07.12.1967
Neðri deild: 35. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

33. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin, viðauka við lög nr. 4 31. marz 1967, um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Efni frv. er í stuttu máli það, að við l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins verði heimilað það viðbótarákvæði að greiða 12,5 milljónir kr. til útgerðarinnar vegna þess veiðarfæratjóns, sem hún varð fyrir á s.l. vertíð, sér í lagi á þorskanetaflotanum. Frumvarpið var einróma og athugasemdalaust afgreitt frá Ed., og vænti ég þess, að það hljóti skjóta og góða afgreiðslu hér í þessari hv. d.

Ég óska þess, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.