr ríkissjóði, sem ráðgert er, að hann verði án eftir áramótin. Það fé, sem þarna er tekið af útflytjendum, á hins vegar að leggjast á sérstakan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum og með sérstökum l. skal því ráðstafað í þágu þeirra atvinnuvega, sem eiga viðkomandi afurðaandvirði. Um þetta þarf að setja sérstaka löggjöf. Menn töldu að vísu, að æskilegast hefði verið að geta sett um þetta ákvæði nú þegar, en í því sambandi vöknuðu ýmis vafamál, og okkur þótti ekki sanngjarnt að ætlast til þess af þingmönnum, að þeir gætu á jafn stuttum tíma og hér er fyrir hendi tekið um þetta ákvarðanir, en slíkt frv. mun koma eins fljótt til ákvörðunar Alþingis og tími vinnst til að athuga öll þau atriði, sem þar þarf betur að skoða.

Um 5. gr. er það að segja, að þar er ráðgert, að stofnaður skuli sjóður í Seðlabankanum vegna gengisbreytingarinnar á sama hátt og gert var skv. lögum 1960 og 1962, og aðalefni greinarinnar er það, að bankarnir hvorki hagnist né bíði skaða við gengisbreytinguna og er það tilgangur þessa sjóðs. Í 2. málsgr. er um að ræða hliðstætt ákvæði við það, sem var í fyrrnefndum lögum, og er ætlazt til, að gengismunur, sem fellur til með þeim hætti, sem þar er nánar greint, verði færður á sambærilegan hátt og áður hefur verið gert, með nokkrum takmörkunum, sem ég skal ekki rekja. Þarna er einnig um tæknileg atriði að ræða.

Þá er loks um að ræða í 6. gr. það, að aftur skuli tekið upp óbreytt ákvæði, sem lögfest var 1960, um leyfisgjald af gjaldeyris- og/eða innflutningsleyfum, að það megi vera allt að 1%, og jafnframt sé fellt niður 1/2% gjald, þ.e. hluti af þessu gjaldi, sem um tíma var lagt til ríkissjóðs.

Þetta er í stuttu máli efni þessa frv., sem hér er lagt fram, og ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um það né málið í heild til þess að gefa ekki af minni hálfu ástæðu til langra umræðna, þar sem ég beini því mjög eindregið til hv. þm., að þeir greiði fyrir því, að frv. verði afgreitt á þeim stutta tíma, sem enn er til stefnu í þessari viku, en ég tel algjöra nauðsyn, að svo verði. Jafnframt vil ég lýsa yfir því, að það munu gefast mörg önnur tækifæri, þegar rýmra er um tíma, til þess að ræða allt þetta mál í heild, bæði við umr. um önnur frv. sem verða flutt eins og ég sagði mjög fljótlega og einnig við fleiri frv., sem síðar er von á.

Eðlilegt er, að menn spyrji sérstaklega, hvað ríkisstj. hyggist fyrir í launamálum, og þá ekki sízt vegna þeirrar deilu, sem staðið hefur undanfarið, og frv. um verðlagsuppbót er einmitt eitt þeirra, sem lagt verður fram eins fljótt og við verður komið, vonandi á morgun, og aðalefni þess, — það er rétt ég geri grein fyrir því, –kemur fram í 1. gr., sem svo hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá 1. des. 1967 skal verðlagsuppbót aukin sem því svarar, að laun og aðrar vísitölubundnar greiðslur að meðtalinni verðlagsuppbót hækki í hlutfalli við þá hækkun, sem varð á útgjöldum launþega til kaupa á vörum og þjónustu frá 1. ágúst til 1. nóv. 1967, skv. niðurstöðum neyzlurannsóknar þeirrar, er um getur í 2. gr. þessara laga. Kauplagsnefnd framkvæmir þennan útreikning. Gildir þetta þar til annað hefur verið ákveðið með samningum stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda.“

