24.11.1967
Neðri deild: 23. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, eru fyrstu formlegu merkin um það hér á Alþ., að til standi að lækka gengi ísl. krónu. Og þó eru a.m.k. liðnir sex sólarhringar síðan svo að segja allir menn í landinu vissu, að ákveðið var að vinna að lækkun gengis krónunnar, og mikið hefur gengið á varðandi þessi mál allan þennan tíma. En eigi að síður hefur þannig verið haldið á málum, að formlega hefur þetta mál ekki komið til neinna umræðna hér á Alþ. fyrr en nú. Ástæðan til þess, að þessu er svona einkennilega varið, er sú, að núv. ríkisstj. beitti sér fyrir því með brbl. árið 1961 að taka gengisskráningarvaldið af Alþ. og færa það yfir til Seðlabankans að formi til, en það hefur nú komið greinilega í ljós, að í rauninni var verið að færa þetta vald hreinlega í hendur ríkisstj. sjálfrar. Því það hefur farið ósköp svipað í Seðlabankanum eins og það hefur farið með framkvæmdina hér á Alþ., að í rauninni hefur sú stofnun, sem heitir Seðlabanki Íslands, heldur ekkert fjallað um þetta mál, eða a.m.k. ekki á þann hátt, sem hægt er að tala um að fjalla um mál með eðlilegum hætti. Það var fyrst seinni partinn á fimmtudaginn í þessari viku, að stjórn Seðlabaukans var kölluð saman til þess yfirleitt að ræða um þessi mál. Þá var hins vegar búið að skýra þjóðinni frá því, að margir fundir hefðu verið haldnir í ríkisstj. og hún talað við ýmsa aðila, fulltrúa stétta og stjórnmálaflokka, og miklar upplýsingar voru gefnar um það, hvað til stæði. En sú stofnun, sem samkvæmt lögum landsins á að ákveða gengi krónunnar, var ekki kölluð saman, hún þurfti ekki að ræða málið. Og þegar loksins kom að því, að haldinn var fundur í þessari stofnun, þá var gert ráð fyrir því, að þeir fulltrúar, sem þar eru, skyldu fá að samþykkja eða þá fella eina litla till., en engar upplýsingar fengust um málið.

Það er því alveg augljóst mál, að að því hefur verið stefnt af núv. hæstv. ríkisstj., að reyna að koma Alþ. út úr þessu máli, jafnþýðingarmikið og það er, og einnig að koma því þannig fyrir, að sú stofnun, sem ber nafnið Seðlabanki Íslands, fjalli ekki heldur um málið með eðlilegum hætti, heldur sé þetta eingöngu ákvörðunaratriði ráðherranna sjálfra, sem síðan nota þá ákveðna starfsmenn í Seðlabankanum til að gefa út hina formlegu fyrirskipun. Þetta eru auðvitað alveg óverjandi vinnubrögð, og þau verða í rauninni enn þá verri, þegar þannig er staðið að málinu, að ríkisstj. kemur svo með frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, sem aðeins er örlítill hluti af því stórmáli, sem um er fjallað, og fer fram á það, þegar það er lagt hér fyrir Alþ., að það fái afgreiðslu hér með sérstökum hraða og að hér verði sem allra minnstar umr. um málið, því að þessu á að vera lokið í báðum deildum Alþ. á morgun, laugardag.

Það er ómögulegt, þegar þetta frv. kemur hér fyrir, þó að það fjalli aðeins um lítinn hluta af þessu stóra máli, að komast hjá því að ræða nokkur meginatriði þessa mikla málefnis í sambandi við flutning þessa frv.

