19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

1. mál, fjárlög 1968

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki eyða hér löngum tíma. En í tilefni af því, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. hér í dag út af till. okkar, vil ég taka það fram í fyrsta lagi, að fjárhæðir þær, sem við leggjum til, að veittar verði til Vesturlandsframkvæmda, eru aðeins við það miðaðar að halda í horfinu frá því, sem var við fjárlagaafgreiðslu 1967 og vegna þeirra breytinga, sem gengisfallið hefur orsakað. Hér er um að ræða 2% af heildarútgjöldum fjárl., og við erum sannfærðir um það, að það muni ekki hafa önnur áhrif á fjármál ríkissjóðs, þó að till. yrðu samþ., en að ráðstafað er til þessara verka þeim tekjum, sem til ríkissjóðs munu falla og hæstv. ríkisstj. mun að öðrum kosti ráðstafa.

Hitt atriðið, sem ég vildi gera aths. við, var út af till. okkar á heimildargr. um lántökurnar. Hæstv. ráðh. sagði, að það mundi verða varhugavert fyrir atvinnuvegina að taka svo mikið lánsfé út úr bankakerfinu sem till. okkar gerðu ráð fyrir. Samkv. því, sem fram kom í ræðu minni hér í dag og ég hef betur athugað síðar, mundi þetta þýða lánsfjárhæð á árinu 1968, er nemur um 120–130 millj. kr., til þess að fullnægja því að greiða þriggja ára hluta af vangoldnum framlögum ríkissjóðs til framkvæmdanna, sem um getur í till., og vegna raforkuframkvæmdanna. Hæstv. ríkisstj. lét samþykkja hér á s.l. vori lög um framkvæmdalán upp á 125 millj. kr. Það var tekið út úr bankakerfinu, og síðast nú um leið og gengisbreytingin fór fram, var verið að selja þau skuldabréf. Ég sé því ekki, að við stefnum frekar lánsfjárkerfi bankanna í bættu heldur en hæstv. ríkisstj. hefur oft og mörgum sinnum gert með fyrirferðarmeiri öflun heldur en hér er lögð til.