13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

121. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir áramótin lýsti ég því yfir, að ætlunin væri sú að nota þær umframtekjur, sem ríkissjóði kynnu að falla til á árinu 1968, til þess að létta almenningi eftir föngum áhrif gengisbreytingarinnar og þá fyrst og fremst með það í huga að nota meginhluta þeirrar fjárhæðar til lækkunar tolla. Þegar gengið var frá tekjuáætlun fjárlaga eftir gengisbreytinguna, var áætlað, að afgangur kynni að verða allt að 250 millj. kr. á þessu ári, og var reiknað með, að bróðurpartinum af því fé yrði varið til tollalækkana.

Meðan þinghlé var, var unnið að endurskoðun tollskrárinnar með þetta sjónarmið í huga og þing boðað saman fyrr en ella, m.a. til þess að hægt væri að afgreiða tollamálið, enda var þá tilbúið frv. miðað við þá áætlun, sem hafði verið stuðzt við, þegar undirbúningur þess frv. var ráðinn, og var í því frv. gert ráð fyrir tollalækkunum, sem mundu hafa kostað ríkissjóð á þessu ári eða ársgrundvelli um 270 millj. kr. Ástæðan til þess, að þetta frv. var aldrei lagt fram, er einfaldlega sú, sem öllum hv. þdm. er kunnug, að gerbreyting varð á tekjuhorfum eða réttara sagt tekjuafgangshorfum ríkissjóðs á þessu tímabili, vegna þess að um áramótin kom í ljós, að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir bæði vegna bátaflotans og hraðfrystihúsanna umfram það, sem gengislækkunin rétti hag sjávarútvegsins, þannig að niðurstaðan af þeim athugunum hefur leitt til þess, að ríkisstj. hefur lofað að beita sér fyrir því, að Alþ. fallist á að veita sjávarútveginum viðbótaraðstoð á þessu ári, sem mun nema um 322 millj. kr.

Það lá í augum uppi, að útilokað var að ráðast í tollalækkanir fyrr en séð væri fyrir endann á þeim athugunum, sem fóru fram á hag sjávarútvegsins. Ég sé ekki ástæðu til að fara hér í þessu máli að ræða orsakir þess, að til þessarar viðbótaraðstoðar þurfti að grípa. Það eru í undirbúningi nú sérstök frv. um það efni til útskýringar á því vandamáli, sem koma munu fyrir Alþ. innan tíðar, og vildi ég því vonast til, að hv. þm. gætu fallizt á að hefja ekki í sambandi við þetta mál almennar umr. um vandamál sjávarútvegsins eða efnahagsmál, nema það sem strengilega er nauðsynlegt til að útskýra viðhorf manna til þessa frv., og skal ég því ekki efna til umræðu um það af minni hálfu. En þessar niðurstöður, þessar 320 millj. kr. rúmar, sem gert er ráð fyrir, að verja þurfi til sjávarútvegsins, hafa að sjálfsögðu valdið því, að ekki varð um að ræða neinn þann tekjuafgang hjá ríkissjóði, sem menn gerðu ráð fyrir, þegar þau orð voru mælt, sem ég áðan sagði, að ég hefði viðhaft hér við lokaumræðu fjárlaga. Hvort menn vilja, eins og sumir hafa sagt, telja það vanefndir eða ekki, það verður hver að leggja út á þann veg, sem honum sýnist, en vitanlega hlýtur hver maður að skilja það, sem á það vill horfa með raunsæi, að þessi orð, sem mælt voru í sambandi við fyrirhugaðar tollabreytingar, byggðust á því viðhorfi, sem þá var, og horfum varðandi tekjuafgang á árinu, miðað við þau útgjöld, sem vitað var, að þá voru líkur til að ríkið þyrfti að standa undir.

Þessi nýju viðhorf hafa að sjálfsögðu leitt til þess, að annað tveggja varð að gera: Að falla frá tollabreytingunum eða þá að gera sérstakar ráðstafanir til þess að mæta þeim, annaðhvort að öllu leyti, eins og upphaflegt frv. miðaði við, eða taka málið til endurskoðunar og íhuga, hvort hægt væri að finna einhverja millileið í þessu máli. Niðurstaðan af þessum athugunum og hugleiðingum öllum er sú, sem felst í því frv. til breytinga á tollskránni, sem hér liggur nú til 1. umr. og felur í sér tollalækkanir, sem á ársgrundvelli mundu nema 159 millj. kr.

