24.11.1967
Neðri deild: 23. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú lýst því yfir hér á Alþ. fyrir hönd ríkisstj., að ísl. kr. hafi verið felld um nálega 25%, sem þýðir, að erlendur gjaldeyrir hækkar í verði um sem næst 33%. Þetta er 33% hækkun á því, sem greiða verður fyrir erlendan gjaldeyri.

Hæstv. forsrh. sagði, að Seðlabankinn hefði gert þetta og ríkisstj. samþykkt það, en við vitum, að það er ríkisstj., sem hefur tekið þessa ákvörðun. Þetta er pólitísk ákvörðun, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið og er algjörlega á hennar ábyrgð, og óviðeigandi, að hún sé að reyna að skjóta sér á bak við einhverja aðra í þessu tilliti.

Þessi gengislækkun er ekki nema að sáralitlu leyti afleiðing þess, að pundið hefur verið fellt í verði. Það mun láta mjög nærri, að það hefði þurft að fella ísl. kr. um 5% eða svo í verði til þess að eyða áhrifum pundsfallsins á íslenzkt efnahagskerfi og íslenzkt atvinnulíf. Meginhluti gengislækkunarinnar á sér þess vegna allt aðrar rætur og algjörlega óskyldar því, sem gerzt hefur í Bretlandi og annars staðar í sambandi við gengisfall pundsins.

Þessi ákvörðun ríkisstj. að fella ísl. kr. um 25% byggist ekki á því, að íslenzkar framleiðsluvörur standi óvenjulega lágt, vegna þess að það mun láta nærri, að meðalverð fyrir íslenzkar framleiðsluvörur í erlendri mynt á því ári, sem nú er bráðum á enda, muni verða fyllilega eins hátt og það hefur verið undanfarin ár að meðaltali, og eru þau þó toppár að þessu leyti í íslenzkum utanríkisviðskiptum.

Gengisfallið, sem hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið, stafar því hvorki að verulegu leyti af falli pundsins né því, að það hafi orðið óvenjulegt verðfall eða íslenzkar framleiðsluvörur standi óvenjulega lágt, heldur eru hér aðrar ástæður, en þær eru öngþveitið, sem íslenzkt atvinnulíf er komið í eftir 8 ára viðreisnarstjórn.

Þetta mat hæstv. ríkisstj. á ísl. kr., sem hún hefur setið yfir nú í nokkra daga, það er mat hennar sjálfrar á því, hvernig viðreisnarstefnan hefur leikið íslenzkt atvinnulíf. Það er mat ríkisstj. sjálfrar á því, og það er sem sé þetta, að nú eigi 8 ára samfellt góðæristímabil að enda með 25% lækkun ísl. kr., og það er hvorki meira né minna en þriðja gengislækkunin, sem þessi hæstv. ríkisstj. framkvæmir, en hún var þó fyrst og fremst mynduð til þess að koma á jafnvægi í íslenzku efnahagslífi, stöðugu gengi peninga og stöðugu verðlagi. Hefur nokkur ríkisstj, nokkurn tíma kveðið upp annan eins áfellisdóm yfir sjálfri sér og þessi hæstv. ríkisstj. hefur nú gert með þessari ákvörðun? Ég efast um, að fordæmi verði fundin fyrir öðru eins og þessu innanlands. Ég skal ekkert segja um, hvað finna má í öðrum löndum. En ósigur af þessu tagi hygg ég einsdæmi hér á landi.

Þegar kosið var síðast s.l. vor, sagði hæstv. ríkisstj. og stjórnarfl., að það væri kosið um verðstöðvunarstefnu, sem hefði tekið við af viðreisnarstefnunni eða væri eins konar viðauki við hana, og verðstöðvunarstefnan væri fólgin í því, að þó að nokkuð bjátaði á með verðlag á útflutningsvörum frá því sem hæst hefði verið, eins og lá fyrir í fyrravetur og fyrravor álíka eins og nú, þá hefði verið búið svo skynsamlega í haginn fyrir íslenzkt atvinnulif og viðreisnin hefði heppnazt svo vel á alla vegu, að þetta áfall gæti gengið yfir þegjandi og hljóðalaust og verðstöðvunarstefnan væri tryggð, ef þessir tveir flokkar fengju tækifæri til þess að fara með málefni landsins áfram. Það væri allt, sem þyrfti, sögðu þeir í vor.

