13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

121. mál, tollskrá o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þótt Framsfl. sé samþykkur þessu frv. og muni greiða fyrir skjótri afgreiðslu þess, eins og hann hefur gert áður í ákveðnum málum, sem ríkisstj. flytur, þá verður ekki hjá því komizt við þessa umr. málsins að ræða nokkur atriði, sem snerta það. Ég vildi þá fyrst víkja að þeim misskilningi, sem virðist vera nokkuð almennur, að menn líti á þetta mál eins og um raunverulega tollalækkun sé að ræða á þann veg, að heildartollarnir, sem ríkið leggur á landsmenn, verði lægri í krónutölu heldur en þeir áður voru. Þetta er mikill misskilningur, sem stafar af því, að menn gera sér ekki fyllilega ljóst, að gengislækkunin hafði þau áhrif, að grunnurinn, sem tollarnir eru lagðir á, hækkar yfirleitt um 33% og þannig hækka tollarnir stórkostlega af þeirri ástæðu. Og það, sem hér er verið að gera, er í raun og veru ekki annað en það, að það er verið að gefa eftir nokkurn hluta af þessari hækkun. En þrátt fyrir það verða heildar-tollarnir miklu hærri heldur en þeir áður voru. Lítið dæmi um þetta er það, að skv. fjárlögum og eftir afgreiðslu þessa máls verða áætlaðir heildartollar talsvert hærri á árinu 1968 heldur en 1967, enda þótt sú innflutningsáætlun, sem miðað er við í ár, sé miklu lægri en innflutningsáætlunin, sem fjárlögin 1967 voru byggð á, þannig að ef við afgreiðslu fjárlaganna 1968 hefði verið lögð til grundvallar sama innflutningsáætlun og við afgreiðslu fjárlaganna 1967, þá hefði heildarupphæð tollanna hækkað um mörg hundruð millj. kr. En þrátt fyrir það, að innflutningsáætlunin, sem fjárlögin í ár byggjast á, er stórkostlega skorin niður, verður heildarupphæð tollanna, sem lögð er á á þessu ári, alltaf a.m.k. 100 millj. kr. hærri en hún var í fjárlögum 1967. Það er mjög nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir þessu, að hér er raunverulega ekki verið að lækka tolla, heldur aðeins að gefa eftir nokkurt brot af þeirri hækkun tollanna, sem hefur hlotizt af gengisfallinu.

Næsta atriði, sem ég vildi víkja að, er það, að meðferð þessa máls er ljós sönnun þess, að núv. ríkisstj. veit minna um efnahagsmál og minna um atvinnumál heldur en nokkur önnur ríkisstj. hefur áður gert í þessu landi. Þó mætti halda, að þessi ríkisstj. hefði betri aðstöðu til að dæma um þessi mál heldur en fyrirrennarar hennar, því að í hennar tíð hafa sprottið upp tvær stofnanir, sem nú kosta í rekstri tugi milljóna, þar sem eru Seðlabankinn og Efnahagsstofnunin, og það á að vera aðalverkefni þessara stofnana að veita ríkisstj. góðar og greinilegar upplýsingar um efnahags- og atvinnumál. Þrátt fyrir rekstur þessara stofnana, sem kostar tugi milljóna á ári, liggur það ljóst fyrir, að núv. ríkisstj. veit minna um efnahagsmál og atvinnumál en nokkur önnur íslenzk ríkisstj. hefur áður gert.

