12.02.1968
Efri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

121. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hluta (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til meðferðar frv. það, sem hér liggur fyrir, en eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur hún ekki náð fullri samstöðu um meðferð málsins, þó ekki í þeim skilningi, að allir nm. eru sammála um stuðning við þetta frv. og n. flytur sameiginlega brtt. á þskj. 271, en þrír nm. hafa áskilið sér rétt til þess að flytja frekari brtt., sem ég að vísu hef nú ekki orðið var við, að fram væru komnar, en skila séráliti. Við fjórir, sem stöndum að meiri hl. nál. á þskj. 270, leggjum hins vegar til, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem n. flytur.

En til viðbótar þessu vil ég aðeins geta um brtt., sem ég hef flutt á þskj. 272. Það er þannig tilkomið, að nokkur erindi bárust, eftir að n. hafði lokið störfum. Ég sendi þessi erindi til umsagnar þeim sérfræðingum, sem unnið hafa að undirbúningi málsins, og töldu þeir, að taka bæri tillit til nokkurra þeirra óska, sem þar komu fram.. En þar sem það var þá á síðustu stundu að fá nál. og brtt. í prentun, ef hægt átti að vera að útbýta þeim í tæka tíð, var enginn möguleiki á því að kalla n. saman, né heldur að hafa símasamband við einstaka menn, svo að ég ákvað þá, í samráði við hæstv. fjmrh., að flytja þessar till. sjálfur, en tek það fram, að ég tel víst, að n. hefði öll fallizt á þessar brtt., ef kostur hefði verið á því að bera málið undir hana.

En áður en ég kem að því að ræða þetta frv. efnislega og gera grein fyrir þeim brtt., sem n. hefur flutt, svo og mínum brtt., vil ég af gefnu tilefni í ræðum þeim, sem fluttar voru af hálfu hv. stjórnarandstæðinga við 1. umr. málsins, víkja að aðdraganda þess, að frv. þetta er flutt og þeim tilgangi, sem því er ætlað að þjóna í sambandi við lausn hinna erfiðu vandamála, sen nú er við að etja í atvinnumálum okkar Íslendinga. Þeir tveir hv. stjórnarandstæðingar, sem töluðu við 1. umr. frv. hér í hv. d., þeir hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 6. þm. Sunnl., minntu á það með allmikilli áherzlu, einkum sá fyrrnefndi, að fyrir s.l. jól hefði verið gert ráð fyrir því, að meiri fjármunir mundu verða til ráðstöfunar í þeim tilgangi að lækka tollana og átöldu þá brigðmælgi, sem þeir töldu hafa átt sér stað af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessu efni. Þeir töldu, að því hefði verið haldið fram þá af hálfu hæstv. ríkisstj., að ákvörðunin um gengisfellingu hefði verið tekin á grundvelli vísindalegra útreikninga á því, að hún mundi ein nægja til þess að skapa útflutningsframleiðslunni rekstrargrundvöll, þannig að ekki þyrfti að gera ráð fyrir neinum frekari kostnaði ríkissjóðs vegna útflutningsframleiðslunnar.

Nú var ég, eins og flestum hv. þdm. er kunnugt, fjarverandi frá þingsetu í nóv. og des. vegna starfa minna sem einn af fulltrúum Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna, þannig að ég hef aðeins að takmörkuðu leyti getað fylgzt með því, sem þá hefur verið sagt um þessi mál hér á hv. Alþingi. Ég veit þó vel, að út af fyrir sig er rétt með það farið hjá þessum hv. þm., að menn gerðu sér þá vonir um, að allmiklu meiri tekjuafgangur yrði til ráðstöfunar til tollalækkunar en raun varð á, þegar öll kurl komu til grafar varðandi aðstoðarþörf útflutningsframleiðslunnar. Má í rauninni taka dýpra í árinni varðandi þetta atriði, því að sá tekjuafgangar, sem gert hafði verið ráð fyrir að verja til tollalækkunar, reyndist enginn verða vegna nauðsynlegrar aukinnar aðstoðar við sjávarútveginn, eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. frv.