Auðvitað vissum við, sem kunnugir vorum þessum málum, og það vissu þeir jafnvel, að þetta var ósatt. Ég nota ekki yfir þetta það orð hérna, sem Íslendingar nota á mæltu máli yfir þetta, ég nota hérna orðið ósatt, en það mætti nota líka annað orð, sem lýsti þessum málflutningi betur en að kalla þetta ósannindi. Þeir vissu vel, að það var enginn grundvöllur fyrir þeirri verðstöðvun, sem þeir sögðu þjóðinni, að þeir mundu framkvæma eftir kosningarnar, — vissu það mætavel. Þeir vissu það vel, að þeir notuðu peninga til bráðabirgða til þess að byggja upp svikastíflu fyrir dýrtíðarflóðið, sem hlaut að bresta eftir kosningarnar. Þeir vissu þetta vel. Þeir vissu meira. Þeir vissu það líka vel, að grunnurinn var svo holgrafinn undan íslenzku atvinnulífi, að það gat heldur ekki staðizt aðgerðarlaust, þó að þeir bæru það blákalt fram, að grundvöllurinn væri einmitt svo traustur, að menn skyldu vera ókvíðnir. Hvað skeði svo? Það skeði, að hrekklausu fólki gekk illa að trúa því, að önnur eins ósvífni gæti átt sér stað og þessar fullyrðingar ríkisstj. og stjórnarfl. Hrekklausu fólki gekk illa að trúa því, að slík ósvífni gæti átt sér stað og væri yfirleitt hugsanleg.

Menn hafa tilhneigingu til þess að trúa því, að vel geti gengið. Það vissu stjórnarfl. Þess vegna sögðu þeir um okkur, sem sögðum þjóðinni satt: Hlustið ekki á þessa menn, þeir eru með barlóm, þeir eru með hrakspár. Hlustið á okkur, treystið okkur. Hvernig haldið þið, að kosningar færu, sem væri efnt til núna? Það væri gaman að sjá þá hæstv. ráðh. stiga núna fram og flytja ræðurnar sínar frá því í vor og alla þessa dáta, sem höfðu þetta eftir þeim. Það væri gaman að sjá þetta og heyra. Og það væri gaman að vita, hvernig slíkar kosningar færu. Það er enginn í vafa um það og allra sízt þeir sjálfir. Þeim er það alveg ljóst. Og þess vegna var leikurinn gerður. Þess vegna lögðu þeir út í þetta. Þess vegna var allur blekkingavefurinn búinn til. Þeim fannst þeir ekki gera það að gamni sínu. Þeim fannst þeir þurfa að gera það til þess að hanga við völdin. Og þess vegna gerðu þeir það.

Þeir eru annað veifið að segja eitthvað um, að þetta hafi breytzt svo mikið síðan í vor. Síldin hafi verið langt norður í hafi og aðrir erfiðleikar komið til greina. Það vitum við öll, en hitt vitum við, að í aðalatriðum er þetta eins og það var í vor. Verðlagið er ákaflega svipað nú eins og hað var í vor. Ákaflega svipað. Og það væri fróðlegt að vita, með hvaða verðlagi á íslenzkum útflutningsvörum þeir reikna í gengisfellingardæminu sínu núna? Það er sjálfsagt langt fyrir neðan það, sem var, þegar þeir voru að segja þjóðinni, að allt yrði í lagi. Við fáum kannske að heyra það í þessum umr., með hvaða verði reiknað sé.

Hvernig hefur svo verðstöðvunarstefnan verið framkvæmd? Það var kosið í júní. Strax í ágústmánuði sátu þeir löðursveittir við að ræða um, hvernig þeir ættu að beina dýrtíðarflóðinu yfir á almenning. Þeir voru vitanlega alveg vissir um, að nú var stíflan að bresta. Peningarnir, sem þeir höfðu ráð á til þess að setja upp þennan blekkingaleik, voru búnir og þeir voru farnir að borga með yfirdrætti í Seðlabankanum. Svikastíflan var brostin og þá sátu hæstv. ráðh. yfir því að ákveða, hvert heina skyldi flóðinu. Þetta voru hvorki meira né minna en 750–800 millj., sögðu þeir, sem nú þyrfti að demba út í verðlagið tafarlaust. Og þjóðráðið, — hvert ætli það hafi verið? Það var að hætta við niðurgreiðslurnar, sem þeir innleiddu fyrir kosningarnar, nákvæmlega þær. Kosningaskammturinn var tekinn af. Þetta var ósköp einfalt. Og hæstv. menntmrh. var um daginn í einhverjum umr. að fárast yfir því, að menn skyldu vera að gera veður út af þessu. Hann sagði: Hvað var gert? Það var bara hækkað verð á vörum, sem hafði verið lækkað áður, sagði hæstv. ráðh. Hvað eru menn að fárast út af slíku? Þetta voru aðeins 750–800 millj.