Og þetta er ákaflega auðvelt að sanna, því í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin gerðist atburður, sem ég vil fullyrða að sé alveg einstæður í þingsögunni. Ríkisstj. framkvæmdi þá gengislækkun, eins og kunnugt er, og hún lét þau ummæli falla margsinnis í sambandi við þessa gengisfellingu, að hún væri betur undirbúin heldur en nokkur önnur gengisfelling, sem hér hefði áður átt sér stað. M.a. lét hæstv. fjmrh. mjög ákveðin ummæli falla um þetta efni. Og það var svo byggt á þessari vandlega undirbúnu gengisfellingu við afgreiðslu fjárlaganna, þegar felldar voru niður úr fjárlagafrv. till. um framlög til sérstakra útflutningsuppbóta handa sjávarútveginum, uppbóta, sem skiptu nokkur hundruðum millj. kr. Jafnframt var gengishagnaði sjávarútvegsins ráðstafað með alveg sérstökum hætti, því að talið var, að hann þyrfti ekki lengur á honum að halda frekar en útflutningsuppbótunum úr ríkissjóði, og þessu til viðbótar var gefið alveg ákveðið fyrirheit um, að eftir áramótin yrði lagt fram frv., sem fæli í sér 250 millj. kr. tollalækkun, miðað við það, að tollstigarnir væru óbreyttir.

Sem sagt, ríkisstj. taldi sig hafa alveg örugga vitneskju um það fyrir áramótin, að það mætti fella niður allar útflutningsuppbætur úr fjárlögunum, það mætti ráðstafa gengishagnaði sjávarútvegsins með alveg sérstökum hætti og það væri óhætt að lofa þjóð og þingi 250 millj. kr. tollalækkun. En hvað gerist svo eftir áramótin, hvað gerist svo, þegar þingið kemur saman? Þá lýsir ríkisstj. yfir því, að það sé ekki aðeins ókleift að falla frá útflutningsuppbótunum, heldur verði að taka þær upp í næstum jafnríkum mæli og áður var. Hún tilkynnir það jafnframt, að hún geti ekki staðið við loforð sitt um tollalækkunina, heldur verði hún talsvert miklu minni, 100 millj. kr. minni heldur en lofað var.

Þetta sýnir það glögglega, að ríkisstj. hefur ekki hugmynd um, hvar hún stendur eða hvernig efnahagsmálum og atvinnumálum þjóðarinnar er komið. Hún segir eitt fyrir áramótin og annað eftir áramótin, og enn er hún áreiðanlega þannig stödd, að hún hefur ekki hugmynd um, hvernig þessum málum er varið í raun og veru og hvaða ráðstafanir hún kann að þurfa að gera í sambandi við þau, þegar kemur fram á árið.

Ég held, að með því að benda á þessa reynslu sé alveg hiklaust hægt að fullyrða, að það hefur aldrei verið ríkisstj. í þessu landi, sem hefur vitað eins lítið um efnahagsmál og atvinnumál og núv. ríkisstj. Og það er m.a. þetta algjörlega þekkingarleysi hennar, sem veldur því, að það á að vera komið að hennar endadægri, og hún á að sjá sóma sinn í því að segja af sér, því að stjórn, sem ekki þekkir þau viðfangsefni, sem hún á að fást við, hefur engan rétt til þess að sitja áfram.

En þó tel ég ekki, að það sé þetta, sem sé verst í þessari málsmeðferð ríkisstj. Það tel ég verst í þessari málsmeðferð ríkisstj., að hún hefur gefið ákveðið fyrirheit, ákveðið loforð, sem hún ætlar sér ekki að standa við nema að mjög takmörkuðu leyti.

Það hefur verið sagt og því miður er það sennilega rétt, að virðingu Alþingis og virðingu stjórnmálamanna og virðingu fyrir stjórnmálum hefur yfirleitt heldur verið að hraka á undanförnum árum, og í kjölfar þess hefur farið áhugaleysi í sambandi við stjórnmál, ekki sízt hjá ungu fólki. Og það er alveg fullkomin ástæða til þess, að við hér á þessum stað reynum að gera okkur grein fyrir því, hvað það er, sem þessu veldur. Ástæðurnar til þess eru að sjálfsögðu margar og verða ekki útskýrðar í stuttu máli. En það, sem ég hygg, að allir geti verið sammála um, að sé einna veigamest, til þess að borin sé virðing fyrir Alþingi, virðing fyrir ríkisstj., virðing fyrir stjórnmálum og stjórnmálamönnum, er það, að þeir aðilar, sem hér halda uppi merkinu, séu reyndir að því að standa við orð sín, að það megi treysta því, sem þeir lofa, og þeim fyrirheitum, sem þeir gefa. Þegar svo er komið, að þjóðin telur sig ekki lengur geta treyst orðheldni alþingismanna eða orðheldni ríkisstj., þá fer eðlilega í fótspor þess bæði virðingarleysi fyrir þinginu og virðingarleysi fyrir stjórnmálum almennt. Og ef við lítum yfir liðna sögu í þessum efnum, þá verður okkur ljóst, að það var mikið keppikefli stjórnmálamanna hér áður fyrr að standa við þau loforð og þau fyrirheit, sem þeir gáfu. Og ef þeir gátu ekki staðið við þau, þá töldu þeir hyggilegra og réttara af sér að víkja og lofa öðrum að taka við heldur en að verða reyndir að augljósum vanefndum.

