05.02.1968
Efri deild: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

121. mál, tollskrá o.fl.

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það liggur í augum uppi, að það er æskilegt, að afgreiðsla tollalagabreytingar í þinginu taki sem stytztan tíma. Það hefur lengi verið beðið eftir þessari margboðuðu tollalækkun, sem hér sér nú dagsins ljós. Sú bið hefur að sjálfsögðu valdið margvíslegum óþægindum og jafnvel vandræðum, eina og hæstv. fjmrh. vék að. Það er auðvitað æskilegt, að innflytjendur og aðrir fái sem fyrst örugga vitneskju um það, hvar þeir standa í þessum efnum, Þess vegna höfum við framsóknarmenn fallizt á að taka þetta frv. nú þegar til 1. umr., enda þótt því hafi nú fyrst verið útbýtt hér í dag. Og við munum stuðla að því, að það fái skjóta afgreiðslu eftir því, sem unnt er, en vitaskuld verður n. að fá nægilegt ráðrúm til að athuga það og fá nauðsynlegar upplýsingar, eins og líka hæstv. fjmrh. gerði ráð fyrir hér áðan. Í því sambandi verður vitaskuld að hafa það í huga, að stjórnarandstæðingar hafa ekki séð þetta frv. fyrr en í dag og að þeim hefur ekki verið veitt nein aðstaða til þess að fylgjast með undirbúningi þess. Hins vegar má efalaust gera ráð fyrir því, að stjórnarstuðningsþm. hafi fengið að kynna sér þetta frv. allrækilega að undanförnu. Þetta verður að taka með í reikninginn nú við afgreiðslu málsins.

Ég mun ekki á þessu stigi ræða um einstök efnisatriði þessa frv. Hins vegar tel ég rétt að rifja aðeins upp forsögu þess máls, sem hæstv. fjmrh. vék að vísu lítillega að, og jafnframt þykir mér rétt að víkja ofurlítið að því ástandi í efnahags- og atvinnumálum, sem nú blasir við, svo og að þeirri óheillaþróun, sem þar hefur átt sér stað upp á síðkastið.

Við fjárlagaumræður fyrir jólin lýsti hæstv. fjmrh. yfir, að tollar á neyzluvörum yrðu lækkaðir um 250 millj. kr. til þess að létta á mönnum byrðar, er af gengisfellingunni leiddu. Var gert ráð fyrir því, að frv. þess efnis yrði lagt fyrir Alþingi strax og það kæmi saman að þingfrestun lokinni eða um miðjan janúarmánuð. En þingfrestun var að þessu sinni skemmri en oft áður, einmitt vegna þess, að lofaðar tollalækkanir þóttu ekki mega dragast. En í sambandi við sjálfa gengisfellinguna var af stjórnarinnar hálfu talið, að ekki ynnist ráðrúm til að gera þær hliðarráðstafanir, sem venjulega hafa þó verið látnar fylgja gengislækkun og miðað hafa í þá átt að létta nokkuð þær byrðar, sem hver gengisfelling hlýtur að hafa í för með sér fyrir allan almenning. En því var einmitt lofað, að það mál skyldi tekið til athugunar, og fyrsta efndin á því heiti átti einmitt að vera hin lofaða lækkun tolla á neyzluvarningi. Þessi fyrirheit voru ekki aðeins rækilega auglýst hér innanlands, heldur hafa þau verið kynnt öðrum þjóðum, eins og hv. þm. geta gengið úr skugga um, ef þeir fletta því riti, sem lagt er á borðin hjá þeim, Nordisk Kontakt, þar sem einmitt er rækilega skýrt frá þessu fyrirheiti hæstv. fjmrh., að tollar muni verða lækkaðir um 230–250 millj. og þess megi vænta, að frv. þess efnis verði hið fyrsta frv., sem frá stjórnarinnar hálfu líti dagsins ljós eftir þingfrestun. Og það er áreiðanlegt, að í þessu riti birtist ekkert nema það, sem ríkisstj. er þóknanlegt. Það geta hv. þm. sannfært sig um, ef þeir nenna að fylgjast með því, sem þar stendur. En ég skal ekki fara lengra út í það að þessu sinni, nema tilefni gefist til. Þm. bjuggust við því, þegar þeir komu hingað að þingfrestun lokinni, að frv. þetta um tollalækkanir lægi hér á borðum, en sú von brást. Nú hefur að vísu hæstv. fjmrh. upplýst, að frv. hafi reyndar þegar verið samið og það hafi verið tilbúið og samkv. því frv. hefði verið gert ráð fyrir 270 millj. í lækkuðum tollum, en það hafi ekki þótt fært að leggja það þá fram. Það var mikill skaði, því að mikið ánægjulegra hefði verið að sjá það frv. heldur en þetta frv., sem hér liggur fyrir. En frv. sér sem sagt nú fyrst dagsins ljós.

Eins og þegar hefur verið tekið fram og reyndar kom fram hjá hæstv. fjmrh. í framsöguræðu hans er það augljóst mál, að þessi dráttur, sem orðið hefur á framlagningu frv. eftir að svo ákveðin fyrirheit höfðu verið gefin um málið og svo ákveðnar ráðagerðir verið uppi um lækkun tolla, hefur valdið truflun á verzlun og viðskiptum með margvíslegar vörur. Þessar ráðagerðir hafa vitaskuld valdið því, að menn hafa ekki látið tollafgreiða þær vörur, sem vonir hafa staðið til, að tollar yrðu lækkaðir á, og af þeim sökum hefur orðið í sumum tilfellum a.m.k. skortur á nauðsynlegum vörum. En vörurnar hafa legið í tollafgreiðslu og krafizt geymslukostnaðar.

