13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

4. mál, innheimta gjalda með viðauka

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og ég gat um við 2. umr. þessa máls, hafði borizt erindi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna varðandi lækkun á stimpilgjöldum fiskiskipa. Ég gat þess jafnframt, að það yrði athugað örlítið á milli 2. og 3. umr. Niðurstaðan hefur orðið sú, að ég hef flutt hér þá brtt. við 1. gr. frv., að í stað þess, að þar stendur „með 140% viðaukastimpilgjaldi“ komi „með allt að 140% viðaukastimpilgjaldi“, þannig að kleift yrði að taka til greina þær óskir, sem hér hafa fram komið frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, ef rétt þætti, í sambandi við ákvörðun á þeirri heimild, sem ríkisstj. yrði falin með samþykkt þessa frv.

Meiri hluti n. stendur að og er samþykkur þessari brtt., enda þótt ég flytji hana einn, en sumir nm. mundu vilja ganga enn lengra og hafa þetta með öðrum hætti, en fella sig við þessa brtt.