Þegar tollskrárnefndinni, sem var falið að undirbúa frv. til breytinga á tollskránni, var fengið og skilgreint sitt verkefni, var það á þeim grundvelli, að n. skyldi í meginefnum stefna að því, að tollabreytingarnar yrðu gerðar á nauðsynjavörum almennings, þeim vörum, sem verka þyngst á vísitölu. Ég hygg, að það sé nokkurn veginn samdóma skoðun manna, að nýja vísitalan sé raunhæft mat á neyzluvenjum almennings í dag, þannig að það feli ekki í sér neina fölsun, þó að áherzla sé lögð á að lækka vísitöluvörurnar, það sé í rauninni nákvæmur — sá nákvæmasti mælikvarði, sem við höfum í dag um það, hvaða vörur það séu, sem almenningur helzt notar, þannig að því meiri sem lækkun vísitölunnar er, því meiri kjarabót sé það fyrir allan almenning.

Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga til þess að skilja það, hvernig þetta frv. er samið. Eftir að nauðsynlegt reyndist að breyta frv. og miða við lægri fjárhæð, var á það lögð áherzla að taka út úr frv. þær breytingar, sem höfðu minnsta þýðingu varðandi neyzluvörurnar, enda kemur það á daginn, að upphaflega frv. miðaði við, að vísitöluáhrifin yrðu 1,65 stig, en frv. eins og það er nú miðar við, að vísitöluáhrifin séu sáralítið minni eða þau séu um 1.59 stig.

Varðandi viðhorfið til íslenzks iðnaðar er það að segja, að frv. er ekki ætlað að raska stöðu hans. Því var ekki ætlað að auka tollvernd iðnaðarins og ekki heldur að draga úr henni. Það er ljóst, að gengisbreytingin út af fyrir sig hefur stóraukið vernd íslenzks iðnaðar, frá 16–33%, þannig að hún hefur stórlega bætt aðstöðu hans, og það var ætlunin að fylgja því meginsjónarmiði í tollalagabreytingunni að gera stöðu iðnaðarins ekki lakari, þannig að þar sem fullunnar vörur hafa verið lækkaðar, hafa hráefni verið lækkuð um sömu prósentutölu, og reyndar er hlutfallið ekki alls staðar það, heldur iðnaðinum meira í hag, því að í ýmsum greinum vefnaðariðnaðarins er beinlínis um aukna tollvernd að ræða. En meginatriði málsins er það, að með þessu frv. var þess enginn kostur að taka afstöðu til vandamála iðnaðarins.

Öllum hv. þdm. er það kunnugt, að tollabreytingar hafa yfirleitt hnigið í þá átt að draga úr tollvernd iðnaðarins. Það er ekki gert heldur með þessu frv. Afstöðuna til iðnaðarins þarf að marka eftir langtíma prógrammi, sem nú er unnið að og þá gert ráð fyrir því, að tollabreytingar verði í einhverjum ákveðnum áföngum og þá jafnframt gengið út frá því, að lækkun hráefnatolla komi á undan, til þess að iðnaðurinn fái nauðsynleg aðlögunarskilyrði. En þetta frv. er sem sagt enginn þáttur í því vandamáli, og iðnaðurinn hefur í verulegum efnum status quo miðað við þetta frv. Það hefur verið höfð náin samvinna við samtök iðnaðarins, vegna þess að okkur var ljóst, að það var fyrst og fremst frá þeim aðila, sem búast mátti við gagnrýni, og hafa þeir átt aðild að tollskrárnefndinni, bæði fastafulltrúa þar og einnig sérstaka fulltrúa vegna þessarar athugunar, og ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða það, að eins og niðurstaða frv. er, geti iðnrekendur eftir atvikum sætt sig við þá niðurstöðu, enda hafa ekki komið mótmæli frá þeim varðandi málið. Jafnframt vann fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands með tollskrárnefnd að undirbúningi málsins og fulltrúi frá Stéttarsambandi bænda fékk aðstöðu til þess að fylgjast með allri meðferð málsins.

