19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

1. mál, fjárlög 1968

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki leggja mál mitt eða tefja þm. frá því að njóta náða að sinni. Satt að segja bjóst ég við, þegar hv. síðasti ræðumaður stóð hér upp, að hann mundi flytja brtt. við þessa merkilegu brtt., sem hér hefur komið fram, um það, að þessi höfuðkirkja yrði byggð t.d. í Saurbæ á Barðaströnd. En þar mun kirkja nokkur hafa fokið fyrir nokkru og ekki verið reist síðan og hefði kannske verið öllu nær að snúa sér að því viðfangsefni heldur en að byggja höfuðkirkju, sem enginn skilur, hvers konar höfuðkirkja á að vera, en þó virðist koma fram hjá ákveðnum höfuðklerki, að eigi að vera nokkurs konar dómkirkja, ef biskupsembætti verði stofnað á Austfjörðum.

Ég skal viðurkenna það fúslega, að ég er ekki vel inni í þessum kirkjumálum þessara hv. þm. En þegar þessi hv. klerkur, hv. þm., sem hér lauk máli sínu fyrir skömmu, talaði um það, að kirkjan á Skólavörðuholti, Hallgrímskirkja, væri ekki nógu stór fyrir alla Reykvíkinga og líklega þá fyrir alla þjóðina, datt mér það í hug, hvort einhver þm. mundi standa upp á sínum tíma, ef Eimskipafélag Íslands t.d. þyrfti á því að halda einhvern tíma í framtíðinni að fá ríkisábyrgð fyrir nýju farþegaskipi og þeirra stærsta farþegaskip í dag tekur aðeins 214 farþega, en á milli landa fara nú árlega svona um 20 þús. manns, hvort þetta skip ætti þá að geta rúmað 20 þús. farþega, því að ég geri ráð fyrir því, að það mundi vera svona álíka með þessa ágætu kirkjubyggingu, eins og það farþegaskip og farþega, sem færu með því, að þeir mundu fara kannske í mesta lagi einu sinni á ári, og ég satt að segja er ekki enn þá farinn að sjá ástæðu til þess, að slík bygging verði reist, sem hýsi alla Reykvíkinga í mesta lagi einn dag á ári. Ég sé margar aðrar þarfir fyrir hendi í byggingarmálum okkar Íslendinga og kannske sérstaklega okkar Reykvíkinga, áður en við förum að ganga út og inn á þá skoðun hv. þm. séra Gunnars Gíslasonar, að við þurfum endilega að hafa það stóra kirkju hér á landi, að hún hýsi alla Íslendinga, ef þeir vilja koma saman til að biðja til síns guðs.