19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

1. mál, fjárlög 1968

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 201 flyt ég eina brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1968, það er fjórði töluliður. Þessa till. flyt ég ásamt hv. 4. þm. Reykv., Þórarni Þórarinssyni. Hún fjallar um það, að við 4. gr., eins og þar er nánar skilgreint, komi nýr liður til byggingar ungmennahúss í Reykjavík, að upphæð 10 millj. kr. Ég vil leyfa mér að gera örstutta grein fyrir þessari till., hvers vegna hún er flutt.

Eins og kunnugt er hafa vandamál æskunnar löngum verið úrlausnarefni, misjafnlega alvarlegt að vísu. Þetta vandamál er ævarandi, en það minnir á sig með nokkuð misjöfnum hætti. Stundum gerast þeir atburðir, að þeir, sem fullorðnir eru, vakna upp við vondan draum, sjá það að eitthvað er aflaga í þessum málum og fyllast þá gjarnan löngun til þess að bæta úr. Því er heldur ekki að neita, að nokkrar ráðstafanir hafa á síðustu árum verið gerðar, einmitt í því skyni, að auðvelda þessi vandamál unga fólksins. Það má t.d. geta þess, að fyrir hv. Alþ. liggur nú frv. til l. um ráðstafanir í æskulýðsmálum. Ég geri fastlega ráð fyrir því og veit raunar, að þar er um þarfa lagasetningu að ræða, sem vafalaust verður dustað rykið af, þegar annir efnahagsmálanna minnka eitthvað hér á hv. Alþ. Í þessu frv. eru nokkur nýmæli a.m.k., sem lofa góðu, t.d. sú nýbreytni að koma á fót allumfangsmikilli leiðbeiningastarfsemi í æskulýðsmálum, en á hana hefur allmikið skort, og margir frumkvöðlar æskulýðsmála hér telja, að það sé stórt spor í rétta átt, þegar það nær fram að ganga. Allt er þetta þó mjög þokukennt, eins og sakir standa, og nýmæli frv. flestöll í heimildaformi, ég held það sé engin ákveðin fjárveiting til æskulýðsmála í þessu æskulýðsfrv., en án fjármagns verður trauðla mikið áunnið í þessu, fremur en svo mörgu öðru.

Hér í Reykjavíkurborg starfar n. á vegum borgarstjórnar, sem heitir Æskulýðsráð. Þetta æskulýðsráð hefur nýlega birt skýrslu um starfsemi sína undanfarin ár. Hér er um að ræða hið fróðlegasta rit, sem ástæða er fyrir alla, og þá ekki sízt hv. alþm. að gefa gaum. En starfsemi ráðsins er allumfangsmikil. Engu að síður er því sniðinn allt of þröngur stakkur, og er það viðurkennt af öllum, sem í æskulýðsmálaráði starfa, hvar í flokki sem þeir standa. Æskulýðsráð Reykjavíkur hefur undanfarin ár haft til umráða húseignina nr. 11 við Fríkirkjuveg. Þar eru skrifstofur og bækistöð ráðsins, og þar hefur verið haldið uppi þeirri æskulýðsstarfsemi, sem ráðið hefur getað boðið upp á undanfarin ár. Nú hefur það gerzt, eins og allir hv. alþm. vita, að hús þetta hefur verið selt og lóðin sameinuð næstu lóð við til afnota fyrir Seðlabankann, þar sem hana ætlar að byggja sér aðsetur sitt. Af þessu leiðir að sjálfsögðu, að Æskulýðsráð verður að hverfa burtu af Fríkirkjuvegi 11, og fyrir dyrum stendur nú endurbygging á húsakynnum við Tjarnargötu, þar sem verið hefur Tjarnarbær, og að nokkru leyti húsakynnum gömlu slökkvistöðvarinnar, sem í ráði er að taka í notkun fyrir þessa starfsemi. Ég held það séu um það bil tvö ár síðan ákveðið var að láta fara fram samkeppni um teikningar að æskulýðshúsi á þessum stað. Þessi samkeppni hefur þó enn þá ekki farið fram, en mun nú alveg nýverið hafa verið ákveðin af Borgarráði Reykjavíkur og verður þá væntanlega háð á næsta ári, og er það sannarlega ekki vonum fyrr, vegna þess að Æskulýðsráð er nú að verða húsnæðislaust, eins og ég áðan sagði. En þó af þessari byggingu verði nú, sem væntalega verður alveg á næstunni, þá kemur þessi bygging í raun og veru aðeins í staðinn fyrir húsakynni ráðsins að Fríkirkjuvegi 11, sem öllum ber saman um, að hafi verið alls kostar ónóg fyrir starfsemina undanfarin ár.