Sú meginstefna, sem ég áðan gat um, var að taka ekki iðnaðarvandamálin sérstaklega til meðferðar né önnur þau vandamál, sem við er að fást og ekki beint stafa af þessari ástæðu, heldur ýmsum öðrum. Skal ég þar nefna t.d. pappírsvandamálið, bókaútgáfu, umbúðavandamál og annað. Þetta var ætlunin að reyna að leysa, ef við hefðum haft það aukna fé eða þá stærri upphæð til meðferðar, sem ég gat um, en þessum málum voru engin tök á að sinna, eftir að sýnt var, að við yrðum að binda okkur við lægri fjárhæð. En varðandi iðnaðinn hefur þó ein undantekning verið gerð frá þeirri meginreglu að líta ekki sérstaklega á vandamál hans umfram það, sem felst í þeirri sérstöku vernd, sem gengisbreytingin veitir, og það eru vandamál málmiðnaðarins. Það er ljóst, að vandi hans er mjög brýnn, og hefur mikið verið um það rætt á undanförnum mánuðum. Það kom einnig í ljós, að fulltrúi Alþýðusambands Íslands bar sérstaklega fyrir brjósti, að réttur yrði hagur þessarar iðngreinar, þó að það kynni að leiða til þess, að mínna fé væri til ráðstöfunar til þess að lækka toll á neyzluvörum, og að öllu athuguðu þótti rétt að taka með í tollabreytinguna ýmsar af helztu nauðsynjavörum járnsmíðaiðnaðarins.

Frv. sjálft var reynt að setja upp eins aðgengilega fyrir hv. þm. og auðið væri og m.a. með því móti, að prentaðar eru á þessu stigi með frv. allar breytingarnar í hverju einstöku tollnúmeri, hverjir hinir eldri tollar eða gildandi tollar eru og síðan till. um hina nýju tollflokka, þannig að það verður mjög auðvelt um samanburð í þessu efni. Meginlækkun frv. er á ýmsum greinum fatnaðar og vefnaðarvöru og eru um 2/3 hlutar af tollalækkuninni á þeim vörum. Annar höfuðflokkur eru ýmiss konar matvæli og í þriðja lagi ýmsar hreinlætisvörur heimilanna. Auk þess eru það svo járnvörur. Jafnframt falla inn í þetta dæmi sérstakar tollabreytingar, sem gera þurfti í sambandi við samninga Íslands á vegum GATT, en þeir samningar og viðræður fóru fram á s.l. ári og leiddu til þess, að það tókst að fá vissar tollalækkanir bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, en að sjálfsögðu urðum við að bjóða tollabreytingar á móti og meginhluti þeirra tollabreytinga hefur fallið inn í það sjónarmið, sem við höfum fylgt við samningu þessa frv., þannig að þar féllu þessi sjónarmið saman, en að svo miklu leyti sem það er ekki, hefur þurft að taka upp sérstakar heimildir til tollalækkunar á þeim vörum, sem skuldbinding var fyrir að framkvæma lækkun á í sambandi við þær viðræður. Þá er enn fremur leitað heimilda til þess að festa tolla á allverulegum fjölda tollskrárnúmera, sem einnig byggist á aðild okkar að GATT, því að við erum þá skuldbundnir til þess að hækka ekki tolla á mjög mörgum vörum, og eru það gagnkvæm fríðindi, vegna þess að GATT-löndin eru bundin á sama hátt til þess að hækka ekki tolla á vörum gagnvart okkur.

Auk þeirra sjónarmiða, sem ég gat um áðan, að lækka beinlínis tolla á almennum nauðsynjavörum og auk hinnar sérstöku tollalækkunar vegna járnvöruiðnaðarins er gert ráð fyrir tollalækkunum í þá átt að draga úr smygli einmitt á vörum, sem mest hætta er á, að sé smyglað til landsins og mjög erfitt að hafa eftirlit með, svo sem gulli, ýmsum skartvörum og öðru slíku. Það er ekki reiknað með, að þetta hafi áhrif til tekjutaps fyrir ríkið, því að gert er ráð fyrir, að það skili sér þá í betri tollheimtu. Og að lokum er framkvæmd allsherjartollalækkun á hæstu tollflokkum, þannig að hæsta tollprósenta er færð úr 125% niður í 100%. Þetta hefur í för með sér mjög óverulegt tolltap, en þessi tollhæð er algerlega óeðlileg og raunar mjög óeðlilegt að hafa tollinn 100%, en miðað við þá aðstöðu, sem var, var ekki auðið að fara lægra með hæstu tolla en þetta. Ég skal taka það fram, að það var skoðun okkar, að það hefði verið æskilegt að lækka t.d. toll á fatnaði mun meira en gert er ráð fyrir í þessu frv. En þá komum við að vandamáli, sem við mætum raunar í mörgum greinum, þegar um er að ræða spurninguna um lækkun tolla, og það eru vandamál íslenzks iðnaðar. Og hér er einmitt um dæmigert vandamál að ræða, sem er kannske verra viðfangs en nokkrir aðrir vöruflokkar í landinu, og það stafar af því, að hér er um að ræða margþættan íslenzkan iðnað.