Og hvernig átti þá verðhækkunarbylgjan að hitta fólk? Það var einnig ósköp einfalt, það átti að hækka matvörurnar, sem lækkaðar voru fyrir kosningarnar. Og síðan átti að bæta því við að banna með lögum, að þessar verðhækkanir yrðu reiknaðar inn í kaupið. Menn áttu sem sé að taka þetta bótalaust. Aðferðin var afar einföld. Þetta munaði 71/2%, að sagt var, á lífskjörum almennings, þegar það var reiknað út eftir eigin aðferðum ríkisstj., en auðvitað miklu meiru fyrir þá, sem þurftu að eyða meira en í meðallagi af tekjum sínum til þess að kaupa mat. M.ö.o.: þetta átti að leggjast á menn í öfugu hlutfalli við möguleikana til þess að borga. Mest á þá, sem höfðu þyngstar fjölskyldur og mest þurftu að kaupa af matvælum.

Þetta voru fyrstu úrræðin, sem lögð voru fram. Þetta var fyrsti skammturinn í efndunum á verðstöðvunarstefnunni eftir kosningarnar. En það var ekki nóg með þetta, heldur var mönnum sagt. að þennan skammt yrðu menn nú að þola, því að þetta ætti að gera í staðinn fyrir gengislækkun. Það var alveg óspart básúnað, að ef menn vildu kyngja þessu, þá væru allar líkur á því, að gengislækkun kæmi alls ekki til greina. Og hæstv. forsrh. var óþreytandi í að lýsa því, hvað gengislækkun væri með öllu ótiltækilegt úrræði, og einu sinni komst hann svo langt, ég held að það hafi verið í umr. einmitt um þetta málefni, að hann sagði, að gengislækkun væri slík fjarstæða, að hún skapaði fleiri vandamál en hún leysti. Þetta þótti sumum sjálfsagt mjög mikil speki. Og þetta fannst mönnum heldur en ekki yfirlýsing og það ekkert smáræði, að gengislækkun kæmi ekki til greina.

En áætlunin var þessi: Hella yfir menn þessum skammti, hella yfir menn þessari flóðbylgju, 750–800 millj., 10% kjaraskerðingu fyrir venjuleg heimili, og á meðan átti að segja þetta um gengislækkunina o.fl. Það átti með klækjum, ég segi með klækjum, að halda því leyndu, að nokkuð verulegt meira þyrfti til. Gengislækkun var algjörlega fordæmd, á meðan verið var að reyna að koma hinu fram. En auðvitað var okkur ljóst, að þetta var bara fyrsti áfanginn.

Menn sögðu: Hvers vegna fara mennirnir svona undarlega í þetta mál? Og fólk sagði: Þeir fara í öfugan enda. Þeir sleppa alveg atvinnulífinu og láta eins og engin vandamál séu til hjá því. Almenningi fannst vera farið í öfugan enda. En þeir fóru viljandi í öfugan enda, það var þáttur í klækjunum. En það, sem þeim fannst mest áríðandi, var að slíta vísitöluna úr sambandi og banna að nota hana við að mæla kaupgjaldið, áður en gengislækkunarflóðið kæmi. Það var fyrsti áfangi. Þetta var svona eins og til að prófa, hver mótstaðan væri hjá launþegum og öðrum í þessu tilliti. Þetta er eins og þegar hershöfðingi býður út nokkrum herfylkjum til þess að gera eins konar tilraun með áhlaupi á víglínuna og sjá, hvort hún er ekki veik og gefur eftir. Það átti sem sagt að brjótast í gegn með því að slíta vísitöluna úr sambandi. Það var aðalatriðið.

