13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

121. mál, tollskrá o.fl.

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að gera hér smáaths. við þetta frv., en í 2. gr. frv., 5. tölul. segir, að 38. tölul. falli niður. Í aths. með frv. um 2. gr., 5. tölul., segir:

„Lagt er til að fella niður heimild til eftirgjafar í gjöldum af vélum til framleiðslu á niðursoðnum sjávarafurðum til útflutnings. Um rökstuðning fyrir till. þessari má vísa til grg. með nr. 3 hér að framan, auk þess sem benda má á, að hraðfrystiiðnaðurinn býr við 10 og 15% toll af algengustu vélum sínum.“

Í 3. gr., sem vitnað er til, er lagt til að fella niður heimild til að gefa eftir toll af vélum, sem eingöngu eru notaðar til framleiðslu á umbúðum um vörur, sem fluttar eru úr landi. Bæði er, að nú þegar er til í landinu mikill vélakostur til umhúðaframleiðslu, og eins hitt, að ákvæði þetta er erfitt og viðkvæmt í framkvæmd. Mér finnst, að það sé nokkur annar rökstuðningur fyrir 3. lið í sambandi við vélar til framleiðslu á umbúðum um vörur, sem fluttar eru úr landi, þar sem nú eru komin tvö fyrirtæki hér, sem framleiða umbúðir um frystar afurðir og aðrar þær afurðir, sem fluttar eru úr landi, og má því segja, að þar sé nægur vélakostur, en hitt finnst mér undarlegra að leggja til að fella niður heimild til eftirgjafar af aðflutningsgjöldum af vélum til framleiðslu á niðursoðnum sjávarafurðum til útflutnings. Ég verð nú að segja eins og er, að mér finnst, að niðursuðuiðnaðurinn á Íslandi sé bæði ákaflega ungur og einnig sé hann atvinnuvegur, sem hefur átt erfitt uppdráttar, og ég tel nauðsyn á því að reyna heldur að stuðla að því að efla þennan iðnað og það er engan veginn það sama að segja um innflutning á vélum til niðursuðuiðnaðar og vélum til frystiiðnaðarins af þeirri einföldu ástæðu, að fjölmargar vélar, sem frystiiðnaðurinn þarf á að halda, eru framleiddar í landinu sjálfu. En engar vélar, sem niðursuðuiðnaðurinn þarf á að halda, eru framleiddar hér á landi. Ég hygg, að ríkissjóður tapi ákaflega litlum tekjum, þó að þessi tölul. fengi náð fyrir augum Alþ. og fengi að vera þarna áfram, því að með því að taka tollana munu margir þeir, sem nú eru í miklum erfiðleikum, hreinlega hætta við að flytja slíkar vélar inn, og ég hef litið svo á, að þegar þetta ákvæði var tekið upp á sínum tíma, væri ríkissjóður með því að stuðla að því að styrkja á þennan hátt þessa ungu atvinnugrein, sem við sannarlega þurfum að efla í framtíðinni.

Ég ætla ekki að hafa svo öllu fleiri orð um þetta, en ég vil mjög eindregið mælast til þess við þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún taki þetta mál til athugunar, þó að það hafi ekki verið gert af fjmrh. í Ed., og ég tel það sanngjarnt og eðlilegt, að ekki sé horfið frá því, sem verið hefur í gildi á undanförnum árum, enda verður ekki sagt með neinum rökum, að þetta hafi verið neitt erfitt í framkvæmd.