19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

1. mál, fjárlög 1968

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér þrjár brtt. við fjárlagafrv. Þær eru allar á þskj. 199. 1. brtt. mín er um það, að aukið verði framlag til íþróttasjóðs úr 5 millj. kr. í 10 millj. kr. Ég veit, að það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa till. Allir hv. alþm. vita það mætavel, að íþróttasjóður hefur um alllangan tíma verið févana og ekki getað staðið við þær skuldbindingar, sem hann hefur þó ætlað sér að standa við, og allmikið af íþróttamannvirkjum hefur ekki getað komizt upp vegna fjárskorts íþróttasjóðs. Nú þegar þannig stendur á, að það er ekkert um að villast, að fjárhagur ríkissjóðs er og mun verða rýmri en hann hefur verið um alllangan tíma, tel ég alveg sjálfsagt að auka nokkuð fjárveitinguna til íþróttasjóðs, eins og þar er ástatt. 2. breytingartillaga mín, sem er 3. tillaga á þingskjali 199, er um það að auka fjárframlagið til félagsheimilasjóðs úr 71/2 millj. upp í 15 millj. kr. En þar er svipað ástatt með fjárhagsmálin eins og hjá íþróttasjóði, nema sennilega er vandinn þó enn þá meiri hjá félagsheimilasjóði. Hann skuldar mjög miklar fjárhæðir og þetta veldur feiknalegum erfiðleikum viða hjá þeim, sem hafa staðið í þeim nauðsynjaframkvæmdum að vera að koma upp félagsheimilum. Þetta mál hefur verið hér rætt margsinnis á Alþ. á undanförnum árum og allir hafa í rauninni viðurkennt það, að hér er um mikið vandamál að ræða, og það þarf nauðsynlega að leysa það mál með auknum fjárveitingum til félagsheimilasjóðs. Af sömu ástæðum eins og ég greindi áðan, tel ég, að nú sé aðstaða til þess, að ríkið leggi þarna nokkuð meira fram en áður og hef því lagt til, að fjárveitingin yrði hækkuð um helming eða úr 71/2 millj. upp í 15 millj. kr.

Þá er 3. brtt. mín, 6. till. á þskj. 199. Hún er um það, að tekinn verði upp nýr liður í sambandi við ýmsar ráðstafanir um sjávarútvegsmál og sá liður heiti „til aðstoðar við sjómenn á fjarlægum miðum,“ 2 millj. kr. — Ég veit, að allir hv. þm. kannast við það, að allmikið hefur verið um það rætt nú síðustu árin, að það væri þörf á því að aðstoða íslenzka fiskimenn, sem verða að stunda veiðar á fjarlægum miðum, á margvíslegan hátt, en því hefur jafnan verið borið við, að það væri ekki hægt að ráðast í slíka aðstoð, vegna þess að ekki væri fyrir hendi nein fjárveiting í þessu skyni. Á s.l. ári gerðist það, eins og við vitum, að mikill hluti síldveiðiflotans varð að stunda veiðar um alllangan tíma, ekki aðeins norður við Jan Mayen, heldur miklu norðar, eða allt norður undir Svalbarða, og þá var flotinn kominn svo langt frá landi, að ég hygg, að þeir séu ekki nema fáir hér inni, sem hafi gert sér grein fyrir því, hvað flotinn var raunverulega kominn hér langt frá landi. Ég minnist í þessu sambandi, að skipstjóri, sem sigldi með afla hingað til Reykjavíkur til vinnslu af þessum miðum á flutningaskipi, leiðrétti einhvern, sem var að tala um það, að nú þyrfti hann að sigla langt, alla leið norður til Jan Mayen eftir síldinni, en hann sagði: Veiztu það, að þegar ég sigli frá Reykjavík til Jan Mayen, er ég rétt aðeins hálfnaður á miðin? Svo norðarlega og austarlega er síldveiðiflotinn nú kominn. Enda var flotinn kominn svo langt frá landi, að hann hafði ekki lengur orðið aðstöðu til þess að hafa talsamband við Ísland. Þar varð að koma til að kalla í gegnum skip, sem voru þar einhversstaðar miðja vegu á milli, en við vitum, að það að ætla að standa að því að halda þar til veiða á jafnfjarlægum miðum eins og þarna var um að ræða, kannske allt upp í 150–200 skipum, og hafa þar um borð 1500–2000 menn, er vitanlega ekki forsvaranlegt við þær aðstæður, sem þessir aðilar hafa þurft að búa við. En þetta er svona í fleiri tilfellum heldur en með síldveiðisjómennina, svo að ég álít, að nú eigi í þessu tilfelli að leggja fram tvær millj. kr. sem fjárveitingu úr ríkissjóði í því skyni að gera það fært að aðstoða þessa sjómenn, sem verða að búa við þessa aðstöðu, aðstoða þá á þann hátt, sem talið er heppilegast. Margt getur þarna komið til greina og sé ég ekki ástæðu til þess að fara að telja það sérstaklegu upp. Ég tel, að hér sé um alveg lágmarksfjárupphæð að ræða og í rauninni hvíli á ríkinu alveg sérstök skylda að hlaupa undir baggann í þessum efnum.

Þetta eru þær þrjár till., sem ég flyt til breytinga á fjárlagafrv., og ég vænti, að hv. þm. sýni skilning á þessum till. og fallist á að samþykkja þær.