19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

1. mál, fjárlög 1968

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég varð var við flutning á brtt. hér áðan, sem var raunar með nokkuð óvenjulegum hætti, þar sem þar var lagt til að fella niður útgjaldalið í fjárl. En yfirleitt er nú tillöguflutningur hér á Alþ. í þá átt að bæta við útgjöldum, en það er nú eins og gefur að skilja og jafnvel var viðurkennt af hv. síðasta ræðumanni eitt höfuðatriðið, sem hlýtur að gilda við afgreiðslu fjárl. og á því bera fyrst og fremst þeir ábyrgð, sem standa að stjórn landsins, að það sé a.m.k. nokkurt hóf á útgjöldum, — þeim sé sniðinn ákveðinn stakkur. Þess vegna vill fara svo, að mikið af þeim till. eða óskalistum, sem fram koma, getur ekki fengið náð fyrir hinum ábyrga meiri hl. En sem sagt, er ég sá þessa till. á þskj. 207 um það að fella niður liðinn um fjárstyrk til Hallgrímskirkju, þá kom mjög upp í huga mínum, að það var leitað til okkar alþm. að austan um fjárstuðning, við beðnir að beita okkur fyrir fjárstuðningi við byggingu nýrrar kirkju í Egilsstaðakauptúni. En þar hefur eins og við vitum risið upp þéttbýli allmikið núna á örfáum síðustu árum, og með því getum við sagt að hafi skapazt þörf fyrir kirkjubyggingu. Nú er þetta að vísu ekkert sérstakt. Það skapast víða þörf fyrir byggingar nýrra kirkna við mannfjölgun á ýmsum stöðum. En þarna hefur þó skapazt mikið þorp, þar sem lítil eða engin byggð var fyrir, og það eru margvísleg viðfangsefni, sem þarf að leysa. En ég hafði þó ekki áður komið auga á færa leið til þess að reyna, hvort unnt væri að koma eitthvað til móts við óskir safnaðarins þarna, nema þá helzt eftir þeirri leið, sem mörkuð hefur verið gegnum kirkjubyggingarsjóð.

Ef maður veltir þessum málum svolítið nánar fyrir sér, eru þó nokkur dæmi þess, að beinn fjárstuðningur hafi verið veittur úr ríkissjóði til byggingar einstakra kirkna. Þar má náttúrlega benda á þennan lið, sem hérna er að vísu verið að leggja til að fella niður, til Hallgrímskirkju í Reykjavík, sem ég skal á engan hátt draga úr, að sé mjög sérstæð. En þá vil ég einnig nefna, að við vitum það, að það hefur verið byggð upp fyrir ríkisfé myndarleg kirkja, dómkirkja í Skálholti. Og ég mundi nú ekki telja það neina goðgá, þó að það væri t.d. eins og ein kirkja í hverjum landsfjórðungi, sem einhvers stuðnings nyti á þennan hátt. Ég hef því leyft mér að gera þá brtt. við brtt. þeirra Péturs Benediktssonar og Magnúsar Kjartanssonar, að í staðinn fyrir það, að liðurinn til Hallgrímskirkju falli með öllu niður, sem er að ég held rúmar 700 þús. kr. í fjárl., verði till. á þá leið, að liðurinn breytist svo:

„Til byggingar höfuðkirkju Austurlands á Egilsstöðum“ með það í huga, að í því fælist það, að það ætti ekki að skapa fordæmi fyrir almennum styrk á fjárl. til kirkjubygginga. Í mesta lagi, að miðað væri við að það kæmi til greina ein kirkja í hverjum landsfjórðungi. Ég vil lýsa því yfir, að ég hef ekkert umboð hér til þess að slá því föstu, að þarna skuli vera höfuðkirkja. En ég vil aðeins geta þess, að ég taldi hyggilegra að orða þetta svona, til þess að í því fælist það, ef hv. Alþ. vildi fallast á þessa till. mína, að það væri ekki um skuldbindingu að ræða um að fara almennt að styrkja kirkjubyggingar. Ég vildi þess vegna láta þessi fáu orð fylgja þessari till. Ég vil vekja athygli á því, að hún fyllir ekki með öllu meira að segja út í það, sem fellur niður, þó hún verði samþ. Ég tel, að með 500 þús. kr. upphæð væri sæmilega komið til móts við óskir þessa safnaðar og auðvitað í eitt skipti.

En ég vil svo jafnframt taka það fram, að ég er ekki með þessu að lýsa andstöðu minni á því, að íslenzka ríkið styrki byggingu Hallgrímskirkju, en ég þykist sjá, að það muni valda miklu minni straumhvörfum þar, þó að þessi upphæð félli niður eitt ár. Ég held, að það mundi geta hjálpað miklu meira til, ef þessi fjárveiting fengist eitt ár til þess að aðstoða við byggingu kirkju í Egilsstaðakauptúni. Ég vil sem sagt vænta þess, að á þessa till. vilji Alþ. líta með velvilja.