En það kemur mér hins vegar óneitanlega einkennilega fyrir sjónir, sem staðhæft er um þessa vísindalegu útreikninga um það, að gengisfellingin ein myndi nægja til þess að leysa þennan vanda, sem þá steðjaði að. Ég man nefnilega ekki betur en að þegar verðlagsmálafrv. hæstv. ríkisstj., sem var lagt fram í okt. s.l., var til umr. hér á hv. Alþingi, hafi það hvað eftir annað verið tekið fram af hálfu hæstv. ráðh., þegar hv. stjórnarandstæðingar þá inntu eftir því, hvort ríkisstj. teldi frekari aðgerða en þeirra, sem fólust í frv., þörf í þágu útflutningsframleiðslunnar, og þá hverra, að endanleg niðurstaða þeirra athugana, sem Efnahagsstofnunin hafði þá með höndum á hag útvegsins og frystihúsanna, myndi ekki liggja fyrir fyrr en um áramót, þannig að þá fyrst væri hægt að segja til um það, hverrar aðstoðar væri þörf.

Sams konar orðaskipti munu raunar oftast hafa átt sér stað flest undanfarin ár, því að athuganir Efnahagsstofnunarinnar á hag útflutningsframleiðslunnar hafa jafnan miðazt við ákvörðun fiskverðs, sem tekin er hverju sinni um áramótin. Af þessu leiðir, að sérhverjar þær ákvarðanir, sem teknar voru kringum 20. nóv. varðandi gengisbreytingu, hlutu að verða háðar mikilli óvissu um það, hvort þær nægðu til þess að tryggja útflutningsframleiðslunni rekstrargrundvöll. Hér við bættist óvissa um afurðaverðið, en í des. fór, sem kunnugt er, fram samningagerð við Rússa um sölu á hraðfrystum fiski. Þegar ákvörðunin um gengisbreytinguna var tekin, var reiknað með því afurðaverði, sem þá var, miðað við þann gjaldeyri, sem ekki var felldur með pundinu, og var eðlilegt að gera það, eins og sakir stóðu þá, því verðbreytingar framtíðarinnar fær enginn séð fyrir. En sem kunnugt er, varð veruleg verðlækkun á þeim fiski, sem sala tókst á til Sovétríkjanna, og hér við bættist, að niðurstöður þær, sem Efnahagsstofnunin komst að, en hún hafði um áramót lokið athugunum sínum á afkomu útflutningsframleiðslunnar, reyndust óhagstæðari en búizt hafði verið við, og er þetta tvennt skýring á því, að ekki varð hjá því komizt að veita útflutningsframleiðslunni frekari stuðning en þann, sem í gengisbreytingunni fólst.

Vissulega er það æskilegast, að útflutningsframleiðslan geti staðið á eigin fótum, án opinberra styrkja og uppbóta, en annað mál er, að reynslan hefur sýnt það, að vegna þess hve afkoma einstakra greina útflutningsframleiðslunnar hér á landi er misjöfn, er erfitt að skrá nokkurt eitt gengi íslenzkrar krónu þannig, að það skapi allri útflutningsframleiðslunni rekstrargrundvöll.

Það var t.d. alveg rétt með það farið hjá hv. 6. þm. Sunnl., að þrátt fyrir hinar róttæku ráðstafanir, sem gerðar voru í efnahagsmálum í ársbyrjun 1960, hefur aldrei tekizt að afnema útflutningsuppbætur alveg. Um sama leyti og gengisbreytingarlögin voru fyrir Alþingi, var sett ný löggjöf um verðlagningu landbúnaðarafurða, byggð á víðtæku samkomulagi, sem þá hafði náðst milli fulltrúa bænda, neytenda og ríkisstj., en eitt af meginatriðum þess samkomulags var skuldbinding ríkissjóðs um það að greiða að vissu marki útflutningsbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, er nauðsynlegt væri til þess að grundvallarverð næðist fyrir afurðir bænda. Ef talið hefði verið öruggt, að gengislækkunin tryggði það, að engra útflutningsuppbóta yrði framar þörf, hefði þetta ákvæði, sem bændur keyptu þá því verði að afsala sér öðrum mikilsverðum rétti, eins og hv. 1. þm. Vesturl. gerði nýlega grein fyrir, er umr. um landbúnaðarmál fóru fram hér í hv. d., hefði rétturinn til útflutningsuppbóta ekki verið þeim neins virði og ekkert slíkt samkomulag tekizt, enda er það missögn ein hjá hv. stjórnarandstöðu, að því hafi nokkru sinni verið lofað, að aldrei skyldi framar verða þörf útflutningsuppbóta, eins og sú síendurtekna missögn stjórnarandstöðunnar, að lofað hefði verið, þegar efnahagslöggjöfin 1960 var sett, að framvegis mundu engar verðhækkanir eiga sér stað umfram þær, sem beint leiddu af gengisbreytingunni.

