19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

1. mál, fjárlög 1968

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil hvorki þreyta hæstv. forseta né hv. sameinað þing á langri ræðu. En ég sé, að hér eru komnar fram tvær brtt. á þskj. 207 og 208, er varða kirkjubyggingar í landinu. Hin fyrri er frá hv. 4. þm. Reykn. og hv. 6. þm. Reykv. um það, að það fjárframlag, sem fjvn. hefur gert till. um, að verði veitt til Hallgrímskirkju í Reykjavík, falli út af fjárl., eða það skilst mér a.m.k. Ég vil minna þessa hv. flm. þessarar brtt. á það, að ég held, að það sé rétt hjá mér, að fyrir allmörgum árum voru samþ. hér á Alþ. lög um byggingu Hallgrímskirkju í Reykjavík. Ekki man ég betur. Og meira að segja, að í þeim l. væri tekið fram, að sú kirkja skyldi vera stór kirkja. Ég sé, að hv. flm. hrista höfuðin og álíta, að þetta sé misminni hjá mér, en ég er nú ekki viss á því, fyrr en þeir fletta upp í lagasafni og sýna mér það, að ég fari með rangt mál. (Gripið fram í.) Það er enginn vandi að finna það, því að það er til í lagasafni. En hitt er annað mál, að ég er engan veginn ánægður með kirkjubygginguna á Skólavörðuholti, vegna þess að ég álít, að þessi kirkja, sem verið er að byggja þar, sé engan veginn nógu stór. Hún þyrfti að vera miklu stærri en hún er. Og það, sem ég hef á móti þeirri kirkjubyggingu, er einmitt það, því að mér skilst, að hún taki ekki nema lítinn hluta safnaðarins í sæti. En hvað tekur hún marga menn? 700 kannske í sæti. Það álít ég allt of litla kirkju, aðalkirkju höfuðborgarinnar, að hún skuli ekki taka fleiri menn í sæti en það. Ég vildi hafa þessa kirkju miklu stærri. Vitaskuld hefði mátt lækka turninn, en hafa kirkjuskipið stærra. Það get ég viðurkennt.

Ég held þess vegna, að þessi till. brjóti í bága við lög, sem eru í gildi, sem Alþ. er búið að samþykkja, og ég mæli á móti þessari till., því að ég tel, að úr því að út í þessa byggingu var farið, verðum við að koma henni upp og gera það með sóma.