Ég minni á það t.d. á sínum tíma, þegar Sigurður Eggerz sagði af sér ráðherramennsku, þegar honum tókst ekki að fá það mál fram, sem hann hafði gert að aðalatriði sinnar ráðherramennsku. Ég minni ennfremur á það, að 1938 fór Haraldur Guðmundsson úr ríkisstj., vegna þess að hann taldi sig þá ekki geta staðið við það, sem hann hafði haldið fram og lofað af hálfu síns flokks. Stefán Jóhann Stefánsson gerði slíkt hið sama árið 1942 og undir forystu hans hafnaði Alþfl. einnig stjórnarþátttöku 1949, þegar hann taldi sig ekki geta staðið við þá stefnu, sem flokkurinn hafði haldið fram og barizt fyrir.

Af hálfu Framsfl. hefur hið sama þrásinnis verið gert. Framsfl. fór úr ríkisstjórn sumarið 1942, þegar hann var ósamþykkur þeirri stefnu í kjördæmamálinu, sem þá var verið að framkvæma og hann vildi ekki bera ábyrgð á. Hann átti einnig þátt í því af sömu ástæðum, að stjórnarsamstaða þriggja flokka var rofin 1949, aftur 1956 og enn fremur því, að vinstri stjórnin rofnaði 1958, vegna þess að hann taldi sig ekki geta komið þeirri stefnu fram, sem hann hafði lofað og taldi, að annaðhvort ætti hann að reyna að framfylgja ellegar þá að víkja úr stjórnarsessi.

En það er annað atvik, sem mér finnst rétt að minna á í þessu sambandi, og sem ég fyrir margra hluta sakir tel eitt hið athyglisverðasta og eftirbreytnisverðasta í þingsögunni varðandi orðheldni, sem ég hef kynnzt eða ég hef lesið um. Og ég álít, að hæstv. fjmrh. ætti alveg sérstaklega að kynna sér þann atburð, vegna þess að aðalsögumaðurinn í því máli var, að ég hygg, sá maður, sem hann vill nú helzt líkjast sem fjmrh., en það var Jón Þorláksson.

Í sambandi við kjördæmabreytinguna, sem gerð var 1932, var gert sérstakt samkomulag milli Alþfl. og Sjálfstfl. og að vísu Framsfl. líka að lokum, en Jón Þorláksson var einn aðalsamningsmaðurinn af hálfu síns flokks. Svo þegar kom að því í framhaldi af þessu á þingi 1933 að setja ný kosningalög í samræmi við þá stjórnarskrárbreytingu, sem áður varð að samþykkja, þá reis upp ágreiningur um eitt atriði. Alþfl.-menn héldu því fram, að þar hefði verið brugðizt ákveðnu samkomulagi um það, hvernig ætti að úthluta uppbótarsætum, og Jón Þorláksson taldi, að skilningur Alþfl. væri réttur, sem hann nú líka vafalaust var. En hins vegar var það stór hluti Sjálfstfl. og minni hlutinn í Framsfl., sem átti þátt í því að breyta kosningalögunum frá því, sem þetta samkomulag hljóðaði um. Og sú breyting var gerð á kosningalögunum í Nd.