Það er þá fyrst á það að minnast, að ríkisstj. hafði fyrir nokkrum vikum verið að ræða hér á Alþ. um lausn á efnahagsvandamálum þjóðarinnar, og hún hafði þar lýst sinni skoðun á þessu mikla vandamáli. Ég minnist þess, að í því sambandi kom það mjög skýrt fram hjá ráðherrunum, að þeir töldu gengislækkunarleið með öllu útilokaða. Hæstv. viðskmrh. lýsti því hér yfir — hafði reyndar einnig gert það í sjónvarpsviðtali, sem menn kannast vel við — að hann teldi, að gengislækkun hefði í för með sér miklu meiri ókosti en kosti. Og ég minnist þess, að hæstv. forsrh. tók svo skarplega til orða, þegar hann vildi undirstrika það, hvílík fjarstæða gengislækkun væri í sambandi við þau vandamál, sem hér væri við að eiga, að hann sagði, að leið íslenzku síldveiðiskipanna til Spitzbergen styttist ekkert við gengislækkunina. Já, það er svo, það er eflaust rétt, að hún styttist ekki mikið við gengislækkun, en nú virðist hæstv. ráðh. allt í einu hafa sannfærzt um það, að líklega væri hægt að stytta leiðina fyrir bátunum með því að taka upp gengislækkunaraðferðina. Sem sagt, það lá mjög skýrt fyrir, að álit ríkisstj. var það, að gengislækkunarleiðin kæmi ekki til greina. Og hún valdi aðra leið. Hennar leið var sú, sem nokkrar umr. höfðu orðið um hér á Alþ., að hún lagði til að leggja á þjóðina 750 millj. kr. í nýjum álögum. Talið var, að þessar álögur mundu að vísu þýða, miðað við gömlu vísitöluna, í kringum 71/2% verðlagshækkun, en miðað við nýju vísitöluna væri hér um að ræða um 41/2% verðlagshækkun. Og ríkisstj. taldi, að óhjákvæmilegt væri, að almenningur í landinu yrði að taka á sig þessi auknu útgjöld bótalaust. Þegar ríkisstj. var síðan spurð um það, hvort hún teldi, að með þessum till. væri allur vandi leystur, því að menn héldu, að það þyrfti kannske að gera eitthvað fyrir atvinnuvegi landsins, eins og vitað var orðið um aðstöðu þeirra, þá var því svarað til, m.a. af hæstv. forsrh., að það lægi enn ekkert fyrir um það, að þeir þyrftu á frekari styrkjum að halda en þeir hefðu. Og síðan tók hann hér fram í umr., þegar á það var minnzt, að menn yrðu að búast við því, að hér væri aðeins um fyrri hluta að ræða, um það að ræða, að menn mættu búast við enn meiri kaupskerðingu heldur en reiknað var út í frv. sem afleiðing af hinum nýju álögum, þá mótmælti hæstv. forsrh. því algjörlega. Hann neitaði því, að til mála kæmi, eða hefði komið, að launþegum landsins væri ætlað að taka á sig frekari kjaraskerðingu en sem næmi því, sem gert væri ráð fyrir í frv. Sem sagt, ef um aðrar ráðstafanir yrði að ræða, fengju menn þar fullar bætur.

Ráðherrann sagði orðrétt: „Eins vil ég algjörlega mótmæla því, sem hér kom fram í umr. í dag, að þess mætti vænta samkvæmt þessum till., að skerðingin sökum vísitölubindingarinnar yrði mun meiri en gert er ráð fyrir í frv. Það hefur einmitt verið glögglega tekið fram, að þessi upptalning er gerð vegna þess, að ríkisstj. vildi láta það ljóst koma fram, hverrar skerðingar væri að vænta, og ef einhver ný skerðing yrði, kæmi hún launþegum til bóta. Þetta veit ég, að viðsemjendur mínir úr stjórn A.S.Í. staðfesta, vegna þess að þetta hefur hvað eftir annað verið fram tekið og einmitt staðfest af form. A.S.Í. á fundi í stjórnarráðinu nú í vikunni, að um þetta væri út af fyrir sig enginn ágreiningur.“

Þannig var lögð áherzla á, að það, sem hér væri um að ræða í efnahagsmálunum, væri aðeins sú kjaraskerðing, sem fælist í frv. ríkisstj., eða í upphafi í kringum 41/2 %, en ef til frekari ráðstafana kæmi, m.a. til þess að aðstoða atvinnuvegina, skyldu launþegar fá það að fullu bætt. En hvernig standa svo þessi mál nú í dag? Nú standa þau þannig, að ekki er annað vitað, eftir því sem hér hefur komið fram, en að ríkisstj. ætli að halda sér við fyrri till. sínar um álögurnar upp á 750 millj. kr. eða þar um bil. Hún breytir að vísu sínum till. að því leyti til, að afleiðingarnar af þessum ráðstöfunum, sem fram koma í vísitölunni nú 1. des., verða greiddar launþegum sem rúmlega 3% launahækkun, en hins vegar á þá jafnhliða að taka vísitöluna úr sambandi og gera þá ráð fyrir því, að allar afleiðingarnar af gengisbreytingunni, allar þær verðhækkanir, sem koma vegna gengisbreytingarinnar, skuli ganga þannig yfir, að þær skuli ekki mælast í vísitölu, þær skuli ekki verða bættar, nema þá að launþegasamtökin í landinu hefji vinnudeilur til þess að ná fram nýjum samningum til að tryggja sér slíkar bætur.