En nú er sem sagt þetta frv. loksins borið fram, en þá er það dálítið öðruvísi en lofað var og öðruvísi heldur en það frv. hefur verið samkv. söga hæstv. fjmrh., sem á sínum tíma var búið að ganga frá. Tollalækkunin samkv. þessu frv. hefur sem sagt lækkað um nær 2/5 frá því, sem lofað var, þar sem tollalækkanir samkv. þessu frv. nema aðeins 159 millj. í stað 250, eins og lofað var. Af þessum 159 millj. eru þó strangt talað, skilst mér, aðeins 86 millj. tollalækkun á neyzluvörum. Þó að lækkun á hráefnum sé tekin með, sem er 49 millj., er þó aðeins um að ræða lækkun, sem nemur 135 millj. kr., sem telja má þá til efnda á því loforði að lækka tolla á neyzluvörum almennings og gera þar með léttbærari byrðarnar af gengislækkuninni. Það er nú hætt við að það valdi nokkrum vonbrigðum, að tollalækkunin getur ekki að áliti fjmrh. orðið meiri en þetta frv. ber vitni um, því að það er ekki svo lítil breyting frá því, sem lofað var, að tollar á neyzluvarningi skyldu lækkaðir um einar 250 millj. En með þessu er þó vitaskuld ekki nema hálfsögð sagan. Aths. þessa frv. geyma heldur óþægilega játningu, sem hæstv. fjmrh. kom inn á í sinni framsöguræðu hér áðan. Í aths. með lagafrv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við afgreiðslu fjárlaga var því lýst yfir, að það fé, er ríkissjóður hefði til ráðstöfunar umfram fjárlagaútgjöld á árinu 1968, yrði notað til að létta almenningi kjaraskerðingu af völdum gengisbreytingarinnar og yrði í því sambandi fyrst og fremst stefnt að lækkun tolla. Frv. það, sem hér er lagt fram, hefur verið samið í beinu framhaldi af þessari ákvörðun. En síðustu vikurnar hafa lagzt stórfelldar nýjar kvaðir á ríkissjóð, svo að ekki er lengur um neinn tekjuafgang að ræða til að mæta tollalækkunum. Ríkisstj. telur hins vegar tollalækkanir svo mikilvægar, að hún telur engu að síður rétt að beita sér fyrir tollalækkunum þeim, er felast í frv. þessu, þótt gera þurfi sérstakar tekjuöflunarráðstafanir til að mæta þeim.“

Þetta er mjög athyglisverð játning. Hér er það í fyrsta lagi játað, að því hafi verið heitið, að því fé, sem ríkissjóður hefði til ráðstöfunar að fjárlögum afgreiddum, skyldi varið til þess að létta almenningi kjaraskerðingu af völdum gengisbreytingar. Því var lýst yfir. Það fé var í raun og veru eftir það alls ekki frjálst til ráðstöfunar. Það var búið að binda það fé. Það var búið að binda það með hátíðlegri yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. Það átti að ganga til þessara ákveðnu hluta. Nú kemur hins vegar hæstvirtur fjmrh. og upplýsir það, að þessu sé bara nú þegar búið að ráðstafa, — að það sé búið nú þegar að éta upp eða gleypa allar þær tekjur, sem af gengisfellingunni leiddu fyrir ríkissjóð og leiddu til þess, að áætlað var, að verulegt fé yrði til ráðstöfunar umfram útgjöld samkvæmt fjárlögum. Alþingi hefur ekki ráðstafað þessu fé, ekki enn þá. Hér hefur því vissulega verið rofið það heit, sem gefið hafði verið af hálfu ríkisstj., að nota tiltekna fjárhæð í alveg tilteknu skyni, og sem má segja, að siðferðilega hafi verið alveg jafnskuldbindandi eins og þetta hefði verið bókstaflega samþ. í fjárl.

Það er sagt, að það sé ekkert fé lengur til, til þess að mæta tollalækkunum, og að gera þurfi sérstakar tekjuöflunarráðstafanir til þess að mæta þeim. Það er sem sagt ekki einu sinni fé fyrir hendi til þess að mæta þessum 159 millj., sem tollarnir nú eiga að lækka um. Þó að búið sé að draga frá um 100 millj., þá er sem sagt ekki fé til að mæta þessu, sem tollarnir eiga nú að lækka um, 159 millj. Það þarf að afla fjár til þess að geta staðið við fyrirheitið að þessu leyti til, og þegar menn sjá þetta frv. og sjá þennan boðskap í aths., að það þurfi að gera sérstakar tekjuöflunarráðstafanir til þess að mæta tollalækkunum, þá hljóta þeir að spyrja, hvar eigi að afla þessa fjár. Þeirri spurningu er ekki svarað í aths., sem frv. fylgja, en vitaskuld er þetta spurning, sem menn verða og þurfa að fá rækilega svarað, áður en þeir geta tekið efnislega afstöðu til þessa frv., því að auðvitað gætu þær tekjuöflunaraðferðir verið með þeim hætti, að hér væri um hreinan skrípaleik að ræða, ef tollar væru að vísu lækkaðir um 159 millj. kr., en svo væri kannske aftur aflað 159 millj. kr. með meiri eða minni almennum álögum á almenning. Það verður auðvitað ekkert sagt um það, hvort það er nokkurt raunverulegt gagn að þessari ráðgerðu tollabreytingu, sem hér liggur fyrir, nema það sé þá um leið vitað, hvar á að fá það fé, sem á að mæta þessari tollalækkun.

