19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

1. mál, fjárlög 1968

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgmn. beggja d. hafa samkv. venju unnið sameiginlega að undirbúningi till. um framlög ríkissjóðs til flóabáta og vöruflutninga. Hefur n. notið aðstoðar forstjóra Skipaútgerðar ríkisins við það starf, en hann stendur að jafnaði fyrir öflun upplýsinga um rekstur og afkomu einstakra flóabáta og samgöngufyrirtækja.

Töluverð hækkun hefur á þessu ári orðið almennt á rekstrarkostnaði flóabátanna, í fyrsta lagi vegna tveggja verðhækkana á olíum, og í öðru lagt hlýtur gengisbreytingin að valda verulegri hækkun á rekstrarkostnaði bátanna á næsta ári. N. hefur því ekki komizt hjá því að gera till. um nokkuð hækkuð framlög til flestra flóabátanna. Þó hefur verið reynt að stilla þessum hækkunum sem mest í hóf og þá haft fyrir augum, að þessari nauðsynlegu þjónustu verði haldið uppi í þágu félags- og athafnalífs einstakra byggðarlaga. En þess er þó að geta, að fjárhagur margra flóabátanna er mjög þröngur og n. hefur á undanförnum árum ekki treyst sér til þess að verða við stöðugum kröfum þeirra um verulega hækkuð framlög. Engu að síður hefur þó tekizt að tryggja það, að þessum rekstri yrði haldið uppi og væntir n., að svo verði einnig á næsta ári á grundvelli þeirra till., sem hún gerir um styrk til einstakra báta.

Ef fyrst er litið á Norðurlandssamgöngur, kemur það í ljós að gerbreyting hefur orðið á aðstöðu Norðurlandsbátsins Drangs, sem heldur uppi ferðum um Eyjafjörð og til Skagafjarðar, við það, að akvegasamband hefur nú batnað mjög við kaupstaðina Siglufjörð og Ólafsfjörð með því, að Strákagöng hafa verið opnuð til umferðar og vegurinn um Ólafsfjarðarmúla er nú fær meginhluta árs. Þó má segja, að ekki sé komin full reynsla á það, hversu mikið þessar samgöngubætur bæta aðstöðu þessara byggðarlaga. Gera má ráð fyrir því, að snjóalög torveldi enn sem fyrr samgöngur á landi við Ólafsfjörð og Siglufjörð, þó að veruleg umbót hafi á orðið í þeim efnum. Eigandi Drangs hafði helzt viljað hætta þessum ferðum og selja skip sitt, en hann hefur þó léð máls á því að halda áfram ferðum um farsvæði sitt samkv. eindregnum óskum byggðarlaganna, sem hann hefur þjónað. Samvinnunefndinni bárust áskoranir bæði frá bæjarstjórn Siglufjarðar og Ólafsfjarðar um það, að Drangur yrði styrktur áfram með svipuðum hætti og áður, og sá n. sér ekki fært annað en verða við þeim óskum.

Það varð niðurstaða n., að hún lagði til, að styrkur til Drangs yrði hækkaður um 250 þús. kr. á næsta ári, enda haldi hann uppi ferðum um farsvæði sitt eftir þörfum og það hlýtur að fara nokkuð eftir því, hvernig hinir nýju vegir reynast, hversu lengi þeir verða opnir, hver þörf verður fyrir bátinn og þjónustu hans. En nokkur reynsla ætti þegar að fást fyrir því í vetur, hversu tryggt hið nýja akvegasamband verður við Siglufjörð og Ólafsfjörð.

Þá leggur n. til, að framlag til Strandaferða verði hækkað um 40 þús. kr. upp í 100 þús. kr. Strandabáturinn hefur s.l. tvö ár, eftir að akvegasamband skapaðist við Árneshrepp, haldið uppi ferðum síðari hluta vetrar og á vorin, þar til vegir hafa opnazt. Nú hefur þess verið óskað, að vetrarferðir frá Hólmavik norður að Gjögri og í Djúpuvík verði styrktar, en póststjórnin hefur haldið uppi ferðum á þessari leið til póstflutninga. N. féllst á þessar óskir, sem bárust bæði frá hreppsnefnd Árneshrepps og frá sýslunefnd Strandasýslu, og lagði til, að styrkurinn til Strandaferða yrði hækkaður um 40 þús. kr. og þá stefnt að því, að haldið yrði uppi skaplegum vetrarferðum frá Hólmavík og norður í Árneshrepp. Og sá bátur, sem fengist til ferðanna, héldi þá uppi fólksflutningum til viðbótar við póstþjónustu.