Við höfðum hugsað okkur að fara með tolla á tilbúnum fötum niður í 50% úr 90%. Og það var skoðun okkar, að ef farið væri þetta langt niður, þá mundi það draga verulega úr kaupum manna erlendis, sem nú eru geysimikil, eins og allir vita. En það kom á daginn, að þetta var ekki framkvæmanlegt, vegna þess að þá ráku iðngreinarnar sig upp undir, eins og má segja. Þó að við lækkuðum hlutfallslega tolla á innfluttum fataefnum, þá komu til greina hagsmunir dúkagerðanna hér heima, sem mótmæltu því, að sú tollalækkun ætti sér stað, og ef átti að lækka hráefni til þeirra, þá komu mótmæli frá garnframleiðendum þannig að hér var um mjög erfitt vandamál að ræða, og niðurstaðan varð sú, að ekki væri auðið á þessu stigi málsins að koma við frekari tollabreytingum en hér er gert ráð fyrir.

Að öðru leyti hefur verið lögð megináherzla á það, að tollabreytingarnar væru þess eðlis, að þær röskuðu ekki samræmi í tollskránni, og þess vegna hafa ýmis númer verið tekin hér með, sem kannske strangt tekið þjóna ekki því hlutverki, sem ég gat um í upphafi míns máls að væri aðalleiðarvísirinn í samningu þessa frv., en er nauðsynlegt að taka með til þess að ekki raskist eðlileg hlutföll og samræmi í tollskránni, þannig að ég hygg, að fullyrða megi, að hér sé um að ræða samræmdar aðgerðir, sem ekki eigi að skapa vandræði eða leiða til óeðlilegrar tollflokkunar við aðrar vörur, sem ekki er breytt tollum á.

Ég kem þá að þeim þætti málsins, hvernig áformað er að mæta tekjuþörfinni eða tekjutapinu, sem leiðir af þessu frv., og eins og ég gat um í upphafi, þá varð að gera sérstakar ráðstafanir til tekjuöflunar, vegna þess að ekki aðeins var búið að eyða öllum hugsanlegum greiðsluafgangi ríkissjóðs til aðstoðar við sjávarútveginn, heldur vantar í rauninni 50 millj. kr. þar til viðbótar, auk þess sem mæta verður tekjutapi vegna þessarar löggjafar, þannig að það eru um 200 millj. kr., sem þarf að afla með einhverjum hætti til þess að mæta hinni nýju tekjuþörf ríkissjóðs. Til þess að standa straum af útgjaldaauka vegna þessa frv. er gert ráð fyrir því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs skv. fjárlögum þessa árs um 100 millj. kr. Í annan stað hefur áfengi og tóbak verið hækkað í verði, þannig að gert er ráð fyrir, að það geti skilað til þessara þarfa um 50 millj. kr. Hér er að vísu tæplega um þá upphæð að ræða, sem tollalækkuninni nemur, en er þó það nærri, að ekki þykir ástæða til að vera að elta ólar við það, því varla er nú hægt að áætla það öllu nákvæmara.

Menn munu auðvitað spyrja að því, sem eðlilegt er, hvernig hægt sé að draga úr útgjöldum ríkissjóðs skömmu eftir að fjárlög eru afgreidd, og það er eðlilegt, að það sjónarmið komi fram, og ég hef lýst því í Ed., að vitanlega sé þar ekki um auðveldan hlut að ræða. Ef það væri auðvelt, þá hefði það auðvitað verið mjög vítavert af ríkisstj. og mér þá sérstaklega sem fjmrh. að hafa ekki þegar dregið úr útgjöldum ríkissjóðs um þessar 100 millj. Það er því ljóst, að þessum 100 millj. kr. sparnaði verður ekki náð nema með því að gera allverulegar breytingar á ýmsum liðum fjárlaga frá því, sem nú er, og jafnvel draga úr ýmissi þjónustu og jafnframt að takmarka fjárveitingar til ýmissa hluta, sem telja má æskilegt undir venjulegum aðstæðum, að fé sé veitt til. Hins vegar gefur auga leið, að það verður ekki um annað að ræða, en að hefjast nú handa um mjög víðtæka athugun á möguleikum ríkisins til sparnaðar, ekki aðeins í sambandi við þetta frv., heldur einnig í sambandi við samningu fjárlaga fyrir næsta ár, því það er alveg ljóst, að tekjuhorfur eru það slæmar nú og engar líkur á því, að um slíkan tekjuauka geti orðið að ræða fyrir þjóðarbúið í heild, að ekki þurfi að gera mjög víðtækar ráðstafanir á næsta hausti til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, ef ekki á að þurfa að grípa til verulegra skattahækkana, sem auðvitað er hreint vandamál að gera, eins og sakir standa. Og þetta leiðir af sér það, að menn verða að sjálfsögðu að vera reiðubúnir því, að draga verði úr útgjöldum til ýmissa þeirra þarfa, sem við mundum vafalaust allir undir venjulegum kringumstæðum telja æskilegt að verja fé til.