Nú hefur hæstv. fjmrh. nokkuð bætt úr þessum vitneskjuskorti, gerði það í sinni framsöguræðu, en þó með upplýsingum í svo stórum dráttum, að það er náttúrlega erfitt að henda reiður á þeim, nema fyrir liggi miklu nánari upplýsingar um það efni. Hann segir, hæstv. fjmrh., að það muni verða reynt að mæta þessu með því að lækka útgjöld ríkisins um 100 millj. kr. Ég get mjög vel fallizt á þessa leið. Ég álít, að hæstv. ráðh. sé á réttri leið, þegar hann er farinn að ganga inn á sparnaðarveginn. En það skiptir samt höfuðmáli, á hvaða liðum þessi sparnaður er. Um það þarf að fá miklu rækilegri upplýsingar heldur en hæstv. fjmrh. gaf. Það er ekki nóg, þó að hann segði það með almennum orðum, að fyrst og fremst muni þessi sparnaður koma fram á ýmsum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs, en þó að vísu eitthvað á fjárfestingarútgjöldum. Það verða vitaskuld að liggja fyrir miklu nákvæmari upplýsingar um þetta, hve mikið á að spara á rekstrarútgjöldum, hve mikið á fjárfestingarútgjöldum, á hvaða rekstrarútgjöldum á að spara. Ég tel það ákaflega varhugavert spor, ef það væri meiningin t.d. að spara á þeim mjög svo takmörkuðu fjárveitingum, sem nú ganga til verklegra framkvæmda. En það er kannske í sambandi við sumar þær verklegu framkvæmdir hægt að tala að einhverju leyti um einhver rekstrarútgjöld, ég veit það ekki. En það þarf að fá upplýst. Og hvaða rekstrarútgjöld eru það, sem á að spara, á hvaða liðum eru þau?

Hæstv. fjmrh. sagði, að þetta væri vandasamt mál, flókið, og það væri ekki búið, að mér skildist, að gera sér fyllilega grein fyrir því, hvar ætti að spara þetta. Það má vera, að ég hafi misskilið hann að þessu leyti, og ég vona, að ég hafi gert það — það upplýsist allt nánar –því að vitaskuld er lítið vit í að gera svona samþykkt, nema það hafi alveg verið gert upp áður og sé vitað, hvar á að spara þau útgjöld, sem á móti þessu eiga að koma. Að því skal ég nú ekki eyða fleiri orðum. Ég geng út frá því, að hv. n. fái upplýsingar um þetta atriði. En auðvitað hefði það verið æskilegt, að jafnframt þessu frv. hefði komið fram frv. um þennan sparnað, að svo miklu leyti sem breytta löggjöf þarf til þess að draga úr þessum útgjöldum.

Þá á að taka 50 millj. með hækkun á verði áfengis og tóbaks. Þetta er líklega sú tekjuöflun, sem allir verða sammála um. Að vísu virðist þessi tekjuöflunarliður geta stangazt nokkuð á við þá stefnu, sem að öðru leyti gætir í þessu frv. Það hefur nefnilega leikið það orð á — og hafa reyndar orðið talsverð brögð að því að undanförnu, þótt öll hafi ekki heppnazt — að það væri smyglað talsverðu áfengi til landsins. En í þessu frv. er gert ráð fyrir því að lækka m.a. snyrtivörur og ýmsa skartgripi í tolli til þess að reyna að afstýra eða draga úr smygli. Ekki hef ég á móti þessari áfengishækkun, en miðað við þær röksemdir, sem að öðru leyti eru í þessu frv., má náttúrlega spyrja, hvort þessi hækkun hafi ekki í för með sér aukna hættu á smygli á áfengi og tóbaki.

En þá eru enn eftir 50 millj., segir hæstv. ráðh., sem vantar og einhvern veginn þarf að afla, en hann var ekki viðbúinn því í sinni framsögu hér áðan að gera grein fyrir því, hvernig þeirra 50 millj. skyldi aflað, heldur lét hann nægja að segja, að í athugun væri, hvernig þetta bil, óneitanlega talsvert breiða bil, 50 millj. kr. bil, yrði brúað. Að sjálfsögðu verður hæstv. ráðh. krafinn sagna um það og upplýsinga í n., sem málið fær til meðferðar, hvernig eða hvar eigi að afla tekna til þess að mæta þeim 50 millj., því að auðvitað er það svo, eins og ég sagði áðan, að svo gæti þessu verið háttað, að þarna væri um hreinan skrípaleik að ræða, þó að tollalækkanir nokkrar ættu sér stað, ef á móti þeim ætti að einhverju eða öllu leyti að afla tekna með auknum álögum á almenning, sem ég reyndar sé nú ekki, hvar ætti að taka, því að ég held, að flestir brunnar í því efni séu þurrausnir, þannig að það verði ekki auðfundnir neinir álagningarstofnar.