Það hefði líka blátt áfram verið hlægilegt að lofa því, að allar útflutningsuppbætur skyldu framvegis verða felldar niður, jafnhliða því að verið var þó að semja löggjöf, sem byggðist í rauninni á því, að útflutningsbætur á tilteknar afurðir væru greiddar. En þótt hvorki hafi tekizt að komast hjá öllum útflutningsbótum né stöðva verðbólguna, sannar það að mínu áliti síður en svo, eins og hv. stjórnarandstæðingar vilja vera láta, að allur tilgangur þeirra ráðstafana í efnahagsmálum, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, hafi gersamlega farið út um þúfur.

Mér finnst lengstum hafa verið tilhneiging hjá hv. stjórnarandstöðu til þess að sniðganga það, sem að mínu áliti er þar meginkjarni málsins. En megintilgangur þessara ráðstafana var sá að taka upp nýja hagstjórnarháttu, ef svo mætti segja, ólíka þeim, sem áður voru notaðir. En fyrir viðreisnina, sem svo hefur verið nefnd og með réttu að mínu áliti, voru höftin og hinar pólitísku úthlutunarnefndir svo að segja einu hagstjórnartækin, sem notuð voru. Þá var ekki til Efnahagsstofnun, engar framkvæmdaáætlanir, enginn Seðlabanki, sem hagstjórn hafði með höndum og ekkert hagráð. Seðlabankinn var að vísu til, en hann var ekki notaður sem hagstjórnartæki, þó að til slíks væri að vísu heimild í lögum, heldur var hann nánast heildsölufyrirtæki, sem sá um dreifingu pappírspeninga frá enskri verksmiðju til hérlendra viðskiptabanka og ríkissjóðs, sem aftur sáu um dreifingu í smásölu. En með samræmdum aðgerðum í peningamálum, gengismálum og fjármálum ríkisins hefur svo verið reynt að tryggja slíkt jafnvægi í gjaldeyrisverzlun og öðrum viðskiptum, að þjóðfélagsborgararnir gætu ráðstafað þeim fjármunum, er hver hefði yfir að ráða, til neyzlu eða fjárfestingar skv. eigin vali og þyrftu ekki í því efni að vera háðir geðþótta úthlutunarnefndanna.

Auðvitað hafa þær ráðstafanir, sem gera hefur orðið til þess að slíkt frjálsræði yrði framkvæmanlegt, svo sem háir vextir, takmörkun útlána og sparnaður í rekstri ríkisins, haft sín óþægindi í för með sér, en þau óþægindi hafa, að dómi þeirra, sem stutt hafa stjórnarstefnuna, verið minni en þau, sem haftakerfinu fylgdu, auk þess sem hin nýja stefna skapar ólíkt betri skilyrði fyrir framförum en haftakerfið.

Fyrir síðustu kosningar var að vísu boðuð hin svonefnda „þriðja leið“ af hálfu hv. framsóknarmanna, en hún átti að vera í því fólgin að losa fólk við allar hömlur í peningamálum og fjármálum, án þess þó að horfið yrði að höftunum að nýju. Ég verð nú að játa það, að ég hef aldrei getað skilið, í hverju þriðja leiðin væri fólgin, þannig að í rauninni sé aðeins um tvær leiðir að velja, haftakerfið eða þær hagstjórnaraðferðir, sem beitt hefur verið, síðan viðreisnin hófst. Ég veit ekki annað en sú sé hin almenna skoðun hagfræðinga. Og ekki alls fyrir löngu a.m.k. virtist svo sem margir í hópi þeirra, sem enn eru framámenn hv. Framsfl., hefðu sömu skoðun. Og þessu til sönnunar vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp stuttan kafla úr fjárlagaræðu, er hv. 1. þm. Austf. flutti haustið 1955. Þá sagði hann m.a:

„Ég vil að lokum minna á nokkur atriði, sem ég tel þýðingarmikil grundvallaratriði í þessum málum.

Ég held, að það skorti mikið á, að menn geri sér almennt grein fyrir því og það margir af þeim, sem mikið tala um frelsi og jafnvægi í atvinnurekstri, viðskiptum og framkvæmdum, hvað gera þarf, til þess að slíkt frelsi og jafnvægi geti staðið stundinni lengur. Ég held, að það skorti mjög skilning á því hér á landi enn þá, að jafnvægi í efnahagslífinu, frelsi í viðskiptum og framkvæmdum verður ekki viðhaldið stundinni lengur með því að hafa allar flóðgáttir opnar, alla enda lausa, ef svo mætti að orði komast. Frelsi í viðskiptum og framkvæmdum verður t.d. ekki til lengdar við haldið, nema tekið sé öruggum tökum á peningamálum og þau tök notuð til þess að styðja þetta frelsi, jafnvel þótt gera þurfi ýmsar ráðstafanir í því skyni, sem verða hlytu til þess, að allir fengju ekki öllu fram komið, sem þeir vildu helzt.