Ég er ekki reiðubúinn á þessu stigi málsins að gera grein fyrir þessum sparnaði, enda hygg ég, að þm. geri sér ljóst, að þess sé naumast að vænta. Stjórnvöld hafa að sjálfsögðu gert sér grein fyrir því, að þetta væri hægt í meginefnum, en það eru enn þá ýmsir liðir, sem eru í athugun og gera það að verkum, að ég get ekki sundurgreint hér þá liði fjárlaganna, sem ætlunin er að spara á. En fyrst og fremst er ætlunin, að það sé á ýmsum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs, en ekki beinni fjárfestingu, þótt ekki verði að vísu hjá því komizt að einhverju leyti að skerða hana líka.

Frv. um þetta efni mun verða lagt fyrir Alþingi svo fljótt sem auðið er, og verður undirbúningi þess máls hraðað með öllum tiltækum ráðum.

Herra forseti. Eins og ég áðan sagði, hefði ríkisstj. gjarnan viljað verja meira fé til tollabreytinga. Það er brýn nauðsyn að stefna að tollabreytingum til lækkunar, og það verður að sjálfsögðu að halda áfram endurskoðun tollskrárinnar með það fyrir augum. Við höfum allir gert okkur grein fyrir því, að vandamál þjóðarinnar, ekki sízt útflutnings hennar, eru m.a. fólgin í tilkomu tollabandalaganna, og við verðum með einhverjum hætti að fá samstarf og samvinnu við þessi bandalög, sem gerist auðvitað ekki á neinn annan veg en þann, að við verðum, ef þau falla frá tolli á okkar vörum, að bjóða fram tollalækkanir á móti af okkar hálfu. Þetta leiðir til þess, að það verður að halda áfram athugun tollamálanna með það í huga að leysa þennan vanda, og eins og ég sagði í upphafi míns máls, er nú meðfram unnið að heildarathugun á því vandamáli í sambandi við þær viðræður, sem öllum hv. þm. er kunnugt um að fara nú fram á vegum nefndar, sem sameiginlega hefur verið tilnefnd af þingflokkunum til þess að athuga, hvort rétt væri, að Ísland gerðist aðili að EFTA.

Ég sé þó ekki ástæðu, herra forseti, til þess að fara fleiri orðum um málið, nema tilefni gefist til. Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að þessi hv. d. gæti fallizt á að hraða afgreiðslu málsins svo sem verða má, og helzt á þann hátt, að við gætum afgreitt það hér úr deildinni á fimmtudag. Það er orðið mjög bagalegt, af skiljanlegum ástæðum, hvað afgreiðsla málsins og meðferð hefur dregizt, að vísu ekki hér í þingi, en af þeim ástæðum, sem ég gat um áðan, að það varð að sjá fyrir endann á þessu útgjaldamáli, til þess að hægt væri að gera sér grein fyrir því, hvað við gætum lagt til tollabreytinga.

Í hv. Nd. var mjög ánægjuleg samstaða um málið af allra hálfu. Þar var engin brtt. gerð við frv., þó að menn lýstu því yfir, að þeir hefðu margvísleg áhugamál, sem þeir gjarna hefðu viljað koma fram og teldu nauðsynlegt að taka til athugunar í sambandi við tollamálin yfirleitt, en menn vildu ekki verða til þess að skapa vandræði í sambandi við meðferð þessa sérstaka máls. Og einu brtt., sem þar voru fluttar, voru minni háttar lagfæringar á frv., sem gerðar voru af fjhn. sameiginlega og í samráði við rn. Þar sem nefndirnar hafa að minni ósk unnið saman að undirbúningi málsins og fengið nokkuð rúman tíma til þess í Ed., vildi ég leyfa mér að vænta þess, að hv. þdm. hér teldu það ekki ósæmilega beiðni af minni hálfu, þótt ég fari fram á þessa hröðu afgreiðslu málsins hér.

Ég leyfi mér þá, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.