Ég skal ekki fara langt út í að rekja það ástand, sem nú blasir við í atvinnu- og efnahagsmálum, en vil aðeins minna á það, að segja má, að í raun og veru sé hér um hreinan harmleik að ræða, að það skuli vera komið eins og komið er í efnahagsmálum og atvinnumálum, svo skömmu eftir eitt samfelldasta góðæristímabil í sögu þessarar þjóðar. Auðvitað höfum við orðið fyrir miklu áfalli. Því neitar ekki nokkur lifandi maður. Það var ljóst, að við mundum verða fyrir einhverju áfalli strax síðari hluta árs 1966, þegar verðfall varð á þýðingarmiklum útflutningsafurðum. Og það verðfall hélt svo áfram á árinu 1967, og þegar svo þar við bættist, að vetrarvertíðin síðast var léleg, að minnsta kosti miðað við þær vertíðir, sem á undan höfðu farið, mátti öllum skynbærum og hugsandi mönnum, sem þekkingu hafa á þessum málum, vera það ljóst, að það var voði fyrir dyrum, ef ekki væru gerðar viðeigandi ráðstafanir í tæka tíð. Þannig hafði nefnilega verið á málum haldið áður, bæði vegna verðbólguþróunar og hóflausrar fjárfestingar. Þá hafði ekki heldur verið þannig búið að atvinnuvegunum, að þeir gætu á þessu tímabili safnað sér neinum sjóðum og búið sig undir lakari ár. Það var alveg auðsætt, að af þessum sökum hlaut að koma á landsmenn tilfinnanlegur skellur, ef ekki yrði snúizt við vandanum á réttan hátt og í tæka tíð. En hæstv. ríkisstjórn hafðist ekki að, heldur lét reka á reiðanum í þessu efni. Það stóð nefnilega þannig á, að kosningar voru fram undan, og það var ekki heppilegt, að allur sannleikurinn kæmi í ljós þá. Það var að vísu komið á svo kallaðri verðstöðvun. Sú ráðstöfun hefði í sjálfu sér getað verið virðingarverð tilraun, ef til hennar hefði verið stofnað með réttu hugarfari og grundvöllur atvinnuveganna lagaður svo sem þurft hefði, áður en til hennar kom. En það var ekki gert. Hagur atvinnuveganna þá var ekkert rannsakaður. Dýrtíðinni eða réttara sagt vísitölunni var haldið niðri með greiðslum úr ríkissjóði og verðbólguvextinum — hinum raunverulega — leynt þannig fram yfir kosningar.

Þrátt fyrir það gat ekki farið fram hjá ríkisstj., að verðstöðvunin var ekki raunveruleg og henni var auðvitað ljóst, að það hlyti að koma að skuldadögum. Þær staðreyndir, sem við blöstu, voru svo augljósar. En þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir, sem við blöstu, bar ríkisstj. og hennar stuðningsmenn það blákalt fram í kosningabaráttunni s.l. vor, að það væri allt í lagi í efnahagsmálum þjóðarinnar, að þjóðarbúskapurinn stæði á traustum grunni, að með verðstöðvun og gjaldeyrisvarasjóði væri tryggt, að tímabundnir erfiðleikar af völdum verðfalls og minnkandi afla hefðu ekki í för með sér nein varanleg eða veruleg efnahagsleg vandræði, aðeins ef þjóðin þekkti nú sinn vitjunartíma ag veitti stjórnarflokkunum enn þá meirihluta á Alþingi. Það er auðvitað enginn, sem telur, að ríkisstj. hefði getað ráðið við verðlækkanir á erlendum mörkuðum og enginn heldur því fram, að stjórnarflokkarnir geti ráðið við það, hvort vel eða illa aflast eða hvort veðráttan er hagstæð eða óhagstæð. En það, sem ríkisstj. er ámælisverð fyrir í þessu sambandi, er að mínum dómi það að hafa ekki snúizt til varnar gegn þessum vanda, sem augljóst var, að mundi steðja að, í tæka tíð. Hún lét eins og ég áðan sagði, allt reka á reiðanum. Verðbólguvextinum var leynt með greiðslum úr ríkissjóði. Innflutningurinn var hóflaus eftir sem áður, gjaldeyrisvarasjóðurinn, sem átti að vera dýrmætur og getur vissulega verið það, var látinn ganga að verulegu leyti til þurrðar. En gegn þessu hefði mátt sporna, ef tiltækum ráðum hefði verið beitt í tæka tíð, ef menn hefðu viljað og þorað að segja sannleikann í þessum efnum fyrir kosningar.