Hér er þá um það að ræða í fyrsta lagi, að ríkisstj. virðist nú vera orðin sannfærð um það, að hún þurfi að halda sér við fyrri till., sem út af fyrir sig var gefið í skyn að ættu að nægja, álögur upp á 750 millj. kr., og einnig þurfi að bæta við gengislækkun þeirri, sem hér er um að ræða og allir vita nú orðið um. Þetta á hvort tveggja að koma, eftir því sem helzt verður hægt að skilja. En nú er það þannig, að ríkisstj. ætlar að vísu að gefa eftir gagnvart launafólki á fyrri liðnum, þó þannig, að kjaraskerðingin þar verði mæld eftir nýju vísitölunni, en ætlar síðan að taka nýju vísitöluna úr sambandi strax á eftir og láta allar afleiðingarnar af hinni miklu gengislækkun skella á launafólki í landinu. Og þó að sagt sé við verkalýðshreyfinguna: ja, þið hafið leyfi til þess að leita eftir nýjum samningum, til þess að fá bætur fyrir verðhækkanirnar, þá vita menn, að þetta þýðir að gefa ávísun á a.m.k. meiri eða minni átök á vinnumarkaði. Það þarf að segja upp samningum og í flestum tilfellum eflaust að fura í verkföll og semja annaðhvort um grunnkaupshækkun eða semja við vinnuveitendur um það að fá vísitöluákvæði á laun. Fyrir stóran hluta af launafólki í landinu, eins og t.d. opinbera starfsmenn, þýðir þetta einfaldlega það, að vísitalan verður tekin úr sambandi, að þeir fá engar bætur, því þeir fá ekki að gera verkfall, og þeir fá því engar vísitölubætur, og kjaraskerðingin liggur þá alveg opin fyrir hjá þeim.

Þá er eðlilegt að spurt sé: Hvað verður þá kjaraskerðingin mikil sem bein afleiðing af þessari miklu gengislækkun? Um það get ég ekki sagt, en ég hygg þó, að ríkisstj. hafi verið að reikna með því, að hér yrði um almenna verðhækkun í landinu að ræða, sem ekki yrði minni en 7%. Ég vil taka fram, að ég tek slíkum útreikningum með sams konar varúð nú og áður, því að það hefur alltaf farið þannig, þegar reiknimeistarar ríkisstj. hafa lýst því yfir í upphafi gengislækkunar, hvað afleiðingarnar yrðu miklar, að verðhækkanirnar hafa orðið mun meiri en þeir gáfu upp í byrjun. Mér þykir miklu líklegra, að fljótlega verði hér um 10% verðhækkun að ræða, almennt séð, en ekki 7%, miðað við svona mikla gengislækkun eins og hér er um að ræða.