Fleira mætti nefna, sem líklegt er, að bæti nokkuð úr ástandinu í þessum efnum, og þá fyrst og fremst það framtak, sem íslenzkir templarar hafa ráðizt í í húsnæði sínu við Eiríksgötu. En þar er ráðgerð bygging, a.m.k. tveggja samkomusala, sem gæti orðið a.m.k. að einhverju leyti til afnota fyrir slíka æskulýðsstarfsemi, eins og ég er hér að tala um. En þessar framkvæmdir hafa einnig dregizt. Vonir stóðu til, að þessi húsakynni gætu a.m.k. að verulegu leyti orðið tilbúin til afnota á þessu ári. Nú er sýnt, að svo verður ekki, og er vafalaust fjárskorti þar fyrst og fremst um að kenna. Ég vil ekki halda því fram, að mér sé kunnugt um alla starfsemi, sem í þessu skyni er rekin, en ég vil þó, áður en ég skilst við þetta, geta um starfsemi, sem Kristján Sigurðsson lögregluþjónn hefur haldið uppi í vetur í Breiðfirðingabúð, en þar hefur hann haldið uppi danssamkomum fyrir unglinga, mjög með því sniði, sem til heilla horfir að mínum dómi. En þegar þessi atriði eru talin, sem flestöll eru þó í vændum og aðeins mjög fá í framkvæmd nú þegar, er lokið að geta um þá aðstöðu, sem reykvískir unglingar hafa til dansskemmtana hér í borginni.

Það hefur verið reynt að bæta nokkuð úr þessum málum með því að nota húsakynni skólanna. Skólarnir hafa haft svo kölluð opin hús á kvöldin. Þetta hefur, að því er ég bezt veit, gefizt allvel, en bæði er það, að skortur á skólahúsnæði veldur því, að nýting þess er þegar mjög mikil, og það þarf að margsetja í stofurnar. Einhvern tíma verður að ætla til þess að hreinsa húsakynnin og halda þeim við, þannig að það er a.m.k. mjög takmörkuð lausn og olls ekki til neinnar frambúðar að vísa á skólahúsakynnin í þessu sambandi. Með þessar staðreyndir í huga flutti ég hér á hv. síðasta Alþ. í fyrra frv. um byggingu ungmennahúss hér í borginni. Efni þess frv. var í örstuttu máli það, að byggt skyldi ungmennahús í Reykjavík fyrir skemmtanir æskufólks og haft samráð við Æskulýðsráð Reykjavíkur um stærð hússins og fyrirkomulag. Í ungmennahúsi áttu aðeins að fara fram þær skemmtanir, sem hollar og þroskavænlegar eru fyrir æskufólk, og vandað til þeirra, og áfengisneyzla átti algjörlega að vera bönnuð í því húsi. Í frv. var ráðgert, að stofnkostnaðurinn, þar með talin áhöld og tæki, yrði greiddur að hálfu af ríkissjóði og að hálfu af Reykjavíkurborg, og ef um rekstrarhalla yrði að ræða, þá myndi staðið undir honum á sama hátt. Þetta yrði helmingafyrirtæki þessara tveggja aðila, en ungmennahússtjórn yrði falin Æskulýðsráði Reykjavíkur og að því stefnt, að ungmenni gætu sem allra mest sjálf haft stjórn þeirrar starfsemi, sem þar færi fram, með höndum. Þetta frv. fékk í allra skemmstu máli enga afgreiðslu hér á hv. Alþ. Ég held þó, að því hafi verið vísað til n., en svo mikið er víst, að þaðan kom það aldrei. Og ég vil segja, að það lýsi takmörkuðum áhuga hv. fyrrv. alþm. a.m.k. á málefnum æskulýðs í höfuðborginni, og ég vona, að það áhugaleysi sé ekki fyrir hendi á því þingi, sem nú er nýlega kjörið og hér situr.