Mörgum fannst þetta nokkuð skrýtið. Hvers vegna láta mennirnir svona út af 3 stigum í vísitölunni? Hvaða hamagangur er þetta? Hvers vegna leggur stjórnin þetta ofurkapp á þessi 3 eða 4 stig? Það var ósköp skiljanlegt, það var „prinsipið“ að ná vísitölunni úr sambandi, áður en aðalflóðið kæmi, sem þeir vissu að hlaut og mundi koma. Þetta átti að líta laglega út, það átti að vera aðeins til 1. jan. — til bráðabirgða. En við þekkjum, hvernig þessi ríkisstj. umgengst þau ákvæði, sem eiga að vera til bráðabirgða. Þau eru yfirleitt framlengd, ef svo býður við að horfa. Og einmitt þetta að hafa þetta til bráðabirgða, það var líka liður í því, að þetta gengi betur niður, að koma þessu í gegn, áður en aðalstríðið hæfist, áður en aðalbylgjan skylli yfir.

Halda menn, að ríkisstj. sé svo skyni skroppin, að hún hafi allt í einu, þegar hún frétti þetta með gengisfallið frá Wilson, komizt að þeirri niðurstöðu, að íslenzkt atvinnulíf gæti ekki staðizt og að það þyrfti 20% gengislækkun aukalega fyrir það? Dettur mönnum það í hug? Haldið þið, að ríkisstj. hafi ekki vitað það áður, að hún var búin að holgrafa undan ísl. kr. og gengislækkunin hlaut að koma? En hvers vegna hefur hún þá verið að segja okkur það, að gengislækkunin kæmi ekki til greina? Hvers vegna hefur hún verið að gefa slíkar yfirlýsingar eins og ég nefndi áðan? Það er allt af sama toga spunnið. Það er spunnið af sama toga og þeim, sem kosningablekkingarnar voru spunnar af og ósannindin, sem þjóðinni voru sögð um kosningarnar. Þetta er bara framhaldssaga. Þetta var nýr kafli í henni og sýnir hvað með öðru, hvernig þessi hæstv. ríkisstj. umgengst þjóðina, umgengst þingið og umgengst sannleikann.

Nei, hæstv. ríkisstj. hefur verið það ljóst lengi, og henni var það vel ljóst strax í fyrrahaust, að þetta gat ekki staðizt. En hún hefur lagt á sig mikið erfiði til þess að halda því leyndu, hvernig raunverulega væri ástatt, og hún hefur aldrei sagt þjóðinni satt eða þinginu satt um það, hvernig þessi mál væru vaxin. Hitt er svo annað mál, að gengislækkunin í Bretlandi, gengislækkun Wilsons, varð til þess að þeir urðu að fara af stað núna strax með gengisbreytinguna sína. Það var óhugsandi fyrir þá að fara nú að taka aðeins tillit til þess, sem Bretar gerðu, þegar þeir voru alveg sannfærðir um það fyrir löngu, að þeir hlutu að framkvæma nýtt gengisfall eftir stutta stund.

Áætlun þeirra um vísitöluna, sem sé sú að banna að taka til greina í kaupgjaldi þessar 750–800 millj. kr. verðhækkanir, sem koma áttu til, — þessi áætlun fékk ekki góðar móttökur, sem vonlegt var, og launþegasamtökin risu mjög eindregið í móti, svo eindregið, að um það leyti sem Wilson felldi pundið og þeir fengu fréttir af því í ríkisstj., voru verkalýðssamtökin búin að lýsa yfir allsherjarverkfalli út af þessari tilraun ríkisstj. til þess að velta þessum 750–800 millj. yfir á heimilin á þann hátt, sem ég hef skýrt frá. Þannig stóð málið, þegar hæstv. ríkisstj. fékk þessar fréttir um gengislækkunina í Bretlandi. Launþegasamtökin höfðu hervæðzt. Nú segist hæstv. ríkisstj. reiðubúin til þess að koma því svo fyrir, að þessi dýrtíðarhækkun verði tekin inn í vísitöluna, og inn í kaupið 1. des. Hvað gerzt hefði, ef gengislækkun Breta hefði ekki komið til, og stjórnin hefði getað geymt gengislækkun sína þangað til síðar, það getum við vitanlega ekki fullyrt. Það veit enginn. En hitt er alveg ljóst, að það þurfti yfirlýsingu um allsherjarverkfall til þess að fá ríkisstj. til að taka til baka áform sin um að velta þessu bótalaust yfir á almenning. Það þurfti hvorki meira né minna en yfirlýsingu um allsherjarverkfall til þess að ríkisstj. gerði það, sem hún hefur nú ákveðið, eftir yfirlýsingum hæstv. forsrh. að dæma.