Það er því alveg augljóst mál, að núna, þegar ríkisstj. fór að hugleiða þessi mál, hefur hún komizt að raun um, að hún gæti ekki staðið við það, sem hæstv. forsrh. sagði hér varðandi þessi mál, þegar hið fyrra málið var til umr. Þá hefur hún sannfærzt um það, að hún þyrfti að gera enn þá meiri kröfur til launafólks í landinu um kjaraskerðingu heldur en hún talaði þá um. En þegar mál eins og þetta liggur fyrir, um svona stórfellda gengisbreytingu, sem þýðir það, að mikill hluti af þeim gjaldeyri, sem við eigum viðskipti í, á að hækka í verði um 32.6%, þá skiptir vitanlega miklu, þegar þetta mál er rætt, að maður fái upplýsingar um, hvernig á að standa að framkvæmd þess. Um einn þáttinn sýnist mér reyndar, að við höfum fengið nokkrar upplýsingar. Það er sá mikilvægi þáttur, sem snýr að launafólki í landinu. Hér hafa að vísu ekki verið gefnar aðrar upplýsingar en þær, sem ég hef nefnt um afleiðingarnar af svona mikilli gengislækkun á hið almenna verðlag í landinu. En það er beinlínis gert ráð fyrir því að nema burt úr lögum það ákvæði, sem gilt hefur um það, að launafólk skuli fá fullar bætur á laun sín í samræmi við breytt verðlag í landinu. Hvað þýðir þetta í raun og veru? Þetta þýðir, eins og ég sagði áðan, alveg óhjákvæmilega það, að hér munu upphefjast átök á vinnumarkaði. Halda menn, að það verði til góðs í efnahagsvandamálum þjóðarinnar, eins og nú er ástatt? Eða býst ríkisstj. virkilega við því, að launþegasamtökin í landinu muni taka þessum miklu verðhækkunum þegjandi, að menn muni þola þetta, allar þessar miklu verðhækkanir, bótalaust? Ég er ekki fyrir mitt leyti í neinum vafa um það, að hér verða mikil átök á vinnumarkaði, til þess að launþegar í landinu fái upp bætta þessa miklu verðhækkun. Og hvað er t.d. að segja um launakjör sjómanna? Svona mikil gengislækkun á vitanlega að hafa mikil áhrif á laun sjómanna samkv. öllum réttum leikreglum. Auðvitað ætti fiskverð að hækka allverulega og þar af leiðandi kaup sjómanna. Er það rétt, sem um er talað, að sjómenn eigi ekki að fá sinn hluta út úr þessari gengislækkun? Ég hef enga trú á því, að ríkisstj. komist upp með slíkt. Ef þannig á að standa að framkvæmdinni, verður um alvarlega ókyrrð að ræða á okkar vinnumarkaði, sem ótrúlegt er, að skili nokkrum jákvæðum árangri í þjóðarbúið. Og hvað er svo að segja um framkvæmdina á öðrum sviðum? Við skulum t.d. taka hið þýðingarmikla svið varðandi framkvæmd á gengisbreytingu, sem er þróun verðlagsmálanna innanlands. Hvernig á að standa að þeim málum? Þetta litla frv., sem fjallar aðeins um örlítinn hluta af þessu stóra máli, eins og ég hef sagt, kemur þó inn á eitt þýðingarmikið atriði varðandi þetta og boðar þar alveg nýjan boðskap í sambandi við framkvæmd á gengisfellingu.

Við vitum, að svo hefur háttað til nú að undanförnu, að innflytjendur hafa flutt inn mikið af varningi til landsins með þeim hætti, að þeir hafa stofnað til skuldar erlendis. Það hafa myndazt allmiklar skuldir, sem nefndar hafa verið stutt vörukaupalán verzlunarinnar, og við vitum, að verzlunarmenn margir hafa verið dauðhræddir á undanförnum árum og allt fram til þessa við það, að ef til gengisfellingar kæmi á krónunni, gætu þeir orðið fyrir skelli í sambandi við þennan innflutning og þessar erlendu skuldir. Og það er enginn vafi heldur á því, að ástæðan til þess, að ríkisstj. hefur hikað við að fara í gengisfellingu að undanförnu, hefur sumpart verið tengd við þetta vandamál innflytjendanna, sem hafa verið dyggir stuðningsmenn ríkisstj.- flokkanna. En sú regla hefur hér jafnan verið viðhöfð, að ákveðið hefur verið við gengisbreytingu, að vörur, sem fluttar höfðu verið inn í landið fyrir gengisbreytingardag, höfðu verið tollafgreiddar fyrir gengisbreytingardag, skyldu halda áfram sama verðlagi eftir gengisbreytingu og þær voru á fyrir gengisbreytingu. En hvað á nú að gera? Nú er að vísu tekin upp grein, sem orðuð var við allt aðrar kringumstæður, þ.e.a.s. 2. gr. þessa frv., og hér er nú undirstrikað mjög í upplestri á þessari gr. það, sem þar segir: „Óheimilt er að hækka verð á birgðum innfluttra vara, sem greiddar hafa verið á gengi í gildi fyrir 19. nóv.“ Það er ekki heldur heimilt að hækka verð á iðnaðarvörum framleiddum í landinu úr hráefnabirgðum, sem höfðu verið greiddar fyrir gengislækkunardaginn. Og síðan kemur sú túlkun, að þeir, sem hins vegar voru ekki búnir að greiða, megi hækka sínar birgðir, og það er sú kenning, sem nú á að halda hér uppi, að allir innflytjendur, sem nú eiga hér mikið af vörum, sem hafa verið fluttar inn í landið og hafa gengið í gegnum tollskoðun og eru komnar undir íslenzkt verðlag, megi nú breyta öllu þessu verðlagi á þeim forsendum, að þessir aðilar hafi safnað erlendum skuldum fyrir þessum innflutningi. Það á sem sagt strax að láta undan innflytjendunum í landinu, verða við kröfum þeirra og heimila þeim að hækka þessar vörubirgðir. Hér er auðvitað alveg greinilega um það að ræða, að það er verið að hliðra til fyrir þessum aðilum, það er verið að forða þeim undan áföllum gengisbreytingarinnar.