Það kom glöggt fram í umr. um þessi mál í borgarstjórn Reykjavíkur ekki alls fyrir löngu, að mikill og samstæður vilji er þar fyrir því að ná samstarfi við ríkið um starfrækslu og byggingu húss eins og þessa, og eru þar allir flokkar á einu máli, enda er það mála sannast, að ríkið — og þjóðfélagið þá — á ekkert síður mikið undir því komið heldur en yfirvöld Reykjavíkurborgar, að uppeldi æskulýðsins hér geti tekizt á þann hátt, sem viðunandi er a.m.k. Og það getur hæglega orðið ríkinu dýrt, ekki síður en borginni, ef þessi mál eru látin fara í ólestur, svo að til slysa kemur.

Ég sagði áðan, að það væri ráðgert að byggja yfir starfsemi Æskulýðsráðs að einhverju leyti í Tjarnargötu. Það er engan veginn nóg, m.a. vegna þess, að það kemur í staðinn fyrir annað hús, sem tekið er úr notkun, en auk þess er það útbreidd og viðurkennd skoðun þeirra, sem að þessum málum starfa, að það sé nauðsynlegt að dreifa þessari skemmtanaaðstöðu allverulega um borgina. Og hér er ég ekki að tala fyrir frv. eða till. um neina æskulýðshöll, eins og einu sinni var vinsælt að tala um hér á hv. Alþ. Ég held, að allir séu orðnir sammála um það nú, að heppilegra sé að dreifa þessari aðstöðu talsvert mikið um borgina. Það hús, sem ég og hv. 4. þm. Reykv. höfum í huga, á að verða eitt af slíkum húsum. Vonandi verða þau innan tíðar miklu fleiri. Ég hygg, að það þurfi ekki að fara um það mörgum orðum, hvers vegna það sé heppilegt að dreifa æskulýðsstarfseminni. Það liggur í augum uppi, að það er ekki heppilegt og oft ekki auðvelt að fást við, þegar of mörgum ungmennum er stefnt saman á einn og sama stað. Það verður affarasælla að dreifa þessari starfsemi.

Ég tel sanngjarnt, að ríkissjóður taki að sínu leyti einhvern þátt í lausn á æskulýðsvandamálunum í Reykjavík. Hér er að rísa upp eini vísirinn á Íslandi að stórborgarlífi, og við erum Íslendingar gjarnan nokkuð stoltir af því að geta sýnt öðrum skýjakljúfana okkar og fína vínveitingastaði, sem eru til afnota fyrir okkur, sem erum fullorðin, og þá gesti, sem hingað koma. En við verðum bara að gera okkur það ljóst, að vegsemdinni af því að byggja stórborg fylgir einnig mikill vandi, og sá vandi er ekki hvað sízt að ala upp heilbrigt og hamingjusamt æskufólk. Og þessum vanda verður að mæta, ekki bara að vísa honum á einstök sveitarfélög. Ríkið og Alþ., þjóðin öll, verður að axla sinn hluta af þessari byrði. Þess vegna hef ég nú freistað þess, og við, flutningsmenn þessarar till., að fá örlitla fjárveitingu samþ. í þessu skyni, nú þegar hin geysiháu fjárlög fyrir árið 1968 eru á lokaafgreiðslustigi. Það skiptir að mínum dómi engu máli, þó að lög um slíkt hús séu ekki þegar fyrir hendi eða fyrirkomulag á ráðstöfun þessarar fjárveitingar, slíkt má alltaf gera. Aðalatriðið er að fá fjárveitinguna, þá verður hitt auðvelt, að ráðstafa henni á heppilegan hátt. Hér er miklum fjármunum ráðstafað nú í kvöld og undanfarna daga, flestum sjálfsagt til þarfra og nauðsynlegra hluta, það vil ég sízt draga í efa. En hvað er framtíð þjóðarinnar nauðsynlegra en heilbrigði og hamingja æskunnar? Ég held, að það sé vandfundið.