Þá er lagt til, að styrkur til flugsamgangna við Grímsey hækki um 10 þús. kr., en Tryggvi Helgason á Akureyri hefur haldið uppi áætlunarflugi til Grímseyjar og hefur orðið að því mjög mikil samgöngubót fyrir eyjarskeggja. Munu hafa verið farnar um 100 flugferðir þangað á þessu ári.

Þá er lagt til, að styrkur til Hríseyjarbáts hækki um 30 þús. kr., en styrkur til Flateyjarbáts á Skjálfanda lækki úr 120 þús. kr, á þessu ári niður í 80 þús. kr. En eins og kunnugt er, hefur nú byggð lagzt niður í Flatey á Skjálfanda og flest fólkið flutt til Húsavíkur, en það hyggst dvelja áfram í eynni að sumarlagi, stunda þar sjó og búskap, þannig að nauðsynlegt er að styrkja flóabátaferðir ríflega hálft árið fyrir Flatey á Skjálfanda.

Um Austfjarðasamgöngur er það fyrst að segja, að það er gert ráð fyrir, að styrkur til Loðmundarfjarðarbáts falli niður, þar sem byggðin í firðinum er nú að mestu eydd. Aðeins einn einsetumaður dvelur þar á þessum vetri. Hins vegar leggur n. til, að styrkur til Mjóafjarðarbáts hækki um 25 þús. kr.

Þá leggur samvn. einnig til, að styrkur til snjóbifreiðar, sem gengur yfir Fjarðarheiði, verði hækkaður um 30 þús. kr. upp í 150 þús. kr. Ennfremur verði veittur sérstakur styrkur til snjóbifreiða, sem halda upp ferðum um Fagradal. Er þar um nýja fjárveitingu að ræða, og leggur n. til, að veittar verði 75 þús. kr. í þessu skyni. Þessar snjóbifreiðir eiga mikinn þátt í því að halda uppi flutningum milli Egilsstaðaflugvallar og byggðarlaganna niðri á fjörðunum og eru því mjög þýðingarmiklar.

Samkv. venju er lagt til, að haldið verði áfram að veita ríkisstyrk vegna vöruflutninga til hinna hafnlausu héraða í Skaftafellssýslu. Leggur samvn. til, að styrkur til vöruflutninga á Suðurlandi, þ.e. til Vestur-Skaftafellssýslu, hækki um 85 þús. kr.

Þá er lagt til, að styrkur til vöruflutninga til Öræfa lækki um 85 þús. kr., en framlagið til vöruflutninga til Öræfa hefur á undanförnum árum aðallega verið til að greiða niður flutningskostnað með flugvélum. En með hinni nýju brú á Jökulsá opnaðist akvegasamband við Öræfasveit. Öræfingar eru nú að undirbúa þá breytingu, að loftflutningar þaðan geti fallið niður, en sláturafurðirnar verði fluttar landveg til Hornafjarðar. En þessi breyting getur þó ekki orðið á næsta ári nema að takmörkuðu leyti. Þess vegna leggur n. til, að veittar verði áfram 80 þús. kr. til vöruflutningastyrks til Öræfa.

Þá hefur n. tekið það nýmæli upp að flytja till. um smáfjárveitingu til svo kallaðs vatnadreka við Skeiðará. Leggur n. til, að það verði 35 þús. kr., en hér er um að ræða öryggistæki, sem héraðsbúar telja mjög mikils virði, að sé staðsett á þessum slóðum, fyrst og fremst til aðstoðar við bifreiðar, sem fara yfir Skeiðará. Loks er lagt til, að styrkur til Vestmannaeyjabáts, mjólkurflutningabáts þeirra Eyjamanna, yrði hækkaður um 50 þús. kr.