En það sama gildir ekki um ýmsa aðra. Margir aðrir verða að taka á þessu á allt annan hátt. Þannig verða t.d. þeir kaupsýslumenn, sem hafa flutt inn vörur og eru búnir að selja þær, eru t.d. búnir að dreifa þessum vörum til smásala, en skulda auðvitað erlendum vöruhúsum fyrir þessar vörur, þeir verða að taka á sig skellinn, en hinir, sem eiga vörurnar enn þá í skemmunum, mega strax hækka þær í verði og standa að því, að verðlag innanlands hækki á þann hátt. Það er greinilegt, að hér lætur ríkisstj. í þessum tilfellum undan innflytjendum, er að reyna að forða þeim svolítið frá áföllum.

En það er ekki sama sjónarmið, sem gildir t.d. um þá aðila, sem standa að því að flytja út vörur úr landinu, framleiðendur, og er þó sagt, að þessi gengisbreyting sé sérstaklega gerð fyrir útflutninginn. Í frv. er þvert á móti tekið fram, að framleiðendur allrar vöru, sem framleidd verður á þessu ári alveg til loka ársins, einnig vöru, sem framleidd er eftir gengisbreytingardag og með þeim tilkostnaði, sem þá verður við framleiðsluna, eigi ekki að fá útflutningsverðið á sinni vöru miðað við nýja gengið, heldur á gamla genginu. Við skulum taka sem dæmi útgerðarmenn t.d., sem koma til með að standa að framleiðslu í desembermánuði og þurfa þá auðvitað að greiða miklu hærra olíuverð í des., vegna þess að olíufélögin eiga skv. reglunni að fá að hækka olíubirgðir sínar af því að þeir skulda fyrir þeim erlendis. Útgerðarmennirnir eiga að borga hærri olíu, borga hærri veiðarfæri, hærri laun og yfirleitt aukinn kostnað í desembermánuði, en þeir eiga ekki að fá þá vöru, sem þeir framleiða undir dýrari kringumstæðum, greidda nema á gamla genginu. Ég segi það, að hér er auðvitað mikill munur, hvor í hlut á, í þessu tilfelli framleiðandinn eða í hinu tilfellinu heildsalinn, það er alveg greinilegt, með hvorum ríkisstj. finnur til. En þessu er svona varið í miklu fleiri tilfellum.

Þá kemur einnig hér fram í þessu frv., að ríkisstj. ákveður að taka allan þann gengishagnað, sem getur orðið af vörum þeim, sem liggja nú til útflutnings í landinu, og leggja hann í sérstakan sjóð, og eftir því, sem segir hér í frv., á að fara með hann á þann hátt, að honum skuli ráðstafað með sérstökum lögum í þágu þeirra atvinnugreina, sem hlut eiga að máli. En hér veltur vitanlega mikið á því, hvernig á að fara með þessar fjárhæðir. Á að fara með þær eitthvað í líkingu við það, sem ríkisstj. gerði 1961, þegar allur sá gengishagnaður, sem þar var um að ræða, um 150 millj., var hreinlega gerður upptækur og látinn renna í ríkissjóð? Mér hefur skilizt á upplýsingum, sem ég hef fengið, að það hafi mjög komið til tals að nota þann gengishagnað, sem á þennan hátt myndaðist, til þess að greiða upp vanskilaskuldir, sem hrúgazt hafa upp í hinu margfræga vátryggingarkerfi, sem upp hefur verið komið fyrir útveginn. En það hefur skort fé í það. Þá kemur sem sagt í ljós, að sú gengislækkun, sem átti að gera fyrir útflutningsatvinnuvegina í landinu, virðist þá vera svo rífleg handa þeim, að það sé hægt að taka stóran part af því, sem hún gat fært þeim með eðlilegum hætti, og ráðstafa í eitthvað annað. Um þetta vantar auðvitað upplýsingar miðað við þau gögn, sem hér liggja fyrir, og væri vitanlega æskilegt, að ríkisstj. gerði nánari grein fyrir því, hvað er meiningin að gera við þennan gengishagnað, því vitanlega veltur mikið á því, þegar um slíkt stórmál er að ræða sem þetta, hvernig á að standa að framkvæmd laganna.