Það er vafalaust vonlítið að viðhalda jafnvægi, stöðugu verðlagi og frjálsum viðskiptum, ef rekstur ríkissjóðs er með greiðsluhalla eða bankarnir auka útlán sín umfram sparifjárinnlög og umfram það, sem framleiðslan eykst á móti. Og þegar efnahags- og atvinnulífið einkennist af miklum athöfnum, fullri atvinnu fyrir alla og jafnvel skorti á vinnuafli, þá er fyrst vonlítið, að jafnvægi eða frelsi haldist eða mögulegt sé að komast hjá stórfelldum höftum í mörgum greinum, ef ekki eru beinlínis gerðar ráðstafanir til þess eð vega á móti ofþenslunni með því að draga úr útlánum að tiltölu við innlán eða með öðrum hliðstæðum ráðstöfunum af hendi bankanna eða með því að hafa stórfelldan greiðsluafgang hjá ríkinu, með nýjum álögum, ef þyrfti, sbr. ný dæmi frá Danmörku einmitt um þessi mál, — greiðsluafgang, sem lagður væri til hliðar sem aukinn sparnaður, en ekki notaður fyrr en aftur vottaði fyrir samdrætti í efnahags- og atvinnulífinu.

Það er grundvallarskilyrði frelsis í viðskiptum og framkvæmdum, að ríkisvaldið telji sér jafnskylt að koma í veg fyrir ofþenslu í efnahagskerfinu og hitt að fyrirbyggja kyrrstöðu og atvinnuleysi.

Það er tómt mál að tala um frelsi í viðskiptum og framkvæmdum, ef ekkert er gert til þess að þjóðin fái skilið, hvað gera þarf, hvað verður t.d. á sig að leggja eða neita sér um, til þess að frelsið geti staðizt. Það kemur sem sagt ævinlega upp úr kafinu, að það er allsendis óhugsandi, að hvergi sé neitt aðhald í efnahags- og atvinnulífinu. Það verður einhvers staðar að vera miðlandi afl, ef svo mætti segja. Ef ekki er gengið beint framan að með höftum og notað leyfakerfi, eins og stundum hefur verið gert, en mönnum líkar ekki vel og velflestir telja neyðarúrræði, þá verður þetta miðlandi afl að njóta sín í gegnum bankapólitík ríkisins til þess að vinna gegn jafnvægisleysi í þjóðarbúskapnum.

Hér ber nefnilega allt að sama brunni. Það er ekki meira til ráðstöfunar en aflast. Það er ekki hægt að gera allt í senn, ekki hægt að nota sama féð nema einu sinni. Þetta verða menn að þora að segja og þora að skilja, þora að viðurkenna í orði og verki, bæði þeir, sem stíga fram og bjóðast til þess að sjá fyrir málefnum landsins, ef menn vilja þá til þess kjósa, og ekkert siður allur almenningur í landinu.“

Nú hefur vissulega mikið vatn runnið til sjávar síðan þessi ræða var flutt fyrir 12 árum síðan, en mér er þó ekki kunnugt um annað en að flestallir hagfræðingar hafi í dag svipaðar skoðanir á þessum málum og hv. 1. þm. Austf. hafði þá. Ég sá þess að vísu getið í einu málgagna hv. stjórnarandstöðu nú fyrir helgina, Frjálsri þjóð, að ungur framsóknarmaður, að mér skilst, hafi nýlega gefið út bók um efnahagsmál, er hann nefnir „þriðju leiðina“. Vera má, að þar sé kollvarpað öllum þeim skoðunum, sem fyrrv. form. Framsfl. hélt fram í ræðu þeirri, er ég hef vitnað í, en meðan ég hef ekki lesið umrædda bók og sannfærzt af þeim lestri, mun ég aðhyllast þær skoðanir, sem hv. 1. þm. Austf. tókst að klæða í svo alþýðlegan búning í fjárlagaræðu þeirri, sem ég vitnaði í.