Þegar málið kom til Ed., þar sem Jón Þorláksson átti sæti, flutti hann um það að vísu stutta ræðu, en ljósa, eins og hans var vandi, og þetta er að mínum dómi einhver bezta ræða, sem hægt er að finna í þingtíðindunum. Jón komst þar svo að orði, að hann vildi ekki nota neinar hártoganir til þess að hlaupa frá gefnum loforðum. Hann hefði haft það fyrir vana eð efna gefin loforð og hann reyndi heldur að efna meira en minna, ef geta stæði til. Hann sagði jafnframt, að hann hefði hugsað sér að skilja svo við þingstörf, að hann héldi þessa reglu líka í opinberu lífi. Og hann kvað enn þá fastara að orði um þetta efni. Hann komst svo að orði, að hann teldi það hrein og bein þingsvik, ef ekki yrði staðið við það samkomulag, sem hafði verið gert við Alþfl. árið áður. Og fyrir atbeina hans fékkst sú breyting á kosningalögunum í Ed., sem fullnægði þessu samkomulagi.

Þegar málið kom svo aftur til Nd., var því breytt þar aftur í hið gagnstæða horf og fór í þeim búningi aftur til Ed. Jón Þorláksson reyndi enn þá að fá þessu breytt og samkomulag haldið, en honum tókst það ekki í það skiptið. Og þá sagði Jón Þorláksson þau orð, sem voru seinustu orðin, sem hann sagði hér á Alþingi: „Ég hef ekki getað fengið samkomulag um það í mínum flokki, að staðið yrði við gerðan samning, og auðvitað tek ég afleiðingunum af því.“ Og Jón Þorláksson tók m.a. afleiðingunum af því á þann hátt, að hann gaf ekki kost á sér til þingmennsku aftur. Að vísu var því haldið fram m.a. að hann gerði það vegna lélegs heilsufars, sem var að vísu rétt, en þeir, sem kunnugir voru, vissu það einnig, að það var þessi ágreiningur hans við flokkinn, sem átti mikinn þátt í því, að hann gaf ekki aftur kost á sér til þingmennsku. Jón Þorláksson vildi þannig í reynd annaðhvort standa við gefin loforð ellegar þá víkja úr stjórn eða þingi. Og það gerði hann líka.

Hvað mundi nú Jón Þorláksson hafa gert skv. þessu, ef hann hefði staðið í sporum hæstv. núverandi fjmrh. og væri búinn að gefa þinginu loforð um það, að komið skyldi fram 250 millj. kr. tollalækkun? Ég er alveg sannfærður um það, og dæmi það af þessum atburði og mörgum fleiri, að undir þeim kringumstæðum hefði Jón Þorláksson valið annaðhvort að koma loforðunum fram ellegar að víkja úr stjórn. Hann hefði ekki látið neinu beygja sig til þess að bregðast loforði, sem hann var búinn að gefa á Alþingi. Og hann mundi hafa haft um það þau orð, sem hann hafði um þessar vanefndir, sem ég nefndi áðan, að það væru hrein og bein þingsvik að standa ekki við það, sem búið væri að lofa og lýsa yfir.

En það er einmitt þetta, sem er að draga úr áliti á Alþingi, á ríkisstj., stjórnmálamönnum og stjórnmálum yfirleitt, að það bresti svo oft upp á það, að menn geri annað hvort, standi við gefin loforð ellegar viki þá úr sæti. En það eru þessi vinnubrögð, sem við verðum að taka upp aftur, ef við ætlum að endurreisa sæmd þeirra stofnana, Alþingis og ríkisstj., sem við viljum þó vafalaust allir, að sé sem mest. Þess vegna harma ég frá þessu sjónarmiði alveg sérstaklega, að það skuli koma fyrir, að ekki skuli vera staðið við það fyrirheit fullkomlega, sem ríkisstj. gaf hér á Alþingi fyrir jólin um 250 millj. kr. tollalækkun. Ég álít, að þar sé um vöntun á orðheldni að ræða, sem er einn þátturinn í því, að virðingunni fyrir okkar helztu stofnunum fer nú stöðugt hrakandi, og ég álít, að þessar vanefndir séu miklu alvarlegri frá því sjónarmiði heldur en þótt almenningur fái ekki þessa lækkun, sem lofað var. Ég tel hitt miklu hættulegra og miklu fordæmanlegra, að loforðið skuli ekki vera haldið, af þeirri ástæðu einni, að það var búið að gefa það, og undir þeim kringumstæðum á stjórnin annað hvort að gera, að standa við það, sem hún segir, eða að víkja. Þess vegna tel ég, að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða.

