19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

1. mál, fjárlög 1968

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ekki bjóst ég við því að heyra það, að þm. úr stjórnarliðinu færi að skamma sína eigin félaga fyrir það að fara eftir sannfæringu sinni, því að ég held, að menn hafi undirskrifað annað, þegar þeir byrjuðu þingmennsku en það, og skal ég láta útrætt um það mál.

Hæstv. fjmrh. fór hér nokkrum orðum um brtt. stjórnarandstæðinga við fjárlagafrv. og gaf þeim sama „reisupasann“ og hann hefur gert undanfarin ár, og látum það nú vera. En röksemdafærslan hjá honum var aðallega sú, að mér skildist, að þetta væri glannaskapur og ábyrgðarleysi af okkur að flytja brtt. til hækkunar á fjárl., því að það yrði að gera ráð fyrir því, að það gæti orðið lakara árferði en við reiknuðum með og þess vegna væri þetta fjarri öllu lagi að flytja, að mér skildist, nokkrar brtt. Ég talaði um það hér fyrr í kvöld, að mér sýndist tekjuáætlun fjárlagafrv. einkennilega lág móts við till. ríkisstj. sjálfrar, sem hún flutti í haust, þegar hún lagði frv, fram, því að hækkunin, sem meiri hl. fjvn. gerir ráð fyrir, og allt er gert þar í samráði við hæstv. fjmrh., hækkunin á innflutningsgjöldum er áætluð í kringum 17%, ef með er talin tollalækkunin, sem enginn er nú farinn að sjá enn. Og ég benti á, að þetta væri ekki í neinu samræmi við það, sem innfluttar vörur hlytu að hækka í verði vegna gengislækkunarinnar, svo að það stingur svo í stúf, að hér hlýtur að muna nokkur hundruð millj. kr. Í hverju liggur þá þetta, að tekjuáætlunin er ekki höfð hærri en þetta? Ef það er vegna þess, að það sé gert ráð fyrir einhverju lélegu árferði og þar af leiðandi minni innflutningi, hefur áætlun ríkisstj. sjálfrar í haust verið röng, þegar hún áætlaði tekjur af innflutningsgjöldum 1780 millj. Fyrst hæstvirt ríkisstjórn áætlaði þá upphæð þessa, hlaut sú upphæð að hækka meira en um 17%, ef nokkurt vit átti að vera í þessu. Það var þetta, sem ég benti á áðan. Ekki höfum við stjórnarandstæðingar undirbúið áætlun um innflutning, til þess að byggja á þær tölur, sem ríkisstj. sjálf setti í frv. í haust, löngu áður en gengislækkun kom til. Þetta tel ég alveg óræka sönnun fyrir því, að í raun og veru ætlast ríkisstj. til að hafa nokkur hundruð millj. kr. afgang til ráðstöfunar. Þetta er allt byggt á þeirra eigin tölum, þeirra eigin áætlunum, en ekki okkar. Hæstv. ráðh. sagði, að frv. hefði verið samið uppi í Efnahagsstofnun. Ég held, að okkur komi það harla lítið við, hvort það er Efnahagsstofnun eða Seðlabanki eða hvar þetta er samið, sem hæstv. ríkisstj. leggur fram. Hún ber ábyrgð á því. Hún leggur það fram og hún fylgir því fram hér í þinginu, líka áætluninni, sem stóð í fjárlagafrv. í haust. Ef sú upphæð hefur verið rétt, er hin röng, sem núna er í till. meiri hl. fjvn. Við berum á hvorugu ábyrgð. Auk þess sem þessi upphæð hlýtur nú að vera röng um tekjuáætlunina í till. hvað snertir innflutningsgjöldin, gildir það sama um söluskattinn, svo að það eru engar ýkjur, að hér er gert ráð fyrir mun lægri tekjum en var í frv. sjálfrar ríkisstj. frá því í haust.