12.02.1968
Efri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

121. mál, tollskrá o.fl.

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. sagði hér í nýlokinni ræðu sinni: „Þetta frv. gerir svo sem ekki neitt til að laga aðstöðu íslenzks iðnaðar.“ Ég er hér ósammála þessum hv. þm. En hann sagði einnig: „Þessi tollalækkun skiptir ekki sköpum fyrir íslenzkan málmiðnað.“ Þessu er ég einnig ósammála og undrar mig þessi umsögn.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeim breytingum, sem hér er lagt til að gera á aðflutningsgjöldum. Sérstaklega vil ég þar til nefna gjöld af járni, stáli og öðrum málmum, sem nú er lagt til að lækka úr 15% niður í 5%. Boltar og rær lækka úr 50% niður í 35% og sumar stáltegundir úr 35% niður í 5%. Ég lít á þessar tollalækkanir ekki aðeins sem fjárhagsatriði, heldur einnig sem mikilsverða stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. þess efnis, að ríkisvaldið sé ákveðið í því að standa með og aðstoða íslenzkan járniðnað í erfiðu atvinnuástandi. Ég er viss um, að þetta hefur tilætlaðan árangur. Það er nú stutt á milli stórra átaka, sem verða mega til þess að koma íslenzkum járniðnaði til bættrar aðstöðu. Ég á þar við ákvörðun hæstv. ríkisstj., að smíði strandferðaskipanna skuli framkvæmd á Akureyri. Ég hef heyrt, að Akureyringar líti á þessa ákvörðun mjög fagnandi. Á sama hátt fagna járniðnaðarmenn og málmiðnaðarmenn um allt land þessari ákvörðun um lækkun stál- og járntolla, sem nú eru ráðgerðir. Þessi ákvörðun verður án efa til þess, að skipaviðgerðir og margs konar stálsmíði færist nú meira í eðlilegan farveg og þessi þjónusta verði ekki sótt til erlendra stéttarbræðra, eins og íslenzkir járniðnaðarmenn hafa orðið að horfa upp á að undanförnu.

Önnur stórbreyting, sem frv. þetta gerir ráð fyrir og viðkemur íslenzkum iðnaði, er tollalækkun á fatnaði, úr 90% tolli niður í 65%. Þetta hefur vissulega í för með sér erfiða samkeppnisaðstöðu fyrir íslenzkar fatagerðir, en til að koma þar á móti eru lækkaðir tollar á dúkum til fatagerðar úr 65% og 50% niður í 40%. Þessi ráðstöfun gerir meira en vega á móti lækkun tilbúins innflutts fatnaðar. Sama er að segja um garn úr gerviefnum, sem fellt er nú niður úr 30% og 15% tolli í 10% og ullargarn fínt, sem ekki er spunnið í landinu, en notað til vefnaðar og í vélprjón, það er fellt úr 50% tolli í 25%. Hér er um verulegar lækkanir að ræða, sem eiga eftir að koma fram í lækkuðu verðlagi til neytenda. Tollskrárnefnd hefur að sjálfsögðu undirbúið lagafrv. þetta, en í n. þeirri á m.a. sæti framkvæmdastjóri Félags ísl. iðnrekenda. Í aths. með frv. er þess einnig getið, að fulltrúar bænda og launþega hafi fylgzt með málinu innan n. Má því segja, að samstaða sé með þessar lækkanir, svo langt sem þetta nær. Einnig má segja, að þeir starfsmenn Stjórnarráðsins, sem starfað hafa að þessu máli, hafi sýnt sérstaka sanngirni og tilhliðrunarsemi. Það hefði verið ánægjulegt, ef nú hefði verið hægt að ganga enn lengra með niðurfærslu á tollum margra nauðsynjavara og t.d. margs konar efnivara til bygginga. Upplýst hefur verið við umr. um þetta mál hér í hv. þd., að þetta hafi einnig verið fyrirhugað. Hins vegar viðurkenna allir sanngjarnir menn, að það sérstaka ástand, sem nú er hjá útflutningsatvinnuvegunum, leyfi ekki stærri skammt til lækkunar tolla nú, og í sjálfu sér má það teljast undravert, að tollalækkun þessi skuli nú vera möguleg. Ég vænti, að fyrsta tækifæri verði notað til þess að klífa enn meir niður stigann og fagna þessari byrjun.