En hverjar eru nú afsakanir hæstv. ráðh. fyrir því, að þetta loforð verði ekki haldið? Jú. Afsakanirnar eru þær, að það hafi komið upp seinna, við nánari athugun og betri upplýsingar, að það væri ekki hægt að standa við það. Upplýsingarnar, sem hefðu verið fyrir hendi, þegar þetta loforð var gefið, hefðu reynzt rangar. Hæstv. ráðh. hefur verið bankastjóri, og það komu að sjálfsögðu margir menn til hans á þeim árum og fengu hjá honum lán og gengust undir ákveðnar skuldbindingar um það, hvenær það yrði greitt. Hvað hefði ráðh. gert sem bankastjóri, ef þessir menn hefðu svo komið til hans á eftir og sagt: „Þegar ég undirgekkst það að borga lánið, voru upplýsingarnar þessar og þessar, sem ég byggði á, og forsendurnar þessar og þessar. Nú er komið alveg nýtt upp á bátinn, og nú er alveg ómögulegt fyrir mig að standa við það, sem ég hef lofað, og nú verð ég að fá svo og svo mikinn frest til að borga þetta og jafnvel helzt að borga lánið ekki neitt“. Hvernig mundu svör bankastjórans þá yfirleitt hafa verið undir þessum kringumstæðum? Ég hygg, að hann hefði a.m.k. undir langflestum kringumstæðum svarað þessu þannig, að hann hefði látið lögtaksmenn taka við málinu og sagt sem svo, að skuldunautarnir yrðu að standa við það, sem þeir væru búnir að lofa. En það er alveg nákvæmlega það sama, sem hefur hent ráðh. hér. Hann hefur gefið loforð. Svo segir hann núna, að hann hafi ekki möguleika til að standa við þetta og þess vegna geti hann ekki efnt það. En ég held, að með því að álykta út frá því, hvernig hann hefði brugðizt við undir slíkum kringumstæðum sem bankastjóri, geti hann vel áttað sig á því, hvort hann er að gera rangt eða rétt í þessum efnum.

Annars held ég, að ef við lítum nánar á þessi mál, sé það ekki nema yfirskinsástæða hjá ráðh., að hann geti ekki haft tollalækkunina 90–100 millj. kr. meiri en hún verður skv. þessu frv. og þar með staðið við það loforð, sem hann gaf Alþingi og þjóðinni. Ég minni aðeins á það í þessu sambandi, að nokkru fyrir áramótin var afgreitt hér á Alþingi sérstakt frv. um ráðstöfun á gengishagnaði sjávarútvegsins, og þessum gengishagnaði var ráðstafað á þann veg, að langmestur hluti hans var tekinn af útgerðarmönnum, sjómönnum og frystihúsaeigendum og lagður í sérstaka opinbera sjóði. Ég hygg, að alltaf um 200 millj. af þessum gengishagnaði fari í sérstaka opinbera sjóði, sem eðlilegt er að aflað sé fjár til með allt öðrum hætti en með því að gera gengishagnaðinn upptækan. Með því að nota aðeins nokkurn hluta af gengishagnaðinum á þann veg, að hann gangi beint til útgerðarinnar í einhverju uppbótarformi, var vel hægt að standa við það loforð, að tollalækkunin yrði 250 millj. í staðinn fyrir það, að hún verður ekki samkv. þessu frv. nema 150 millj. Hæstv. ráðh. hafði þannig bæði þennan og marga aðra möguleika til að standa við loforð sitt, ef hann hefði haft nægan vilja á því og nægan áhuga fyrir því að vera orðheldinn eins og fyrirrennari hans, Jón Þorláksson, var. Nei, það sem vantar hér fyrst og fremst er bara nægur vilji til þess að standa við þau heit, sem búið er að gefa. Það voru fullir möguleikar til þess, ef stjórnin vildi aðeins íhuga það mál betur og vildi ekki af ofurkappi halda við þeirri ráðstöfun gengishagnaðarins, sem hún var búin að ákveða hér fyrir áramótin og margir ágætir þm. vöruðu hana þá við að láta koma til framkvæmda. En í staðinn fyrir það að fara að ráðum þessara manna, kýs hún heldur að bregðast því loforði, sem hún er búin að gefa þingi og þjóð, ég vil segja algerlega að þarflausu.