Um Faxaflóasamgöngur er það að segja, að fjárhagur h.f. Skalla-Gríms, sem annast ferðir milli Akraness og Reykjavíkur, er enn sem fyrr mjög þröngur. Útgerðarstjórn bátsins taldi sig þurfa allt að 1 millj. kr. hækkun í ríkisstyrk í senn til þess að mæta rekstrarhalla þessa árs og kostnaði vegna flokkunarviðgerðar, sem fór fram á skipi félagsins á árinu 1965. Útgerðarstjórnin hefur upplýst, að nærri 50 þús. farþegar hafi verið fluttir með Akraborg á árinu 1966, og má af því marka, að hér er um mjög þýðingarmikla þjónustu fyrir byggðarlögin hér við Faxaflóa að ræða. Hins vegar er rekstur þessa báts mjög óhagkvæmur, og taldi n. sig ekki komast hjá því að leggja til, að rekstrarstyrkur til h.f. Skalla-Gríms yrði hækkaður um 500 þús. kr. eða upp í 2,5 millj. kr. Ég vil geta þess, að á síðasta ári lagði samvn. til, að sérstök n. yrði skipuð til þess að rannsaka allan rekstur Akraborgar og gera till. um aukna hagkvæmni í rekstri skipsins. Slík n. hefur enn ekki verið skipuð. Hins vegar er starfandi n., sem athugar framtíðaraðgerðir í samgöngum kringum Hvalfjörð, og kom sú skoðun fram í n., að rétt væri að sú nefnd tæki til athugunar vandamál h.f. Skalla-Gríms og Akraborgar og vænti ég, að það verði framkvæmt á næsta ári, að allur rekstur þessa flóabáts, sem er á langsamlega fjölfarnasta farsvæði flóabátanna, verði tekinn til ýtarlegrar endurskoðunar og reynt að koma honum á heilbrigðari grundvöll.

Um Breiðafjarðarsamgöngur er þess að geta, að rekstrarstyrkur til Flateyjarbáts á Breiðafirði verður óbreyttur samkv. till. n. eða 455 þús. kr. Þessi bátur heldur uppi samgöngum um norðanverðan Breiðafjörð milli Vestureyja og landhreppanna í Austur-Barðastrandarsýslu á vetrum. Í þessari upphæð er fólgin 25 þús. kr. styrkupphæð til ferða á Barðaströnd með beltisdráttarvél yfir Kleifaheiði til Patreksfjarðar, þegar snjóar hindra ferðir bifreiða á þessari leið. Það er till. n., að hreppsnefnd Flateyjarhrepps hafi framvegis umsjón með rekstri og ferðum Flateyjarbáts, en áður var það hlutafélagið Norðri í Flatey, sem með ferðirnar hafði að gera.

Afkoma Baldurs, Stykkishólmsbátsins, hefur á árinu reynzt mjög léleg, og tekjur bátsins af fargjöldum og farmgjöldum hafa orðið töluvert minni en gera hefði mátt ráð fyrir. Báturinn stundar töluvert ferðir og vöruflutninga milli Reykjavíkur og Stykkishólms, en af þessu hafa tekjur hans orðið mjög rýrar. Á bátnum hvíla enn þá þung lán, sem nauðsynlegt er að koma í betra horf. Þess má geta, að kostnaðarverð þessa báts varð miklu meira en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Hann var byggður hér innanlands, og samvn. benti á það í síðasta nál. sínu, að nauðsynlegt væri, að fjárhagsvandamál þessa báts yrði tekið til ýtarlegrar athugunar og úrlausnar. Úr því hefur þó ekki orðið, og n. hefur talið sig knúða til þess að leggja til, að rekstrarstyrkur Stykkishólmsbáts hækki um 500 þús. kr., upp í 2 millj. kr.

Styrkur til Djúpbátsins á Ísafirði hefur ekki hækkað mikið allra síðustu árin. Ferðir skipsins hafa verið með svipuðum hætti og áður. Það heldur uppi ferðum um Ísafjarðardjúp og til kauptútranna í Vestur-Ísafjarðarsýslu. N. leggur til, að styrkur til Djúpbátsins hækki um 350 þús. kr. eða upp í 1700 þús. kr. Þá er lagt til, að styrkur verði hækkaður smávægilega til þriggja smábáta á Vestfjörðum, Dýrafjarðarbáts, Patreksfjarðarbáts og Skötufjarðarbáts.

Samkv. framansögðu verður heildarfjárveiting til flóabáta og vöruflutninga á árinu 1968 10 millj. 465 þús. kr. Er það rúmlega 1 millj. 780 þús. kr. hærra en á árinu 1967. En það er einróma skoðun samvn., að minni hækkun hefði ekki dugað til þess að tryggja rekstur flóabátanna og fyrrgreindra flutningafyrirtækja með skaplegum hætti.

N. leggur svo til, að þessi till. verði samþ. með þeirri sundurliðun, sem í nál. greinir.