Það, sem hér er um að ræða, er, að vegna þeirra breyttu viðhorfa, sem skapazt hafa, er ljóst, að vísitöluákvæðin, sem voru í efnahagslagafrv. stjórnarinnar, eru orðin úrelt. Þau taka ekki til þess ástands, sem skapast eftir gengisbreytinguna. Það má einnig segja, að með gengisbreytingunni verði þáttaskil. Áður var keppt að því eftir fremsta megni að koma í veg fyrir, að gengi þyrfti að lækka og þess vegna varð ekki hjá því komizt bæði að skerða hag launþega og þrengja mjög að atvinnuvegunum. Nú er það ljóst, að með gengisbreytingunni fá útflutningsatvinnuvegirnir a.m.k. í fyrstu meira svigrúm heldur en þeir hafa áður haft og þess vegna er gjörlegt að ætla þeim að borga þá hækkun á kaupgjaldi, sem leiðir af ákvörðun um að kaupgjaldið skuli nú reiknað eftir nýju vísitölunni, sem verkalýðsfélögin höfðu þegar áður í viðræðum þeirra og ríkisstj. lýst samþykki sínu við að taka skyldi gildi. Það er hins vegar óhagganleg skoðun ríkisstj., að það sé mjög varhugavert, að sjálfvirkar vísitölukauphækkanir eigi sér stað þann tíma, sem gengisverkunaráhrifin eru að koma fram. Þess vegna hefur það orðið að ráði, að taka úr lögum öll fyrirmæli um, að kaup skuli greitt eftir vísitölu. Ég hygg, að vísitala hafi fyrst verið lögfest hér í sambandi við gengislækkunina 1939 og hún hafi haldizt þangað til 1960. Þennan tíma var hún lengst af, en í mismunandi formi lögboðin, þó að vísu takmörkuð stundum um sinn. Þá gerðist það 1960, eð vísitöluhækkanir voru bannaðar, en jafnframt voru heimilaðar grunnkaupshækkanir. Þessu var svo enn breytt 1964, eftir að komið hafði í ljós, að þetta bann gegn vísitöluhækkunum varð ekki til þess að auka á stöðugleika verðlags, nema síður væri. Síðan hefur það haldizt í gildi, að lögboðnar voru vísitöluhækkanir eftir vissum reglum. Eins og ég segi, þá telur ríkisstj., að það sé ekki verjandi að halda slíku lagaboði a.m.k. ekki á meðan áhrif gengislækkunarinnar eru að koma fram. Hins vegar er það ljóst, að þó að bann væri lögfest við slíkum hækkunum, þá stoðar það í raun og veru ekki, nema skilningur og samþykki verkalýðshreyfingarinnar á nauðsyn þess sé fyrir hendi, meðan heimilt er að hækka grunnkaup. Þess vegna er það eitt eðlilegt, að sömu aðilar ákveði um grunnkaupshækkanir og hvort, og þá að hve miklu leyti, en fyrst og fremst, hvort vísitöluhækkanir skuli verða framvegis og a.m.k. á meðan á þessu tímabili stendur. Með því lagaboði, sem hér er gerð tillaga um, er lagður nýr grundvöllur. Hann helzt meðan aðilar koma sér saman um, að hann skuli haldast, á sama veg eins og grunnkaupið helzt, á meðan aðilar koma sér saman um það. En hvort tveggja liggur undir breytingum aðila eða ákvörðunarvaldi aðila, ef þeir geta um það náð samningum.

Þetta er í stuttu máli efni þeirra breytinga, sem ætlað er að leggja fram. Að sjálfsögðu er haldið áfram að reikna framfærsluvísitölu, það er hagfræðileg upplýsing, sem öllum er nauðsynlegt að hafa, og það er ráðgert, að það verði áfram á hinum nýja vísitölugrundvelli, eins og verkalýðsfélögin hafa talið sér hentugra að fá og eins og ráðgert er, að hið hækkaða kaup hinn 1. des. verði reiknað samkvæmt. Ég hef haft samráð bæði við samtök vinnuveitenda og fulltrúa Alþýðusambandsins og mér skilst, — það leiðréttist, ef ég fer rangt með, — að miðstjórn Alþýðusambandsins hafi síðdegis í dag ákveðið á grundvelli þeirra upplýsinga, sem lágu fyrir um þessa tillögugerð af hálfu ríkisstj., að beina því til félaga sinna að aflýsa þeim verkföllum, sem þau hafa boðað til. Er það ekki að efni til rétt? Jú, það er staðfest. Ég vonast til þess, að með þessu skapist sá friður, sem er nauðsynleg forsenda þess, að sú tilraun, sem nú er gerð, fari ekki út um þúfur. Og ég vil eindregið beina því til allra aðila, að þeir leggi sig fram um, að svo megi verða. Forseti A.S.Í. afhenti mér í þessu bréf, sem mér þykir rétt að lesa upp, þó ég viti ekki efni þess að öðru leyti en ég sagði áðan. Það er dagsett í dag og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands ítrekar þá fyrri afstöðu verkalýðshreyfingarinnar, að kaupgjald sé miðað við verðlag, og lýsir því yfir, að samtökin muni standa fast á því, að slíkt sé tryggt í framtíðinni. Með því að ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún muni tryggja kaupuppbætur, sem orðið hafa vegna verðhækkana frá því 1. ágúst s.l. og þannig orðið við kröfum verkalýðssamtakanna um verðbætur launa 1. des. í samræmi við rétt þeirra, ályktar miðstjórn að mæla með því við sambandsfélögin, að þau aflýsi boðuðum vinnustöðvunum fyrir n.k. mánaðamót.

Virðingarfyllst,

Alþýðusamband Íslands,

Hannibal Valdimarsson.“

Ég tel þessa yfirlýsingu, þó að hún með eðlilegum hætti haldi fast við meginstefnu þá, sem verkalýðshreyfingin hefur lýst, mjög mikilsverða, jafnframt því sem ég vil af hálfu ríkisstj. lýsa yfir eindregnum vilja hennar til áframhaldandi samstarfs við verkalýðshreyfinguna, m.a. um að gera þá skerðingu á lífskjörum, sem nú er því miður óhjákvæmileg, sem allra léttbærasta fyrir þá, sem erfiðast eiga með að taka við slíkum böggum á sig.