Ég vil svo um þetta frv. segja það, að það hefði að sjálfsögðu verið æskilegt og nauðsynlegt, að það hefði verið miklu víðtækara og þá að sjálfsögðu í fullu samræmi við það loforð, sem ríkisstj. gaf. Þjóðin hefur núna þörf fyrir meiri tollalækkun heldur en þetta, og alveg sérstaklega hefur iðnaðurinn þörf fyrir meiri tollalækkun ef þetta, ef honum á að verða kleift að draga eitthvað úr því atvinnuleysi, sem nú fer óðum vaxandi í bæjum landsins. Atvinnuleysið er núna að sjálfsögðu mál málanna, og það á ekkert að láta ógert til þess að vinna gegn því, og það verður ekki betur gert á annan hátt, eins og nú standa sakir, en að draga úr tollaálögum iðnaðarins og gera honum þannig kleift að auka starfsemi sína. Því miður er allt of skammt gengið í þessu frv. í þá átt, og þess vegna getur þetta mál ekki hjálpað eins til þess að draga úr atvinnuleysinu og verða mundi, ef tollalækkanir hjá iðnaðinum hefðu orðið víðtækari og meiri en þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil svo að lokum segja það í sambandi við þetta mál, að mér virðist þekkingarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum, sem ég minntist á áðan, koma alveg sérstaklega fram á þann veg, að hún lætur ógert að vinna gegn atvinnuleysinu. Hún fylgir enn þá stefnu í efnahagsmálum, sem er raunverulega miðuð við það, sem við köllum ofþenslu, það er að það sé of mikið framboð á vinnumarkaðinum. Ríkisstjórnin fylgir enn þá lánsfjárhöftum, háum vöxtum, og hún er stöðugt að hækka skattana. Þetta getur átt rétt á sér sem þáttur í heildarstefnu, þegar um mikla verðbólgu er að ræða og þegar eftirspurnin eftir vinnuafli er úr hófi fram. Þá er í ýmsum löndum gripið til slíkra ráðstafana innan vissra marka, að hafa nokkur lánsfjárhöft, háa vexti og leggja á nýja skatta, en slík úrræði þykja alls staðar ótæk, þegar um atvinnuleysisástand er að ræða. Þá er það stefna allra hygginna ríkisstjórna að auka útlán til atvinnuveganna, stuðla að aukinni fjárfestingu og draga úr sköttum, jafnvel þótt það geti í sumum tilfellum orðið til þess, að halli verði á ríkisrekstrinum, einnig að lækka vexti. Ekkert af þessu gerir ríkisstjórnin. Þvert á móti heldur hún í slitur af sínum gömlu ráðstöfunum, sem allar eru miðaðar við það, að hér sé ofþensla og of mikil eftirspurn eftir vinnuafli. Það sýnir, ásamt öðru, að ríkisstj. hefur ekki minnstu hugmynd um það, hvernig ástatt er í efnahags- og atvinnumálum landsins eða hvernig á að bregðast við þeim vanda, sem nú er þar um að ræða.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að þessu sinni. Eins og fram hefur komið hér áður, er óeðlilegt að þessu máli sé hraðað nokkuð í gegnum þingið enda munu líka koma önnur frv. hér til meðferðar, þar sem gefst tækifæri til að gera þessum málum nánari skil.