En þá hefur stjórnin tekið það ráð í staðinn, varðandi framtíðina, að nema úr lögum þau ákvæði, sem nú eru þar, um tryggingu fyrir uppbótum á laun samkvæmt vísitölu. Áreiðanlega hefur ríkisstj. með því — alveg áreiðanlega — efnt til mikilla átaka um kjaramálin, áður en langt um líður. Um það er ekkert að efast. Með þessu hefur hæstv. ríkisstj. efnt til átaka um kjaramálin, áður en langt um líður, og hún hefur með þessu gengið þvert á þá stefnu, sem hún hefur haft fram að þessu, í samráði við launþegasamtökin að tryggja mönnum vísitöluuppbót á kaup, eins og ákveðið var í júnísamkomulaginu.

Á hinn bóginn má segja, að það hafi áunnizt, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki treyst sér til annars vegna verkfallsboðananna en að hætta við fyrirætlanir sínar um að velta þessum 750–800 millj. bótalaust yfir á heimilin. Ef hæstv. ríkisstj. kemur áætlunum sínum í framkvæmd, þá tapazt aftur á móti sú trygging, sem hingað til hefur verið í lögum, fyrir fullum verðlagsuppbótum á kaup, og með því hlýtur að verða efnt til átaka um kjaramálin.

Ég mun ekki fara mörgum fleiri orðum um vinnubrögð ríkisstj. né almennt um málið, nema hvað ég vík kannske örfáum orðum að því í niðurlagi míns máls, en ég vil þess í stað ræða nokkuð einstaka þætti, sem enn eru alveg óljósir í málinu.

Hæstv. ráðherra hefur sagt, hvað fyrir þeim vakir um kaupgjaldsmálin. En þá kemur önnur spurning, sem er mjög þýðingarmikil í þessu sambandi. Hvað verður gert varðandi landbúnaðarvöruverðið? Hvað verður gert varðandi þann þáttinn, sem snýr að landbúnaðinum? Ég vil leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forsrh., hvað meiningin er að gera í því. Hvað á að gera til þess að tryggja bændum, að þeir verði ekki fyrir sérstökum búsifjum af völdum gengislækkunarinnar, sem skekki þann grundvöll, sem gildandi löggjöf ætlar þeim?

Þá vil ég enn fremur spyrjast fyrir um hag ríkissjóðs í þessu sambandi. Öll vitum við, að það þótti svo mikið við liggja varðandi afkomu ríkissjóðs hér á dögunum, að það átti að vanta 750–800 millj. Rúmlega helminginn af því átti að fá með því að velta þeim beint inn í matvöruverðið og afganginn átti að fá með hinum fáránlegustu sköttum. Hvað verður nú um ríkissjóð miðað við þetta nýja viðhorf? Öll vitum við það, að séu tollar látnir standa óbreyttir, þá hækka tekjur ríkissjóðs gífurlega og að óbreyttu hlýtur afkoma hans að gjörbreytast. Ég tala nú ekki um, ef það bætist við, sem líklegt er, að þær fjárhæðir, sem greiddar hafa verið úr ríkissjóði til uppbóta í atvinnulífinu, falli að miklu eða öllu leyti niður. Raunar þykir mér nú ekki líklegt, að það falli niður, sem togarar fá. En maður gæti ímyndað sér, að annað félli niður og þarna er um nokkur hundruð millj. að ræða auk gífurlegs tekjuauka, sem mundi koma, ef ríkissjóður ætlaði að halda að fullu tollalögum.

Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. til þess að gera tilraun til að fá eitthvað gleggri mynd af málinu en hægt er að fá af því, sem þegar liggur fyrir. Hverjar eru fyrirætlanirnar í þessu tilliti? Ætlar ríkisstj. að halda öllum tollunum óbreyttum, eins og ekkert hafi í skorizt, og hirða allan þann mikla tekjuauka, sem þarna kemur inn, eða ætlar hún að lækka tollana? Hver er stefnan í þessu? Hæstv. ríkisstj. hlýtur að hafa gert sér nokkra grein fyrir þessu dæmi, og ef hún ætlar að skófla inn öllum þeim gífurlegu fjármunum, sem falla í ríkissjóð vegna áhrifa gengisbreytingarinnar, hvað ætlar hún þá að gera við þá peninga? Í þessu sambandi vaknar einnig sú spurning, hvað verður nú um niðurgreiðslurnar? Er meiningin að halda við það áform að hætta við þær niðurgreiðslur, sem felldar voru niður um daginn og áttu að falla á heimilin, eða er ætlanin að taka upp þessar niðurgreiðslur aftur eða nýjar niðurgreiðslur í einhverju formi til þess að minnka verðhækkunaráhrif sjálfrar gengisbreytingarinnar?

Það eru margir þættir í þessu máli með öllu óljósir og það er mjög erfitt að ræða þessi mál nema hafa af þeim betri mynd en enn er komin fram.

Hæstv. forsrh. segir, að þetta komi smátt og smátt á næstu dögum, og ég efast ekki um það, að það kemur í ljós smátt og smátt, en það er mjög óhaganlegt að þurfa að ræða þessi mál, án þess að vita meira.

Það þarf enginn að ímynda sér, að hægt sé að koma hér fram á Alþingi og tilkynna 24.6% gengislækkun, án þess að það verði rætt, en byrjað að tala um einhver hliðarmál, sem þurfi að spóla í gegn á nokkrum klukkutímum. Það hljóta undireins að verða umræður um þessi málefni, og reynt að fá af þeim sem réttasta mynd. Óhugsandi er einnig annað en lagðir verði dómar þegar í stað á það, sem gert hefur verið. Þetta verða menn að skilja, og ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur gert sér grein fyrir því, að svo hlyti að verða, og hún hlýtur þess vegna að hafa búið sig undir að geta gefið upplýsingar um þýðingarmestu þætti málsins.

Þá koma enn önnur atriði til greina, sem eru geysilega þýðingarmikil og þurfa að koma fram sem allra fyrst. Ég veit raunar, að hæstv. ráðh. hafa þau á takteinum. Hvernig eru þessi dæmi um það, hvað íslenzkt atvinnulíf þurfi, hver gengisskráning þurfi að vera vegna íslenzks atvinnulífs, sem þeim datt nú allt í einu í hug að fara að sinna, þegar Wilson hreyfði sig, en sögðu áður að þyrfti ekki að reikna. En eins og ég sagði áðan, þá vitum við alveg, hvernig þetta var vaxið. Það á að líta þannig út í augum almennings, að vegna lækkunar pundsins hafi allt í einu þurft að fara að reikna þetta. En hvernig eru þessi dæmi reiknuð? Með hvaða útflutningsverði er reiknað í höfuðgreinum? Með hvaða útflutningsverði er reiknað t.d. fyrir hraðfrystan fisk, fyrir lýsi eða síldarolíu og síldarmjöl, svo að nokkrar þýðingarmestu greinarnar séu teknar? Með hvaða verði í pundum eða dollurum er reiknað í þessu gengislækkunardæmi? Þetta þarf ekki aðeins ég að vita, þetta þurfa allir að vita. Með hverju reikna þeir nú? Það þarf að koma fram, hvernig þetta dæmi er, sem saman er raunar sett úr mörgum dæmum. Hvernig kemur þetta út fyrir einstakar höfuðgreinar atvinnulífsins? Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er talað um verðjöfnun, og það eru í gildi nú þegar lög um verðjöfnun á milli greina. Það hefur óskaplega mikla þýðingu að fá að vita það nú strax, hvort mismunur á hinum einstöku höfuðgreinum atvinnulífsins er mikill eða lítill og hver hann er í þeim dæmum, sem hæstv. ríkisstj. leggur hér til grundvallar.