Annars kemur þetta atriði vafalaust að einhverju leyti til umr., þegar rædd verður þáltill. frá hæstv. ríkisstj., sem nú liggur fyrir, um aðild Íslands að GATT, og mun þar koma fram, hverja afstöðu hv. stjórnarandstaða hefur til haftanna, því ég fæ ekki séð, þó að vísu sé heimilað í þessum GATT-samningi að beita innflutningshöftum, hvernig þau myndu verða framkvæmanleg með þeim skilyrðum, sem þar eru sett, a.m.k. ef um víðtæk höft er að ræða. En spurningin um aðildina að GATT snertir líka það mál, sem hér er til umr., eins og fram kemur í grg. fyrir frv.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. viðurkenndi þá miklu erfiðleika, sem nú steðja að íslenzku atvinnulífi vegna verðfalls afurða og aflabrests, og tók fram, að auðvitað gæti enginn kennt hæstv. ríkisstj. um það. Hins vegar átaldi hann hæstv. ríkisstj. fyrir það að hafa ekki haft nægan viðbúnað til að mæta slíku. Mér skildist, að með þessu ætti hann við það, að láðst hefði að safna nægilegum varasjóðum í góðærinu til hinna mögru ára. Flestir munu út af fyrir sig vera sammála um það, að slíkt sé æskilegt, en það er hægara um slíkt að tala en framkvæma það. Það hefði e.t.v. verið hægt með skattaálögum og öðrum slíkum aðgerðum að halda kaupgetu í skefjum og hindra það, að almenningur fengi til ráðstöfunar í þeim mæli, sem raun hefur orðið á, þá aukningu þjóðarframleiðslunnar, sem hefur átt sér stað, en ekki hefði það orðið vinsælt. Og sízt af öllu tel ég líklegt, að hv. stjórnarandstaða hefði veitt slíkum aðgerðum stuðning.

En það er hægt að gera annað til þess að fyrirbyggja að sams konar sveiflur í þjóðartekjum eigi sér stað í framtíðinni og nú hafa átt sér stað. Það er hægt að vinna að því að renna fleiri stoðum undir íslenzkt atvinnulíf en nú er um að ræða, þannig að við verðum ekki í sama mæli og nú háðir sjávarafla og sveiflum á verðlagi sjávarafurða á heimsmarkaðnum.

Það má e.t.v. álasa hæstv. núv. ríkisstj. og öllum þeim, sem verið höfðu við völd á undanförnum árum, fyrir það að hafa ekki aðhafzt nóg í því efni, en meira hefur þó verið gert af hálfu hæstv. núv. ríkisstj. en nokkurrar annarrar til þess að koma á fót nýjum útflutningsatvinnugreinum, og á ég þar við stóriðjuframkvæmdirnar, sem hv. stjórnarandstaða barðist gegn með hnúum og hnefum, eins og kunnugt er. En meðan við erum ekki lengra komnir í þeim efnum en raun er á, verðum við ofurseldir því, að slíkar sveiflur eigi sér stað í þjóðartekjum sem nú hafa orðið. Því miður forðar því enginn mannlegur máttur, að almenningur verði fyrir kjaraskerðingu í einni eða annarri mynd. Ríkisvaldið og stéttasamtökin eru þar í einum báti að því leyti, að hvorugur aðilinn hefur yfir neinum þeim tækjum að ráða, sem forðað geti slíku. Það, sem þessir aðilar hins vegar geta haft áhrif á, er það, í hvaða myndum kjaraskerðingin verður. Undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, er ekki hægt að tryggja kaupmátt launa, a.m.k. hvað heildina snertir, með samningum um vísitölubundið kaup. Þegar rauntekjur þjóðarheildarinnar minnka, hljóta líka rauntekjur einstaklinganna að skerðast á einn eða annan hátt.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. lét í ljósi áhyggjur um það, að ný verðbólgualda væri framundan og hafði þar, að mér skildist, í huga kröfur þær, sem ASÍ og verkamannasambandið hafa gert um áframhaldandi vísitölubætur á laun. Kom þar glöggt fram, eftir því sem ég skildi það, að hann hefði litla trú á því, að slíkar kröfur, jafnvel þó fram næðu að ganga, leiddu til raunhæfra kjarabóta, heldur aðeins til aukinnar verðbólgu. Eins og ég raunar þegar hef sagt, er ég honum, því miður, að óbreyttum núverandi aðstæðum sammála um það, að kjaraskerðingu almennings verði ekki forðað, hvað sem svo kann að gerast á vinnumarkaðnum. Þó álit ég að vísu, að e.t.v. sé minni hætta á því en oft hefur verið á undanförnum þenslutímum, að kauphækkanir verði að engu gerðar, vegna þess að atvinnurekendur velti þeim af sér yfir í verðlagið. Hin almenna samdráttarhneigð í þjóðarbúskapnum, sem stafar af keðjuverkunum frá hinum minnkandi tekjum í útflutningsatvinnuvegunum, ætti að gera slíkt erfiðara en áður, jafnvel þótt verðlagsyfirvöldin heimiluðu slíkt.