En auðvitað hefur svo sannleikurinn komið í ljós eftir kosningar. Veruleikanum hefur ekki verið hægt að leyna, og það var svo komið á síðari hluta fyrra árs, að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar voru blátt áfram allir að sligast. Stöðvun sjávarútvegs og fiskvinnslustöðva blasti við um áramótin, og miða ég þá við ástandið eins og það blasti við, áður en til gengisfellingar kom. Það er alkunnugt, að í iðnaðinum hafði átt sér stað margvíslegur samdráttur og margar mikilvægar greinar hans voru nær að þrotum komnar eða sumar hverjar alveg komnar í þrot. Um ástandið í landbúnaðinum þarf ekki mikið að ræða. Það hefur nýlega nokkuð verið rætt í þessari hv. d., og ég þarf ekki að bæta við þær upplýsingar, sem þá komu fram t. d. varðandi skuldasöfnun bænda, bæði almennt og sérstaklega um lausaskuldasöfnun þeirra, sem gefur vitaskuld hugmynd um það, hvernig kjör þeirra og hagur hafi staðið eða standi nú. Og það er líka alkunnugt og um það eru til skýrslur, að bændur eru tekjulægsta stétt þjóðfélagsins og fá þó ekki, að því er þeir telja, þá leiðréttingu á kjörum sínum, sem þeir telja sig eiga heimtingu á lögum samkvæmt. Það var þannig alveg ljóst, að þegar Alþingi kom saman s.l. haust, var grundvöllur atvinnuveganna gersamlega brostinn. Þá lagði ríkisstj. fram sitt alþekkta efnahagsmálafrv., sem gerði raunverulega ráð fyrir 750 millj. kr. álögum á almenning, sem átti að taka á sig þá kjaraskerðingu bótalaust. Ekkert af þeirri fjárhæð átti þó að ganga til atvinnuveganna, þrátt fyrir það ástand, sem við blasti í þeim, heldur er henni aðeins ætlað að afstýra væntanlegum greiðsluhalla ríkissjóðs. Vandi atvinnuveganna átti samkv. margendurteknum ummælum ríkisstj. að bíða þangað til eftir áramót, og ég hygg, að það megi finna ýmis ummæli þeirra frá þeim tíma, þar sem þeir létu það í ljós, að það væri ómögulegt að gera sér grein fyrir því á því stigi, á þeim tíma, hvers atvinnuvegirnir þyrftu með, og svo gæti jafnvel farið, að þeir þyrftu ekki á neinum stuðningi að halda eftir áramót.

Ég skal nú ekki rekja þessa sögu öllu lengur, því að hún er öllum hér í svo fersku minni, að þess gerist ekki þörf að rifja hana upp. Öllum er í fersku minni, hver örlög þessa frv. urðu. En þegar gengi pundsins var fellt, var hér í skyndi snúið við blaðinu og ákveðið, að hér skyldi gera gengisfellingu, ekki þá gengisfellingu, sem var í samræmi við breytingu á gengi pundsins og sem sjálfsagt hefði verið almennt talin óhjákvæmileg, heldur var þá talið rétt að hverfa að því ráði að athuga nú stöðu atvinnuveganna og miða gengislækkunina við það, hvers þeir þyrftu með, og því var ekki sá háttur á hafður hér um gengislækkunina sem viðgekkst víðast hvar annars staðar, að hún væri ákveðin svo til strax eftir fellingu pundsins, heldur var henni skotið á frest, bönkum lokað og um vikuskeið sátu ríkisstj. og hennar færustu menn á fundum og athuguðu málið og krufðu það til mergjar og felldu síðan sinn úrskurð um það, að gengi krónunnar þyrfti að lækka og skyldi lækka um nær 25% eða 24,6%, sem jafngildir um 33% hækkun á erlendum gjaldeyri, og það var látið fylgja með, að þessi gengislækkun væri nú undirbúin með heldur öðrum hætti en aðrar fyrri gengislækkanir. Þá hefði það oftast nær verið svo, að menn hefðu haft heldur ónóg gögn í höndum, þegar þeir þurftu að ákveða gengisfellingar. Nú hefði verið búið að safna upplýsingum og gögnum og allt væri þetta nákvæmlega kannað og útreiknað.

Það þarf nú ekki að rekja það, hvernig þessir útreikningar hafa staðizt. Um það segir m.a. þetta frv. sína sögu. En auðsætt var af ýmsu, að stjórnin taldi þetta nokkuð öruggt, sem um þetta var sagt. Atvinnuvegirnir mundu almennt sleppa með þá gengislækkun, sem ákveðin var. Ekki þyrfti framar þá að styrkja. Ríkissjóðurinn mundi hafa ríkulegar tekjur og um sinn mátti sjá, að menn voru hér með glaðara móti. Já, og það var meira að segja talið, að t.d. sjávarútvegurinn þyrfti ekki að fá að öllu leyti a.m.k. þann gengishagnað, sem yrði á vörum, sem útfluttar yrðu til áramóta. Það átti að taka frá þann hagnað. Honum átti að vísu að verja að verulegu leyti til hagsmuna og þarfa sjávarútvegsins — að vísu ekki beint til sjómannanna, en til sjávarútvegsins samt. Samt þótti nú sjávarútvegurinn það vel á vegi standa, að hann mundi geta séð af, ef ég man rétt, svona um 80 millj. til framtíðarinnar af þessum hagnaði, sem leggja skyldi í sérstakan verðjöfnunarsjóð. Menn voru bjartsýnir og það er alltaf gott að vera bjartsýnn. En það er þó líka gott að vera raunsær. Það kom á daginn, að þessi dæmi öll höfðu ekki verið rétt reiknuð, og ég skal ekki þreyta hv. þdm. á því að rekja þá raunasögu, sem hér hefur gerzt, bæði í sambandi við verðlagningu á sjávarafurðum og upphaf að úthaldi frystihúsa á þessum vetri, en í báðum tilfellum hefur ríkissjóður orðið að hlaupa undir bagga og gefið fyrirheit um það að verja 300–400 millj. kr. í því skyni að koma þessum atvinnugreinum af stað.

