12.02.1968
Efri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

121. mál, tollskrá o.fl.

Hjalti Haraldsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, að eins og þegar hefur verið lýst, erum við Alþb: menn samþykkir meginstefnu frv. eins og það liggur fyrir. En þar sem það hefur þegar verið gert ljóst, að ástæður ríkissjóðs eru þannig, að þessar tollalækkanir er ekki hægt að gera öðruvísi en að afla tekna í ríkissjóðinn á einhvern annan hátt og engin skýring gefin á því, hvernig þeirra skuli aflað, vil ég átelja það, að þm. skuli ekki gefnar frekari skýringar á því fyrr en eftir á, svo að þeir hafa enga möguleika á því að meta það, hvort skynsamlegt er að gera þessar lækkanir og láta þá ógerðar þær ráðstafanir, sem á eftir koma og óhjákvæmilega hljóta að valda röskun hjá almenningi. Þessi afstaða okkar til frv. þýðir þess vegna ekki það, að við samþykkjum þar með þær ráðstafanir, sem gerðar kunna að verða til þess að afla ríkissjóði tekna í staðinn.

Ég hefði viljað bera fram ýmsar brtt. við þetta frv., en þar sem því hefur verið lýst yfir, að engar breytingar verði samþykktar aðrar en þær, sem n. hefur þegar gert till. um, sé ég enga ástæðu til þess að tefja málið með slíku, en vona hins vegar, að innan skamms verði tollalöggjöfin í heild tekin til rækilegrar endurskoðunar, því að mér sýnist við lauslega athugun, að ekki veiti af slíku, eins stórgloppótt og hún virðist vera. Og þegar litið er á það frv., sem hér liggir fyrir, og þær breytingar, sem það gerir ráð fyrir, sýnist mér, að þegar sleppir meginbreytingum frv., sem eru í sambandi við vefnaðarvörur, fatnað, matvörur og ýmsar aðrar heimilisvörur, sé hún meira og minna tilviljanakennd og beri fremur keim af því, að einstaklingar og fyrirtæki hafi fengið aðstöðu til þess að ota sínum tota en að um samræmda heildarstefnu í þeim málum sé að ræða. Ég vil t.d. benda á, að engin einasta grein þessa frv. bætir aðstöðu landbúnaðarins að neinu verulegu leyti. Mun þó hæstv. ríkisstj. vera vel kunnugt um það, að þeirri atvinnugrein veitir ekki síður af verulegri aðstoð en öðrum atvinnugreinum.

Ég ætla svo ekki að tefja umr. um þetta frekar að sinni og læt máli mínu lokið.