Þá hefur það ákaflega mikla þýðingu, hversu mikilla verðhækkana er að vænta í þessu sambandi, ekki sízt þegar ríkisstj. hefur tekið það ráð að ætla sér að nema úr lögum þá tryggingu, sem launþegar hafa fyrir vísitöluuppbótum, og sleppa þar öllu lausu. Þá er ekki þýðingarlítið að vita, á hvað mikilli verðhækkun er von. Erlendur gjaldeyrir hækkar mjög í verði og það hlýtur að verða gífurleg verðhækkun, sem af því stafar, og það þyrfti að koma fram sem allra fyrst, hvað gert er ráð fyrir að verði um mikla dýrtíðaraukningu að ræða. Það mundi hjálpa mönnum ofurlítið til þess að átta sig á því, hvað þetta dýrtíðarflóð verður magnað hjá þeim verðstöðvunarmönnum, hvað dýrtíðarbylgjan verður há, sem kemur nú fram, þegar byrjað er að framkvæma verðstöðvunarstefnuna fyrir alvöru. En smásmíði verður þetta ekki, þegar við vitum, að það eru mörg hundruð milljóna niðurgreiðslur, sem hætt hefur verið við, og þar að auki gengislækkunin, sem gengur inn í vöruverð.

Ég hef minnzt á nokkur höfuðatriði í þessu máli og reynt að gera það án þess að orðlengja meira en efni stóðu til. Ég vil að lokum segja, að ég tel það alveg fullkomið ábyrgðarleysi af núv. hæstv. ríkisstj., sem raunverulega — ég fullyrði það — hefur nú ekki lengur á bak við sig neinn meiri hluta með þjóðinni, að leggja út í framkvæmd gengislækkunar að óbreyttri stefnu. Það tel ég alveg augljóst mál, að ríkisstj. hefur ekki meiri hluta lengur. Það er alveg óhugsandi, að ríkisstjórnarflokkarnir gætu unnið kosningar, ef þær væru háðar nú. Það vita allir, það er algjörlega óhugsandi, þeir unnu kosningarnar á fölskum forsendum, þeir svikust aftan að þjóðinni. Ef þjóðin fengi nú tækifæri til þess að segja álit sitt í almennum kosningum, þá er með öllu óhugsandi að þeir ynnu. Þeir eru þess vegna umboðslausir. Auk þess eru þeir búnir að missa traust, ekki andstæðinganna, sem þeir hafa aldrei haft, heldur eru þeir búnir að missa traust mikils fjölmennis af því fólki, sem hefur þó stutt þá, t.d. við síðustu kosningar.

Þetta hefur komið alveg ósleitilega fram upp á síðkastið, enda þekkjum við það mikið til mannlegs eðlis, að annað væri með öllu óhugsandi. Það mundi alveg stríða gegn mannlegri náttúru, að þessi hæstv. ríkisstj. gæti með nokkru lifandi móti haft meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig nú. Það mundi gjörsamlega stríða á móti mannlegu eðli. Þetta vita hæstv. ráðh. og hv. þm. stjórnarflokkanna jafnvel og ég. Þeir hafa því ekkert umboð til þess að gera þetta, sem nú á að framkvæma. Þeir fengu umboð til þess að framkvæma verðstöðvunarstefnu. Er þetta hún? Nei, þetta er ekki hún. Þetta er meira að segja gengisfelling, sem okkur var sagt fyrir nokkrum vikum, að kæmi ekki til greina, hvað þá heldur að menn væru búnir undir slíkt í vor. Þess vegna er stjórnin veik, hún hefur ekki traust eða nokkra möguleika til þess að fá þá samstöðu um jafnalvarlegar ákvarðanir og þessar, sem þyrfti að vera fyrir hendi, til þess að verjandi væri að leggja í gengisbreytingu. Það er þess vegna að okkar dómi algjörlega óverjandi óbilgirni af hæstv. ríkisstj. að leggja út í að framkvæma þessa gengislækkun að óbreyttri þeirri stefnu í þjóðmálum, sem hefur þrívegis grafið grundvöllinn undan ísl. kr. á 8 árum, að taka sér nú fyrir hendur að fella í þriðja sinn gengi ísl. kr. án þess að breyta þessari stefnu í einu eða neinu, það er með öllu óverjandi. Verði stefnunni ekki breytt í grundvallaratriðum, mun stjórnin vaða áfram í sama kviksyndinu og áður, og þá mun strax byrja að safnast í fjórðu gengislækkunina, hvenær svo sem hún verður framkvæmd.