Hæstv. fjmrh. talaði um, að það mundu fara um 320 millj. í þessar bætur til sjávarútvegsins, ef ég man rétt, en þar með hygg ég, að hann hafi ekki talið þær uppbætur og fyrirgreiðslur, sem fara til togara. Ég hygg, að það sé algert einsdæmi — það er nú alveg áreiðanlega einsdæmi í sögu okkar Íslendinga og e.t.v. er það einsdæmi í heiminum — að gerð hafi verið jafn mikil gengisfelling og hér var gerð til þess að bjarga atvinnuvegunum og koma þeim á rekstrarhæfan grundvöll, en að einum mánuði eftir þá gengisbreytingu hafi svo orðið að greiða til þessara atvinnugreina, sem vissulega átti að bjarga og að nokkru leyti hefur verið bjargað með gengisfellingunni, 300–400 millj. kr. Ég hygg, að það sé algert einsdæmi. Og þetta er það, sem ég vil kalla raunverulegan harmleik, að það skuli vera þannig komið eftir öll þau góðu ár, sem að undanförnu hafa gengið yfir þessa þjóð, að rekstur framleiðslutækjanna sé í því standi, sem ég hef hér lítillega minnzt á og atburðir síðustu vikna hafa borið vitni um. Gengisfellingunni var ætlað að tryggja rekstur þessara framleiðslutækja.

Það er að sjálfsögðu vandi að ákveða það, hve gengisfelling skuli vera mikil, til þess að hún nægi atvinnuvegunum. Auðvitað höfum við stjórnarandstæðingar enga aðstöðu til þess að gera okkur grein fyrir því, hvort akkúrat þessi upphæð mundi duga eða ekki. Ég vil ekki heldur fullyrða neitt um það, að ef menn hefðu horfzt í augu við allan þennan vanda og séð hann fyrir, eins og hann raunverulega hefur sýnt sig á síðustu dögum, hefðu menn verið reiðubúnir til þess að gera þá gengisbreytingu, sem ein hefði dugað. En það, sem átti að gera, var að skoða allt málið og gera sér grein fyrir þessu og horfast í augu við sannleikann og síðan leita að þeim leiðum, sem færar þóttu til þess að ráða við þann vanda, en ekki grísa á þetta, eins og augljóst er, að gert hefur verið, enda þótt það væri gert undir því yfirskini, að þetta hefði allt verið rækilega kannað og þetta væri byggt á — ja, maður verður næstum því að segja vísindalegum niðurstöðum.

En reyndin var þessi, að frystihúsin treystust ekki af stað eftir áramótin og lokuðu og hafa nú fengið loforð um 200 millj. Frystihúsaeigendur hafa samþykkt, að frystihúsin mættu þá opna, en ég held, að það sé langt frá því, að öll kurl séu komin til grafar. Mér skilst, að frystihúsin hafi alls ekki samþykkt þetta sem neinar endanlegar ákvarðanir frá sinni hálfu, heldur hafi þau samþ. þetta sem grundvöll undir frekari viðræður við ríkisstj., og hver veit nema þau eigi eftir að fá einhverja viðbót í einhverri mynd og þá þarf að sjá fyrir tekjum til þess að mæta því, úr því að hag ríkissjóðs er nú svona komið, að ekkert er þar afgangs til þess að mæta þessum ráðgerðu tollalækkunum, 159 millj. Það er ekkert til þess að mæta þeim, og til þess að mæta þeim þarf að gera þessar ráðstafanir, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, að spara upp á 100 millj. og hækka áfengi og tóbak upp á 50 millj. Samt vantar 50 millj. til viðbótar. Ég hygg, að það sé líka mjög fátítt fyrirbæri, að þannig sé ástatt hjá ríkissjóði rétt eftir að stórfelld gengisfelling fer fram. Ég hygg, að reynslan hafi oftast nær verið sú, að gengisfelling hafi reynzt ríkissjóði tiltölulega ábatasöm ráðstöfun, þótt hún hafi bitnað þungt á ýmsum öðrum.

Ástandið, sem við blasir, er vissulega ekki glæsilegt, eins og sakir standa. Það væri mikil blekking að gera lítið úr þeim vanda, Sjávarútvegurinn og fiskvinnslustöðvarnar eru reknar með miklum fjárgreiðalum úr ríkissjóði og þetta gerist sem sagt að undangenginni stórfelldri gengislækkun, þetta gerist að undangengnum mörgum góðærum í röð, allt fram á árið 1966.

Um erfiðleika iðnaðarins þarf ekki að fjölyrða. Það er rétt, sem fram kom líka, að ég held, hjá hæstv. fjmrh., að sjálfsagt hefur gengisbreytingin rétt hag vissra iðngreina, þó að sú breyting muni samt ekki duga og hafi ekki dugað til þess að leiðrétta hag annarra iðngreina. Og í ýmsum iðngreinum er samdráttur, og það er stöðugt kvartað af hálfu iðnaðarins um vöntun á rekstrarfé og allt er það kunnugt.