En það er önnur hætta, sem steðjar að, einkum við núverandi aðstæður, og hún er sú, að hækkun kaupgjalds leiði til minni eftirspurnar eftir vinnuafli en ella og auki því atvinnuleysi. Ég er ekki viss um, að allur almenningur, þ. á m. forystumenn launþegasamtakanna, geri sér fyllilega ljós þau breyttu viðhorf, sem í þessu efni hafa skapazt.

Nú veit ég, að einhverjir segja, að ef atvinnuvegirnir séu þess ekki umkomnir að greiða það kaup, sem verkalýðurinn telur viðunandi, eigi ríkisvaldið að koma til skjalanna og brúa það bil, sem þarna er um að ræða. Því miður eru allar slíkar kröfur á hendur ríkisvaldinu þó mjög vanhugsaðar að mínu áliti, Til þess að brúa bilið þarf auðvitað fjármuni, og þeir verða ekki sóttir annað en í vasa borgaranna, en allir þeir, sem aflögufærir eru, eru annaðhvort atvinnurekendur eða launþegar. Það er engum þriðja aðila til að dreifa, sem fær sé um að taka á sig neinar byrðar. Ef peningarnir eru sóttir til atvinnurekenda, gætu þeir auðvitað alveg eins tekið byrðarnar á sig í mynd hærri kaupgreiðslu, en séu skattarnir, sem á eru lagðir til þess að gera atvinnurekendum kleift að greiða hærra kaup, lagðir á launþega, þá þýðir það, að þeir eru sjálfir látnir greiða sér kauphækkanirnar, og slíkt eru ekki raunhæfar kjarabætur, það þarf ekki frekari skýringar við.

Nú má ekki skilja þetta þannig, að ég sé að segja, að stjórnarvöld eigi undir nokkrum kringumstæðum að láta það lönd og leið, ef til alvarlegs atvinnuleysis kæmi. Auðvitað ber þeim ávallt að gera sitt til þess að afstýra slíkri þróun, en allar aðgerðir í þeim efnum hljóta að verða þeim mun torveldari sem kaupgjaldið verður í meira misræmi við afkomu atvinnuveganna. Það er í þessu, sem hættan liggur.

Ég ræði svo ekki frekar hina almennu hlið þessara mála, en vík þá að sjálfu frv. Megintilgangur þess er sá, svo sem fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh. og grg. fyrir frv., að draga úr verðhækkunaráhrifum gengislækkunarinnar. Það er gert ráð fyrir, að verðlækkun vegna frv. nemi 1,59% eða rúmlega 3 vísitölustigum samkv. eldri vísitölu. Auðvitað vegur þetta ekki nema nokkuð á móti verðhækkunaráhrifum gengislækkunarinnar. En þess ber þó að gæta, að vafalaust hefði mátt greiða gömlu vísitöluna niður um meira en 3 stig með þeim fjármunum, sem í þessu skyni er fórnað. Ég vil einnig undirstrika það, að þótt tollalækkunin verði allmiklu minni heldur en upphaflega var ráðgert, hefði sú tollalækkun, sem frá var horfið, haft sáralítil frekari áhrif til lækkunar vísitölu. Þá hefur nokkuð verið komið til móts við óskir einstakra iðngreina, sem við sérstaka erfiðleika hafa átt að etja að undanförnu, um lækkun tolla á hráefnum, sem þær nota, og eru veigamestu till. af því tagi um lækkun tolla af hráefnum málmsmíðaiðnaðarins. Hefði auðvitað verið æskilegt að geta gengið lengra í því efni, en fjárhagsafkoma ríkissjóðs leyfir það ekki.

