18.01.1968
Efri deild: 42. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

4. mál, innheimta gjalda með viðauka

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta frv. með fyrirvara, vegna þess að í því felast ákvæði, sem mér er kunnugt um að koma illa við sölu á fiskiskipum. Það hefur reyndar tíðkazt á Alþingi mörg undanfarin ár, að stundaðar hafa verið hér einfaldar handauppréttingar, ef svo mætti segja, þótt útgjöld hefðu í för með sér gagnvart framleiðslunni.

Á s.l. ári fóru fram viðræður fulltrúa ríkisstjórnarinnar og fulltrúa LÍÚ í sambandi við erfiðleika útvegsins. Á þeim fundum var m.a. fjallað um þann kostnaðarauka, sem kemur fram í rekstri fiskiskipa, þegar eigendaskipti verða að skipunum. Fulltrúar útvegsmanna bentu á, að það væri reginmunur á eðli fasteigna og fiskiskipa, aðallega að þrennu leyti:

1) Skip gengju í miklu ríkari mæli kaupum og sölum en fasteignir.

2) Varanleiki fasteigna væri margfalt meiri en fiskiskipa.

3) Veðhæfni fasteigna væri miklu meiri en fiskiskipanna af mörgum ástæðum. T.d. væri engan veginn víst, að verð skips hækkaði með vaxandi dýrtíð, eins og fasteignir gera yfirleitt.

Loks var á það bent, að óvíst væri, að ríkissjóður mundi nokkuð skaðast að ráði á því, þótt gjald þetta, sem er 1%, yrði ekki innheimt með 140% viðauka, þar sem æðimikil brögð mundu vera að því, að menn drægju lýsingu afsala fyrir fiskiskipum vegna kostnaðar við hana, og þekktust dæmi þess, að fiskibátar gengju á milli fleiri en tveggja eigenda, áður en þinglýst væri. Þetta æti sér einmitt stað vegna hinna tíðu eigendaskipta að skipum, en þau hafa verið mjög tíð undanfarla ár, einkum minni fiskiskipa, vegna lélegrar afkomu á þorskveiðum.

Rétt er að leggja áherzlu á, að stimpilgjöld af afsölum fyrir fasteignum eru nú, eða voru, miðuð við fimmfalt fasteignamat, sem er ávallt mun lægra en raunverulegt söluverð. Einnig er rétt að leggja mikla áherzlu á þau vandræði, sem kaupendur og seljendur skipa komust í vegna hins háa stimpilgjalds, sömuleiðis viðskiptabankar viðkomandi aðila, Fiskveiðasjóður Íslands, hin ýmsu bæjarfógeta- og sýslumannsembætti úti um land og síðast en ekki sízt skipaskráning ríkisins. Hins vegar mun ég ekki greiða atkvæði á móti þessu frv., en í trausti þess, að viðræður hafi átt sér stað við ráðuneytisstjóra fjmrn. og hæstv. fjmrh. um breytta skipan á stimpilgjöldum og þinglýsingarkostnaði eða a.m.k. framkvæmd þeirra mála varðandi fiskiskip, mun ég sitja hjá við atkvgr.