Að ástandinu í landbúnaðinum vék ég hér áðan og skal ekki fjölyrða um það, en minni aðeins á þær umr., sem hér hafa farið fram, og sýnt hafa það, að mikil skuldasöfnun hefur átt sér stað hjá landbúnaðinum, og það er öllum kunnugt, sem þau mál þekkja, að talsvert miklum hluta bænda gengur mjög erfiðlega að standa í skilum. Og ég hygg, að þeir sjái alls ekki fram á, að þeir geti staðið í skilum með greiðslu afborgana og vaxta af þeim lánum, sem þeir hafa stofnað til, og auðvitað allra sízt, þegar bætist við hjá þeim sérstaklega erfitt árferði og svo náttúrlega þetta, sem líka hefur verið mikið rætt um og ég skal ekki hafa orð um hér, en aðrir hafa sýnt fram á og rætt mikið, einkanlega í hv. Nd., að verðlagsákvörðun á afurðum bænda hefur — ja, að þeirra dómi a.m.k. — Verið algerlega ófullnægjandi á þessu ári.

Ástand atvinnuveganna er þess vegna alvarlegt. En þá er þó ótalið það, sem kannske er allra alvarlegast af þeim staðreyndum, sem nú blasa við, og það er það atvinnuleysi, sem hér hefur gert vart við sig að undanförnu. Allir þeir, sem kynnzt hafa atvinnuleysi og muna þau atvinnuleysisár, sem hér voru t.d. á árunum milli 1930 og 1940, vita það og skilja, að atvinnuleysi er sá mesti bölvaldur, sem við er að glíma. En nú er svo komið, að talið er, að um 2000 manns á öllu landinu séu atvinnulausir, víst nær 500 skráðir hér í Reykjavík, ég man ekki nákvæma tölu, en hitt er nú aftur annars staðar. Þetta hefur vakið athygli. Þetta er alvarlegt. Menn finna fyrir því og það er eftir því tekið, sérstaklega þegar þetta atvinnuleysi á sér stað hér í Reykjavík. Það er þó svo, sannast að segja, að í sumum landshlutum er það nú ekki alveg nýtt fyrirbæri, að vart verði við atvinnuleysi. Því miður hefur það verið þannig t.d. á Norðurlandi nokkur undanfarin ár, að atvinnuleysi hefur gert þar vart við sig mjög tilfinnanlega og mér og ýmsum öðrum, sem um þau mál hafa orðið að fjalla, hefur nú fundizt, að yfirvöld væru of skilningslítil á nauðsyn þess að bæta þar úr. En það er áreiðanlegt, að þegar jafnmikið kveður að atvinnuleysi og hér er, verður ekki fram hjá því gengið. Margir vona, að hér sé um tímabundið atvinnuleysi að einhverju leyti að ræða. Það er vonandi, að svo sé, en það er þó því miður ýmislegt, sem bendir til þess, að svo sé ekki. Það er betra að líta raunsætt á þetta mál og gera ráðstafanir í tæka tíð til þess að vinna bug á atvinnuleysinu.

Hæstv. forsrh. hefur látið það uppi, að einskis yrði látið ófreistað til þess að kveða atvinnuleysi niður, en ekki hef ég nú orðið enn þá var við neinar sérstakar ráðstafanir af ríkisstj. hálfu til þess að útrýma þessu atvinnuleysi.

Það er svo öllum alveg augljóst, hvað fram undan er varðandi verðbólguþróun. Það er alveg augljóst, að það skellur yfir á næstunni ný verðbólgualda. Gegn henni verður ekki staðið. Það er búið að leggja þannig grundvöllinn að henni, að það verður ekki komið í veg fyrir það. Það er alveg fráleitt, að það sé hægt að halda kaupi niðri. Það hljóta að verða kauphækkanir á næstunni. Hag almennings og launastétta er þannig komið. Það var í raun og veru eina hliðarráðstöfunin, sem látin var fylgja gengislækkuninni, þó að einkennilegt væri, að efnumin var verðtrygging launa. Það er auðvitað alveg óhugsandi, að sú ákvörðun standi til langframa. Það getur engin ríkisstj., og þá ekki þessi frekar en aðrar, haldið slíkri ákvörðun uppi á næstunni, eftir þær álögur og áföll, sem almenningur hefur orðið fyrir.

Það er, eins og ég áðan sagði, gott, að menn séu bjartsýnir á réttum tíma. En það er líka jafnnauðsynlegt, að menn séu raunsæir. Og ég verð að segja það, að ég held, að fram undan séu mjög geigvænlegir erfiðleikar, jafnvel kannske lítt yfirstíganlegir erfiðleikar á þessum mörgu sviðum og í þessum mörgu myndum, sem ég hef hér minnzt á. Og það er náttúrlega mjög alvarlegt í því sambandi, þegar ástandið verður svo alverlegt, að ríkisstjórnin getur ekki staðið við gefin fyrirheit, eins og hér liggur fyrir. Og það er hætt við því, að ríkisstj. fái lítið ráðið við marga af þeim erfiðleikum, sem fram undan eru á næstunni. Henni hefur gengið það illa til þessa, og henni hefur gengið illa að skilja fólk. Henni hefur gengið sorglega illa að skilja fólk, nema talað væri við hana á sérstöku tungumáli. En þegar því hefur verið beitt, hefur hún látið undan síga. Það er leiðinlegt, að grípa þurfi til þess tungumáls. Það er leiðinlegt, að grípa þurfi til þess að láta skipaflotann sigla í höfn, til þess að fá leiðréttingu á kjörum sjómanna. Það er mjög alvarlegt, vil ég segja, frá þjóðfélagsins sjónarmiði, að frystihús skuli telja sig tilneydd að loka til þess að fá kröfum sínum framgengt. En það er eins og það sé svo, að þegar slíkum ráðstöfunum er beitt, þá sé fyrst talað við menn í fullri alvöru. Ég held, að það væri heppilegra fyrir ríkisstj. að tala við menn, áður en þeir gripa til slíkra ráða, og líta með sanngirni á mál manna, áður en þeir telja sig tilneydda að fara þannig í hálfgert eða algert stríð við stjórnarvöldin í landinu. Það kann ekki góðri lukku að stýra, ef þannig er orðið ástatt í landinu, að svo að segja hver stéttin á fætur annarri stendur í hálfopinberu eða alopinberu stríði við sjálf stjórnarvöldin.