Þá er það ekkert lítilvægt að vita, hvernig ætlunin sé að standa að framkvæmd gengislækkunarinnar varðandi afkomu ríkissjóðs. Er ætlunin virkilega sú, að fyrst eigi ríkissjóður að hirða þær 750 millj. kr., sem ákveðið hefur verið að afla honum með sérstökum álögum og ríkisstj. hefur flutt áður till. um, og síðan eigi ríkissjóður einnig að hirða þær 300 millj., sem áttu samkv. fyrra kerfinu að renna sem stuðningur til útflutningsatvinnuveganna? En það er rétt að menn gæti vel að því, að þessar 300 millj. átti ríkissjóður að forminu til að láta yfir til útflutningsatvinnuveganna, en ríkissjóður hafði áður fengið sérstaka tekjustofna til þess að standa undir þessu. Nú ætlar ríkið að hætta að greiða útveginum þessa fjárhæð, en hirða tekjustofnana. Það gerir auðvitað 300 millj. kr. bættan hag hjá ríkissjóði að þessu leyti til. Og svo koma áhrifin af gengislækkuninni sjálfri. En svona mikil gengislækkun eins og hér er um að ræða mundi stórhækka tolltekjur ríkissjóðs, stórhækka söluskattstekjur ríkissjóðs, og ef að öllu eðlilega færi, þá sé ég ekki annað en að ríkissjóður fengi út úr þessari framkvæmd gífurlega miklar auknar tekjur. Það mundi þá kannske fara nokkuð svipað nú eins og því miður hefur farið æ ofan í æ á undanförnum árum, þegar gengislækkun hefur verið samþykkt. Hún hefur verið gerð undir því fororði, gengislækkunin, að hún væri til stuðnings útflutningsatvinnuvegunum, en stuðningurinn hefur verið harla lítill, vegna þess einkum og sérstaklega, að ríkissjóður og nokkrir fleiri aðilar hafa tekið meginhagnaðinn af gengisbreytingunni til sín í leiðinni. Þetta er auðskilið mál. Ég skal aðeins nefna dæmi til frekari skýringar á því, hvernig þetta gengur fyrir sig. Ef við t.d. tökum þann þýðingarmikla þátt, sem er hraðfrystiiðnaðurinn í landinu, þá er auðvitað augljóst, að afleiðingarnar af þessari gengisbreytingu yrðu þær, að hraðfrystiiðnaðurinn fengi brúttó — ja, líklega hartnær 300–400 millj. kr., miðað við þessa gjaldeyrisbreytingu, sem hér er um að ræða. 350–400 millj. kr. fengi þessi iðnaður í auknar tekjur frá því sem áður varð reiknað í ísl. kr. En hvað gerist svo um leið? Ákveðnar bætur, sem þessi iðngrein hafði, upp á 180 millj. kr. a.m.k., eiga að falla niður um leið og dragast því frá þessari upphæð. Aftur á móti verður þessi iðngrein að taka á sig öll útgjöldin af áhrifum gengisbreytingarinnar, þ.e.a.s. allt verðlag, sem þessi iðnaður verður að búa við, hækkar sem gengisbreytingunni nemur. Það er því vitanlega allsendis óvist og fer auðvitað algjörlega eftir framkvæmdinni á þessu máli í heild, hvort þessi iðngrein út af fyrir sig býr við nokkuð betri kjör eftir en áður.

