19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

1. mál, fjárlög 1968

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af brtt., sem ég flyt á þskj. 195. Við 2. umr. fjárl. fór ég nokkrum orðum um það málefni, sem till. mín beinist að, en það eru lán og styrkir til íslenzkra námsmanna, og ég skal því vera mjög stuttorður. Ég sýndi fram á það við 2. umr., að sá viðbótarskattur, sem hér er um að ræða og kemur á flesta þá íslenzka námsmenn, sem erlendis dveljast, er geysilega mikill. Hann nemur samanlagt sennilega ekki öllu minna heldur en 20 millj. kr. og mér virðist, að þrátt fyrir þá mjög svo takmörkuðu hækkun, sem þeim er ætluð í fjárlagafrv. nú, muni skatturinn verða að meðaltali ekki undir 20 þús. kr. á hvern íslenzkan nemanda erlendis. Fjvn. hv. telur, að hún hafi með till. sínum í þessu efni gengið það langt, að námsmenn fái bættan upp þann hluta, sem ríkið leggur til námsmanna, þann hluta af námskostnaði, sem ríkið hefur lagt til, þ.e.a.s. þá um það bil 1/3 hluta af námskostnaði, því að meira er það nú ekki til jafnaðar, sem ríkið hefur lagt til og það að mestu leyti sem lán, en að litlu leyti sem styrk. Ég efast um, að hæstv. ríkisstj. og hv. alþm. hafi gert sér alveg fulla grein fyrir því, hversu alvarlegt mál þetta er fyrir margan námsmanninn að verða nú að axla um það bil 20 þús. kr. bagga, og það getur í ýmsum tilfellum — það er mér kunnugt um — orðið til þess, að ágætir menn verða annað hvort að hverfa hreinlega frá námi eða þetta veldur verulegum töfum og truflunum á námi þeirra og þetta eykur enn þá hættu, að þeir, sem ekki eiga efnaða að, komist ekki til framhaldsnáms eins og ýmsum hefur þó verið kleift betur heldur en áður nú á undanförnum árum. Ég vil leggja á það ríka áherzlu, að þetta er mikið alvörumál fyrir margan námsmanninn og það er ábyrgðarhluti af hv. meiri hl. að koma ekki lengra til móts við þessa menn í sambandi við þær búsifjar, sem þeir verða fyrir vegna gengisfellingarinnar.

Mín till. hér á þskj. 195 er um 6 millj. kr. hækkun á þessum fjárlagalið. Sú hækkun dugar engan veginn til þess að bæta námsmönnum upp þann gjaldaauka, sem þeir verða fyrir vegna gengisfellingarinnar, en það mundi þó nálgast það eftir mínum útreikningum, að þeir fái þau skakkaföll bætt að hálfu leyti. En samkv. till. þeim, sem samkv. fjárlagafrv. eins og það er nú eftir meðferð fjvn. og Alþ. við 2. umr., er þetta tæplega bætt að 1/3 hluta.

Ég vildi aðeins segja þessi orð til þess að ítreka það, að ég tel, að hér sé mikið alvörumál á ferð og það sé sannarlega stór ábyrgðarhluti að ganga ekki lengra heldur en gert hefur verið til móts við þessa menn, sem svo hart eru leiknir af völdum gengisfellingarinnar. Aðra brtt. á ég á þskj. 199, flyt hana ásamt hv. 6. þm. Reykv. Það er um nokkra hækkun á listamannalaunum eða liðnum „listamenn“. Ég mælti fyrir till. um sama efni, aðeins nokkru hærri upphæð, við 2. umr. málsins, og læt það nægja varðandi þá till.