Ég skal nú láta máli mínu lokið. Ég vil þó enn óska eftir því, að hæstv. fjmrh. upplýsi nokkru nánar, í hverju sá sparnaður á að vera fólginn, sem á að mæta þessari tollalækkun að hluta til. Og ég ætla þá ekki að ræða það frekar, fyrr en ég fæ þær nánari upplýsingar. Þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf um frv. að öðru leyti, eru náttúrlega góðra gjalda verðar. Hann upplýsti það, að tollalækkun á neyzluvöruvarningnum mundi vera að 2/3 á fatnaðarvörur og hitt mundi vera hvers konar ávextir og matvörur. Um þetta er ekki nema gott eitt að segja. En út í einstaka liði og einstök atriði í þessu frv. mun ég ekki fara, enda er það nú þannig, að það er lítt fallið til þess að ræða það þannig, þar sem þetta er mjög sundurliðað og flókið. Ég vil þó endurtaka það, sem fram hefur reyndar komið í máli mínu áður, að ég tel nú ekki nema að nokkru leyti vera þarna um tollalækkun á neyzluvarningi að ræða. Það getur vel verið, að þær tollalækkanir, sem eru þar til viðbótar, séu rökstuddar og rökstyðjanlegar af öðrum ástæðum. En þær eru ekki til efnda á því fyrirheiti, sem ríkisstj. gaf á sínum tíma um það að létta byrðar almennings. Auðvitað væri hægt að hugsa sér ýmsar aðrar leiðir og aðra stefnu í þessum tollamálum heldur en hér er mörkuð. Hér er stefnt að lækkun alls staðar og lækkaðir tollar á tollhæstu vörunum, að mér skilst úr 125% niður í 100%. Þetta verð ég að setja spurningarmerki við, hvort þarna er um rétta stefnu að ræðu. Frá mínum bæjardyrum séð gæti hitt miklu frekar komið til athugunar að mismuna meir í tolli heldur en gert hefur verið, láta þær vörur, sem stundum eru ónákvæmt kallaðar lúxusvörur, eða við skulum segja miður sjaldgæfar vörur, vera í tollháum flokkum, láta þá, sem efni hafa á því að veita sér slíkar vörur, borga háa tolla, en aftur lækka þá þeim mun meir tolla á neyzluvarningi og nauðsynjavörum. Þetta held ég, að gæti komið til greina.

Ég verð nú að segja, að ég staldra við 4. liðinn hér í hinum almennu aths. með þessu frv., þar sem segir: „Tollalækkanir á ýmsum vörum, sem tíðkazt hefur að ferðamenn, farmenn og flugáhafnir kaupi erlendis og flytji til landsins án tollgreiðslna, svo og vörur, sem ætla má, að brögð séu að smygli á.“

Frá mínu sjónarmiði séð er það ekki alveg geðfelld hugsun að þurfa að láta undan smygli á þennan hátt, að ætla að fara að lækka tollana og reyna með þeim hætti að keppa við smyglarana. Það er ekki sú æskilega löggæzluaðferð, sem þörf er á. Náttúrlega gæti svona aðferð þá einnig verið beitt á öðrum sviðum. Það væri stundum hægt að koma í veg fyrir lögbrot með því að afnema refsiákvæðið, sem við liggur, að gera það frjálst, sem áður var bannað, bara af því að það er svo erfitt að eiga við þetta, hafa hendur í hári þess. En þetta er nú ekki kannske stórfellt atriði og ég skal nú ekki eyða orðum að því frekar. Þetta er eitt þeirra atriða, sem vitaskuld verður fjallað um í n. og þeir skoða þar.

Þá er það þetta með snyrtivörurnar. Ég er satt að segja ekki mjög fróður í búðum hér í Reykjavík. En það verð ég þó að segja, að allmargar snyrtivörubúðir virðast mér vera hér í bæ, ekki sízt við aðalumferðaræðar bæjarins. Og það sýnist, að þær geti þrifizt með einhverjum hætti, svo að ekki sé nú þörf á tollalækkun þeirra vegna á þessum snyrtivörum. Og það virðist svo, að verðlag á snyrtivörum sé heldur ekki það hátt, að enginn geti veitt sér þær, því að þessar snyrtivörubúðir virðast lífa sæmilegu lifi. Það, sem ég hef sem sagt viljað segja með þessu síðasta, er það, að ég vefengi, að frv. sé að öllu leyti byggt á þeirri heildarstefnu, sem það hefði átt að byggja á samkv. fyrirheiti hæstv. ríkisstj. um að lækka tolla á neyzluvörum almennings eða á vörum, þar sem létt gæti verið byrðum af gengislækkuninni. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar að þessu sinni, herra forseti.