Því er það, að það skiptir öllu máli í þessu tilfelli, að við vitum, hvernig á að standa að framkvæmd gengisbreytingarinnar. Og það sem ég tel fyrir mitt leyti þýðingarmest að vita um, er í fyrsta lagi það, hvernig á að standa að framkvæmd gengisbreytingarinnar varðandi þann þýðingarmikla þátt, sem tengdur er við launagreiðslur í landinu. Það virðist helzt upplýst hér núna, að það eigi að standa að honum þannig, að maður geti búizt við runu af kaupdeilum. Þetta er ekki álitlegt að mínum dómi. Næsti þáttur, sem miklu máli skiptir, er það, hvernig á að standa að framkvæmd á verðlagningar- og verðlagsmálum í landinu. Eiga milliliðir t.d. að fá aðstöðu til þess að leggja sömu álagningarprósentu á hærra innflutningsverð og skófla á þann hátt til sín gróða í skjóli gengisbreytingarinnar? Á að standa þannig að framkvæmdinni? Mér sýnist, að sum ákvæði í þessu frv. bendi mjög til þess. Þá verður heldur lítið úr þessum hagnaði fyrir útflutningsatvinnuvegi. Og svo í þriðja lagi, hvernig á að standa að framkvæmdinni varðandi tekjur ríkissjóðs? Er virkilega meiningin að skófla inn tekjum í ríkissjóð á þennan hátt, eins og helzt er að skilja á uppsetningu málsins sem heild? Ef svona verður staðið að framkvæmd gengislækkunarinnar, þá eru það ekkert annað en ósannindi að halda því fram, að þessi gengisbreyting sé gerð fyrir útflutningsatvinnuvegina. Þá væri miklu nær að segja, að gengisbreytingin væri gerð fyrir ríkissjóð, því að þá mundi ríkissjóður hafa hér miklu meiri hag af heldur en útflutningsatvinnuvegirnir. En um það skal ég sem sagt ekki fullyrða á þessu stigi málsins, því að margar upplýsingar skortir um þetta mál, sem hefði auðvitað átt að gefa hér, en ríkisstj. hefur lagt málið þannig fyrir, að þessar upplýsingar vantar.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að ég tel að höfuðatriðið í sambandi við þau vandamál, sem aðalatvinnuvegir landsmanna standa nú frammi fyrir og þarf vitanlega að ráða bót á, sé það, að það þarf að breyta til um stjórnarstefnu í grundvallaratriðum. Sé gömlu viðreisnarstefnunni haldið áfram, þá munu allar svona breytingar eins og fólust í fyrra frv. ríkisstj. og eins og felast í þessari gengislækkunarleið, mistakast. Það fer allt á sömu leið og áður. Spurningin er aðeins um það, hvort það tekur tvo, þrjá eða sex mánuði að fara hringinn, svo að upp komi nákvæmlega sama staða eða nákvæmlega sams konar vandi eins og maður stendur frammi fyrir nú í dag. Á meðan ríkisstj. fæst ekki til að viðurkenna, að það þurfi að breyta til um stefnu í grundvallaratriðum, þá leysir hún engan vanda, hún getur aðeins komið af stað nýjum vandamálum. Því auðvitað eru það stórkostleg vandamál, ef sjómenn landsins þurfa að fara í vinnudeilur, kannske rétt í upphafi næstu vertíðar, til þess að knýja það fram, að þeir fái að halda þeim aflahlut áfram, sem þeir hafa búið við í samningum um langan tíma, en það mun einmitt vera ætlunin að hafa af þeim þann aflahlut nú. Auðvitað má búast við því, að það verði mikil ókyrrð á vinnumarkaði hjá verkamönnum, iðnaðarmönnum og öðrum slíkum, ef til þess er ætlazt, að þeir taki bótalaust við öllum þeim miklu verðhækkunum, sem leiðir af svona gengislækkunum, sem hér er um að ræða. En auðvitað ættum við að hafa hér í gildi lög um vísitölugreiðslu á kaup eins og flestar þjóðir hafa og eins og við höfum haft um langan tíma, til þess m.a. að draga úr deilum á vinnumarkaði. Mér sýnist því, að með þessum till. ríkisstj. sé stefnt út í nýja ófæru.

Þetta mál verður eflaust frekar til umræðu á næstu dögum. Vegna þess að ég veit, að það er liðið alllangt á þennan knappa fundartíma, sem nú er um að ræða, skal ég ekki lengja mál mitt frekar en orðið er. En það fer ekkert á milli mála, að við Alþb.-menn erum mótfallnir þessari gengislækkun og teljum, að eins og hún er hér boðuð og till. lagðar fram, leysi hún engan vanda.