Það sjónarmið kom fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., að stefna bæri að því að mismuna meira í tollum en gert er nú, þannig að hækka tolla á miður þörfum varningi, en lækka hann meira en gert er á nauðsynjum. Þetta hljómar vafalaust vel í margra eyrum, en vandinn er sá að finna mælikvarða á það, hvað sé þarft og hvað óþarft. Meðan byggt var á gömlum vísitölugrundvelli frá tímum, þegar lífskjör þjóðarinnar voru lakari en nú, var gildi einstakra vörutegunda í grundvellinum nokkur mælikvarði í því efni. En öðru máli gegnir nú, þegar vísitalan byggist á meðalútgjöldum fjölskyldna með háar meðaltekjur, þannig að lúxusvörur verða þungar á metunum. Það gefur auga leið, að ef sú leið, sem hv. þm. benti á, yrði farin, og slíkt kemur auðvitað mjög til álita, ef um varanlega efnahagsörðugleika yrði að ræða, þá væri ekki hægt að nota núverandi vísitölu sem kaupgjaldsvísitölu. Það er ekki hægt að segja það samtímis, að þjóðin verði að neita sér um óþarfa á erfiðleikatímum og krefjast þess svo jafnframt, að sé óþarfinn tollaður eða skattlagður, verði fólk að fá það hætt upp með hækkuðu kaupi, svo að það geti þannig veitt sér jafnmikinn óþarfa og áður. Slíkt stangast augljóslega á. En auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu, ef vísitölufyrirkomulagið í launagreiðslum yrði tekið upp að nýju, að kaupgjaldsvísitalan yrði þá annað en verðlagsvísitalan. Svo hefur raunar oft verið áður.

Í sambandi við umr. um hátollun vöru, sem talin er óþörf, má ekki heldur loka augunum fyrir smyglhættunni. Ég er ósammála þeirri skoðun, sem mér virtist koma fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., að ekki megi láta það sjónarmið aftra sér frá því að ákveða tolla í samræmi við það, sem af öðrum ástæðum sé talið æskilegt. Að mínu áliti er það ekki nóg, að lagasetning sé æskileg af einhverjum hugmyndafræðilegum ástæðum. Hún þarf líka að vera framkvæmanleg, og bæði reynsla okkar og grannþjóða okkar hefur sýnt, að bezta vörnin gegn smygli er sú, að ákveða tolla þannig, að smyglið borgi sig ekki.

Það er nærtækt dæmi í þessu sambandi, sem margir hv. þm. kannast við, a.m.k. af þeim, sem nokkra setu hafa átt hér á hv. Alþ., að það var upplýst í sambandi við tollalækkunina 1961, sem þjónaði nú þeim aðaltilgangi að fyrirbyggja smygl, að þá hafði þáv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, beðið hagstofuna að gera athugun á því, hvað hún teldi, að notað væri mikið af kvensokkum, en þá hafði komið í ljós, að samkv. innflutningsskýrslum væri enginn innflutningur af þessari vöru. Nú höfum við sjálfsagt ekki orðið þess varir, að kvenfólkið gengi þá annaðhvort berfætt eða í ullarsokkum, heldur að allar notuðu þessa sokka. En það kom bara ekki fram á innflutningsskýrslum. Auðvitað hlaut sú athugun aldrei að leiða til nákvæmrar niðurstöðu, en hagstofan komst að þeirri niðurstöðu, að það væri mjög mikið magn, sem flutt væri inn af þessari vöru. Þegar tollurinn var svo lækkaður, fór innflutningurinn a.m.k. í verulegum mæli fram eftir eðlilegum leiðum, svo að lækkun á tollinum varð beinlínis til þess að auka tolltekjur ríkissjóðs, því að nú borgaði það sig ekki lengur að smygla þessari vöru í svo stórum stíl sem áður hafði verið, af því að alltaf fylgir því auðvitað áhætta að smygla vöru inn.

En í beinu áframhaldi af því, sem nú hefur verið sagt, vil ég nokkuð víkja að veigamesta lið tollalækkunarinnar. En það er lækkun á fatnaði, bæði fullunninni innfluttri vöru og hráefnum, en þau hafa einnig verið lækkuð í samræmi við það meginsjónarmið frv., að innlendur iðnaður yrði ekki verr settur en áður vegna tollalækkunarinnar. Í sambandi við þá tollalækkun hlýtur þá spurningu að bera á góma, sem rædd er í grg. fyrir frv., hvort ekki væri rétt að hafa tollalækkunina svo mikla, að verulega dragi úr þeim miklu fatnaðarkaupum Íslendinga erlendis, sem vitað er að eiga sér stað. Ef slíkt tækist, yrði af því verulegur gjaldeyrissparnaður, auk þess sem lækka mætti framfærslukostnað meira en ella, án þess að slíkt þyrfti að hafa tolltekjutap fyrir ríkissjóð í för með sér. En eins og grg. frv. ber með sér, hefur þó vegna tillits til innlendrar framleiðslu á hinum ýmsu stigum fatnaðargerðarinnar ekki þótt fært að ganga lengra í þessu efni en frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar er hér um svo stórt mál að ræða að mínu áliti, að mín skoðun er sú, að það beri að kanna til betri hlítar, hvort það sé ókleift af tæknilegum ástæðum að láta innlenda fatnaðargerð fá sína réttmætu hlutdeild í því, ef takast mætti að flytja fatnaðargerðina meira inn í landið, því að velunnarar fataiðnaðarins, eins og raunar annarrar framleiðslu fyrir innlendan markað, verða að gera sér það ljóst, að þessi framleiðsla lifir ekki á hárri tollvernd einni saman, ef fólkið kaupir svo vöruna eftir allt öðrum leiðum, eins og allir vita að á sér stað í þessu efni í mjög stórum stíl.

Þá ætla ég að lokum að víkja fáeinum orðum að þeim brtt., sem fluttar eru af n. í heild, og svo mínum brtt. á eftir. Brtt. frá fjhn., sem hún flytur sameiginlega, eru á þskj. 271.

1. brtt. við 1. gr. er sú, að taka upp toll á kaffi í smásöluumbúðum, 2 kg eða minna. Þetta er gert til að koma til móts við óskir kaffibrennslanna hér innanlands, en þar sem þær verða að greiða talsverðan toll af kaffiumbúðum, mundi þetta þýða, að þær stæðu verr að vígi með sitt kaffi heldur en kaffi, sem flutt er inn í umbúðum, en eins og kunnugt er, er kaffi tollfrjálst. N. taldi rétt að ganga til móts við þetta og flytur því þessa brtt.

2. brtt., að liðurinn „annar pappír“ falli niður, er aðeins til leiðréttingar, því að það voru mistök ein, að þessi liður kom inn í frv.

Varðandi 3. liðinn er um það að ræða, að felld er niður tollalækkun á vissum tegundum af trefjum og garni. Þetta er gert samkv. tilmælum sérfræðinga þeirra, sem undirbjuggu tollafrv., til þess að skapa að þeirra áliti meira samræmi á milli hinna mismunandi teppagerða, sem nú eru starfandi, og enn fremur bentu þeir á það, að ef hinar upphaflegu till. frv. í þessu efni yrðu samþ., væri þar með afnuminn eini votturinn af tollvernd, sem Hampiðjan nýtur, en það er stórt iðnfyrirtæki, eins og kunnugt er, sem hefur átt við allmikla örðugleika að etja.

Þá er 4. till. um það, að hækkun á tolli á fatnaði úr flóka falli niður. Upphaflega hefur verið gert ráð fyrir því, að fatnaður úr flóka yrði tollaður eins og annar fatnaður, þó að það hafi ekki verið áður. En við nánari athugun töldu sérfræðingarnir, að betra væri að hafa þetta óbreytt, svo að hér er um lækkun að ræða.

Hvað snertir 5. liðinn, er fyrsta atriðið þar aðeins tæknilegs eðlis. Þar er ekki um að ræða neina breytingu á tollstiga, en steypustyrktarjárnið verður þá í tveimur tollnúmerum eftirleiðis.

Að öðru leyti eru þær lækkanir, sem hér er um að ræða, taldar í samræmi við aðrar tollalækkanir, sem frv. gerir ráð fyrir járnsmíðaiðnaðinum til handa.

Hvað 6. liðinn snertir, hefur þar verið komið til móts við óskir frá Heyrnarhjálp um að lækka toll á kvikasilfurrafhlöðum fyrir heyrnartæki, og breytingin við 2. gr. er aðeins orðalagsbreyting til þess að gera ákvæðin skýrari.

Þá kem ég að mínum brtt. Þær veigamestu eru till. um lækkun á hráefnum til skógerðar. Erindi hafði borizt frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, en það mun vera eini aðilinn, sem nú rekur skógerð hér á landi. Þessi iðnaður hefur átt við mikla erfiðleika að stríða, og auk þess er það til samræmis við þá reglu, sem fylgt hefur verið um fatnaðariðnaðinn almennt, að hráefni til skógerðar verði lækkuð. Hér er að vísu um dálítið fjárhagsatriði að ræða, vegna þess að töluverður innflutningur á þessu á sér stað, en ég vænti þess, að hv. d. fallist á þau rök, sem ég hef fært fram fyrir þessari brtt., og samþykki hana.

2. brtt. mín er um lækkun á hráefni til miðstöðvarofna. Sérfræðingar þeir, sem undirbúið höfðu tollafrv., féllust á það, að athuguðu máli, að þessi lækkun væri í samræmi við annað, sem að hefði verið gert.

3. brtt. er aðeins leiðrétting á misritun, sem hafði átt sér stað.

Herra forseti. Samkvæmt því, sem ég hef sagt, legg ég til, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem fjhn. flytur á þskj. 271, og svo með þeim brtt., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 272.